Langþráður grannaslagur á sunnudag!

Á sunnudaginn fer Liverpool á Goodison Park í afar langþráðri 30.umferð deildarinnar sem hófst í kvöld eftir margra vikna bið vegna ástandsins sem ríkt hefur í heiminum undanfarnar vikur og mánuði. Liverpool er sex stigum frá því að tryggja sér titilinn sem klúbburinn og stuðningsmenn hafa beðið eftir í þrjátíu ár og gæti hugsanlega orðið meistarar á þremur dögum í næstu viku!

Vinni Liverpool leik sinn gegn Everton þá mun liðið aðeins þurfa þrjá stig til að verða meistari. Ef Liverpool vinnur Everton þá getur liðið orðið meistari á mánudagskvöldið ef Man City tapar gegn Burnley en ef þeir vinna þá getur Liverpool tryggt titilinn á Anfield í miðri viku. Verði það eitthvað flóknara en það mætast Liverpool og Man City um næstu helgi og þar gæti Liverpool klárað deildina. Þetta er svo fáranlega nálægt og orðið líka svona ansi raunverulegt!

Fókusum hins vegar á næsta leik og ég efast ekki á nokkurn hátt um að það sé bara það sem er í gangi hjá Klopp og hans mönnum. Það er næsti leikur og svo næsti leikur eftir það og við sjáum hvað verður.

Nú er afar erfitt að spá og spekúlera um eitthvað sem hefur að mestu farið fram á bak við luktar dyr og mikil óvissa hefur ríkt um hitt og þetta. Í hvernig formi eru leikmenn? Hverjir eru líklegir til að byrja? Hvernig koma menn undan hléinu? Kemur Klopp með einhverjar nýjar áherslur? Við fáum líklega svör við ansi mörgum af þessum spurningum á næstu dögum.

Klopp talaði um að hann hafi í raun aldrei fengið eins langt og gott “undirbúningstímabil” síðan hann tók við Liverpool. Allir leikmenn hafa verið til taks og á sama stað, flestir leikmenn hafa verið heilir og getað tekið þátt í undirbúningnum og Klopp talaði sérstaklega um Takumi Minamino sem hefur nú fengið góðan aðlögunartíma með liðinu og hefur víst litið mjög vel út á æfingum og í æfingaleikjum ásamt Naby Keita og að fá þá tvo sterka inn á endasprettinum gæti verið ansi öflugt.

Eitthvað var talað um að Salah gæti verið tæpur fyrir leikinn á sunnudaginn því hann hafi ekki verið á æfingu á fimmtudeginum en hann er víst inn í myndinni fyrir leikinn samkvæmt Klopp sem hefur eingöngu sagt að Shaqiri verði ekki klár í leikinn. Það virðist eitthvað afar furðulegt í gangi með Shaqiri, það verður nú bara að segjast. Þó virðist hópurinn fyrir leikinn vera ansi öflugur og hugsanlega gætu þeir Curtis Jones og Harvey Elliott fengið tækifæri.

Alisson

TAA – Gomez – VVD – Robertson

Henderson – Fabinho – Keita

Salah – Firmino – Mane

Ég ætla að leyfa mér að giska á að þetta verði liðið sem byrjar á sunnudaginn. Flestir þarna ættu held ég að vera nokkuð nailed on en ef Salah verður ekki klár í leikinn þá gæti verið að Chamberlain, Wijnaldum eða Minamino komi inn í hans stað. Ég ætla að giska á að Keita byrji þennan leik en hann hefur verið í fanta formi í æfingarleikjunum undanfarið og Wijnaldum verið eitthvað tæpur svo ekki ólíklegt að Keita taki stöðuna við hliðina á Fabinho og Henderson.

Ég veit ekki með ykkur hin en ég bara get ekki beðið eftir þessum leik! Við erum hársbreidd frá titlinum og á þessum tíma í næstu viku gætum við bara í fúlustu alvöru verið að tala um Englandsmeistarana í Liverpool en fyrsta verkefnið er að sækja þrjú stigin á tómum Goodison Park, við verðum ekki meistarar þar svo það er bara enn eitt verkefnið sem þarf að klára.

7 Comments

 1. Sælir félagar

  Takk fyrir góða upphitun ÓLafur Haukur og gaman að fá þennan póst aftur inn í líf sitt. Mér líst ágætlaga á byrjunarliðið en held að miðjan sé það eina sem gæti breyzt í því ef allir eru heilir (nema Shaq). Hans meiðsli eru dularfull og fara að minna á D. Sturridge á sínum tíma.

  En hvað um það þetta verður erfitt og enginn veit hvernig liðið kemur undan Covid leiðindunum. Þó ýmis merki séu um gott ástand á liðinu og við vitum hvað gæði leikmanna Liverpool eru mikil þá er í raun allt á huldu með ástandið. Leikmenn Everton munu spila leiðinda- og grófan bolta og miklu skiptir að okkar menn sleppi heilir frá leiknum. Vonum hið bezta og ég spái 1 – 2 í erfiðum leik.

  Það er nú þannig

  YNWA

  5
 2. YES!! Loksins er komin upphitun og þetta er allt að fara að gerast!

  Er á leiðinni á klakann og er að velta fyrir mér hvernig er best að fagna þessum laaangþráða!

  Hvar eru flestir púllarar (og þeir skemmtilegustu) að safnast saman?

  2
 3. Loksins, loksins, LOKSINS runnin upp leikdagur. það sem maður hefur beðið eftir þessum degi.
  Komin í treyjuna og svo er bara að rölta á Ölhúsið í Hafnarfirði þar sem Liverpool klúbbur Hafnarfjarðar safnast saman, það verður grillað fyrir leik og allir velkomnir.
  Vil bara segja við ykkur öll, hvar svo sem þið safnist saman.
  ÁFRAM LIVERPOOL
  YNWA

  6
 4. Flott síða, þakka umsjónarmönnum fyrir að halda sjó í covid eins vel og hægt var. Nú er þetta að skella á, vona að okkar menn komi tilbúnir til leiks og afgreiði Everton. Vona líka að hinn ömurlega leiðinlegi karakter Richarlison verði tekinn í nefið af Van Dijk og co.

  Er nú fremur svartsýnn að eðlisfari enn hef bara engar áhyggjur af þessum leik, erum svo miklu betra lið.
  Tökum þetta af öryggi.

  Koma svo Liverpool.

  4
 5. Lengsti dagur ársins eða bara lífs míns búin að stífbóna liverpool rauða kian minn og bíð bara við sjónvarpið, hlakka til að sjá Dik salta þennan Richarlison hjá Everton 🙂

  1

Gullkastið – Kampavínið í kæli!

Liðið gegn Everton