Staða kvennaliðs Liverpool

Það bárust ekki góðar fréttir af kvennaliði Liverpool í vikunni. En áður en við skoðum þær fréttir, þá skulum við rifja upp nokkrar dagsetningar:

 • 28. júlí 1914: Gavrilo Princip ræður Franz Ferdinand af dögum, þetta reynist vera dropinn sem fyllir mælinn og fyrri heimsstyrjöldin hefst í kjölfarið. Fjöldi karlmanna gengur í herinn, breska deildin í karlafótbolta fer í ótímabundið frí sem varir til ársins 1919 á meðan mennirnir taka þátt í stríðinu. Fjöldi kvenna fer út á vinnumarkaðinn, og kvennafótbolti fer að njóta aukinna vinsælda.
 • Október 1917: Konur sem vinna hjá fyrirtækinu Dick, Kerr & co, sem er fyrirtæki sem smíðaði upphaflega lestarvagna en skipti yfir í að framleiða skotvopn í stríðinu, stofna knattspyrnufélag. Alfred Frankland, starfsmaður á skrifstofu fyrirtækisins, tekur að sér að stýra liðinu. Fyrsti leikur liðsins er gegn starfsmönnum nálægrar verksmiðju, Arundel Coulthard og vinnst 4-0. Liðið heldur áfram að spila fótbolta við aukinn orðstír.
 • 26. desember 1920: Dick, Kerr Ladies FC mæta á Goodison Park og keppa þar við St. Helens Ladies. 53.000 áhorfendur mæta til að horfa, og 14.000 manns þurfa frá að hverfa. Þetta aðsóknarmet stóð í 98 ár.
 • 5. desember 1921: Enska knattspyrnusambandið bannar knattspyrnu kvenna, ber fyrir sig ástæðum eins og að íþróttin geti verið hættuleg heilsu kvenna. Banninu er mótmælt án árangurs.
 • 1971: 50 árum eftir að bann gegn knattspyrnu kvenna er sett er því aflétt.
 • 1989: Newton Ladies er stofnað.
 • 1995: Newton Ladies skipta um nafn og keppa undir merkjum Liverpool Ladies þaðan í frá.
 • 2013: Liverpool Ladies vinna ensku deildina með Katrínu Ómarsdóttur innanborðs.
 • 2014: Liverpool Ladies vinna deildina aftur, núna með því að vinna sinn leik á lokadegi tímabilsins á meðan liðin tvö fyrir ofan tapa bæði sínum leikjum.
 • 2018: Liverpool Ladies breyta um nafn og heita hér eftir Liverpool Women. Talsverð umskipti verða á liðinu, Neil Redfearn tekur við en hættir eftir aðeins einn leik. Vicky Jepson tekur við starfi knattspyrnustjóra, til að byrja með ásamt Chris Kirkland, en er svo ráðin til frambúðar.
 • Júní 2020: Liverpool Women falla niður í næstefstu deild eftir að Enska knattspyrnusambandið ákveður að tímabilið hjá konunum verði ekki klárað, þrátt fyrir að eiga 8 leiki eftir. Um svipað leyti er tilkynnt að 4 leikmenn fari frá félaginu: Courtney Sweetman-Kirk, Christie Murray, Anke Preuss og Francis Kitching.

Það voru vissulega mikil vonbrigði þegar þessi tilkynning kom frá Enska knattspyrnusambandinu í síðustu viku, en hafði legið í loftinu í nokkurn tíma því það hafði alltaf legið fyrir að deildinni yrði ekki slaufað án niðurstöðu (þ.e. ekkert “null and void”). Og það var sama hvaða aðferð var notuð, Liverpool liðið var einfaldlega í neðsta sæti deildarinnar, hvort sem horft var á töfluna beint eða á meðalstigafjölda í leik. Það má því alveg segja að vonbrigin hafi átt uppruna sinn fyrr á tímabilinu, þegar liðið átti trekk í trekk ágætis leik en var nánast fyrirmunað að skora mörk, en fékk í staðinn gjarnan á sig mark eða í mesta lagi tvö. Markatala liðsins var mun betri en liðanna í næstu sætum fyrir ofan í deildinni, en það dugar víst skammt.

Maður spyr sig líka hvaða stefnu eigendur Liverpool ætla að taka með liðið. Á síðasta ári var gert heilmikið með kvennalið Liverpool: þær fóru með til Bandaríkjanna á undirbúningstímabilinu, og voru gjarnan með í hvers konar myndatökum sem PR deild félagsins stóð fyrir. En hins vegar þurftu þær að spila á Prenton Park, heimavelli Tranmere, og sá völlur var einfaldlega ónothæfur í kringum áramótin. Enda þurfti að færa leiki liðsins yfir á annan völl í framhaldinu. Þá virðist ekki gert ráð fyrir kvennaliðinu í nýrri aðstöðu félagsins að Kirby. Að lokum er staðan sú að aðeins 10 manns eru í fullu starfi hjá liðinu: leikmenn, þjálfarar, læknar, aðstoðarfólk o.s.frv.

Þeir 4 leikmenn sem búið er að tilkynna að fari frá félaginu núna í sumar hafa nánast allir talað þannig að það vanti talsvert upp á stuðning við liðið. Tökum dæmi:

Fran Kitching:
“I can’t wait to be enjoying the game I love again and being truly happy (broskall).
I am excited to start my next chapter and also enjoy an environment which tests both players and people in the right way and allows them to thrive.”

Christie Murray:
“I’m looking forward to the next step in my career and the opportunity to be in an environment that challenges me, both as a person and as a footballer, and most importantly, to be able to enjoy what I love again.”

Courtney Sweetman-Kirk:
“It’s time for a change and a new environment that challenges me as a player and a person.”

Svo er bara spurning hvað eigi að lesa út úr þessum ummælum.

Tekjumissir vegna Covid-19 er að sjálfsögðu ekki að hjálpa neitt til, og ef klúbburinn er ekki tilbúinn til að styrkja karlaliðið um eins og einn Werner, þá eru litlar líkur á að það verði neinn peningur settur í kvennaliðið. Munum samt að þetta er í raun búið að vera svona síðustu ár, og er sjálfsagt ástæðan fyrir því að fjöldi leikmanna yfirgaf félagið á árunum 2017 og 2018. Undirritaður er á því að ef það á að vera með kvennalið á annað borð, og ég tala nú ekki um ef það á að vera að flagga því á samfélagsmiðlum, þá þurfi að styða við liðið á talsvert myndarlegri hátt.

Umræðan snýst oft út í það að það hafi enginn áhuga á að horfa á kvennaboltann. Sagan sýnir okkur hins vegar að það er ekkert eðlisfræðilögmál. Fleiri breskir áhorfendur horfðu á úrslitaleik HM kvenna á síðasta ári heldur en á úrslitaleikinn í CL, sem þó innihélt tvö ensk lið. Og síðasta tímabil sýnir okkur líka að það voru gjarnan í kringum 20.000 áhorfendur á derby leikjunum í deildinni, t.d. leik City og United, leik Chelsea og Arsenal, að ógleymdum leik Liverpool og Everton á Anfield. Áhuginn er því til staðar hjá áhorfendum, og kvennadeildin sýnir öll merki þess að hún eigi eftir að vaxa á næstu árum, með öllum þeim tækifærum sem því fylgja.

Nú er bara spurningin: Hvað gera FSG?

Það væri líka gaman að heyra frá lesendum. Hvað á Liverpool að gera varðandi kvennaliðið? Vera áfram með hálfatvinnumannalið sem mun ströggla við að halda sér í efstu deild, hætta þessu alveg, eða veðja á uppbyggingu kvennaboltans á næstu árum og gera þetta almennilega?

9 Comments

 1. Já menn verða að gera betur með þetta kvennaliði þótt það trufli mig persónulega ekki neitt. Ef þetta væru einhverjar upphæðir að ráði í kvennaliðið sem er auðvitað ekki þá myndi ég frekar allan daginn vilja sleppa kvennaliði og alla seðla í karlaliðið en þar sem þetta eru mjög litlar upphæðir þá skiptir þetta sennilega mjög litlu máli. Auðvitað væri gaman að eiga bæði liðin frábær og gera meira fyrir stelpurnar en aftur skiptir mig mjög litlu.
  08.06.2020 at 13:37
  Loksins að fara af stað aftur. Þessir síðustu 3 mánuðir hafa með yfirburðum tekið topp 100 sætin sem leiðinlegustu tímar lifs mins,var reyndar orðið það sirka 20 mars síðan þá eru liðin nokkur ár liggur við.

  Ég sagði nú hérna fyrir svona 6 vikum að maður væri liggur við til í að semja um að okkar menn fengju ekki titilin gegn því að þetta færi bara af stað. Maður er gersamlega vonlaus með engar íþróttir. Maður tók eftir því á þessum tímum að áður talaði maðut td í síman við félaganna því það var ekkert að ræða um með engar íþróttir.

  Hvernig finnst ykkur samt að Klopp sé farin að lofa rútuferð hvenær sem það verður og um daginn sagði hann að okkar menn ættu titilinn skilið. Þetta er auðvitað komið í mínum augum en hingað til síðast bara rétt áður en allt var flautað af sagði Klopp að engin titill væri komin og bara einn leikur í einu. Eru menn að verða kærulausir ?

  Svo bara eitt enn. Verðum við Liverpool menn ekki að búa til einhverja sigurhátíð einhversstaðar og fagna saman. Mér finnst það skylda. Helst að fylla 101 í heilan laugardag í góðu veðri og láta alla vita að við séum víst að fagna þrætt fyrir COVID því núna halda allir aðrir að allt sé ónýtt hjá okkur og það má alls ekki gerast.

  Hvað gluggann varðar þá angar það mig ekki ef okkar menn gera lítið sem ekkert nema liðin öll í kringum okkur eyði miklu en ekki við og það er alls ekki þannig núna nema hjá chelsea og þeir eru rétt núna að eyða Hazard seðlunum eins og við Coutinho á sínum tíma.

  1
  • “Ef þetta væru einhverjar upphæðir að ráði í kvennaliðið sem er auðvitað ekki þá myndi ég frekar allan daginn vilja sleppa kvennaliði og alla seðla í karlaliðið en þar sem þetta eru mjög litlar upphæðir þá skiptir þetta sennilega mjög litlu máli.”

   Get ekki að því gert en þetta finnst mér vera frekar karlrembulegt.

   5
 2. Takk Daníel að leyfa okkur að fylgjast með kvennaboltanum, auðvita á stór klubbur eins og Liverpool að hafa alvörulið í kvennaboltanum.

  3
 3. Frábær og fróðlegur pistill Daníel

  Þetta tímabil og bara undanfarin ár hjá kvennaliðinu hafa verið gríðarlega aulalegt sjálfsmark hjá félaginu í heild og það að falla í kvennaboltanum núna þegar karlaliðið loksins vinnur deildina er til skammar.

  Bara út frá viðskiptalegum sjónarmiðum myndi maður ætla að það væri gríðarlegt virði í því hjá alheims stórliði eins og Liverpool að eiga framúrskarandi lið í kvennaboltanum líka og skapa þar fyrirmyndir rétt eins og í karlaboltanum. PR deildin reyndi aðeins að vinna með þennan markað í sumar eins og Daníel kemur inná en allt sem gert var þá virkar bara vandræðalegt núna. Jákvæð ímynd í þessa átt myndi ég halda að geti vel skilað sér fyrir félagið í heild, ekki bara kvennaliðið. Kostnaðurinn á móti er skítur á priki.

  Við fengum Katrínu Ómars í þáttinn með okkur fyrir nokkru síðan til að ryfja upp tímann sinn hjá Liverpool og þrátt fyrir mikla velgengni þá var það sem félagið var að setja í rekstur kvennaliðsins ekki einu sinni brotabrot af rekstri félagsins í heild.

  Það er magnað að félagið sé að byggja nýtt uber æfingasvæði og kvennaliðið er ekki partur af þeim plönum, hversu dýrt var að gera ráð fyrir þeim? Ef ég man rétt hitta tímabilin ekki einu sinni að öllu leiti á sama tíma. Væri ekki jafnvel sparnaður í því að reka þetta á sama svæði (og jafnvel samnýta eitthvð þjálfara, starfslið o.þ.h.).

  Þetta er auðvitað ekki bara svona hjá Liverpool en okkar kvennalið er samt að dragast mjög hratt og vandræðalega illa afturúr hinum toppliðunum sem hafa flestöll verið að setja meira í þetta starf. Það segir sitt um hugsunarháttinn að konum var meinað spila fótbolta í hálfa öld og margir af þeim bretum sem stjórna knattspyrnuliðunum núna voru aldir upp við þennan hugsunarhátt. Blessunarlega þykir svona galið hér á landi en ég held að bretar sé ekki komnir nærri því jafnlangt.

  Setjum þetta aðeins í samhengi. Nathaniel Clyne sem samdi við Liverpool sem byrjunarliðsmaður á sínum tíma er að klára samning sem er sagður hafa gefið honum £70.000 á viku. Það eru ekki nema 11,8 mkr á viku eða 47,2 mkr á mánuði. Clyne var að fá um 600 mkr á ári sem telst ekkert sérstakt tiltökumál hjá félaginu. Ég dreg í efa að rekstur kvennaliðsins kosti mikið meira en 1-2 mánuði af Clyne sem nota bene hefur varla spilað fótbolta í 2-3 ár.

  Þar fyrir utan held ég að með alvöru markaðssetningu, mætingu á leiki o.þ.h. sé alveg hægt að fá eitthvað af þessu til baka aftur, öfugt við Clyne úr þessu.

  Olíufélögin sjá tækifærin í kvennaboltanum mun betur en forráðamenn Liverpool og eiga tvö bestu liðin í vetur. Arsenal hefur verið með eitt besta lið deildarinnar mjög lengi og nýliðar Man Utd eru í fjórða sæti. Þær stofnuðu lið í fyrra (sem er auðvitað galið líka) og eru strax fjórfalt betri en Liverpool liðið m.v. stöðuna í deildinni þegar mótinu var slaufað. Til að toppa það komu nokkrir af þeirra helstu leikmönnum frá Liverpool. Tottenham og Everton eru líka að gera þetta mun betur en Liverpool.

  Kvennalið Liverpool er með 6 stig eftir 14 leiki. Það er ekkert hægt að fegra það. Þetta er til skammar og þær eiga alveg skilið að falla þó ekki muni nema einu stigi á liðinu í næst neðsta sæti.

  5
 4. Já þetta síðasta tímabil var algjört sjálfsmark.

  Þar gætu nokkur atriði hafa spilað inn í. Liðið var í neðri hluta deildarinnar eftir síðasta tímabil, sem er auðvitað ekkert frábær árangur, en greinilega eitthvað sem eigendurnir voru sáttir við. Gátu verið með kvennalið og flaggað því á samfélagsmiðlunum, án þess að þurfa að setja neitt sérstaklega mikinn pening í það. Voru sjálfsagt að vona að að næsta ár yrði eitthvað svipað, eða kannski treystu þeir á að með meiri reynslu næði Vicky Jepson meiru út úr hópnum.

  Málið er bara að á síðasta tímabili var Sweetman-Kirk aðal markaskorari liðsins, en hún virðist svo hafa ákveðið síðasta sumar að hún yrði bara eitt tímabil til viðbótar með liðinu (sjá tilkynningu frá henni á Twitter: https://twitter.com/_CSK9/status/1264180589785210880). Hún var semsagt búin að stimpla sig út strax síðasta haust, og endaði á að skora ekkert einasta mark fyrir liðið á nýliðnu tímabili. Engin af sóknarmönnum liðsins voru tilbúnar til að stíga upp í hennar stað. Babajide er ennþá óslípaður demantur. Ashley Hodson er sömuleiðis ung og efnileg, en reynslulítil og var frá í marga mánuði vegna meiðsla tímabilið 2018-2019. Það tekur tíma að finna fjölina sína eftir slíkt. Jesse Clarke er ekki hreinræktaður framherji heldur kantmaður, og var þar að auki meidd í einhverja mánuði á tímabilinu. Kirsty Linnett hefur ekki þetta markanef sem þarf, það voru gerðar tilraunir með að færa hana niður í holuna sem gáfust ágætlega, en hún var aldrei að skila miklu sem striker.

  Semsagt: það vantaði mörk. Auðvitað er engin leið að skella skuldinni 100% á Sweetman-Kirk. Lið á ekki að þurfa að halda sér uppi út af einum leikmanni. En það er nokkuð ljóst að ef það hefðu komið þó ekki nema 2 mörk til viðbótar inn síðasta haust, þá hefði falli verið forðað.

  Hvað sem öllu líður, þá held ég að nú sé komið að ögurstundu fyrir Liverpool Women. Annaðhvort að steinhætta þessu eða stórauka það.

  3
 5. Þess má svo geta að þó svo að fjórir leikmenn séu farnir, þá er búið að endurnýja samninga við tvo leikmenn: Niamh Fahey varafyrirliða, og Rhiannon Roberts (eða Razza eins og hún er oft kölluð). Báðar solid leikmenn, og þetta eru góðar fréttir að því leyti að nú þarf að lægja öldurnar og lágmarka leikmannaveltuna eins og hægt er. Þær eru þó báðar í kringum þrítugt og því ekki leikmenn sem verður byggt á til lengri tíma.

  2
 6. FSG á að gera þetta eins og allt sem gert er undir nafni Liverpool FC, almennilega!

  4
 7. Fylgist ekki með kvennalíðinu. LFC má bara vera með karlalíð min vegna

  1
 8. Viðurkenni að ég fylgist ekki mikið með kvennaliðinu en þar sem dóttir mín æfir fótbolta og heldur með Liverpool að þá fyndist mér glatað ef að Liverpool verði ekki með kvennalið.
  Það er mikilvægt fyrir krakka að hafa fyrirmyndir í sínum áhugamálum og fyndist mér í raun skammarlegt ef klúbburinn ætlar ekki að setja pening í að halda úti kvennaliði.
  Þetta eru ekki miklir fjármunir í stóra samhenginu.

  5

Timo Werner til CFC? / Nýtt leikjaplan

Gullkastið – Engin stór leikmannakaup?