Magnaður uppgangur Michael Edwards

Kveikjan að bókinni Moneyball var magnaður árangur hafnaboltaliðsins Oakland Athletics í byrjun aldarinnar, þar náði lið sem var með hvað lægstu launaveltu deildarinnar að festa sig ágætlega í sessi yfir 3-4 tímabil sem eitt besta lið deildarinnar. Bókin og nokkrum árum seinna kvikmyndin var ekki með bestu leikmennina eða þjálfarann í aðalhlutverki heldur manninn sem óumdeilanlega var á bak við þennan óvænta uppgang liðsins, Billy Beane.

Ef að það yrði gerð sambærileg kvikmynd heimfærð yfir á knattspyrnu í dag er ekki ólíklegt að Michael Edwards yrði aðalsöguhetjan. Hann er auðvitað langt í frá eini maðurinn á bak við uppgang Liverpool undanfarin ár en miðað við mikilvægi hans er í raun ótrúlegt hversu lítið er vitað um hann. Yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool er ekki einu sinni með Wikipedia síðu öfugt við t.d. Rick Parry, Ian Ayre og Christian Purslow.

Það er ótrúlegt hvað það fer lítið fyrir honum í ljósi þeirrar stöðu sem hann gegnir  og þeim árangri sem hann hefur náð en um leið engin tilviljun. Edwards sækist alls ekki eftir athygli, gefur nánast aldrei viðtöl og sést mjög sjaldan opinberlega. Það er ekki langt síðan það var erfitt að finna mynd af honum á Google og það var ekkert um hann á heimasíðu Liverpool fyrr en hann var gerður að yfirmanni knattspyrnumála árið 2016. Liverpool er auðvitað í mjög góðum málum með Jurgen Klopp sem sinn talsmann (ásamt Peter Moore þegar það á við).

Miðað við það sem hægt er að lesa sig til um hinn fertuga Edwards er engu að síður ljóst að mjög margir hafa ekki alveg rétta mynd af kappanum. Hann er töluvert meira en bara tölvunörd og hlutverk hans hefur þróast gríðarlega hjá Liverpool á þeim níu árum sem hann hefur verið hjá félaginu.

Efnilegur knattspyrnumaður hjá Peterbrough

Líklega er það tilviljun að Liverpool hafi verslað langmest við Southampton undanfarin ár, borginni þaðan sem Edwards er fæddur og uppalinn! Þar spilaði hann í yngri flokkum hverfisliða þar til hann komst á samning hjá Peterborough United fimmtán ára árið 1995.

Hann var hægri bakvörður og spilaði í nokkuð sterku U18 liði með framtíðar úrvalsdeildarmönnum eins og Championship Manager goðsögninni Simon Davies og Matthew Etherington sem er einmitt þjálfari U-18 hjá Peterborough í dag. Edwards á auk þess nokkra leiki með varaliði félagsins.

Félagar hans frá þeim tíma lýsa honum sem mjög duglegum leikmanni með frábært hugarfar og nokkuð góðum knattspyrnumanni. Hann var vinsæll meðal liðsfélaga sinna, með léttan húmor og góður í hóp. Hann skar sig þó aðeins úr fyrir mikinn áhuga á tölfræðimódelum sem menn voru almennt lítið að spá í á þeim tíma og var jafnvel strítt af liðsfélögum sínum fyrir að vera spá í þessu.

Þar lá samt grunnurinn að framtíð hans því hann fékk ekki nýjan samning hjá Peterborough árið 1997.

Prozone í Portsmouth

Edwards kláraði í kjölfarið menntaskóla í Peterbrough áður en hann hóf nám í Sheffield Háskóla árið 1999 þaðan sem hann útskrifaðist með gráðu í Viðskiptastjórnun og Upplýsingatækni árið 2002.

Eftir námið flutti hann aftur til Peterborough þar sem hann kenndi upplýsingatækni í menntaskóla en var ári seinna ráðin til Portsmouth sem svokallaður Prozone sérfræðingur.

Prozone var á þessum tíma tiltölulega nýtt frumkvöðlafyrirtæki í greiningu tölfræði í íþróttum og voru flest úrvalsdeiladarlið með tengilið frá þeim á sínum snærum. Höfuðstöðvar fyrirtækisins voru í iðnaðarhúsnæði í Leeds þaðan sem hópur manna að miklu leiti í hlutastörfum braut niður myndbandsupptöku af leikjum og greindi úr þeim mismunandi tölfræðiupplýsingar sem liðin gátu svo keypt aðgang að og nýtt sér. Módelið sem Prozone vann eftir var töluverð bylting á þeim tíma.

Simon Wilson einn af liðsfélögum Edwards hjá Peterbrough var árið 2003 farinn að vinna hjá Southampton sem sérfræðingur í greiningu tölfræðiupplýsinga, hann benti á Edwards vin sinn þegar einn af þróunarstjórum Prozone kom að máli við hann í leit að hentugum sérfræðingi til að senda til Úrvalsdeildarliða. Edwards var klár í slaginn og mættur á suðurströndina á ný skömmu síðar.

Hlutverk hins 23 ára Edwards var að greina frammistöðu aðalliðsins, greina taktík næstu andstæðinga og meta möguleg skotmörk á leikmannamarkaðnum. Hans hlutverk var vægast sagt umfangsmikið og fjölbreytt. Ofan það þurfti auðvitað að sannfæra einhverja af samstarfsmönnunum um gagnsemi þessarar vinnu.

Portsmouth var árið 2003 á fyrsta ári í Úrvalsdeildinni með Harry Redknapp við stjórnvölin og Jim Smith sem hans aðstoðarmann. Ekki beint byltingarsinna í þjálfun. Smith var engu að síður einn af þeim fyrstu á Englandi til að notfæra sér Prozone þegar hann var stjóri Derby County og tóku aðstoðarmenn hans þar þeir Steve McClaren og Steve Round mjög vel í þetta hjálpartæki. Harry Redknapp var ekki alveg jafn auðvelt að sannfæra og segir sagan sem dæmi að hann hafi eitt sinn kvartað í Edwards yfir því að geisladiskurinn sem hann fékk frá honum með tölfræðiupplýsingum vikunnar hafi ekki spilast í geislaspilaranum í bílnum!

Leikmenn Portsmouth höfðu aldrei fengið viðlíka greiningar og Edwards var að fara yfir með þeim en sáu fljótt notagildi þeirra og mættu reglulega á skrifstofuna hjá Edwards. Það hjálpaði honum líka að hafa spilað fótbolta sjálfur þannig að hann vissi vel hvernig hann ætti að haga samskiptum sínum við leikmenn og þann klefahúmor sem viðgengst hjá hverju liði.

Edwards er öfugt við marga tölfræði sérfræðinga sem voru í svipuðu hlutverki og hann með bakgrunn í fótbolta fyrst og tölfræðinni svo. Hann var alveg ófeiminn við að segja sína skoðun við leikmenn hvort sem þeim líkaði það sem hann var að segja eða ekki. En hafði samt mannlega partinn með sér og gat talað þeirra tungumál ef svo má segja.

Portsmouth náði besta árangri í nútímasögu félagsins þau sex ár sem Edwards var hjá þeim þar sem sigur í bikarnum var hápunkturinn. Það hefur engin þakkað honum árangur félagsins og utan Portsmouth var hann nánast algjörlega óþekktur en getur verið að það hafi verið aðeins meira en Good Ol´d Arry á bak við árangur liðsins

Richard Hughes leikmaður Portsmouth um Edwards:

“If I was going into a game on a Friday afternoon, I’d ask him what he could tell me about whoever I was playing against and if there was an angle he could give me to help me the next day,” Hughes says. “It’s probably more a question you’d ask a coach or a manager, but Michael had that respect from us. We treated him as someone whose input was not only worthwhile but desired.”

Hughes er í dag í svipuðu hlutverki og Edwards hjá Bournemouth, öðru suðurstrandarliði sem Liverpool hefur átt töluvert í viðskiptum við í tíð Edwards hjá Liverpool.

Bestu „leikmannakaup“ Comolli

Þegar eigendur Liverpool réðu Damien Comolli til að gegna sama hlutverki og Michael Edwards gegnir í dag var talað um að bölvun Comolli væri sú að hans bestu leikmannakaup kæmu ekki í ljós fyrr en búið væri að reka hann. Það átti svo sannarlega við hjá Arsenal og Tottenham og þrátt fyrir að vera á bak við kaupin á Luis Suarez og Jordan Henderson voru hans bestu viðskipti líklega Michael Edwards.

Edwards var það vel metin hjá Portsmouth að ári eftir að Harry Redknapp hætti og tók við Tottenham var hann kominn í höfuðborgina einnig. Daniel Levy stjórnarformaður Tottenham fékk Edwards í teymi sem átti að nútímavæða leikgreiningar liðsins. Tottenham náði einu af efstu fjórum sætunum í fyrsta skipti í 20 ár á tíma Edwards í London. Hrein tilviljun auðvitað.

Comolli var búinn að vera þrjú tímabil hjá Tottenham áður en Redknapp tók við en var rekinn í október 2008 og talin bera sök á misheppnuðum leikmannakaupum félagsins. Redknapp naut í kjölfarið góðs af leikmönnum eins og Bale, Berbatov og Modric.

Comolli og Edwards unnu því ekkert saman hjá Tottenham en frakkinn var vel meðvitaður um Edwards og hefndi sín laglega á sínum gömlu félögum þegar hann var ráðinn til starfa hjá Liverpool. Hann fékk bæði Edwards og Ian Graham frá Tottenham árið 2011. Daniel Levy er sagður hafa grátið brottför þeirra töluvert enda bauð hann Edwards £250,000 á ári fyrir að vera áfram án árangurs. Þar landaði Comolli mönnum sem eru líklega hvað mikilvægastir á bak við tjöldin í dag.

Comolli sagði þetta um Edwards í viðtali nokkrum árum eftir að hann fór frá Liverpool:

“You are struck with how intelligent he is, I like the fact that he challenges the conventional wisdom, like Billy Beane [of Moneyball fame].”

Liverpool fyrir Jurgen Klopp

Hlutverk Edwards og Graham var að innleiða alveg nýja nálgun í notkun á tölfræðilegum upplýsingum í anda nýrra eigenda. Báðir voru þeir í góðum stöðum hjá Tottenham þar sem þeir nutu mikils trausts en líklega hefur það þótt gríðarlega spennandi að innleiða og að stórum hluta móta tölfræði nálgun FSG (þá NESV) í fótbolta.

Þeirra fyrsta verk var að skoða hvernig félagið var að greina frammistöður í leikjum og slípa það til, bæði á Melwood og í Kirkby (Akademíunni).

Það var auðvitað engin nýlunda að vinna með tölfræðiupplýsingar þegar Edwards kom til Liverpool og hugmyndin var aldrei að finna upp hjólið, heldur fínpússa módelið og gera það betra og skilvirkara en hjá keppinautunum. Ástæðan fyrir því að FSG voru svona spennandi árið 2010 en ekki bara aðrir hrægammar frá Bandaríkjunum var hvað þeir höfðu gert í Boston. Þeim tókst ekki að fá Billy Beane sjálfan og það er ekkert víst að hann hefði verið besti kosturinn fyrir þá, en þeir tóku hans hugmyndafræði og hlupu með hana á eftirminnilegan hátt. 30 ára bið Liverpool er ekkert í samanburði við 86 ára bið Boston Red Sox. FSG braut Bölvun Bambino á tveimur árum og þurftu enga Man City aðferð til þess.

Fótbolti er hinsvegar töluvert stærri og flóknari íþrótt en hafnabolti, bæði innan sem utan vallar og FSG viðurkenndu það strax að þeir væru að byrja frá grunni. Comolli kom til Liverpool þegar Roy Hodgson var stjóri og var farinn áður en seinna tímabil Kenny Dalglish var á enda.

Roy Hodgson og Kenny Dalglish voru aldrei framtíðarplanið hjá mönnunum sem brutu Bölvun Bambino með því að innleiða nýja nálgun. Brendan Rodgers 39 ára stjóri Swansea var klárlega nær því sem þeir vildu reyna hjá Liverpool en eftir á að hyggja er spurning hvort hans ráðning hafi verið mistök sem hindraði uppgang Liverpool í nokkur ár? Hann hefur a.m.k. sannfært þá all verulega þegar hann fundaði með þeim í New York sumarið 2012 því eitt af skilyrðum Rodgers fyrir því að taka við liðinu var að það yrði ekki ráðið yfirmann knattspyrnumála, staða sem er tæknilega séð fyrir ofan stjórann í fæðukeðjunni. Rodgers til varnar þá var nafn Louis Van Gaal t.a.m. í umræðunni fyrir það hlutverk.

“For me coming in, I was always going to work with a team of people, rather than a director of football. I always think the manager is the technical director. He is the man who oversees the football development of the club, and I believe you should take on that responsibility when you are manager.” – Brendan Rodgers

Farið var einhverskonar milliveg og komið á fót svokallaðri leikmannanefnd sem ákvað í sameiningu næstu leikmannakaup með úrslitaatkvæðið hjá knattspyrnustjóranum. Líklega er nákvæmlega eins fyrirkomulag hjá flestum öðrum liðum en vegna togsteitu innanhúss hjá Liverpool varð þessi nefnd fljótlega mikið þrætuepli. Nýji og ferski knattspyrnustjórinn sem FSG fékk í staðin fyrir Hodgson og Dalglish virkaði formfastari í gamla skólanum en Bretadrottning. Auðvitað var þetta samt aldrei svona svart/hvítt.

Micheal Edwards varð fljótlega eftir að hann kom til Liverpool hálfgerður tengiliður félagsins við eigendurna enda höfðu þeir litlu minni áhuga á þeim daglegu tölfræðiupplýsingum sem hann sendi til Boston en íþróttinni sjálfri. Edwards var þar að senda þeim upplýsingar um æfingar, frammistöður í leikjum og upplýsingar um möguleg skotmörk á leikmannamarkaðnum á tungumáli sem FSG skilur mjög vel og kann að lesa út úr.  Rodgers er sagður hafa haft illan bifur á þessum beinu tengslum við Boston og fannst það grafa undan sér.

Hvernig svosem var staðið að leikmannakaupum hjá Liverpool í tíð Rodgers og hvernig það er frábrugðið því sem er í gangi núna er ljóst að Rodgers bar ekki nægjanlegt traust til þeirra sem áttu að vinna með honum í þessari deild. Eins hjálpaði ekki að honum leyst illa á marga þeirra sem komið höfðu árin á undan og afskrifaði t.a.m. dýrasta leikmann félagsins strax en keypti Christian Benteke svo nokkrum árum seinna á svipaðan pening!

Það er erfitt að meta það sem gerist innanhúss en það er ljóst að leikmannakaup Liverpool í tíð Rodgers voru alls ekki nógu góð og hafa líklega haldið aftur af Liverpool í nokkur ár. Umræða um hvort leikmenn séu keyptir af stjóranum eða einhverjum öðrum er strax nógu eitruð.

Samband Edwards og Rodgers er sagt hafa versnað töluvert skömmu eftir að Rodgers skrifaði undir nýjan samning sumarið 2014. Þeir voru ekki sammála um næstu skref á leikmannamarkaðnum og miðað við þann leikmannaglugga er auðvelt að áætla að Rodgers sem var í mjög sterkri stöðu skömmu eftir að hann var rétt búinn að landa titlinum og skrifa undir nýjan samning hafi ráðið langmestu.

Liverpool gerði sannarlega sín mistök á leikmannamarkaðnum undir stjórn Rodgers en einnig nokkur góð kaup. Líklega væri Liverpool nú þegar komið á þann stað sem það vissulega er í dag hefði Edwards fengið þau völd sem hann hefur í dag um leið og Rodgers tók við.

Þrátt fyrir stormasama samvinnu með Rodgers hélt Edwards áfram að hækka í tign innanhúss hjá Liverpool og var gerður að Director of Technical Performance árið 2013 og Technical Director sumarið 2015. Guð má vita hver skilgreiningarmunurinn er á þessum tveimur hlutverkum en þarna var hann basically farinn að stjórna knattspyrnuhlið félagsins svolítið í ætt við hlutverk yfirmanns knattspyrnumála.

Fyrsta verk í þessu nýja hlutverki var að breyta þeim grunngildum sem félagið vann eftir í leit að nýjum leikmönnum, ekki bara aðalliðsmönnum heldur í gegnum allt félagið. Töluverðar breytingar voru gerðar á njósnarateyminu og því hvernig þeirra vinna var unnin. Eins kom hann á fót sérstakri greiningardeild á Melwood sem hann stýrði, eitthvað sem flest lið hafa innleitt í dag.

Hlutverk Edwards hefur allsstaðar sem hann starfar farið töluvert undir radarinn og var mjög lengi vel töluverð tortryggni gagnvart því sem hann og hans líkir stóðu fyrir. Fótbolti er í grunninn einföld íþrótt en það hafa orðið gríðarlegar framþróanir á þessari öld og hefur Michael Edwards verið í brautryðjenda stöðu nánast allan þessa öld.

Ef að það er ennþá einhver vafi um það hvor þeirra hafði meira vit á leikmannamarkaðnum, Michael Edwards eða Brendan Rodgers er ágætt að hafa í huga að ári eftir að Rodgers var rekin var Edwards gerður að yfirmanni knattspyrnumála. Sá sem talaði hvað mest fyrir því var eftirmaður Rodgers.

Barry McNeill, Prozone maðurinn sem réði Edwards fyrir 17 árum eftir meðmæli frá Southampton:

“I think he helped Liverpool’s owners see that they could manage player trading, player development and staff recruitment more effectively,”
“In some ways, he represents many new-age football people, and I think on the whole most people are encouraged by his success. He’s shown that you can get to this type of leadership role with the right experiences, education and skill sets, rather than via the kind of nepotism you often find in football.”

Yfirmaður Knattspyrnumála

Hugmyndafræði FSG er að þeirra félög starfi sem liðsheild, ekki síður utanvallar en innanvallar. Það er engin einn á bak við árangur liða eins og Liverpool og Boston Red Sox. Klopp og Edwards passa fullkomlega inn í þá hugmyndafræði og eru líklega holdgervingar hennar í knattspyrnuheiminum. Þeir fá sannarlega hrósið en eru jafnan fljótir að benda á fólkið sem vinnur með þeim.

Árangur Liverpool á leikmannamarkaðnum í tíð Edwards og Klopp er sem dæmi ekki bara þeim tveim að þakka heldur stórum hópi sem vinnur undir þeim. Barry Hunter og Dave Fallows sjá sem dæmi um njósnarateymið og ráðningar þar. Þeir eru einnig mjög hátt skrifaðir innan félagsins og komu með þó nokkru fjaðrafoki frá Man City sumarið sem Rodgers tók við. Þeir voru í leikmannanefndinni með Edwards, Ayre og Rodgers sem dæmi. Klopp treystir þessum mönnum mjög vel og lætur fólk sem veit meira um eitthvað en hann sjálfur jafnan um sína sérgrein. Bara það er styrkleiki sem Rodgers virðist ekki hafa haft og líklega er öllum ljóst að hæfileikar Jurgen Klopp er aðalatriði í þessari jöfnu sem lætur alla hina koma mjög vel út.

Michael Edwards er í sínu fyrsta starfi sem yfirmaður knattspyrnumála, það má vel vera að hann væri alveg vonlaus hjá öðru liði í öðru umhverfi. Eða bara undir öðrum stjóra hjá Liverpool. Theo Epstein sem var Billy Beane hjá Red Sox árið 2004 og aðalsöguhetjan í þeim árangri hefur aldrei náð sömu hæðum aftur.

Að sama skapi er vonlaust að nefna hærra skrifaðan yfirmann knattspyrnumála í heiminum í dag, Edwards er Jurgen Klopp Sporting Directoranna.

Það er ekki langt síðan hann deildi vinnuaðstöðu með öðrum njósnurum og greinendum á Melwood. Hann flutti ekki inn á sína eigin skrifstofu fyrr en hann tók formlega við sem yfirmaður knattspyrnumála árið 2016 og er núna með skrifstofu beint á móti skrifstofu Klopp. Þeir eru reglulega inni á kontór hjá hvorum öðrum að spjalla saman á óformlegum nótum.

Hægt og rólega eru að koma fleiri greinar sem varpa betur ljósi á Edwards eftir því sem vægi hans og orðspor hefur vaxtið og skal engan undra að ein versta fótboltagrein sögunnar í boði Neil Ashton árið 2015 versnar bara með hverju árinu. Ashton sem virðist hafa sloppið þegar hinar risaeðlurnar dóu út gat ekki fangað Edwards mikið verr skv. þeim sem vinna með honum daglega. Öfugt við það “laptop guru” sem Asthon kallaði hann er bakgrunnur Edwards er fyrst og fremst úr fótbolta og hann hefur munninn svo sannarlega fyrir neðan nefið og gefur sig ekki svo glatt í rökræðum.

Klopp ber gríðarlega virðingu fyrir honum

“He is a very thoughtful person. We don’t always have to have the same opinion from the first second of a conversation, but we finish pretty much all our talks with the same opinion. Or similar opinions.”

Klopp hefur alveg viðurkennt tilvik þar sem njósnarateymið sannfærði hann um einhvern leikmann sem hann var ekki svo sannfærður um sjálfur til að byrja með.

Simon Wilson veðjaði sannarlega á réttan hest þegar hann mælti með vini sínum fyrir 17 árum:

“I think what he has achieved at Liverpool would be every football club’s dream. To turn around a club like that, in a sustainable way—young players coming through, low net spend—and improving every year, it’s like every box is ticked. Liverpool are the best team in the world at the moment. They are the most admired club, and Michael has been a huge part of that.”

Amen

14 Comments

 1. Einar Matthías enn og aftur með þrusugóðan pistil beint í vinkilinn – takk fyrir mig og gleðilega páskahelgi.

  15
 2. Sælir félagar

  Snillingur ertu Einar Matthías og takk fyrir frábæran pistil um þennan snilling og upplýsingarnar um hvernig svona menn hafa breytt sýninni á íþróttina.

  Það er nú þannig

  YNWA

  11
 3. Alveg geggjuð grein og á tímum Covid 100 sinnum betri en geggjuð. Maður er alveg að gefast uppá flestum fjölmiðlum sem grafa upp ekkert nema gamlar fréttir og gamla tíma. Þetta var geggjuð grein og sú besta sem ég hef lesið síðan fotboltinn stoppaði.

  Gleðilega páska allir 🙂

  11
 4. Ef menn kommenta ekki á svona greinar þá eiga menn ekki skilið að fá að lesa þær. Aldeilis frábær grein hjá þér Einar. Þetta reddar alveg páskunum fyrir mig þar sem ég sit einn heima og vonast eftir einhverju skemmtilegu og það hlýtur að vera mikil vinna sem liggur í því að taka svona saman.
  Takk kærlega fyrir þessa samantekt. “Frábært”

  16
 5. Takk fyrir að halda manni gangandi í innilokunni Einar og félagar. Greinin er afar upplýsandi og mann langar að vita meira um Edwards og hina mennina bak við tjöldin.

  3
 6. Takk kærlega fyrir þessa fyrirmyndargrein. Elja ykkar hér á síðunni heldur manni jákvæðum og bjartsýnum á þessum skrítnu fótboltalausu tímum. Ótrúlegur metnaður hjá ykkur!

  7
 7. Snilld .
  Gaman að vita aðeins meira um þennan kappa og hvernig vinnan fer bakvið tjöldin.
  Takk fyrir mig

  3
 8. Takk fyrir þetta Einar, þetta lífgar svo sannarlega upp á annars fótboltalaust líf okkar..

  2

Hvað næst?

Gullkastið – Rúmlega mánuður án fótbolta