Uppfært: Epískt sjálfsmark Liverpool

Uppfært (EMK)
Liverpool sá að sér eftir mikla óánægju stuðningsmanna félagsins og ekki vantaði heldur upp á sérfræðinga sem hoppuðu á vagninn þegar Liverpool gaf svona klaufalega höggstað á sér.

Flott að klúbburinn hlusti á stuðningsmenn félagsins, sérstaklega þá sem eru í borginni því rekstur á nútíma knattspyrnufélagi fer ekki alltaf vel saman við hugmyndafræði heimamanna.

Það er smá svekkjandi að FSG hafi þekkt hug stuðningsmanna betur í þessu tilviki því um er að ræða frekar lága fjárhæð m.v. heildarrekstur félagsins.

Að sama skapi er líka verið að gera töluvert stóran úlfalda úr mýflugu ef málið er skoðað í stærra samhengi, Liverpool er frekar lítið fyrirtæki (atvinnurekandi) og er ekki að greiða eigendum sínum viðlíka arð á ári hverju og mörg þeirra risafyrirtækja sem nú sækja í samskonar styrki eru að gera og fá jafnvel bara hrós fyrir því ekki er verið að segja upp starfsfólki á meðan. Arðgreisðlur sem eru meira og minna geymdar í skattaparadísum utan Englands. Þessir auðjöfrar og stjórnmálamennirnir sem þeir hafa keypt vita ekkert betra akkurat núna en rosalega reiði út í fyrirtæki eins og Liverpool og fótboltamenn almennt sem tekur athyglina frá þeim.

——————————————————————–

Upphafleg færsla Ingimars

Maður getur auðveldlega séð Peter Moore fyrir sér: Hokinn yfir tölvunni seint um kvöld, þrjú til fjögur excel skjöl opin, fimm hálf kláraðir tebollar á borðinu ásamt tugum blaða með krassi á. Síminn logar, John Henry meðal þeirra sem hafa verið í sífellu símasambandi. Hann er búin að vera á skrifstofunni í tólf tíma að reyna að leysa einfalt vandamál, allar tekjur Liverpool hafa þornað upp og styrktaraðilar eru sumir hverjir farnir að krefjast endurgreiðslna. Hann þarf að halda stjörnunum sínum ánægðum og glíma við að halda klúbbnum gangandi. Þess fyrir utan er hann með 200 starfsmenn sem hann hefur lofað að missi ekki tekjur, en hafa ekkert að gera því klúbburinn, borgin og landið er stopp.

Peter sýpur á ísköldu tei og lætur vaða. Ekkert stórmál, hann ákveður að nýta úrræði breskra stjórnvalda og fá skattgreiðendur til þess að borga 80% af launum starfsmanna sem hann hefur ekki vinnu fyrir. Þetta er t.d. öryggisverðir á Anfield, fólkið í afgreiðslunni og fleiri starfsmenn sem vinna bara í kringum leiki. Hann veit að hann er að gera sjálfsmark en sendir enga síður skilaboð til almannatengils Liverpools, sem tilkynnir þetta. Svo brestur á stormurinn.*

*Höfundur tekur fram að þessi sena er algjörlega skálduð, allt nema að Peter Moore tók þessa ákvörðun.

Hví eru stuðningsmenn Liverpool brjálaðir?

 

Ef einhver var á Twitter rétt áður en Heima með Helga hófst í gær hefur hann líklega tekið eftir að stuðningsmenn Liverpool voru brjálaðir vegna ákvörðunar klúbbsins að setja starfsmenn hans á „furlough.“ Það er þess virði að fara í hvað þetta er og af hverju klúbburinn varð sér til skammar með þessu.

Furlough er er samskonar viðbragð breskra stjórnvalda við Covid og 25% leiðin hér á Íslandi. Í grunninn þýðir þetta að ríkið tekur á sig stóran hluta launakostnaðar fyrirtækja, svo þau segi fólki ekki upp. Það er útfærslumunur hér og þar, til dæmis mega starfsmenn ekki vinna neitt fyrir fyrirtækið á meðan þeir eru á þessu plani á Bretlandseyjum. Að sama skapi þarf vinnuveitandi ekki að borga nein laun ef þau vilja það ekki. Furlough dekkar allt að 80% af launum starfsmanna, það skal tekið fram að Liverpool lofaði að greiða hin tuttugu prósentin. Eins og hér heima er þak á greiðslunum frá ríkisstjórninni, 2500 pund á mánuði. Það eru um það bil 440.000 íslenskar. Það eru ýmsir vankantar á þessu prógrammi sem er ennþá verið að vinna í og bregðast við en það skiptir ekki öllu máli fyrir þessa grein.

Allavega. Liverpool ákvað að nýta sér þetta ráð og stuðningsmenn telja það vera til skammar og ég er sammála. Í fyrra græddi Liverpool um 50 milljónir fyrir skatt. Mörgum stuðningsmönnum finnst það vera móðgun við sósíaliskar stoðir Liverpool að velta þessum launakostnaði yfir á skattgreiðendur þegar Liverpool gætu líklega tekið höggið. Bara þó þú getir gert eitthvað, þýðir ekki að þú ættir að gera það.

Það er líka þess virði að benda á að miðað við PR slysið sem þetta hefur valdið, virðist upphæðin ekki stór. 200 starfsmenn sem gætu hámark fengið 2500 pund hver frá ríkinu, í þrjá mánuði er heildar upphæð uppá 1.5 milljón punda. Það er um það bil það sem liðið borgaði fyrir fingur hægri handar Virgil Van Dijk (baugfingur til þumalputta sirka, ég er ekki viss um litli putti teljist með).

Þannig að bara svo það sé á hreinu: Þetta var skammarlegt bragð og þó að klúbburinn dragi þetta til baka (sem mér finnst líklegt, FSG mega eiga það að þeir ná venjulega í boltann eftir sjálfsmark) þá er þetta svartur blettur á þeim sem eigendum.

Við erum öll hrikalega ánægð með FSG sem eigendur í dag (eða vorum það fyrir helgi) en það er auðvelt að gleyma að þeir voru alls ekki svona vinsælir fyrstu árin. Stuðningsmenn Liverpool voru illa brenndir af síðustu bandarísku eigendum liðsins og nálguðust þá nýju af varfærni. Þó Bretar noti orðin Yank og American ekki alltaf sem diss, þá eru þessi orð aldrei hrós. Ég hef áður hrósað FSG á Kop.is fyrir að læra af mistökum sínum og þangað til fyrir viku hélt maður að þeir væru búnir að finna jafnvægið milli eigin viðskiptahugmynda og hugsjóna Liverpool FC, þeir þurfa að bregðast hratt við storminum og þó þeir geri það óaðfinnanlega þá mun þetta seint gleymast. Epískt sjálfsmark, svo ekki sé meira sagt.

Það gerir furlough ákvörðun Liverpool að þeim mun stærra klúðri að fyrir utan hana virðist Liverpool vera að gera allt rétt: styrkja góðgerðarsamtök, verja starfsmenn sína frá tekjutapi og hafa ekki sagt neinum upp. En þetta verður það sem allir munu minnast.

Stærra samhengið

Ekkert hér fyrir neðan er ætlað að afsaka ákvörðun FSG og Liverpool. En þessi ákvörðun vekur nokkrar áleitnar spurningar um fótbolta, Bretland og framtíð íþróttarinnar.

Satt besta að segja, ef maður hefur fylgst með breskum miðlum síðustu vikur, væri skiljanlegt ef maður héldi að það væri fótboltamönnum að kenna að heilbrigðiskerfi breta sé við það að springa. Svo ég segi það eins skýrt og ég get: Af hverju í andskotanum er heilbrigðisráðherra Bretlands að nota daglegu blaðamannafundi sína til að tjá sig um laun fótboltamanna?

Maður þarf eiginlega að setja þetta í annað samhengi til að átta sig á hversu absúrd þetta er. Sjáið þið fyrir ykkur að Víðir Reynisson myndi á morgun segja í beinni: Já, svo verða íþróttafélög hér á landi að hætta að greiða fólki laun, það er algjör tímaskekkja að fólk fái borgað fyrir íþróttastarf á svona tímum.

Það er ofboðslega auðvelt að benda á ríka fótboltakalla á svona tímum og segja að laun þeirra séu fáránleg. Í hjarta fótboltans (sérstaklega á Englandi) er líka ákveðin togstreita sem hefur aldrei verið leyst úr.

Leikurinn var fyrir þrjátíu árum stærsta og mest áberandi útrás menningar verkamannastéttarinnar. Svo byrjaði Úrvalsdeildin og peningar flæddu inn í boltann, sérstaklega efsta lag hans. En þann dag í dag eru flestir enskir fótboltamenn úr neðri lögum samfélagsins og almennt bera Englendingar ekki virðingu fyrir fólki sem klífur upp samfélagsstigan. Þar að auki er ákveðin þversögn að stemningin sem myndast á völlunum er risahluti af vinsældum enska boltans en fólkið sem bar ábyrgð á að halda uppi sú stemningu hefur í sífellt minna mæli efni á að mæta á leiki.

Það er út af þessari togstreitu sem svo auðvelt er að benda á fótboltamenn og gera grýlur úr þeim þegar þarf á að halda. Ég er ekki að segja að leikmennirnir ættu ekki að taka á sig hluta að högginu sem nú ríður yfir samfélagið, en ég er ósammála því að stilla þeim svona upp við vegg.

Auðvitað hefur deildin og leikmenn málað sig út í horn með því að vera sein að bregðast við. Jordan Henderson er víst búin að vera hlaupa á milli manna til að fá skipuleggja risagjafir til góðgerðamála, ef það hefði verið búið áður en leikmannasamtökin tilkynntu að þau ætluðu að biðja leikmenn um 30% launlækkun liti dæmið öðruvísi við. Auk þess kom Wayne Rooney með mjög góðan punkt í pistli sínum um helgina: Allt ferlið um viðbrögð deildarinnar hefur verið bakvið luktar dyr, af hverju þurftu samtökin að tilkynna opinberlega að leikmenn ættu að taka á sig launalækkun? Áður en þeir höfðu fengið að vita af þessari ákvörðun það er að segja.

Enska deildin lítur líka extra illa út vegna þess að spænsku og ítölsku deildirnar eru löngu búnar að taka ákvarðanir um lækkun launa leikmanna og að verja minni starfsmenn. Skiptir engu þó þessi lönd hafi þurft að glíma við veiruna fyrr og eru þess vegna fyrri til að taka þessar ákvarðanir, þetta lætur Englendinga líta illa út.

Utan frá virðist staðan vera þannig að flestir leikmenn vilja hjálpa og allir vilja að þeir hjálpi. Hins vegar er greinilega gangi eitthvað stríð bakvið tjöldin sem tefur ákvarðanir og lætur alla líta illa út. Ég er þeirrar skoðunar að það er ekki á ábyrgð fótboltaheimsins að leysa úr þeim risavandamálum sem heimsbyggðin stendur frami fyrir, en fótboltamenn eru enga síður leiðtogar og geta gert heilmikið gott. Þeir eru bara ekki að gera það núna og þess vegna líta þeir og félögin illa út. Sé frá Íslandi virðist líka sem það sé verið að leita að blóraböggli fyrir léleg viðbrögð, við skulum muna að sú ótrúlega samstaða sem náðst hefur á Íslandi um viðbrögðin við Covid eru nánast einsdæmi, í stærri löndum þar sem breyturnar eru fleiri hefur engan vegin gengið jafn vel að sameina þjóðir gegn vágestinum fræga.

(Enn þá) Stærra samhengi: Er spilaborgin að hrynja?

“When Richard Branson, the wealthy owner of Virgin Atlantic Airways, was asked how to become a millionaire, he had a quick answer: ‘There’s really nothing to it. Start as a billionaire and then buy an airline.’

Maður hefur séð ýmsar útgáfur af þessu spakmæli, sem ýmist Richard Branson eða Warren Buffet eiga að hafa sagt. Ástæðan fyrir að ég set þetta hér að flugfélög og fótboltalið eru að miklu leyti svipuð fyrirtæki. Bæði brenna gífurlegu fjármagni, eru mun minni gróðakýr en maður hefði haldið miðað við hversu mikið við hugsum um þau og bæði treysta á að það sé aldrei stoppað.

Núna er allt stopp. Alls staðar. Liverpool, United, City, Burnley, Motherwell, Icelandair, Virgin Airlines FH, Valur, KR… þessi félög og fyrirtæki munu ekki fá krónu í kassann næstu mánuði, kannski ekki fyrr en í júlí-ágúst. Það er sjaldgæft fyrirtæki sem getur lifað af hálft ár alveg tekjulaust. Styrktaraðilar eru þegar farnir að krefjast endurgreiðslu, sjónvarpspeningarnir hafa þornað upp. Burnley, úrvalsdeildarlið til margra ára, voru fyrsta liðið til að segja opinberlega að þeir munu fara á hausinn í ágúst ef deildin fer ekki aftur af stað fyrir það. Skoska FA gaf það út að furlough planið muni líklega bjarga meirihluta liða þar frá gjaldþroti.

Ástæðan fyrir þessu er auðvitað hin ótrúlega samkeppni í fótboltaheiminum. Lið verða að eyða hverri krónu sem þau eiga í að keppa um að komast upp á næsta stig, ef stuðningsmenn kæmust að því að liðið sæti á digrum sjóð til að veðra af sé slæm ár myndu þeir líklegast brjálast.

Sem kveikir síðustu spurningu mína, sem ég hef ekkert gott svar við: Hvað ef ástæðan fyrir að Peter Moore ákvað að setja starfsmenn á þetta prógramm er að liðinu munar um þessar milljónir. Ef meira segja lið eins og Liverpool, sem er á efsta tindi fótboltans munar um þennan pening, hvað þýðir það fyrir liðin neðar í keðjunni? Erum við að fara að missa einhverja tugi liða í gjaldþrot?

Martröð ensku úrvalsdeildarinnar er ekki að deildirnar klárist í júlí bakvið luktar dyr. Matröð allra liða er að efstu deildirnar séu ekki að fara að klárast og Sky, BT og tugir annara sjónvarpstöðva og styrktaraðila krefjist endurgreiðslu. Ef það gerist mun þurfa meira en 30% launalækkun leikmanna til að stoppa uppí gatið. Liverpool skaut sig í fótinn í gær, illa. En ég óttast að þeir hafi skotið sig í fótinn til að reyna að ná honum úr gildru sem þeir eru fastir í og ef þeim tekst ekki að losa fótinn þá sé allur skrokkurinn í hættu.

10 Comments

  1. Sammála. Vonandi koma FSG og leiðrétta þennan ,,misskilning” hjá Moore.

    Varðandi leikmenn og vælið í þeim að þá verð ég bara að segja að núna er kominn tími á að þeir sýni ábyrgð og vilja til að gefa afslátt á laununum sínum. Það er enginn strákpungur á þrítugsaldri sem þarf að vera með hundruði milljóna í laun, þó svo að hann kunni að meðhöndla bolta. Annars finnst mér að stjórnvöld ættu að einbeita sér að þeim sem hafa greitt sér háar arðgreiðslur og vilja nýta sér svona aðstoð. Það eru algjör rökleysa að fyrirtæki greiðir sér milljarða í arðgreiðslur til örfárra feitra rassa og svo nokkrum árum síðar þiggur sama fyrirtækið neyðaraðstoð til að halda láglaunafólkinu sínu á floti. Vonandi, bara vonandi verður þessi faraldur til þess að kerfið muni breytast á margan hátt og áherslur.

    7
  2. Flott grein Ingimar!

    Það á mikið vatn eftir að renna til sjávar næstu vikur og mánuði. Alveg ljóst að þessi gjörð okkar manna er vitlaust tímasett og líklega ekki stór þáttur í rekstri risafyrirtækis, hugtakið um “fjölskyldu” eitthvað sem ekki er nú líklega efst á vörum manna.

    Ég held þó að þetta allt verði að skoða í samhengi hlutanna að þessu loknu og fullkomlega ljóst að leikmannasamtökin eiga eftir að fara meir inn í þessa umræðu líka. 2 milljónir punda sem þetta mun líklega spara LFC skiptir máli hvert fer og ég tippa á að félagið fari þá leið í þessu fjöri, þ.e. að menn fari og styrki innviði í borginni eða í heilbrigðiskerfinu almennt.

    Varðandi það að leikmenn felli niður launagreiðslur þá finnst mér það bara hárrétt hjá þeim leikmönnum sem hafa tjáð sig. Ég get t.d. ekki séð hvað er siðferðilega gott við það að eigendur City (eða bara okkar menn í FSG) spari í útgjöldum sínum um tugir milljóna punda og skattgreiðslur til breska ríkisins falli um hundruðir milljóna punda. 30% launalækkun þýðir nefnilega bara alls ekki neitt til samfélagsins alls en það bjargar vissulega einhverjum félögum (líklega mörgum) frá gjaldþroti.

    Einfaldast fyrir málstaðinn væri að breska ríkið setti t.d. 20% hækkun á sköttum þeirra sem eru með ofurlaun og sú upphæð færi beint inn í heilbrigðiskerfið. En þá vitum við að þeir einstaklingar sem hafa komið stjórnmálamönnunum til valda færu að borga og því liggja fótboltamenn og þeirra ríkustu eigendur (sem margir hverjir eru ekki Bretar) afskaplega vel við pólitísku höggi. Því lífið er pólitík.

    Eins og margt annað í veruleikanum þessa dagana þá held ég að bíða ætti eftir næstu dögum, vikum og mánuðum. Gott dæmi um það sem var gargað á í veruleika þess tíma var þegar Donald Trump lokaði Bandaríkjunum og fékk bágt fyrir. Nokkrum dögum seinna var öllum löndum lokað og vitlausar urðu umræður t.d. ríkisstjóra New York sem fordæmdi lokun Trump og fordæmalaus þvæluákvörðun UEFA og annarra yfirvalda að hafa fótboltaleiki í CL og EL bara einhvers staðar í álfunni í mars.

    Það er nóg eftir og vonandi líta menn betur út í lokin. Það á allavega margt eftir að koma fram ennþá varðandi peningaausturinn í fótboltann og hvernig hann fer út úr stærstu efnahagskreppu mannkynssögunnar og mikils mannfalls vegna hamfaraútbreiðslu sýkinga sem mun hafa áhrif á allar fjöldasamkomur og samskipti milli landa í nokkur ár held ég.

    2
  3. Mér finnst virkilega ósangjart að það komi bara beint frá ríkinu að leikmenn í Enskudeildinni ættu að taka á sig 30% launalækkun.
    Afhverju ekki að láta aðra ríka í UK gera það sama?

    Ég er viss um að leikmenn vilja leggja sitt af mörkun en þeir eru með misstórasamninga og finnst mér að hver og einn má ráða hversu mikið hann getur lagt af mörkum(sumir meira og sumir minna en 30%) en að ýta þeim út í vegg og allt í einu tala um þá sem vonda kalla af því að þeir samþykktu þetta ekki á núll einni fynnst mér ósangjart.

    Í sambandi við Liverpool drulluna þá held ég að þeir hljóta að koma með eitthvað frá sér í dag eða á morgun. Um að þeir séu hættir við þetta eða hafa ákveðið að styrkja spítala í Liverpool fyrir stóra upphæð í nafni starfsmanna félagsins.

    YNWA – Þessi veiru barátta mjakast áfram. Bæði Ítalía og Spán sem eru hvað verst í þessu hafa líklega náð sínum toppum og UK eru ekki langt á eftir. Þegar tölurnar fara hægt og rólega niður þá er hægt að fara að sjá til sólar í þessu.

    6
  4. Er frá og með þessum degi hættur að lesa um enska boltann inni á mbl.is.
    Það er ljótt að segja það en það liggur við að það sé skemmtilegra að lesa um Covid þó það sé ekkert nema þunglindi.

    YNWA.

    4
    • Er sammála þér. Það mætti halda að markmið mbl væri að skrifa neikvætt um Liverpool. Hættum að blaða á Mbl-júnæted.

      4
      • Það mætti nefna fleiri fjölmiðla í því samhengi. Íþróttapennarnir á DV eru oft á tíðum í innbyrðis keppni um hver þeirra kemur fleiri neikvæðum fréttum um Liverpool í birtingu. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart þar sem miðillinn er íslenska útgáfan af the sun.

        2
  5. Það er bara fáránlegt hve stór hluti fótbolta blaðamanna á íslandi heldur með Man Utd. Á við um alla miðla held ég bara. Verstir hjá 433.is eða Dv en getið líka horft bara yfir blaðamenn stöðvar 2 sport í heild sinni líka. Sennilega 90 prósent íslenskra fótbolta blaðamanna virðist halda með Man Utd þess vegna eru 90 prósent frétta um Liverpool neikvæðar þótt klubburinn undanfarið geri sennilega 90 prósent meira jákvætt en neikvætt.

    4
    • Sammála, hann Hörður á 443 og DV er starfi sinu ekki vaxinn, skrifar stöðugt neitkvætt um Liverpool enda MU maður – en notar myndir af leikmönnum Liverpool til að fá fleiri klikk

      5

Skilaboð frá UEFA til knattspyrnusambanda

Hvað næst?