Költ hetjur Liverpool

Formáli: Tölum um fílinn í herberginu sem engum langar að tala um. Heimurinn er í tveggja-þriggja mánaða pásu fyrir utan fólk í heilbrigðisstéttinni og öðrum nauðsynja stéttum. Við tökum auðvitað af ofan fyrir þeim, munið að þið gangið aldrei ein. Þetta hefur meðal annars þau áhrif að það er ekkert í gangi í kringum Liverpool. Það eru kannski einhverjir að glíma við samviskubit yfir því hversu mikið þeir sakna fótboltans, sem er algjör óþarfi. Boltinn er risahluti af rútínu og lífi margra og eðlilegt að sakna hans. Ættum við bara að hætta að hugsa um íþróttir, leyfa síðunni að liggja í dvala næstu mánuði? Einhverjum þætti það kannski viðeigandi, ég er ekki einn þeirra.

Þannig að ég tek fram núna: Auðvitað eru hlutir í heiminum sem skipta meira máli en fótbolti þessa dagana. En þetta er vefsíða um Liverpool og fótbolta, ef þið eruð á annað borð að heimsækja hana geri ég ráð fyrir að þið viljið lesa um eitthvað annað en ónefndan vírus. Þannig að við ætlum að halda evirkni hérna næstu vikur og viljum sérstaklega hvetja ykkur í að taka þátt í umræðum í kommentakerfinu. Einnig, ef ég má tala ögn á persónulegu nótunum, þá er ég einn þeirra nokkur þúsund Íslendinga sem vinn nú bara fjórðung af því sem hann gerði fyrir mánuð. Ég ætla að reyna að nota auka tímann á uppbyggilegan hátt, meðal annars með því að skrifa nokkra pistla hér sem mig hefur langað að skrifa en hafa enga sérstaka tímapressu á sér. Nú þegar þetta er komið:

Költ hetjur Liverpool

Hverjir eru költ hetjurnar hjá Liverpool? Það fer auðvitað eftir því hvernig maður skilgreinir költ hetju. Ég ætla nota mína skilgreiningu og leyfa öðrum að rífast um hvort hún sé rétt. Költ hetja er leikmaður sem er A) Gífurlega vinsæll hjá afmörkuðum hópi stuðningsmanna. Sá afmarkaði hópur getur verið allir stuðningsmenn ákveðins liðs, en þá má hann ekki vera vinsæll utan þess liðs og B) Helst ekkert sérstaklega góður en einhverjar minningar tengdar honum eru sterkar.

Kannski er best að vinna með það hverjir eru ekki költ hetjur og svo fara yfir í hverjir eru költ hetjur og hvers vegna. Jamie Carragher er til dæmis ekki költ hetja, hann er alltof vinsæll utan Liverpool og spilaði alltof mikið í aðalliðinu. Fowler er ekki költ hetja nema ef við horfum bara á seinni hlutann ferlilsins hjá Liverpool og menn eins og John Barnes, Ron Yeats og Emlyn Hughes eru bara legend og ekkert annað.

En hér er (ófullkominn) listi minn yfir költ hetjur Liverpool. Röðin er handahófskennd og listinn ekki tæmandi.

Jerzey Dudek

Ég velti oft fyrir mér hvernig Dudek væri minnst hjá Liverpool ef ekki væri fyrir Istanbul. Mig grunar að hans væri ekkert minnst að viti. Jerzey kom frá Feynoord til Liverpool í ágúst 2001 og varð strax aðalmarkamaður liðsins. Tímabilið 2002-03 var hann maður leiksins í úrslitaleik deildarbikarsins gegn Manchester United.

En næstu tímabil var það ljóst að hann var bara ekki nógu stöðugur til þess að vera aðalmarkmaður Liverpool. Rafa Benetiz segir frá því í bók sinni Champions League Dreams (ef einhver er að leita að bókum til að drepa tímann þessa daga, þá eru margar verri en hún) að hann hafi viljað markmann sem gat tekið meiri stjórn á teignum og Jerzey vissi fyrir úrslitaleikinn gegn AC Milan að Pepe Reina væri á leiðinni inn.

Við vitum svo öll hvað gerðist í úrslitaleiknum. Í seinni hálfleik og framlengingu átti Dudek líklega besta hálfleik ferilsins, varði nokkrum sinnum gjörsamlega stórfenglega og nokkrum sinnum á hátt sem ég er viss um að hann sjálfur gæti ekki útskýrt. Í vítaspyrnukeppninni kom andi Bruce Grobbelar yfir hann og hann varði tvær spyrnur. Þrátt fyrir komu Pepe Reina þá var Dudek áfram hjá Liverpool til 2007, þegar hann fór til Real Madrid og sótti nokkrar dollur þar.

Kannski það skrýtnasta sem gerðist á löngum ferli hans var að hópur stuðningsmanna gaf út lagið Du the Dudek. Lagið var gefið út til að safna pening fyrir stuðningsmann Liverpool sem var handtekinn fyrir Evrópuleik liðsins í Búlgaríu. Njótið:

Michael Robinson

Því hefur stundum verið velt upp hvernig leikmanni sem kemur inn í Liverpool til að keppa við þríeykið frammi muni ganga. Það er ekki einfalt að koma inn og keppa um stöðu við menn sem eru svona augljóslega í heimsklassa. Einn leikmaður sem gæti kannski tengt við þá er Michael Robinson, framherjinn sem kom inn í liðið árið 1983 til að keppa við Ian Rush og Kenny Dalglish.

Robinson fæddist í Leicester og spilaði fyrstu ár sín í atvinnumennsku hjá Preston North End, fór þaðan til City og svo Brighton áður en hann kom til Liverpool. Hann spilaði ekki nema ár hjá Liverpool og náði 30 leikjum fyrir liðið. Liðið vann þrjá titla þetta tímabil: deild, deildarbikar og Evrópubikar.

Robinson var engan vegin besti leikmaður liðsins en vann sig inn í hjörtu stuðningsmanna með því að gefa sig 100% í allt sem hann gerði. Hann sagði seinna glottandi að Ian Rush hefði látið hann líta út fyrir að vera betri en hann var, því það var sama hvert Michael skallaði boltann í einvígum, Rush var alltaf mættur. Takið líka eftir í markasyrpunni hversu mörg mörk Robinson eru því hann eltir lausan bolta og nær að djöfla honum þannig inn. Það skaðaði ekki orðspor hans að eitt af 13 mörkum hans var fyrir framan Kop stúkuna gegn Everton.

John Arne Risse (Who! Wha! I wanna knooooo…)

Ok John Arne er alveg á mörkum þess að vera of góður til að geta kallast költ hetja, allavega í upphafi ferilsins. Hann spilaði sjö ár hjá Liverpool, samtals 348 leiki fyrir liðið og vann aragrúa bikara. Klárlega skemmtilegasti Norðmaður sem leikið hefur á Englandi. Á ákveðnum tímabilum eftir að hann fór frá liðinu er maður viss um að þjálfarar Liverpool hefðu gefið hönd og fót fyrir að hafa hann í bakverðinum í staðinn fyrir… ja þið vitið hverja.

En hann var enn þá vinsælli en gæði hans og framlag sögðu til um. Hann var einn af þeim leikmaður sem skyldi alltaf allt eftir á vellinum, sem líklega það eina sem gulltryggir vinsældir meðal stuðningsmanna (ekki bara Liverpool, en sérstaklega mikið hjá Liverpool.) Hann dalaði þegar leið á ferilinn hjá Liverpool, hann átti til að fara of mikið upp völlinn og gera of mörg mistök. Sumir hafa haldið fram að hann hafi verið fyrsta útgáfan að nútíma vængbakverðinum. Ef það er rétt þá var hann á undan sinni samtíð.

En stærsta ástæðan fyrir að menn minnast hans jafn hlýlega og raun ber vitni er að þegar hann skoraði, þá SKORAÐI hann. Af 30 mörkum hans fyrir Liverpool voru svona 28 sem áttu heima á lista yfir besta mark ársins á því tímabili. Meðal fjarlægðin frá marki þegar hann skaut var um það bil 30 metrar. Vissulega enduðu tvö-þrjú skot upp í stúku en hvað er það milli vina? Já og svo eru hann og Craig Bellamy líka ágætis golf félagar, eða þannig.

David Fairclough

Það er hægt að færa mjög góð rök fyrir að Fariclough sé upphaflegi super-subinn. Á átta ára ferli hjá Liverpool spilaði hann 154 leiki. Í 62 af þeim leikjum kom hann inná af bekknum. Af tæplega 50 mörkum fyrir liðið skoraði hann 18 eftir að hafa komið af bekknum, en það er ekki sama hvenær þú skorar. Án nokkurs vafa var stærsta augnablik hans þegar hann kom af bekknum í frægum leik á móti St. Etienne, 17. Mars 1977.

Á þessum árum voru stuttbuxur stuttar, mottur ekki bara fyrir mars og Liverpool ríkjandi meistarar oftar en ekki. Þegar 20 mínútur voru eftir voru Liverpool 2-1 yfir, en staðan 2-2 í einvíginu og St. Etienne á leiðinni áfram vegna útivallarmarks. Þegar sex mínútur voru eftir slapp David í gegn, fyrir framan Kop stúkuna og renndi boltanum í netið sem þýddi að Liverpool komust áfram og unnu að lokum fyrsta evróputitilinn í Róm. Lýsandi mælti þá hin frægu orð: „The super-sub strikes again!“ Titillinn festist við hann og hann bar blendnar tilfinningar til hans. Taldi hann (mögulega réttilega) að hann væri og of góður til að vera svona mikið á bekknum. Það hlýtur að hafa sviðið pínu að hafa verið hjá liðinu öll þess ár, skorað mikilvæg mörk en aldrei fá heilt tímabil sem aðal maðurinn. Kannski sviðið meira að allavega tvisvar á þessum átta árum þá vann Liverpool titilinn en David var ekki með nægilega marga leiki til að fá medalíu.

Seinni hluta ferilsins vafraði hann milli liða bæði innan Englands og utan en hóf aftur störf í kringum Liverpool þegar ferlinum lauk. Árið 2006 völdu 110.000 stuðningsmenn Liverpool uppáhaldsleikmenn sína í sögu félagsins og endaði hann í 18. Sæti. Ekki slæmt.

Ragnar Klavan.

Bara svo ég setji einn hérna sem er ekki markaskorari og einn frá tímum samfélagsmiðla. Ragnar Klavan var ekki sérstaklega góður hafsentu, með fullri virðingu fyrir dýrasta eistneska fótboltamanni sögurnar. Hann var keyptur til að vera þriðji kostur í vörninni á eftir mönnum eins og Dejan Lovren og Joel Matip. Hann var reyndar keyptur sama sumar og Sakho var frystur út úr liðinu, spurning hvort hann hafi átt að vera enn þá aftar í goggunarröðinni.

En eins og hafsentar Liverpool eiga það til að gera voru hafsentarnir mikið meiddir þetta tímabil og tímabilið á eftir. Ragnar okkar spilaði að lokum 53 leiki fyrir liðið á tveimur tímabilum, oft settur inn á völlinn til að loka leikjum. Hann spilaði aldrei neina stjörnuleiki en líka aldrei neina gjörsamlega hörmulega leiki. Á netinu fóru menn að kalla hann clean-sheet-Klavan og brostu í aðra tönn. Aldrei legend en maður hugsa ógurlega hlýlega til hans.

Gary McAllister

Sagan segir að lagið hans geti á réttum degi verið lengsta lag í söngvabók Liverpool. Skotinn Gary McAllister var James Milner sinnar kynslóðar: Kom til Liverpool árið 2000, þá 35 ára. Hann hafði unnið Englandsmeistaratitilinn 92 með Leeds og hefur Jamie Carragher meðal annars talað um að gamli kom með ákveðið sigurhugarfar og stál inn í klefann hjá Liverpool.

Hann spilaði tvö tímabil í rauðu og gífurlega mikilvægur hlekkur í þrennu liðinu. Skoraði meðal annars eitt og lagði upp þrjú í úrslitaleiknum gegn Alaves. Fimmta mark Liverpool í leiknum? Sjálfsmark Alaves eftir aukaspyrnu Macca gamla. Hann spilaði líka tímabilið á eftir en fór frá liðinu í Maí 2002 til að taka við sem þjálfari Coventry.

Heiðurslistinn:

Lucas Leiva, Igor Biscan, Dirk Kyut, Bellamy, Divock Origi, Dirk Kyut, Sami Hyypia, Luis Garcis (reyndar væri hægt að setja bara allt Istanbul liðið), Bruce Grobbelaar, Joey Jones, Titi Camara og svo margir aðrir.

Þetta eru bara nokkrir að þeim mörgu leikmönnum sem má kalla költ hetjur Liverpool. Hverja vantar og hvers vegna? Hvaða leikmenn elskið þið sem ykkur finnst engin annar fíla? Nú er ég farin að fela mig á meðan hinir pennarnir fatta að ég nennti ekki að skrifa um Aly Cissokho…

16 Comments

  1. Svolítið fyndið að horfa á Dudek í þessu myndbandi. Það eru einhvernveginn allar vörslurnar hálfgerð heppni. Á meðan A.Becker virkar eins og allar vörslur séu útreiknaðar og útpældar.

    1
  2. Gaman að sjá Dirk Kyut tvisvar á heiðurslistanum enda tveggja manna maki.

    6
    • …. og að sama skapi skil ég ekki af hverju Kolo Touré er ekki á listanum. Næstum jafn alvarleg yfirsjón eins og að sleppa því að fjalla um Aly.

      Nema að planið sé að vera með sérpistil um þá tvo….

      5
  3. Sammála, vantar klárlega Kolo Touré. Skemmtilegur pistill, takk fyrir mig 🙂

    PS. Finnst reyndar að Sami Hyypiä sé alltof góður til að vera költ hetja, má segja að hann falli í báðar skilgreiningar. Tímabilið 2008/09 tel ég að við hefðum unnið titilinn ef að Martin Škrtel hefði ekki komið til baka úr meiðslum og sett Sami til hliðar úr byrjunarliðinu sem hann leysti með stakri prýði meðan Slóvakinn var meiddur. Það fór að halla undan á svipuðum tíma, mér fannst áberandi hvað spilið upp úr vörninni var mikið öruggara þegar Hyypiä var með Carragher í vörninni.

    4
  4. Craig Jhonston mætti alveg vera á þessum lista, kanske ekki sá besti en komst samt alltaf í liðið með Kenny Daglish ,Souness og Hansen bara út á dugnaðinn .

    2
  5. Clyne!
    Alltaf traustur varnarmaður – ekkert sérstakur fram á við.

    • Þið gleymið aðalköltið Jimmy Case alvöru scouser, uppalinn í Liverpool. spilaði með liðinu 1973-1981 skoraði 23 mörk í 186 leikjum..
      Man eftir þessum mjög vel.. svo fattaði ég annað siðar meir.
      Famous Professional Deaf Footballers
      Billy Nesbitt – Burnley
      Cliff Bastin – Arsenal and England
      Raymond Drake – Stockport County
      Rodney Marsh – QPR, Manchester City, Fulham and England
      Jimmy Case – Liverpool, Southampton and Brighton

      Tilvisun á siðunni er hérna : fulhamdfc.co.uk/about-deaf-football/

  6. M Babbel, J McAteer, D Murphy, Meireles.
    þessi listi verður aldrei tæmandi.

  7. Djibril Cissé… fannst hann mjög vanmetinn, skoraði geggjað mark á móti West Ham í úrslitaleiknum fræga og kom inn á í Istanbul og kláraði víti… skoraði frekar mikið miðað við að Benitez spilaði honum oftast úti á kanti þegar hann fékk að spila. Geggjað hraður og algjör synd að hann hafi lent í þessum hrikalegu meiðslum

  8. Lagið um Dudek hræðilegt ef Þessir 4 dansarar væru ekki þarna væri ekki horfandi á þetta. En annars bara takk enn og aftur KOP þið haldið lífinu í manni eins og ykkur bara ykkur tekst að gera í svon á ástandi, 1000 þakkir og endilega meira svona efni ef þið hafið tíma til bið ekki um annað.

    YNWA.

    1
  9. Steve Finnan var í uppáhaldi um tíma. Frábær crossari þegar hann var í stuði og yfirleitt solid í bakverðinum.

  10. Ragnar Klavan er mín hetja, aldrei virkilega góður en spilaði einfalt og gerði sjaldan mistök og hafði ömurlegan fatasmekk sem gerir hann að hetju.

  11. Dossena allan daginn! Tvö mörk á fjórum dögum, gegn Madrid og United. Og maðurinn gat ekkert í fótbolta.

    3

Alvarleg gúrkutíð

Gullkastið – Hvenær og Hvernig?