Alvarleg gúrkutíð

Alltaf þegar við sjáum fréttir þess efnis að hið eina rétta í stöðunni sé að afskrifa alveg tímabilið 2019/20 og byrja uppá nýtt í haust, jafnan með Liverpool einhversstaðar í fyrirsögninni verðum við að taka því með þeim fyrirvara að þetta er sú fyrirsögn sem selur langbest af öllum í þessari verstu gúrkutíð sem upp hefur komið í sögu knattspyrnunnar á tímum internetsins. Það virðist ekki skipta máli hvaða vitleysingur tjáir sig um þennan möguleika og hvort það sé gert undir nafni eða ekki.

Blessunarlega var fyrsta niðurstaða knattspyrnuyfirvalda á Englandi að fresta tímabilinu en gefa það jafnframt út að núverandi tímabil verði klárað áður en nýtt hefst. Afhverju í veröldinni er næsta tímabil mikilvægara en það sem nú er í gangi og langt komið? Nóg hefur nú verið gert grínið á okkar kostnað fyrir að tala alltaf um næsta tímabil.

Mesta fjaðrafokið í þessari viku kom í kjölfar greinar David Ornstein á The Atletic þar sem m.a. var vitnað í stjórnarformann einhvers félags í Úrvalsdeildinni sem reyndar þorði ekki að koma fram undir nafni. Hann sagði það siðferðislega rangt að hugsa um fótbolta núna þegar Covid-19 væri að lama allt samfélagið. Svona eins og ekki sé leyfilegt að hugsa um eitthvað annað líka.

Rob Gutman afgreiddi þetta vel á twitter ásamt fjölmörgum öðrum

Hvað er svona siðferðislega rangt við það að stefna á að klára núverandi tímabil þegar þessi heimsfaraldur gengur yfir? Hvað í fjandanum er svona mikið siðferðislega betra að gefa skít í allt sem gerst hefur á þessu tímabili og byrja upp á nýtt.

Þetta er fyrst og fremst smellu “frétt”, Liverpool á auðvitað langmest undir að þessu tímabili verði ekki aflýst (ásamt samt miklu fleiri liðum) og því er þessu jafnan beint að okkur, c’est la vie.

Gáfulegasta andsvarið við þessari grein var líklega frá fjölmiðlamanninum Rory Smith

Það þurfti svosem engan heimsfaraldur til að flestir átti sig ágætlega á því að líf og heilsa fólks er það allra mikilvægasta og þegar því er ógnað víkur allt annað.

Ef að fótbolti er allt í einu orðin svona rosalega ómerkilegur að það er nánast ekki við hæfi að tala um hann á það sama við um alla aðra afþreyingu sem þó fylla upp í stóran hluta af sólarhringnum hjá flestum okkar.

Þegar Covid-19 gengur yfir verður fótbolti vonandi aftur jafn “mikilvægur” og hann hefur verið hingað til. Þetta getur við körfubolti fyrir aðra, handbolti, frjálsar, tónleikar eða bara hvaða afþreying/áhugamál/atvinna sem er. Fótbolti er reyndar lífsviðurværi hjá ansi stórum hópi fólks, bæði beint og óbeint og auðvitað langstærsta áhugamál heimsbyggðarinnar. Okkar maður orðaði þetta best þegar boltinn hætti að rúlla með Liverpool í úrvalsmálum…

Það er líka í lagi að hafa hugann við fleira en einn hlut, satt að segja er líklega engum hollt að læsa sig inni í 4-8 vikur og hugsa um fátt annað en Covid-19.

 

Rétt upp hönd sem trúir því að þessi stjórnarformaður hjá ensku úrvalsdeildarliði sé í alvörunni svona hneykslaður yfir siðferði en ekki að hugsa um hvað hans félag græðir mikið meira á því að byrja mótið upp á nýtt. Daniel Levy liggur hressilega undir grun sem dæmi. Það sáu allir í gegnum Karen Brady, hún var að venju eingöngu að hugsa um sig sjálfa.

 

Svona fyrir utan hvað það væri fáránlegt að afskrifa tímabil þegar það þarf í mesta lagi 2-3 leiki til að skera úr um hver vinnur mótið þá eru þarna punktar sem hafa jafnvel meiri áhrif á framtíð fjölda félaga en það hvort Liverpool myndi vinna deildina eða ekki. Liverpool kemur líklega jafn sterkt til leiks á næsta tímabili hvort heldur sem er en hvað með liðin þrjú sem sleppa við fall núna, hvað þá þau sem komast ekki upp fyrir vikið? Það eru engar smá upphæðir í gangi þarna og hafa gríðarleg áhrif á framtíð þessara liða. Fer Tottenham aftur í Meistaradeildina en ekki Leicester sem dæmi? Hvað með allar tekjurnar af þessu tímabili? Hver ætlar að rukka sjónvarpsstöðvarnar sem eru aðaltekjulind deildarinnar fyrir þetta tímabil ef það verður svo ekki klárað? Það þarf ekki að hugsa þetta lengi til að sjá hversu illa ígrundað þetta væri.

 

Þetta er svo auðvitað annar og virklega ógnvekjandi möguleiki, það er alls ekkert víst að Covid-19 eða tengdur faraldur komi ekki aftur upp á næsta tímabili. Það er ekki búið að þróa mótefni ennþá og tekur a.m.k. 12-18 mánuði skv. sérfræðingum á því sviði.

 

Það er nógu ógeðslega svekkjandi að við lendum í fokkings helvítis versta heimsfaraldri sem mannkynið hefur glímt við í heila öld akkurat þegar Liverpool er með besta knattspyrnulið í heimi, að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að það sem nú þegar er (svo gott sem) unnið verði ekki tekið af okkur.

Það má kannski segja að það sé siðferðislega rangt að viðra slíkar skoðanir enda á maður nóg með Covid-19?

16 Comments

 1. Frábær pistill.

  Alger gúrkutíð í fjölmiðlum og því er allt gert fyrir “smell” inn á hinar og þessar “fréttir” sem ganga út að það að það sé fleiri og fleiri lið í úrvalsdeildinni sem vilja “ógilda” tímabilið og nú er nýjasti frasinn “moral reason”. Give me a break!

  Samkvæmt því á sem sagt að ógilda tímabilið þar sem ástandið sé svo hræðilegt að við eigum ekki einu sinni að hugsa um fótbolta núna og því sé best og heiðarlegast að ýta þessu út úr systeminu okkar með því að ógilda þetta strax. Það sé hins vegar (skv. þessum sömu aðilum) í góðu lagi að byrja svo á nýju tímabili þegar ástandið verður vonandi betra, það má sko alveg láta sér hlakka til þess. Allir með hreint borð og fagna því að vera laus við kóróna-kvikindið. Allir glaðir!

  Þetta er svo mikil þvæla og vanhugsað að það hálfa væri nóg. Hvað þýðir það að ógilda þetta tímabil og byrja svo nýtt í haust (eða þegar aðstæður leyfa)? Jú, það þýðir það að allt verður vitlaust í fótboltasamfélaginu. Málaferlum mun rigna yfir enska knattspyrnusambandið frá þeim liðum (ekki bara í efstu deild) sem eiga allt undir að þetta tímabil verði klárað. Sjónvarpsstöðvarnar munu vilja fá peninga til baka frá félögum og óáænægjan og gremjan myndi krauma út um allt. Það yrði roslega gott “vibe” yfir því tímabili!

  Hvaða skynsamlegu rök er hægt að færa fyrir því að þegar við losnum loksins við þetta kórónu-kvikindi að byrja nýtt tímabil frekar en að klára þetta fyrst?

  11
 2. Takk Einar. Ég er búinn að blokka allar greinar um enska boltann að undanförnu af því að ég nenni ekki að lesa um hvað vara markvörður Swindon árið 1984 finnst um málið. Það var fínt að fá þessa samantekt.

  14
 3. Þetta er auðvitað alveg rétt sem þú segir að þetta snýst um “klikkbeit” og vonandi er það rétt að menn bíði hversu lengi sem þarf. Það er hins vegar ekki hægt að horfa framhjá því að það sem forseti UEFA hefur að segja skiptir máli. Enska deildin er ekki eyland í evrópu. Það erfitt að sjá hvernig þeir ætla að ákveða að klára ef t.d aðrar stórar deildir í evrópu slá af.
  Ég vona það besta en óttast það versta…
  https://www.fotbolti.net/news/28-03-2020/ceferin-timabilinu-liklega-slaufad-ef-ekki-verdur-haegt-ad-byrja-i-juni

 4. Fyrst að það er búið að opna Wuhan núna þá verður hægt að spila í Evrópu í júní eða júlí, hvort sem það verður fyrir lokuðum völlum eða ekki. Það er hægt að klára þetta mót á 3 vikum ef spilaðir eru 3 leikir í viku. Það er bara einfaldlega ekki hægt að núlla tímabil út og byrja bara uppá nýtt! Þetta er allt öðuvísi í NBA td. þar sem engin fellur eða er að vinna sér sæti í efri deildum. Fáránleg umræða!

  7
  • Er það fáránleg umræða?
   En umræðan hér sem byggir ekki á neinu nema óskhyggju? Hún er væntanlega hin allra eðlilegasta?

   3
   • “En umræðan hér sem byggir ekki á neinu nema óskhyggju? Hún er væntanlega hin allra eðlilegasta?”

    Þú mátt gjarnan útskýra hvað þú átt við með þessu.

    Horfum aðeins á hlutina eins og þeir eru:
    1. Við viljum væntanlega losna við þetta helvítis Covid-kvikyndi og að fótboltinn fari aftur í gang, ekki satt?
    2. Við höfum eki hugmynd um hvenær það getur orðið. Getur orðið eftir 2 – 3 mánuði, 6 mánuði eða eftir eitt ár. Við höfum ekki hugmynd um það á þessari stundu.
    3. Þegar hægt er að byrja að spila atvinnufótbolta aftur í Englandi þá verður að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Það er ekki hægt bara að ógilda heilt tímabil, þar bara 9 umferðir eru eftir, enda engin heilbrigð skynsemi í því. Endalaus málaferli og leiðindi sem slík ákvörðun myndi leiða af sér. Reynið bara að ímynda ykkur stemmninguna á næsta tímabili ef slík leið yrði valin. Hvaða rök er líka hægt að færa fram til að réttlæta slíka ákvörðun?

    11
   • ,,Endalaus málferli og leiðindi sem slík ákvörðun myndi leiða af sér.”
    Já, það verða einhver málaferli þegar að deildin verður blásin af og úrslit gerð ógild, en slík málaferli hafa ekkert uppá sig.
    Það eru fleiri lið en bara okkar að fara að tapa á þessu,. Real Sociedad og Sheffield United eru t.d. líkt og við mögulega að fara afreka eitthvað í fyrsta skipti.
    Auðvitað vill maður að tímabilið sé klárað, þar sem við eigum mjög góðan séns á að vinna PL í fyrsta skipti, og miðað við hvernig spilamennskan hrundi, áður en við spiluðum okkar allra síðasta leik þetta tímabilið, er maður alls ekki bjartsýnn á næsta tímabil. Sérstaklega í ljósi þess hvernig lið Klopp hafa áður gjörsamlega umturnast úr meistaraefnum í fallbaráttu-fóður á einu sumri.
    Það er hér um bil útilokað að þetta tímabil verði klárað, sammála athugasemd. 4.1, því miður.
    Við getum lifað í óskhyggjunni áfram eða sætt okkur við stöðu mála, áður dómurinn verður endanlega kveðinn upp.
    Wuhan hérað var opnað aftur vegna þess að stjórnvöld þar settu á ströng útigöngubönn sem fólk fór eftir, Bretarnir eru ekki að hlýða Víði.
    Þetta var frábært tímabil meðan það entist, takk fyrir mig félagar og sjáumst á því næsta!

    3
   • Þú mannst að þú átt að vera skrifa inná Rauðudjöflarnir ekki hér vinur.
    þú er inni á KOP.is þar sem LIVERPOOL aðdáendur, konur og menn með góð rök fyrir því sem þeir skrifa hér og þroska til að tjá sig um málefnin.
    það er allveg ljóst að tímabilið verður klárað.

    YNWA.

    3
 5. Vandamálið er að ef hinar stóru deildirnar ákveða að slútta tímabilinu, þá verður pressa a ensku að gera það líka, þetta snýst lika dáltið um hvað hinar deildirnar gera.

  Uefa mun setja evrópukeppnirnar i gang i haust, ef enska deildin verður a þeim tímapunkti að spila þetta tímabil, þa verða ensku liðin liklega útilokuð fra evrópu næsta vetur og það væri mikill skellur fyrir ensku deildina

  1
 6. Ef þetta tímabil verður gert ógilt, þá tilkynni ég það hér með að ég er hættur að horfa á enska boltann.

  9
 7. Það er einungis eitt enskt lið búið að tryggja sig inn í meisraradeildina, hver eiga hin að vera? Ef á að blása tímabilið af eitt enskt lið ? Ekkert lið frá Spáni ekkert lið frá Þýskakandi búið að tryggja sig inn. Hvernig á að afgreiða þetta? velja inn eftir síðasta ári velja inn eftir stöðunni eins og hún er í deildinni núna, mjög flókið.

   • Ég segi að það sé einfaldara að klára þetta tímabil, einfaldlega ekki hægt að byrja annað fyrr en þetta er búið.

Tímabilið verður klárað á Englandi

Költ hetjur Liverpool