Covid-19: Hvað er að gerast?

Þann 26.ágúst árið 1939 hófst 48.tímabilið í enska fótboltanum með eðlilegum hætti en keppni var hætt helgina eftir þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland. Seinni heimsstyrjöldin kom því í veg fyrir að hægt væri að halda úti deildarkeppni með reglulegum hætti þó fótboltinn hafi vissulega ekki stoppað að rúlla á meðan stríðinu stóð. Billy Liddell var 17 ára þegar stríðið hófst og missti Liverpool því af sjö árum hjá sínum besta leikmanni í sögunni fram að því. Keppni hófst að nýju árið 1946 og hefur enski boltinn rúllað sleitulaust síðan í 74 ár…þar til nú?

Hún er ekkert venjuleg bölvunin sem hvílt hefur á Liverpool undanfarin 30 ár en líklega toppar ekkert þetta tímabil. Ef allt er eðlilegt m.v. gang tímabilsins er Liverpool 1-2 vikum frá því að tryggja sér titilinn í fyrsta skipti eftir 30 mjög löng ár og 74 ár af samfelldum enskum fótbolta. Það hefur ekki komið heimsfaraldur sem breiðst hefur svona hratt og víða út í yfir heila öld. Tímasetning Covid-19 gæti ekki verið neitt meira dæmigerð fyrir okkur sem höfum fylgst með Liverpool undanfarin 30 ár.

Munurinn núna og þegar mótinu var aflýst með öllu árið 1939 er að þá var búið að spila eina umferð, ekki 3/4 af mótinu. Það er ekki hægt að slaufa bara mótinu núna eins og það hafi ekki gerst og byrja upp á nýtt í haust eða hvenær sem það verður aftur óhætt að spila fótbolta. Þó að það taki yfir ár er eðlilegast að klára núverandi tímabil við fyrsta tækifæri.

Það hjálpar einnig alveg rosalega að Liverpool er svo gott sem búið að vinna deildina, 25 stiga forysta núna, sú mesta í sögunni á þessum tímapunkti tímabils kemur sér alveg einstaklega vel því að guð má vita hvernig umræðan væri og bara hvernig rest myndi spilast ef munurinn væri svipaður og á síðasta tímabili. Þetta snýst auðvitað ekki bara um meistarana, líka þau lið sem falla, koma upp, Evrópu o.s.frv.

Það er engu að síður nokkuð ljóst að við fáum ekki eðlilega sigurhátíð, satt að segja snýst þetta bara um að fá titilinn staðfestan. Ég skal fagna honum einn heima í bullandi sóttkví ef það er það sem þarf. Liverpool verður jafn mikið meistarar þrátt fyrir það og það er aðalatriði frá fótboltalegu sjónarmiði.

Hinsvegar er erfitt að spá fyrir um hvenær næsti leikur verður spilaður.  Fyrir það fyrsta er í raun magnað að leikurinn í gærkvöldi hafi yfirhöfuð farið fram, hvað þá með áhorfendum og sérstaklega áhorfendum frá Madríd!

Höfuðborg Spánar er meira og minna komin í sóttkví og fyrir leik var búið að gefa út að það yrðu ekki áhorfendur á leikjum á Spáni! En þeir máttu ferðast til og frá Englandi eins og ekkert væri. Spænska deildin er núna daginn eftir komin í a.m.k. tveggja vikna pásu og það er bara tímaspursmál hvenær þeir tilkynna slíkt hið sama á Englandi. Það er ekkert sem bendir til að sú pása muni eingöngu vara í tvær vikur. Það er búið að fresta Meistaradeildinn og Evrópudeildinni um ókveðin tíma, NBA er búin að fresta tímabilinu um óákveðin tíma, MLS líka, Seria A er auðvitað komin á ís ásamt La Liga og fleiri bætast við nánast á hverjum klukkutíma núna. Líklega eru Úrvalsdeildarleikmenn byrjaðir að smitast.

Fréttir í dag herma einnig að til standi að aflýsa EM allsstaðar í sumar til 2021, sú ákvörðun satt að segja blasir við rétt eins og allur annar landsliðafótbolti enda galið að stefna á slíka fólksflutninga milli landa eins og staðan er núna. Deildarkeppnirnar eru líka mjólkurkúin og það er aðalatriði að klára þær, aukakeppnir eins og landsleikir og bikarkeppnir þurfa að víkja fyrir deildarleikjum.

Þetta eru Covid-19 pælingar út frá Liverpool og fótbolta, svo eru til einhverjir sem halda því fram að til séu mikilvægari hlutir en fótbolti! Það er auðvitað eftir að taka inn í myndina öll samfélagslegu áhrifin sem þessi heimsfaraldur kemur til með að hafa, bæði núna næstu vikur og svo í framhaldi eftir það.

Sérstaklega er útlitið svart með líklega verstu þjóðarleiðtoga sögunnar í t.d. bæði Bandaríkjunum og á Bretlandseyjum! Það er erfitt sjá eitthvað annað en hressilega kreppu framundan og mest ógnvekjandi eru auðvitað heilsufarsleg áhrif sjúkdómsins. Donald Trump og félagar eru allavega hættir að tala um þetta sé léttvægt kvef núna. Lausn Bandaríkjamanna er að loka bara augunum og rannsaka ekki þá sem hugsanlega eru smitaður, já og loka á random Evrópulönd sem hafa verið Trump erfið undanfarin ár. Bretar hafa einnig brugðist hægt við og maður óttast að þeir gætu stefnt í álíka mál og Ítalir hafa verið að glíma við undanfarnar vikur.

Þetta gæti allt saman haft langvarandi áhrif og breytt landslagi fótboltans þegar birtir til að nýju. Hrikalega svekkjandi auðvitað frá okkar sjónarhóli enda Liverpool bókstaflega aldrei verið betra.

Það er samt ekkert annað í boði en að vona það besta, fréttir frá Kína þaðan sem þessi ósköp byrjuðu herma að þeir telji sig vera komna yfir það versta sem verður vonandi þróunin fyrr en síðar á Vesturlöndum.

Viðurkenni að maður væri nú meira til í að vera svekkja sig á þessu hrikalega pirrandi tapi í gærkvöldi gegn leiðinlegasta liði knattspyrnunnar í staðin fyrir að vera spá í svona dökkri heimsmynd í ofanálag.

23 Comments

 1. Hvernig getur Einar dæmt núverandi leiðtoga BNA og Bretlands séu einu verstu þjóðarleiðtoga sögunar? Hvað hefur t.d. nýji forsetisráðherra Bretlands, Boris Johnson gert til verðskulda þennnan stimpill?. Virða niðurstöðu Brexit og þjóðaratkvæðisrétt Breta varðandi ESB og val þeirra að ganga úr ESB.
  Trump eins og staðan er hefur ekki ráðist á annað ríki eins og fyrirrennarar hans t.d. Bush með innárás á Írak og Obama með því reyna koma á ,bandarísku, lýðræði í Lýbíu og Sýrlandi með því styðja umdeiild islamista hópa til steypa einræðisherranum Assad og Gaddafi. En þegar botninum hvoft var þetta illa planað og núna er þessi lönd í rúst og hátt milljón dánir og milljónir á vergangi.
  Ég héld Einar ætti einbeita sér að fótboltanum og Liverpool og halda pólitík skoðanum sinnum annars staðar.

  4
 2. Haha ! Þessi er ekkert að djóka.

  Make Iceland great again !

  Or maybe soon after 30 days !

  4
 3. Hlutirnir eru fljótir að breytast. Í ljósi þess að Arteta hefur greinst með Covid-19, þá er nánast öruggt að næstu umferð verður frestað. Í framhaldi af því munu sjálfsagt fleiri leikmenn greinast í öðrum liðum, og því litlar líkur á að við sjáum liðið okkar spila fyrr en eftir margar vikur – í besta falli.

  Núna vonar maður bara að fólk sýni skynsemi varðandi heilsufar fólks, en ákveði jafnframt að klára deildina um leið og það verður hægt, þó það verði ekki fyrr en síðsumars. Þess vegna mætti sleppa bikarkeppnunum á næsta ári og spila deildina þéttar ef þess þarf til að koma öllum leikjum sem þarf inn á dagatalið.

  8
 4. Sælir félagar

  Ég er fullkomlega sammála Einari um þessa tvo aula og hann er algerlega frjáls að þessari skoðun sinni og þarf ekki að biðja einhvern Jón um leyfi til að tjá hana. Annars bara góður og þakka fyrir pistilinn

  Það er nú þannig

  YNWA

  23
 5. Neyðarfundur í Úrvalsdeildinni! Fastlega búist við frestun tímabilsins í nokkrar vikur, eða jafnvel að leiktíðin verði gerð ógild!!! (Guardian)

  2
 6. Ég sagðist ætla skipta yfir í Brighton um jólin ef Liverpool myndi klúðra þessari forystu niður. Það þyrfti jarðskjálfta eða Coronavírus til að koma í veg fyrir það. En þetta er Liverpool og ekkert er útilokað. Litið vit að spila fótbolta í augnablikinu. Treysti Trump að slaufa geimáætlun Starwars og finna bóluefni.

 7. Þar kom að því og margir talað um mig sem Fyrirsagna Simon. ég einfaldlega hafði áhyggjur af því að liverpool myndi ekki vera bunir að tryggja sér englandsmeistartitillinn áður en deildinni verði frestað osfrv. Og nú er það að gerast, á ekki von á því að við náum að spila meira en næstu helgi svo frestað um óákveðinn tíma. því miður,

  1
 8. Buid ad fresta Champions league og Europa league um oakvedin tima. Getum vid ekki sott um ad thetta verdi afturvirkt om nokkra daga. Klart mal ad Adrian var med Corona…

  5
 9. Maður óttast að þetta sé einungis fyrsta frestunin af mörgum. Ef marka má fagnandi og skælbrosandi Utd menn í kringum mig þá er tímabilið búið núna.

  2
  • …..worst case senarion þá verðum við áfram Evrópumeistarar fram á næsta ár 🙂

   1
 10. Ef flautað verður af, þá þarf að kóróna frammistöðu þessa tímabils á því næsta..

 11. Það þarf ekki að lyfta bikar til þess að staðfesta það að við erum lang besta lið Englands og Evrópu í dag. Þetta vita allir og þess vegna fagna stuðningsmenn annarra liða frestuninni.

  1
  • Það þarf ekki að lyfta bikar til að staðfesta að við vorum bestir fram í febrúar, en það þarf að lyfta bikar til að verða Englandsmeistarar.
   Vonandi að deildin verði ekki blásin af, en okkur lið hafa farið fram á það.

   • Nákvæmlega, ekki nóg að vita hverjir voru bestir heldur hverjir fengu dolluna til að lyfta upp.

  • Erum núverandi meistarar í CL og unnum einhverja skrautbikara fyrr í vetur. Það er nú meira en sumir geta státað sig af. Svo eigum við fullan rétt á EPL titlinum. Það yrði galið að núllstilla deildina núna. Er ekki búið að fresta leikjum til 4.apríl eða svo? Þá tryggjum við okkur dolluna.

   YNWA!

   1
 12. Ég er búinn að upplifa það að Liverpool varð Evrópumeistari, Heimsmeistari og við unnum PL þegar Salah skoraði seinna markið á móti Man U. Allt á tímabili sem Liverpool var raunverulega besta félagslið í heimi. Eg verð Klopp og þessum leikmönnum ævinlega þakklátur. Sama hvernig þetta endar, þá verður talað um þetta lið í sömu setningu og Man U undir Fergusson, Chelsea undir Mourinho, Arsenal undir Wenger og City undir Pep. Það getur engin neitað gæðum þessa hóps og vinnusemi.

  6
 13. Hvernig sem fer með þetta allt saman, þá verður aldrei hægt annað en að, ef tímabilið verði sagt búið, að staðan eins og hún er í dag verði látin standa. Kemur vissulega ekki mikið við okkar lið, enda svo gott sem búnir að vinna titilinn. Annað mál með önnur lið í baráttu hér og þar, en shit happends, meðan aðrir verða ofurglaðir, verða aðrir fúlir. Á hinn bóginn, þá er til fólk sem gerir allt til þess að draga í efa réttmæti Liverpool til titilsins, en mest verður það no name fólk.

  YNWA

Liverpool 2-3 Atletico Madrid

Engin fótbolti í hálft ár?