#Mbappe2020 – Gengur ekki upp!

Allt frá því Coutinho var seldur höfum við talað um að það vanti í raun eina stórstjörnu í viðbót í framlínuna og núna loks þegar Liverpool lendir í smávægilegum mótvindi sést að sóknarlínan má alveg við einum í viðbót sem er af sama kaliberi og Mané, Salah og Firmino. Umræða um að kaupa mann í staðin fyrir einhvern af þessum þremur skil ég hinsvegar ekki. Afhverju að selja einhvern þeirra? Afhverju ættu þeir að fara? Coutinho er mjög gott víti til varnaðar svo nærtækt dæmi sé tekið. Ef að eitthvað lið er tilbúið að borga þær £150m+ sem þarf hef ég engar áhyggjur af því hvernig Liverpool leysir en sé enga ástæðu til að gera svo róttæka breytingu á hópnum næsta sumar.

Liverpool er á allt öðrum stað í dag en liðið var þegar Firmino, Mané og Salah voru keyptir og það skemmtilegasta við orðróm eins og #Mbappe2020 er að þegar leikmaður í hans gæðaflokki hugsar sér til hreyfings er Liverpool eitt af liðinum sem kemur til greina sem næsti áfangastaður. Besta liðið í boltanum í bestu deildinni og Klopp var að skrifa undir nýjan samning til 2024. Rekstur félagsins er farin að minnka bilið í ríkustu liðin og tækilega séð gæti Liverpool að öllum líkindum pungað út rúmlega £200m plús stærsta launapakka knattspyrnunnar í Mbappe ef það væri virkilega það sem þeir teldu best og hagkvæmast fyrir framtíð félagsins. Mbappe er með samning út tímabilið 21/22 og fer því ekki ódýrt.

Dæmið gengur samt bara enganvegin upp fyrir mér. FSG sagði frá upphafi að þeir þyrftu að hugsa dæmið öðruvísi til að koma Liverpool í fremstu röð aftur, vera snjallari en andstæðingarnir. Það magnaða er að þrátt fyrir samkeppni við ríkustu og dýrustu lið knattspyrnusögunnar, bæði í deildinni heima og Evrópu tókst þeim einmitt þetta. Þeir stóðu við loforðið. Það að koma Liverpool svona sannfærandi aftur í allra fremstu röð án þess að eyða nándar nærri jafn mikið er stærra afrek en þegar þeir brutu bölvun Bambino á bak aftur í Boston. Afhverju í veröldinni ætti Liverpool að hætta núna að treysta á módelið sem kom liðinu í fremstu röð?

Meginstefið í því að vera snjallari eða réttara sagt skynsamari en andstæðingurinn flest ekki hvað síst í því að kaupa einmitt ekki leikmenn eins og Mbappe. Þegar hann fer næst milli liða er nokkuð ljóst að hann verður bæði dýrasti og launahæsti leikmaður í heimi. Persónulega myndi ég eins og allir aðrir auðvitað heitt og innilega vilja fá hann til Liverpool, en ég treysti Klopp og FSG til að finna aðra lausn sem hentar Liverpool ekki síður vel og gengur upp innan þess ramma sem félagið starfar.

Fyrir það fyrsta þarf Liverpool ekki stórstjörnu eins og Mbappe í frammlínua á meðan Salah, Mané og Firmino eru allir á hátindi ferilsins. Stórstjarna passar reyndar ekkert sérstaklega inn í hugmyndafræði Klopp þó vel megi vera að Mbappe myndi smellpassa í hópinn félagslega. Hann myndi auðvitað fullkomlega sprengja launastrúktúr félagsins með óljósum afleiðingum. Hvernig hann passar inn tölfræðilega veit ég ekki en Klopp myndi að sjálfsögðu finna leið til að ná því besta út úr besta sóknarmann boltans í dag. Ef að Real Madríd eða Barcelona selja æfingasvæðið eina ferðina enn og fjármagna kaup á svona leikmanni er það í góðu lagi mín vegna, svo lengi sem þeir láta okkar menn í friði.

via GIPHY

Liverpool þarf bara alls ekki að selja neina stórstjörnu en ef svo færi eru þeir allir með langa samninga og enginn þeirra færi fyrir minna en Coutinho fór á myndi maður ætla. Mbappe, Sané, Haaland, Werner, Aubamayang o.fl. í þessum sama eða svipuðum klassa og okkar menn eru líklega mun auðveldari skotmörk. Sterling gæti jafnvel bæst við þessa upptalningu ef bannið heldur hjá Man City.

Mbappe gengur ekki upp því miður en með Afríkukeppni á miðju tímabili og jafnvel Ólympíuleika líka er ljóst að Liverpool þarf að hressa eitthvað upp á breiddina í sókninni. Okkar menn mega líka alveg við meiri samkeppni en þeir eru að fá núna.

Klopp hefur a.m.k. þrisvar sinnum þróað góða sóknarmenn í heimsklassa sóknarmenn, Lewandowski kom til Dortmund frá Póllandi. Þegar hann fór kom Aubameyang ári seinna frá St. Etienne þar sem hann var kantmaður. Salah er svo orðinn einn af þremur bestu sóknarmönnum í heimi núna eftir að hann kom til Liverpool. Klopp hefur búið til sína eigin Mbappe hingað til.

Blessunarlega þarf Klopp ekki lengur að byrja alveg frá grunni og kaupa alveg hráa leikmenn en ef að Mbappe gengur enganvegin upp gæti Timo Werner hinsvegar ekki gengið neitt mikið betur upp. Er leikmaður á markaðnum í dag sem tikkar betur í öll boxin?

Hann er að skora svipað mikið fyrir Leipzig í Þýskalandi og Mbappe er að gera fyrir PSG í Frakklandi. Werner er með 25 mörk og átta stoðsendingar það sem af er þessu tímabil í deild og Meistaradeild á meðan Mbappe er með 23 mörk og 9 stoðsendingar. Ekki að ég vilji bera þá saman, þakið hjá Mbappe held ég að sé í Messi/Ronaldo hæðum, ekki alveg svo hátt hjá Werner.

Werner er 24 ára sem er einmitt aldurinn sem Liverpool er að kaupa leikmenn á núna undanfarið og hann spilar fyrir RB Leipzig, félag sem spilar svipaða tegund fótbolta og Klopp leggur upp með og leitar eftir sömu einkennum hjá sínum leikmönnum, innan sem utan vallar. Til að toppa þetta er Werner með vel viðráðanlega klásúlu og hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á að ganga til liðs við Liverpool.

Þetta hlítur að snúast um það hvort hann passi inn í módelið sem Michael Edwards og hans menn vinna eftir fyrir Klopp því að augljósara getur þetta ekki verið á pappír. Hann getur leyst öll þau hlutverk sem fremstu þrír eru að leysa þó hann sé líklega bestur fremst. Uppfærð útgáfa af Origi sem hentar leikstíl Liverpool mun betur? Komi Werner þarf það alls ekki að þíða endalok núverandi sóknartríós. Frekar bara aukin samkeppni. Framtíð Shaqiri og möguleikar Brewster væru hinsvegar í mun meiri hættu.

Það er engin tilviljun að Liverpool er nú þegar búið að kaupa þrjá fyrrverandi leikmenn Red Bull samsteypunnar og ekki skemmir fyrir að sambandið við Red Bull virðist vera mjög gott.

Jadon Sancho er annar kostur sem gæti mögulega gengið upp og er mjög spennandi. Hann er farinn að skila tölum núna sem gefa til kynna að þarna er alvöru stórstjarna á ferðinni. Hann er reyndar bara 20 ára (25.mars) og því ekki víst að hann væri strax í Liverpool liðið en þarna er mögulega framtíðarstórstjarna í 10 ár eða leikmaður sem er líklega ekkert að fara lækka í verði. 16 mörk og 17 stoðsendingar eru alvöru tölur sem hann er að skila það sem af er tímabili.

Hann er þar að auki enskur landsliðsmaður og samherji t.d. Trent, Gomez og Henderson. Hann fór svo upp yngri landsliðin með Brewster. Samband Liverpool og Dortmund myndi einnig vonandi hjálpa eitthvað til í viðræðum um hann. Sancho myndi eðlilega kosta töluvert en líklega ekki helminginn af kaupverði Mbappe sem dæmi. Eins myndi hann ekki rústa launastrúktúrnum. Þetta er nákvæmlega leikmaðurinn sem ég trúi að FSG sé alveg tilbúið að fjármagna.

Hafandi sagt það þá fór hann frá Man City til að fá spilatíma sem var hárétt ákvörðun og spurning hvort Liverpool sé besta skrefið fyrir hann næst á ferlinum? Eins myndi koma hans takmarka mjög möguleika Harvey Elliott sem er að ég held í svipuðum gæðaflokki. Klopp er ekkert að grínast þegar hann segist horfa til þeirra sem eru nú þegar hjá félaginu áður en keypt er nýja leikmenn. Þessir ungu strákar verða að fá sénsinn á einhverjum tímapunkti. Besta dæmið í dag er Trent Alexander-Arnold, það var magnað þegar Liverpool fór inn í nýtt tímabil án þess að kaupa hægri bakvörð vitandi að Clyne, landsliðsbakvörður Englendinga væri meiddur út tímabilið. Trent var ekki einu sinni fyrsti kostur fyrir hann þegar það tímabil byrjaði. Hvar væri Trent ef Clyne hefði aldrei meiðst? Arsenal sem dæmi gæti verið að fá svipuð verðlaun fyrir að spila hinum 18 ára Saka á þessu tímabili þó það sé vissulega auðveldara í 10. sæti en 1. sæti.

Þó að Werner blasi við og Sancho sé mjög spennandi er alveg eins líklega að Liverpool spái ekkert í vinsældarlista mánaðarins og haldi áfram að fara fullkomlega sínar eigin leiðir á markaðnum. Mögulega er nú þegar búið að kaupa næsta leikmann sem fer í sama klassa og skytturnar þrjár í Minamino, leikmaður sem fáir höfðu heyrt um síðasta sumar og kom nánast frítt. Hann er ekki að sýna það núna en flestum ætti að vera ljóst að hann á meira en nóg inni. Brewster gæti alveg komið reynslunni ríkari til baka frá Swansea, hann er ekki ennþá orðinn tvítugur og er að spila fullorðinsfótbolta í fyrsta skipti. Það er ekki langt síðan hann var meira efni en Sancho og Hudson-Odoi og Liverpool hafði mikið fyrir því að sannfæra hann um að vera áfram hjá félaginu. Origi skrifaði svo undir nýjan samning í sumar þó það útiloki ekkert að hann rói á önnur mið áður en sá samningur rennur út. Engin af þessum mönnum hefur samt gripið tækifærið í vetur og Salah, Mané og Firmino mega alveg við ferskri alvöru samkeppni til að viðhalda neistanum.

Hverjir fara? 

Fyrir utan einn sóknarmann í viðbót held ég að það sé ekki mikill vilji til að stækka hópinn mikið, ef að einhver fer þá kemur annar í staðin.

 • Shaqiri myndi maður ætla að fari í sumar eða mikilvægi verði ennþá takmarkaðara. Endalaus meiðsli hafa gert það að verkum að hann hefur ekkert getað leyst sóknartríóið af í mesta leikjaálaginu. Best væri að fá Werner/Sancho í hans stað og bæta þannig við núverandi hóp.
 • Samningur Lallana rennur út í sumar og kveður hann Liverpool á jákvæðum nótum eftir annars endalaust pirrandi feril hjá félaginu. Það er mikið í lagi að fá ferskt blóð inn fyrir hann á miðjuna, helst einhvern sem myndi veita núverandi miðjumönnum alvöru samkeppni og jafnvel taka af þeim sætið. Kai Havertz er mest spennandi nafnið í umræðunni en líklega er arftakinn nú þegar á mála hjá Liverpool í Curtis Jones. Harry Wilson eða jafnvel Harvey Elliott gætu einnig komið til greina sem dæmi, þetta getur verið fljótt að breytast hjá þessum ungu leikmönnum. Lallana er auðvitað sjötti valkostur á miðjunni hjá Liverpool sem gerir einhvern úr akademíunni ennþá líklegri sem arftaka.
 • Vonandi endar Naby Keita tímabilið með stæl og festir sig betur í sessi því ferill hans hjá félaginu virðist annars vera að fjara út.
 • Gini Wijnaldum er að ég held eini byrjunarliðsmaðurinn sem á lítið eftir af samningnum en það er erfitt að sjá sölu á honum fyrir sér. Afhverju ætti að selja hann og afhverju ætti hann að fara?
 • Dejan Lovren er líklegastur af varnarmönnunum til að fara, enn ein staðan þar sem fyrst verður horft til þess hvað er til fyrir áður en skoðað verður frekari leikmannakaup. Það er ekki auðvelt að sannfæra miðvörð að ganga til liðs við félag með Gomez og Van Dijk í sömu stöðu. Hollensku miðverðirnir í akademíunni sem voru báðir komnir í Meistaraflokkslið í Hollandi gætu fengið stöðuhækkun í staðin
 • Clyne rennur út á samningi loksins í sumar, þar er pláss fyrir bakvörð sem nokkuð örugglega verður bara Neco Williams eða Ki-Jana Hoever.

Það gæti skapast töluvert svigrúm á launaskrá í sumar og klárlega pláss fyrir 2-3 nýja leikmenn. Það er nákvæmlega engin þörf á mikið meiri breytingum en það. Eins er engin ástæða til að örvænta þó engin af Werner, Sancho, Havertz, Mbappe eða einhver af þessum helstu nöfnum koma ekki. Það er alveg jafn líklegt að næsta stjarna komi frá Norwich sem dæmi. Andy Robertson og Wijnaldum ættu auðveldlega að kála öllum fordómum gagnvart slíkum leikmannakaupum.

29 Comments

 1. Vel gert að koma þessu svona frá sér kl. 03:24 á sunnudagsmorgni!

  6
  • Eina Matthías hefur alltaf verið þekktur fyrir að vera árrisull. Þarna var hann sjálfsagt búinn að taka morgunskokkið og gefa hestunum.

   7
 2. Sælir félagar

  Það er annar bragur yfir manni núna eftir sigurleik en var eftir leikinn þar á undan. Sem betur fer. Nú sér maður á netinu að einhverjir pælarar eru að segja að Liverpool gæti verið búið að vinna titilinn nú þegar. Til þarf M. City bara að tapa næstu þrem leikjum. Gaman að þessu en ekki mjög raunhæft. Hinsvegar getur það gerst að bilið í titilinn minnki í tvo leiki eftir daginn í dag. MU er búið að vinna City tvisvar á leiktíðinni og gæti þess vegna alveg unnið í dag.

  Hvað pistil Einars M varðar þá vil ég þakka honum fyrir hann. Við erum um margt á sömu slóðum og ég hefi til dæmis aldrei skilið þá umræðu að selja einn af þremur fremstu og kaupa Werner, Sancho, Havertz eða Mbappe í staðinn. Mér finnst það bull. Það á að bæta einhverjum þeirra við sem bakkup fyrir hina þrjá. Þar tel ég að vísu Mbappe ekki vera inni í myndinni af ástæðum sem Einar bendir á. Svo er unglingabekkurinn að verða nokkuð þétt setinn af stórefnilegum leikmönnum sem bíða færis.

  Hvernig sem það fer allt saman þá er framtíðin bæði björt og lofandi. Þó það hafi verið leiðinlegt að tapa bikarleiknum og verði jafnvel en verra að tapa einvíginu á móti A. Madrid þá er titillinn það sem gefur okkur mest á þessari leiktíð. Með hann í húsi með þeim fádæma yfirburðum sem liðið hefi sýnt í deildinni er ekkert nema gleði framundan hverju svo sem hún verður blandin.

  Það er nú þannig

  YNWA

  5
 3. Takk fyrir þessar umræður. Fróðlegt verður að fylgjast með hvernig menn standa að breytingum á liðinu næsta sumar. Ekki er líklegt að einhver panik kaup verði í gangi enda engin þörf á því. Eins og staðan er núna eru að mínu mati fullmargir meiðslapésar í liðinu. Betri er traustur meiðslalitill leikmaður heldur en stórstjarna sem alltaf er meidd. Clyne, Shagiri, Lallana og Lovren eru mikið meiddir. Allt fínustu leikmenn amk þegar þeir eru ómeiddir í einhvern tíma en ef ég fengi að ráða myndi ég selja þá alla. Halda frekar Origi sem er minna meiddur. Allison, Matip, Keita, Hendo, Fabhino og Milner hafa allir misst úr leiki vegna meiðsla. Auðvitað er tímabilið langt og erfitt og ekki hægt að komast hjá einhverjum meiðslum en þykir mér þetta meiðslavesen vera tímabil eftir tímabil stöðugt yfirvofandi hjá okkar liði og oft valdið erfiðleikum og jafnvel titlum. Ef hreinsað verður til í hópnum þá er spurning hvort einn eða tveir ungkálfar geti nálgast aðalhópinn meira og leyst af í fleiri leikjum. Hvar þurfum við helst leikmenn? Einn bakvörð, fjölhæfan miðjumann og sóknartengil? Ég hef ekki áhuga á að fá Mbappe enda bæði dýr og yrði þungur á fóðrum og yrði ekki keyptur til að vera á bekknum. Frekar hef ég áhuga á Werner þ. e. ef hann er inn í myndinni. Síðan er það alltaf spurning hverjir eru í Liverpoolklassa og hverjir falla inn í Klopp kerfið.

  6
 4. Mér finnst óþarfi að gefa Lallana ef hann vill vera áfram. Leiðtogi í liðinu partur af 3 amigos með Hendo og Milner genuine draft. Hann er búinn að eiga fínt tímabil, kemur reglulega inná og byrjar stundum. Halda.

  4
  • Lallana getur verið svo góður í fótbolta stundum. Fínt að hafa hann.

   1
 5. Takk fyrir þetta! Vá, þvílíka umfjöllunin.

  Ég er til í að fá gaurinn en ekki á skrilljónir. Hann má koma ef prísinn er góður fyrir okkur. Við erum ekki að fara að brjóta FFP-reglurnar eins og sittý og fleiri. Við erum ekki að fara að selja æfingasvæðið eða fá skuldaábyrgð hjá bresku drottningunni. Talandi um FFP þá er ég gríðarlega spenntur að vita hvað FA ætla að gera í þessu sittý-máli. Ég vil fá 2014 titilinn enda er búið að finna út að ljósbláa liðið svindlaði. Svo einfalt er það.

  4
 6. Flottur pistill Einar
  Mbappe er leikmaður sem maður langar ekki að sjá hjá Liverpool. Ekki vantar hæfileikana en hann minnir mann á C.Ronaldo týpuna sem er stærri en liðið og finnst að allt eigi að snúast um sig en það er andstæðan við það sem Liverpool eru að gera.
  Sancho/Werner væru flottir kostir og ef maður mætti velja þá tæki maður Sancho(finnst Harvey Elliott ekki í hans gæðaflokki eins og er en kannski í framtíðinni).

  Annars er maður bara að njóta þessa stundina að skoða stigatöfluna reglulega og klípa sig því að þetta er ótrúlegt.

  YNWA

  2
  • Auðvitað er 16-17 ára Harvey Elliott ekki jafn góður og tvítugur Sancho er núna, er að meina að þetta er að ég held svipað talent. Þar spilatíma til að sanna það sem verður erfitt hjá Liverpool reyndar

   • Við vonum auðvita að Elliott verður rosalega góður og vonandi verður hann í kringum liðið á næsta ári. Hann hefur sýnt flotta leiki en til þess að komast í Sanchos gæði þá þarf hann að halda vel á spilunum.

    Held að Klopp dauðlangar að spila stráknum og vonandi fær hann fullt af tækifærum í framtíðinni en hann þarf að vinna fyrir því.

    1
 7. Ég væri alveg til í að fá Werner – fjölhæfur og skorar reglulega sem er eitthvað sem Firmino gerir allt of lítið af,þó vissulega skili hann mikið til liðsins í vinnuframlagi.

  Mbappé er allt of mikið lottó með stöðugleikann í launastrúktúrnum og svo væri Havertz hörku leikmaður á miðjuna og myndi veita mönnum þar samkeppni,því Keita er bara númeri of lítill fyrir þessa deild,því miður.

  2
  • Werner lítur vel út en hann hefur ekki spilað á Englandi og alls ekkert gefið að hann myndi skora meira en Firmino. Samt mjög spennandi kostur en kostar eflaust skildinginn.

   4
   • Já,eflaust en varla 300 millur eins og verið er að tala um í sambandi við Kylian þó svo að Nike tæki á sig kaupin – kannski um og yfir 100 og mun minni áhætta.

    En ég er alveg til í Mbappé sko )

    1
 8. Svona hart á litið þá kæmi manni ekkert á óvart að Mbappe kæmi til okkar, svona í ljósi þess að Nike er fyrst og síðast að hugsa um treyjusölu, og myndu þal. sponsera slík kaup. En þar fyrir utan þá virðist Timo Verner vera líklegastur. Það geta verið alls kyns pælingar í gangi, en fyrst og síðast þá eru það okkar fólk sem á endanum taka ákvörðunina, og þar við setur punktur

  YNWA

  • Gleymdi að koma inn á það í pistlinum, ég held að Nike hafi ekkert að segja um plön Klopp og Edwards. Mögulega hjálpar tengslanet þeirra eitthvað en ég man ekki eftir að margir leikmenn hafi farið milli liði af kröfu Nike. Rosalegur fjöldi stuðningsmanna Liverpool og liðið sem við erum að horfa á í dag er það sem fyrst og fremst heillar Nike og aðra styrktaraðila. Rétt eins og með leikmenn eru það frekar styrkaraðilarnir sem berjast um Liverpool frekar en öfugt.

   4
 9. Afsakið þráðránið…….en það eru bara 6 stig í titilinn! 🙂

  20
  • Engin ástæða til að afsaka sig fyrir slíkan fréttaflutning!

   Vissi alltaf að Ole væri okkar maður.

   16
 10. Er ekki búinn að skoða leikjadagskrá City en geri ráð fyrir því þeirra næsti deildarleikur verður á undan Liv-Eve þar sem okkar leikur er mánudagsleikur kl. 20.

  Þannig að mér reiknast til að ef City klúðrar sínum og við leggjum Everton…..þá verður partí!!!!!

  5
  • Ef að þeir klúðra öðrum leiknum (Arsenal eða Burnley) dugar sigur á Goodison. Ef þeir tapa báðum stendur Everton heiðursvörð…

   17
   • Hvernig er það með þennan heiðursvörð?

    Er það bara fyrsta (úti)lið sem keppt er við eftir að áfanganum er náð sem stendur hann, eða líka öll önnur útilið út tímabilið? Eða nær þetta yfir öll lið bæði heima og úti?

    Alla vega ef það er bara fyrsta útiliðið, þá er spurningin fyrir MC, hvort þeir ættu að standa í því að reyna að vinna alla leiki í töpuðu móti, eða hitt að koma heiðursverðinum yfir á Evertonmenn og losna sjálfir við það með því að tapa nægjanlega miklu. … bara að sá inn deyfandi huga- og efsemdarkornum hjá keppinautum :-p

    P.S. Ég er ekki að jinxa neitt, Anfield hefur talað: https://www.youtube.com/watch?v=IbtGFFvNxvw

 11. Hlýtur að vera geggjað að eiga miða á þar næsta leik, heima á móti Crystal Palace. Þar eru allar líkur á því að titillinn sigli í höfn!

  4
 12. Þetta er að fara að gerast, kæru samherjar! Þrjatíu, fokkings, ára bið á enda er að verða búin!

  7
 13. Ef City tapar báðum leikjum sínum gegn Burnley og Arsenal þá fengjum við að sjá í síðustu níu leikjum okkar í deildinni lið standa heiðursvörð.

  Það væri sjón sem vert væri að sjá…..

  Er það skylda eða optional að standa heiðursvörð fyrir liðin?

  • Held þetta sé bara venja í fyrsta leik eftir að titillinn hefur verið tryggður.

   4
   • Já, ég held líka að það sé bara gert í eitt skipti þ.e. fyrsta leiknum eftir að lið hefur tryggt sér titilinn.

    1
   • Ok, sé nú að hér eru Daníel og Svavar að svara spurningu minni einhverju ofar.

Liverpool 2 – Bournemouth 1

Gullkastið – #Meistararívor