Hádegisleikur gegn Bournemouth – Upphitun

Það hlaut að koma að því. Hin klassíski slæmi kafli. Nokkrir leikir í röð þar sem liðið nær sér ekki í gang, finna ekki gírinn sem þeir þurfa og að lokum ná þeir ekki að kreysta fram ómögulegan sigur. Allt í einu búnir að tapa þrem leikjum í þrem keppnum á örstuttum tíma. Á meðan deildin er svo gott sem búin, er bikarinn því miður búin hjá okkar mönnum og bakið upp við vegg í Meistardeildinni.

Við þessar aðstæður er nokkuð ljóst hvað liðið vill. Leik sem þeir geta unnið öruggt, náð upp taktinum fræga á móti liði sem er í basli og er ekkert sérstakt í að liggja til baka í 6-3-1. Það væri líka óskandi ef þetta væri á heimavelli og Klopp væri að vinna í að peppa stúkuna upp löngu fyrir leik. Þetta væri líklega draumaleikurinn við núverandi aðstæður.

Í allt öðrum fréttum, Bournemouth er að koma í heimsókn á morgun og hefst leikurinn hálf eitt.

Andstæðingurinn – Bournemouth.

Ef ég ætti að veðja á hvaða lið flestir kop.is lesendur mundu kalla sitt „annað lið“ væri það Bournemouth. Fyrir mörgum árum skrifaði Einar Mattías tvo risa pistla um liðið og fóru örugglega margir lesendur hér að hafa annað augað með strákunum hans Eddie Howe, ég þar með talin.

Síðan þá spændi suðurstrandarliðið sig upp í efstu deild og hafa verið þar lengur en nokkrum manni datt í hug. Þeir hafa gert það með því að neita að gefast upp á prinsippum sínum, spila sinn bolta og halda óbilandi trú á þjálfarunum þegar mörg lið hefðu gefist upp á honum.

En mögulega hefði verið rétt af Eddie Howe að segja skilið við liðið fyrir þetta tímabil. Þeir hafa verið í svakalegu basli og sitja nú í fallsæti. Það er ástæða fyrir að lið af þessari stærðargráðu eiga oftast stutta viðkomu í deild þeirra bestu, til þess að festa sig í sessi þarf bæði fádæma dómgreind í leikmannamálum og smá heppni. Síðastu níu mánuði hefur hvorugt verið tilfellið hjá Bournemouth.

Tölurnar tala sínu máli: Ekki nema sjö sigrar í 28 leikjum, aðeins fjögur lið með færri mörk skoruð, aðeins fjögur lið fengið á sig fleiri mörk, aðeins búnir að halda hreinu fjórum sinnum í deild. Þeir geta huggað sig við að pakkinn er þéttur á botni deildarinnar, þó Bournemouth séu í fallsæti gæti einn sigur skilað þeim upp í fimmtánda, vonum bara að sá sigur komi eftir viku en ekki á morgun.

Í markaskorun eru það Wilsonar sem eru að standa sig best. Harry Wilson okkar hefur staðið sig frábærlega með sjö mörk af miðjunni. Ég efa stórlega að hann eigi sér framtíð hjá Liverpool en ef Bournemouth tekst að halda sér uppi kæmi núll á óvart ef Harry fer varanlega til Bournemouth á væna summu. Hinn góði markaskorarinn þeirra er Callum Wilson sem er einnig er með sjö mörk skoruð. Þeir tveir samanlagt eru með helming marka liðsins á tímabilinu.

Síðan Bournemouth komu upp hafa leikir þeirra við Liverpool alla jafnan verið stórskemmtilegir, ekki síst vegna þess að Liverpool hafa unnið þá alla nema tvo. Bournemouth náðu í einn sigur og einu sinni gerðu liðin jafntefli. Bournemouth eru með leikstíl sem alla jafna hentar Liverpool ágætlega og þeir eru ekkert sérstaklega góðir í að pakka í vörn. Okkar menn á sínum degi eiga einfaldlega að vinna Bournemouth. Bara að fótbolti væri svo einfaldur.

Okkar menn

Þessi vika hefur ekki verið dans á rósum fyrir okkar menn. Ósigurinn gegn Chelsea var líklega lágpunktur tímabilsins hingað til. Þær fréttir gengu að bróðir Keita hefði látist í gær í skelfilegu bílslysi í gær. Sem betur fer reyndust þær fréttir vera rangar, það var frændi hans sem var rútunni og lifði sem betur fer af. Hörmulegt slys í alla staði.

Það blótuðu líklega margir þegar ljóst var í dag að Alisson Becker hafi meiðst á æfingu og verði frá í einhverja leiki. Adrian okkar var ekki beint hetja á móti Chelsea, ætla að ganga út frá að hann mæti með hausinn skrúfaðan rétt á sig. Ætla reyndar líka að giska á að Bournemouth fái ekkert sérstaklega mörg færi í leiknum, en oft geta það verið erfiðir leikir fyrir markmenn þegar þeir hafa ekkert að gera í 89 mínútur og þurfa svo að bregðast rétt við.

Í öðrum fréttum af liðinu þá er ekki séns (samkvæmt Klopp) að Hendo spili leikinn gegn Bournemouth en hann gæti náð leiknum gegn Atletico.

Þannig að hverjir spila? Ég er búin að sætta mig við að Andy Robertson fái aldrei neina hvíld, þannig að ég held að vörnin verði þessi klassíska Andy, Gomez, Van Dijk og Trent. Framlínan velur sig sjálf. Þá er miðju spurningin mikla. Ég vil sjálfur fá Milner inn til að urra aðeins á menn. Fabinho er búin að vera skugginn af sjálfum sér síðustu vikur, en er betra að gefa honum einn leik en til að spila sig í gang eða stinga Wijnaldum(eða Milner) í hlutverk hans? Eftir að hafa séð Chelsea leikinn hallast ég af því síðarnefnda. Ætla að lokum að giska á Keita taki síðasta miðjusætið. Þá mun liðið líta svona út.

Spá

Skyldusigrar eiga það til að vera bananahýði. Ég óttast Bournmouth ekki neitt, en ég óttast að leikmenn séu komnir með hugann við Evrópuleikinn. Ég væri kannski þeim mun stressaðri ef vikan hefði ekki verið svona slæm hjá Liverpool. Rauðliðar munu ekki mæta í þennan leik til að ná í þrjú stig. Þeir mæta í þennan leik til að sanna að þeir eru besta liðið í heimi, þeir mæta í þennan leik til að taka út pirring á því að hafa tapað tvisvar í röð, þeir mæta í þennan leik til að ná sér í skammt af sjálfstrausti eftir erfiða viku. Liverpool 4, Bournemouth 0.

6 Comments

    • Hérna, ef ég segi að þetta hafi verið prufa á hversu vel menn lesa pistilinn, kaupir það einhver?
      Nei segi svona. Myndin gerð síðust og þar með í flýti, wordpress ekki að leyfa mér að laga þetta svo þetta verður svona áfram.

      3
      • WordPress virðist hætt að vera í fýlu, ég gat a.m.k. sett inn rétta mynd.

        2
  1. Takk fyrir þessa upphitun. Skemmtileg staðreynd, eða ekki svo skemmtileg, á þessu augnabliki er Liverpool búið að tapa síðasta leik í fjórum keppnum upp á síðkastið , deild, CL, FA og deildarbikar. Ef við förum lengra aftur þá bætist Góðgerðarskjöldurinn við sl sumar. Jafnvel er hægt að telja sex ef við teljum síðasta leik í Evrópudeildinni fyrir nokkrum árum. Þetta er afrek útaf fyrir sig sem ég vona að verði ekki jafnað i bráð né lengd.
    Þessi leikur er einfaldlega mikilvægasti leikur tímabilsins í deildinni. Það þarf að vinna titilinn sem fyrst og ekkert bull og kæruleysi. Mikið var gott að Adrian tók leik um daginn og er því ekki eins ryðgaður og annars gæti verið. Ég trúi á okkar lið og að þeir nái eðlilegum úrslitum og jafnvel tveimur mörkum betur en það. Spurning hvort inn leki eitt mark sökum kæruleysis og vandræðagangs en niðurstaðan samt öruggur sigur.

    3
  2. Ég er sammála höfundi um spána en ég vænti þess að Fabinho spili á kostnað Keita.

    Varðandi aukalið sem maður heldur jafnvel með, þá eru þau nokkur hjá mér.
    Fyrst ber að nefna West Ham. Þeir spiluðu í annarri deild þegar ég byrjaði að fylgjast með enska boltanum þ.a. þeir voru ekki keppinautar Liverpool. Voru hins vegar með stórskemmtilegt lið, bikarmeistarar og voru með landsliðsmanninn Trevor Brooking í broddi fylkingar.
    Næsta lið er Newcastle, nokkrir leikmenn Liverpool fóru þangað (í aðra deild) þ.a. maður gat haldið áfram að fylgjast með þeim. Svo spila þeir jú í mjög flottum búningum.
    Síðustu árin hefur svo Southampton komið sterkir inn hjá mér. Ég vil alls ekki að þeir falli, svo þeir haldi áfram að ala upp áhugaverða leikmenn handa okkur.

    1
  3. Sælir félagar

    Hvað sem gerist verður þessi leikur að vinnast mér er sama hvernig en vinningur er það eina sem er í boði. Ég mundi hafa Fabinho í stað Keita þarna því einhvern veginn er hann ekki að virka og svo er Uxinn eini maðuerinn sem skýtur fyrir utan teig. Það geta því verið áhöld með hann og Heimavallar-Gini. Til að brjóta Bournmouth gæti þurft langskot svo þetta er alltaf spurning. Mín spá er 3 – 1

    Það er nú þannig

    YNWA

    1

Chelsea 2 – 0 Liverpool

Byrjunarliðið gegn Bournemouth