Atletico Mardíd – Liðið hans Simeone

Fullyrðingin um að starf knattspyrnustjóra hafi aldrei verið eins ótryggt og það er í dag á ekki alveg við rök að styðjast þó sá markaður sé vissulega galin í dag. Það er enginn að stjórna liði í einhverjum af stóru deildunum í dag sem toppar hinn mjög svo skrautlega Jesus Gil hjá Atletico Madríd, hann var alveg snar.

Gil var verulega umdeildur stjórnmálamaður samhliða störfum sínum fyrir Atletico Madríd og var m.a. borgarstjóri Marbella frá 1991 til 2002. Hann byrjaði ferilinn sem byggingarverktaki á sjöunda áratugnum allt þar til hann var dæmdur í fimm ára fangelsi. Blokk sem hann byggði hrundi árið 1969 með þeim afleiðingum að 58 létust og í ljós kom að allt var í lamasessi hvað varðar reglugerðir og byggingu hússins. Hann var nógu heimskur til að reyna stytta sér leið við byggingu á fjölbýlishúsi.

Gil sat inni í 18 mánuði en var náðaður af einræðisherranum Francisco Franco! Gil var það hægri sinnaður að Franco náðaði hann. Það er til endalaust af umdeildum tilvitnunum í hann, t.d. þegar hann kallaði hið frábæra lið Ajax tímabilið 1996/97 FC Congo því það voru svo margir leikmenn frá Surinam í liðinu, frábær kynning á Atletico Madríd sem var þarna á sínu fyrsta tímabili í Meistaradeildinni. 

Hans ferill í bæði pólitík og fótbolta endaði með fangelsi og dómi fyrir spillingu, mútur og hvaðeina. Engum að óvörum.

Tíð hans hjá Atletico Madríd endurspeglar raunar vel hvernig Jesus Gil var því frá því hann tók við stjórnartaumunum í félaginu árið 1987 allt til ársins 2001 er honum var gert að hætta eru 35 manns skráðir sem stjórar liðsins á einhverjum tímapunkti. Best er að hann byrjaði og endaði á sama manninum, Luis Aragones sem hafði þjálfað liðið í fjörgur ár áður en Gil tók við og þjálfaði þá svo einu sinni til viðbótar í millitíðinni.

Eini þjálfarinn sem náði að tolla meira en að eitt tímabil var Júgóslavinn Radomir Antic sem stýrði liðinu þrjú tímabil í röð enda landaði hann titlinum mjög óvænt á sínu fyrsta tímabili. Hann tók svo við tímabundið aftur við liðinu tvisvar til viðbótar.

Hver hefði trúað því að óstöðugleiki hafi einkennt þetta Atletico lið?

Eftir að Jesus Gil steig til hliðar 2002 (og dó 2004) tók Miguel Angel Gil Marin sonur hans við og er núna skráður fyrir 51% eignarhlut í félaginu og Enrique Cerezo viðskiptafélagi þeirra feðga og forseti félagsins frá 2002 er skráður fyrir 19% eignarhlut. Án þess að fara ofan í saumana á því er ennþá umdeilt hvernig þessi eignarhlutur kom til. Eina sem er alveg ljóst er að Jesus Gil kom því ekki í gegn með heiðarlegum hætti.

Allt annað Atletico?

Án þess að meina það sem hrós þá virðist strákurinn nú ekki vera jafn gufuruglaður og pabbi sinn og er í raun magnað að nú þegar öll önnur lið eru farin að nálgast stjórnunarstíl Jesus Gil hefur stjóri Atletico Madríd verið einn sá öruggasti í starfi í tæplega áratug. Þeir feðgar þurftu bara 44 tilraunir á 34 árum til að finna sinn mann!

Diego Simeone

Sem leikmaður spilaði Diego Simeone rúmlega 500 deildarleiki á ferlinum en var sjaldnast lengur en 2-3 tímabil hjá sama félagi og náði aldrei 100 deildarleikjum fyrir neitt félagslið áður en hann var farinn aftur. Eina liðið sem hann spilaði rúmlega 100 leiki fyrir var landsliðið.

Atletico Madríd var eitt af sjö liðum sem Simeone spilaði með en hann gekk raunar tvisvar til liðs við félagið og var samtals fimm ár á mála hjá félaginu. Hann hefur því vissulega sterka tengingu.

Þjálfaraferillinn byrjaði ekki merkilega og skipti Simeone svo oft um starf fyrstu árin að það var eins og Jesus Gil ætti öll liðin sem hann var að stjórna. Frá 2006 – 2011 stýrði hann sex liðum. Öllum nema einu á Ítalíu.

Það var því nákvæmlega ekkert sem benti til þess að Diego Simeone væri svarið við vandamálum Atletico Madríd í desember árið 2011. Liðið var í 10.sæti 21 stigi á eftir Real Madríd eftir aðeins 16 umferðir. Liðið byrjaði öldina í 2.deild og var búið að flakka frá 4. til 12. sæti áratuginn áður en Simeone tók við.

Hópurinn sem hann fékk var samt ekkert vonlaus en liðið vann Evrópudeildina t.a.m. árið áður, m.a. eftir að hafa lagt Liverpool í undanúrslitum keppninnar. Vel fór á með þessum félögum þegar þau mættust þarna fyrir áratug enda Fernando Torres ein aðalstjarnan hjá Liverpool og týndi sonurinn hjá Atletico. Salan á Fernando Torres til Liverpool árið 2007 hjálpaði mikið til við fjármögnun á því ágæta liði sem Simeone tók við fjórum árum seinna.

Helstu stjörnur Atletico

Hjá Atletico hefur verið hægt að ganga að því vísu að aftasti og fremsti maður sé í heimsklassa. Þegar Simeone tók við var Courtois í markinu, reyndar sem lánsmaður frá Chelsea í kjölfar þess að þeir seldu David De Gea til Manchester United. Undanfarin sex ár hafa þeir svo verið með Oblak í rammanum. Þeir eru allir á topp fimm yfir bestu markmenn síðasta áratugar eða þar um bil.

Frammi höfðu þeir svo Falcao í formi lífs síns. Hann kom í kjölfarið á Diego Forlan og Kun Aguero en þeir tók einmitt við keflinu af Fernando Torres. Diego Costa tók eitt tímabil með Flacao og tók svo við keflinu þegar Kólembíumaðurinn fór og hafði David Villa með sér. Þeir lönduðu titlinum og fóru í kjölfarið. Grizmann mætti í staðin og tók við af Costa, Mario Mandzukic kom einnig með.

Hryggsúlan hefur því alltaf verið góð hvað þetta varðar en á milli hafa einnig verið margir frábærir leikmenn og í raun magnað að skoða leikmannaveltu félagsins undanfarin ár.

Bara í tíð Simeone hefur Atletico keypt leikmenn fyrir €970m og selt í staðin fyrir €850m. Það gera leikmannakaup fyrir tæplega €107m að meðaltali í hverjum leikmannaglugga en sala á móti fyrir €94m. Netó er það €13m og eins og fjárhæðirnar gefa til kynna er oft um ansi stór nöfn að ræða.

Bara frá árinu 2016 (eða sama tíma og Klopp hefur verið stjóri Liverpool) hefur Simeone keypt leikmenn fyrir €640m en selt á móti fyrir €504m

Besta og líklega þekktasta lið Atletico undir stjórn Simeone er liðið sem vann deildina tímabilið 2013/14 og var hársbreidd frá því að vinna Meistaradeildina einnig en tapaði fyrir sama viðbjóðsliði og Liverpool fjórum árum seinna. Það sveið hjá okkur en líklega var það ekkert í líkingu við hvað það sveið fyrir stuðningsmenn Atletico. Viðbjóðurinn Sergio Ramos jafnaði á 93.mínútu uppbótartíma eftir að Atletico hafði komist yfir á 36.mínútu.

Svona var liðið sem Simeone var búinn að byggja upp þetta tímabil.

Vörnin var svo þétt að leikmaður eins og Toby Alderweireld komst ekki í liðið og var seldur árið eftir. Þetta var gríðarlega þéttur kjarni sem hefur verið að komast á tíma núna undanfarin ár og má segja að Simeone sé núna að reyna byggja upp nýtt lið. Síðustu tveir leikmannagluggar hjá Atletico Madríd hafa verið nokkurnvegin andstaðan við sumarið hjá Liverpool, sturluð leikmannavelta

Joao Felix kostaði €126m og sama sumar komu fimm aðrir leikmenn sem kostuðu €20m+ auk Hector Herrera sem kom á frjálsri sölu. Sumarið áður komu þrír leikmenn fyrir €20m+ og eignilega fjórir því Morata kom á láni en hefur nú verð keyptur fyrir €56m.

Af þeim sem hafa verið seldir eru áhugavert að sjá að tveir af þeim sem fóru í fyrra eru núna að gera það gott hjá Wolves. Þriðji leikmaðurinn Raul Jiminez sem einnig er hjá Wolves var líka hjá Atletico fyrir nokkrum árum.

En síðasta sumar var einnig blóðugt í leikmannasölum þó fjárhagslega hafi þetta verið frábærar sölur. Grizmann og Lucas Hernandez fóru fyrir litlar €200m. Man City keypti Rodri á €70m. Mesta blóðtakan er samt líklega í Godin, Junfran og Luis sem hafa allir verið lengi hjá félaginu og voru partur af geggjaðri varnarlínu.

Frá því Simeone tók við Atletico Madríd hefur félaginu tekist að koma sér í flokk með Real Madríd og Barcelona og staðið alveg jafnfætis þeim megnið af síðasta áratug. Atletico var áður fyrr töluvert með leikmenn í eigu þriðja aðila líkt og þekktist í Portúgal og hafa reyndar lengi verið í góðum viðskiptasamböndum við Portúgal en eftir að það var bannað hafa þeir unnið með öðruvísi tegund lánastofnana sem betur er útlistað hér.

Spænsku risarnir áttu síðasta áratug í Evrópukeppnunum og er Atletico sannarlega eitt af Meistaradeildarliðunum á Spáni, meðallaun leikmanna Atletico á síðasta ári voru t.a.m. hærri en meðallaun leikmanna Liverpool.

Atletico tapaði fyrir Real Madríd í úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2014 eins og áður segir og þeir gerðu það aftur tveimur árum seinna er Real Madríd vann eftir vítaspyrnukeppni. Tveimur árum eftir það eða 2018 unnu þeir Evrópudeildina í þriðja skipti á níu árum. Vonum að þeir séu ekkert á leiðinni í úrslitaleik tveimur árum eftir það! England átti fyrsta áratuginn á nýrri öld og tekur nú vonandi aftur við af Spánverjum.

Liðið í dag

Atletico Madríd mætti Valencia á Mestalla á föstudaginn og skildu liðin jöfn 2-2 í þeim leik. Byrjunarlið Atletico Madríd var svona í þeim leik og ljóst að þó nokkrir leikmenn liðsins eru í kappi við tímann fyrir heimsókn Liverpool

Ungstirnið Joao Felix hefur verið meiddur frá því í lok janúar en ætti að koma inn í þennan leik aftur. Diego Costa hefur verið meiddur frá því í nóvember en vill víst ólmur ná þessum leik. Morata kom svo af bekknum um helgina. Trippier sem var mjög góður fyrir áramót verður hinsvegar pottþétt ekki með.

Sama hvaða liði þeir stilla upp er ljóst að Atletico Madríd úti með þetta aggresíva 4-4-2 leikkerfi Simeone verður einn erfiðasti leikur Liverpool undir stjórn Jurgen Klopp. Ef að Real Madríd og Barcelona eru dirty og mikið fyrir leikaraskap þá toppar Atletico þau bæði.

Hinsvegar held ég að Liverpool sé á sama tíma eitt erfiðasta verkefni sem Atletico hefur fengið í tíð Simeone og klárlega allt annað dýr en Liverpool liðið sem mætti án Fernando Torres á Vincente Calderon fyrir áratug.

Wanda Metropolitano

Heimavöllur Atletico Madríd verður um ókomna tíð gleðilegur partur af sögu Liverpool og vonandi hjálpar það okkar mönnum þegar þeir mæta til leiks að allir sem koma til með að spila í Madríd fögnuðu stærstu stund ferilsins þarna fyrir tæplega 9 mánuðum síðan. Wanda Metropolitano skipar líklega stærri sess í huga stuðningsmanna Liverpool en stuðningsmanna Atletico eins og staðan er núna enda er um að ræða þar til að gera glænýjan völl.

Árið 2007 var samþykkt að selja hinn sögufræga heimavöll Atletico, Vicente Calderon og byggja nýjan á allt öðrum stað í borginni. Það ferli tók áratug og var loksins flutt á nýjan heimavöll fyrir tímabilið 2017/18.

Völlurinn var raunar byggður árið 1997 sem frjálsíþróttavöllur og átti að vera partur af umsókn Spánverja um HM í frjálsum það ár sem aldrei varð af. Vellinum var lokað árið 2004 og átti aftur að vera partur af umsókn Spánverja, núna fyrir ÓL 2016 sem ekki varð heldur af. Þetta var 20.000 manna völlur sem Atletico fékk árið 2016 og tekur í dag eftir gríðarlegar endurbætur tæplega 68.þúsund áhrofendur.

Kínverski byggingarverktainn Wanda keypti nafnaréttinn af vellinum en þeir eiga einnig 30% hlut í félaginu. Metropolitano er nafnið á gamla heimavelli Atletico, áður en þeir fóru að spila á Vicente Calderon. Nýji völlurinn er ekkert í næstu götu neitt, það eru 16km á milli þessara leikvanga.


Þegar þetta er skrifað er taskan komin á borðið og undirbúningur í fullum gangi fyrir ferðalag til einmitt Madríd þar sem Kop.is verður með sína fulltrúa á leiknum.

Liverpool

Síðast þegar Liverpool mætti Atletico Madríd var niðursveifla byrjuð sem erfitt hefði verið þá að ímynda sér hvert stefndi. Byrjunarliðið var svosem ágætt fyrir utan að Kyrgiakos var með bæði Carragher og Agger í vörninni og David N´Gog var frammi í fjarveru týnda sonarins, Fernando Torres.

Benitez gat lítið annað gert enda bekkurinn svona: Cavalieri, Degen, Ayala, Aquilani, Babel, Pacheco, El Zhar.

Að þessu sinni verður það ekki Liverpool sem leggst í vörn, Atletico Madríd á reyndar sterkum varnarleik fyrst og fremst að þakka gott gengi undanfarin ár svo að Simeone er ekki líklegur til að þurfa breyta leikstíl liðsins eitthvað sérstaklega fyrir Liverpool.

Klopp sagði fyrir helgina að hann hefði líklega úr öllum hópnum að velja í fysta skipti á þessu tímabili. Clyne, Shaqiri og Glatzel eru þeir einu sem eru á meiðslalistanum og enginn þeirra var að fara spila í Madríd.

Ef að allir eru heilir held ég að Klopp geri aðeins eina breytingu frá síðasta leik Liverpool á þessum velli. Joe Gomez er kominn í byrjunarliðið á kostnað Matip en ég myndi ætla að allir hinir spili aftur í þessum leik.

Reyndar held ég að þessi leikur eins og svo margir aðrir í vetur væri fullkominn fyrir Naby Keita í toppformi. Þeir myndu sannarlega hata hann og sama má reyndar segja um Ox sem hefur farið mjög vaxandi undanfarinar vikur. Báða er frábært að eiga á bekknum því að það er erfitt að rökstyðja miðju án Henderson og Wijnaldum eins og þeir hafa verið að spila undanfarið. Sérstaklega í svona leik. Klopp þarf einmitt aðeins meira af svona “vandamálum” þegar kemur að byrjunarliðinu.

Liðið fékk tveggja vikna frí fyrir Norwich leikinn og á ekki að spila aftur fyrr en á mánudaginn þökk sé fábjánunum sem raða niður leikjum á Englandi. Geðveikt alveg fyrir okkur sem vorum búin að plana ferð á báða leikina! Það verður því pit stop í Skotlandi á stórleik okkar manna í St. Mirren gegn Hearts í alvöru skotaslag á föstudaginn. Come on you saints!

Spá

Fyrst og fremst spái ég því að þetta verði djöfulli gaman, Atletico er reyndar auðveldlega leiðinlegasta elítuliðið og uber pirrandi en það verður ekki vandamál á Metropolitano skal ég segja ykkur.

Gengi liðanna það sem af er þessu tímabili setur þetta tímabil Liverpool svolítið í samhengi. Atletico Madríd sem vissulega er ekki að eiga sitt allra besta tímabil er með 40 stig eftir 24 leiki í La Liga. Þar af eru 10 jafntefli og fjögur töp. Liverpool var eftir sama leikjafjölda með 70 stig á Englandi og næstu leiki gegn Southampton, Norwich og West Ham. Atletico hefur sannarlega verið í vandræðum að fóta sig eftr miklar breytingar í sumar og þó nokkur meiðsli í vetur á meðan Liverpool hefur verið stöðugleikinn uppmálaður.

Atletico á fyrir höndum blóðuga baráttu á Spáni um Meistaradeildarsæti á næsta tímabili og mega illa við því að missa af því. Liverpool getur að sama skapi sett fókusinn mun meira á Meistaradeildina það sem eftir lifir móts en þeir gátu gert á síðasta tímabili, þegar liðið vann þá keppni.

Við sögðum í desember þegar það var dregið að líklega henti Atletico okkar mönnum hvað verst af þeim liðum sem voru í pottinum. Síðan þá hefur Liverpool sýnt að það skiptir engu hvaða leikstíl er reynt á móti liðinu.

16.liða útileikurinn fyrir tveimur árum var 0-5 í Porto sem var hressilegt sjokk fyrir heimamenn sem hittu á Liverpool í ógnvænlegu stuði það kvöld.

16.liða útileikurinn í fyrra var 1-3 sigur á FC Bayern sem var aldrei að fara tapa fyrir leik. Þjóðverjarnir voru flestir farnir áður en flautað var til leiksloka.

16.liða útileikurinn núna er á okkar velli, Wanda Metropolitano. Simeone og félagar hafa staðið sig vel gegn Messi, Suarez, Kristjönu og hvað þær heita allar stjörnurnar í La Liga. Þeir hafa ekki ennþá mætt Liverpool liðinu sem þurfti ekki einu sinni Firmino og Salah til að ganga frá Barcelona.

0-3 á Wanda og game over. Mané, Salah og Keita sjá um mörkin.

Takk og bless – off to Madríd

11 Comments

  1. Sjóðandi fín upphitun. Vildi að ég væri líka að fara á Wöndu!

    3
  2. Takk fyrir stórkostleg upphitun Einar 🙂

    Við höfum spilað 4 sinnum við A.Madrid 1 sigur, 2 jafntefli og 1 tap. Sigurin endaði reyndar sem hálfgert tap því að við duttum út úr Evrópukeppni útaf mörkum á útivelli.

    Spáum að þetta endar 1-1 og við klárum þetta svo á Anfield.
    Það sem maður vill er að engar af okkar stjörnum fari meiddar af velli því að þeir eru virkilega grófir í sínum leik og dansa ekki ekki bara á grári línu heldur traðka á henni.

    2
  3. Sælir félagar

    Ein af þessum mögnuðu Evrópu upphitunum Einars Matthíasar og kærar þakkir fyrir hana. Ég hefi áhyggjur af þessum leik og álít að spá Sig. Ein. sé líklegust og væri sigur fyrir okkur. Ég væri samt alveg til í 0 – 3 eins og EM spáir en tel það ólíklegt þar sem A.Madrid verður á heimavelli og dómarar verða undir gífurlegri pressu frá áhorfendum. En hvað sem öllu líður þá spái ég 1 – 3 í hunderfiðum leik þar sem spjöldum mun rigna – einkum á Liverpool leikmenn þar sem þeir verða miklu betri.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  4. Geggjuð upphitun og takk kærlega fyrir hana en verð að fá að vita eitt ,hvað ertu lengi að skrifa eina svona upphitun sirka og hvað hefuru mest eitt í eina slíka ?

    Annars spai ég 1-2 sigri í þessum leik þar sem salah gerir bæði mörkin og svo lendum við i drama á anfield eins og alltaf í þessari keppni og skriðum áfram.

    Annars bara góða skemmtun í ferðinni drengir.

    2
      • Já ég meinti nú bara tímann sem fer i að smíða svona grein með heimildaoflun og öllu slíku ekki hvað tæki langan tíma að pikka hana inn. Heimskulega orðað hja mer. Já datt í hug að þessi væri langt frá sú lengsta eða timafrekasta þótt frábær sé en fór bara að pæla í þessu.

        1
  5. Kann að meta hreinskilnina í umfjöllun um Viðbjóðinn í Viðbjóðs liðinu!

    3
  6. Flott upphitun. Leikurinn fer 0-0. Ég held að Ox byrji í stað Fabinho.

    1
  7. Skemmtileg og áhugaverð upphitun. Set samt stórt spurningamerki við að umbreyta nafninu á viðbjóðnum Christiano í Kristjönu og hvet þig til að breyta því.

    1
  8. Skemmtileg upphitun og fróðlegur leikur framundan. Ekki vill svo til að einhver sé með á hreinu hvar Liverpool menn á leið á leikinn eyði deginum í Madrid?

  9. Topp 4 eru orðnir að topp 5 í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Vona að Úlfarnir taki þetta.
    Spá:
    1. Liverpool
    2. City
    3. Tottenham
    4. Brendan
    5. Úlfarnir og við kaupum A.Traore

    Verður gaman að sjá Van Dijk etja kappi við D.Costa á þriðjudaginn. Held að við verðum ekki í vandræðum.

Norwich 0 – 1 Liverpool

Gullkastið – Innslag frá Gatwick