Norwich 0 – 1 Liverpool

Liverpool heimsóttu kanarífuglana í Norwich á austurströnd Bretlandseyja og koma heim með 3 stig eftir afskaplega vindasaman 0-1 vinnusigur.

Mörkin

0-1 Mané (78. mín)

Gangur leiksins

Þetta var svona leikur sem maður hefði alveg getað sagt sjálfum sér að yrði erfiður. Liverpool ekki spilað síðan um þarsíðustu helgi, og ekki voru aðstæður að hjálpa. Liverpool er einfaldlega lið sem spilar bestan fótbolta þegar aðstæður eru til fyrirmyndar, ef völlurinn er lélegur eða ósléttur, eða ef veðuraðstæður eru óhagstæðar, þá er eins og það séu okkar menn sem tapa meira á því. Og sú var raunin í þessum leik. Vissulega átti liðið 8 marktilraunir í fyrri hálfleik, en engin þeirra var líkleg til að verða að marki. Og þó, Firmino fékk langa sendingu inn á markteig, náði að taka boltann niður með dæmigerðri Firmino snertingu, en varnarmaður Norwich var sekúndubroti á undan honum og náði að hreinsa í horn. Besta færið í fyrri hálfleik féll líklega hinum gulklæddu í vil, en sóknarmaður þeirra slapp í gegn og var einn á móti Alisson með Pukki til vinstri við sig. Hann reyndi að renna boltanum til hliðar á Finnann fljúgandi, en Alisson stökk á boltann eins og köttur og sló hann út úr teignum. Þar sýndi sá brasilíski af hverju hann er einn besti markvörðurinn í heiminum í dag, ef ekki sá besti. Það er svosem ómögulegt að segja hvort VAR hefði dæmt þetta mark ef Becker hefði ekki varið, bæði var sendingin inn fyrir rosalega tæp sem og sendingin á Pukki. En flott var varslan þrátt fyrir það.

Staðan 0-0 í hálfleik, og einhverntímann hefði maður verið orðinn stressaður á þeim tímapunkti, en nú til dags vitum við að liðið okkar er fært um að skora mörk á lokamínútunum, og þar að auki vissum við af Mané á bekknum.

Í síðari hálfleik jókst sóknarþunginn allnokkuð, Keita átti gott skot sem þó fór beint á Krul en hann þurfti að slá boltann yfir. Besta færið kom þó líklega þegar Salah átti skot úr teignum sem Krul varði, en Keita kom aðvífandi og hefði alltaf átt að skora en náði einhvernveginn að setja boltann þar sem Krul var með krumlurnar. Skulum skrifa þetta að hluta á góða markvörslu og að hluta á klúður hjá Keita.

Það var gerð tvöföld skipting rétt fyrir 60. mínútu, Mané kom inn fyrir Ox og Fabinho kom inná fyrir Gini. Eins og nærri má geta kom Mané með nýja vídd inn á vinstri kantinn, já og bara í framlínuna. Enda var það svo hann sem braut ísinn þegar hann fékk sendingu inn á teig frá Henderson, náði að snúa af sér varnarmann og setti boltann hárnákvæmt út við stöng. Okkar menn hafa sýnt að þeim er treystandi til að brjóta hvaða lið sem er á bak aftur, en vissulega var farin að færast örlítil spenna í okkur púlara fyrst ekkert mark hafði komið fram að þessu. Það er því óhætt að segja að léttirinn sem braust út hafi verið talsverður.

Firmino fékk svo algjört dauða-dauðafæri til að gera endanlega út um leikinn þegar hann fékk fyrirgjöf frá Trent en náði á einhvern ótrúlegan hátt að setja boltann yfir og framhjá nánast af markteig. Firmino hafði fram að því átt virkilega góðan leik, verið potturinn og pannan í mörgum þeim hættulegu færum sem liðið hafði skapað sér, svo við fyrirgefum honum þetta alveg.

Liðið sigldi þessu svo í höfn og Norwich náðu ekki að ógna að neinu marki í þrem mínútum í uppbótartíma.

Bestu/verstu menn

Enginn leikmanna átti eitthvað sérstaklega slæman leik. Salah hefur oft verið effektívari á vellinum, en gleymum ekki að hann er að vinna hellings vinnu fyrir liðið þó hann sé ekki að skora eða eiga stoðsendingar, t.d. bara með því að krefjast 100% athygli frá þeim varnarmönnum sem eru nálægt honum. Hvað varðar nafnbótina “Maður leiksins”, þá má segja að Alisson, Mané og Firmino geri tilkall, en ég kýs að veita Henderson heiðurinn í þetta skiptið. Hinir væru þó allir vel að þeim heiðri komnir sömuleiðis.

Umræðan eftir leik

Núna er liðið okkar komið með 25 stiga forskot í deildinni – tímabundið vissulega, þar sem City á leik til góða. Þetta er að sjálfsögðu nýtt met, þar sem fyrri forskot upp á 22 stig var líka met. Þá vantar aðeins 5 sigra til viðbótar til að tryggja titilinn í þeim 12 leikjum sem eftir eru. Alisson er nú einn efstur á lista yfir markmenn sem hafa haldið hreinu á tímabilinu (þið munið, markvörðurinn sem missti úr 8 leiki í byrjun tímabilsins?). Jú og núna er liðið búið að taka framúr Nottingham Forest varðandi lengsta taplausa tímabilið, aðeins Arsenal á lengra taplaust tímabil að baki. Þá er liðið búið að tryggja sig inn í Meistaradeildina á næsta ári. Ólíkt sumum öðrum breskum liðum (nefnum engin nöfn).

Næsti leikur

Núna fer aftur að reyna á breiddina í hópnum því næsti leikur er strax á þriðjudaginn, þegar okkar menn skreppa til Spánar og spila þar við Atletico Madrid í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Einhvern tímann hefði maður sagt að liðið væri e.t.v. með annað augað á þeim leik áður en leikurinn við Norwich fór fram, en ég held að Klopp sé löngu búinn að læra að passa að einbeiting leikmanna sé öll á næsta leik.

Við bíðum spennt eftir upphituninni frá Einari Matthíasi fyrir þeim leik, en njótum þess auðvitað að skoða stöðuna í deildinni fram að því!

17 Comments

 1. Ekki okkar besti leikur en 3 stig í hús og þá eru allir sáttir.
  Norwich pakkaði í vörn og í 90 mín. Í síðarihálfleik voru þeir með 6 manna varnarlínu stóran hluta af leiknum og vörðust mjög aftarlega sem þýðir lítið af glufum og ekkert pláss fyrir aftan en á móti þá var þetta eins og handboltaleikur þar sem við vorum að reyna að stimpla okkur í gegn.

  Veðrið hafði greinileg áhrif en það var nokkuð hvasst og tók vindurinn nokkrar bolta og stopaði suma en það var engin afsökun fyrir því að við höfum oft spilað betur. Mane kom inn á og gjörbreyti leiknum með krafti og áræðni og skoraði svo flott sigurmark.

  25 stiga forskot á toppnum og það er tilefni til að gleðjast

  Tveir punktar .. og já svo þetta : Mane var að skora sitt fyrsta mark fyrir Liverpool þegar hann kemur inná sem varamaður og við vorum að bæta met Barcelona um bestu deildarbyrjun í stórudeildum Evrópu en þeir áttu 24 sigra og 2 jafntefli en við eru með 25 sigra og 1 jafntefli eftir 26 leiki.

  YNWA

  12
 2. Hrikalega flottur sigur í leik sem okkar menn voru aldrei nema í 1 eða 2 gír. Síðustu 2 ár hefur liverpool fengið svona 2 vikna frí vegna þess að þeir voru dottnir úr bikar og fóru í bæði skiptin í æfingaferð til Marbella og hvort það var Katar eða eitthvað og bæði skiptin gekk liverpool illa leikina á eftir, voru ryðgaðir og það leit pinu þannig út í dag en okkar menn kláruðu dæmið í frekar erfiðum aðstæðum sem bitnuðu meira á okkar liði en hinu þar sem okkar lið er töluvert betra en hitt liðið í fótbolta. Fagmannlega klarað i dag og munurinn á liðunum einn Allison og Mane. Núna er titillinn komin og þá vill maður 3 met, flesta sigra í röð, bæta 100 stigin og ósigraðir í gegnum tímabilið, ef þetta allt næðist er þetta fullkomin tímabil og ef hef tru á þessu öllu og til að toppa þetta má bikarinn með stóru eyrun halda áfram að vera þar sem hann á að vera.

  8
  • Það verður erfitt að fara ósigraðir gegnum tímabilið og slá þessi met ef við verðum meistarar í mars. Þá mun allt snúast um að vinna meistaradeildina og vonandi FA cup líka.

   3
   • Það er rétt þetta verður erfitt en held að Klopp vilji slá þessi met og klárlega með annað augað ef ekki bæði á þessu og hef trú á að við allavega bætum met yfir sigra í röð og 100 stigin en gætum svo sem tapað einum leik en vonandi ekki

    1
 3. Sælir félagar

  Kærkominn sigur eftir frí þar sem okkar menn eru vanir að vera ryðgaðir og eiga í ákveðnum erfiðleikum í fyrsta leik eftir svoleiðis. Það brást heldur ekki og má segja að frábær frammistaða Alisson og varamannsins Mané hafi ráðið úrslitum. Það þýðir þó ekki að hinir hafi verið lélegir en maður hefur séð suma spila betur. Enn einu sinni má brjóta á okkar mönnum í vítateig andstæðinganna á þess að dæmt væri víti. Lélegur dómari leiksins ætti að dæma í 2. deild en ekki efstu.

  Að öðru leyti er ég ánægður. Ekki bezti leikur okkar manna en voru samt miklu betri og áttu sigurinn fyllilega skilið. Hlakka til að sjá skýrslu Daníels seinna í kvöld en ég er sáttur eftir erfiðan leik þar sem andstæðingarnir skildu allt eftir á vellinum og eiga heiður skilið fyrir baráttuna.

  Það er nú þannig

  YNWA

  7
 4. Virkilega mikilvægur sigur eftir gott hlé á botnliðinu sem er að berjast fyrir sæti sínu í deildinni.
  Það er ekkert sem getur komið í veg fyrir Englandsmeistaratitilinn núna og ég er búinn að skipuleggja 2 ferðir til Liverpool, önnur á leik og hin í lok tímabilsins til að fagna titlinum í skrúðgöngunni.
  30 ára bið á enda og því ber að fagna.

  7
 5. Hvað segja menn samt um vitið sem Van Dijk atti að fá ? Ekki einn heldur tveir sem rötuðu hann niður og ég hef ekki séð það augljóslega, fyrr á tímabilinu áttum við að fá 100 prósent víti gegn Newcastle en þetta var ennþá meira vit í og eins augljóst og það verður og ég er enn pirraður að menn skuli ekki sjá þetta. Hvað segið þið hin? Var þetta ekki pjúra víti ??

  16
 6. Ryðgaður vinnusigur.
  Hendó geggjaður.
  Meistaradeildinni næst. Þar þurfa menn að fnæsa. Atletico eru grjótharðir.
  YNWA

  3
 7. Frábær leikur… frábær sigur … 0-1 á svona degi … hversu frábært er það …

  1
 8. Skýrslan komin inn, ræðið eins og vindurinn (er ekki komið nóg af veðurgríni í tengslum við þennan leik núna?)

  4
 9. Sæl og blessuð.

  Þetta var öldungis stórbrotin frammistaða gegn liði sem hafði áður sigrað City. Allt gekk eins og við mátti búast og hið fyrirsjáanlega hökt í gangverkinu eftir langt frí kom í veg fyrir mörk á fyrstu stundarfjórðungum.

  Mané vann þetta eins og stakur fagmaður – hann nánast greip boltann með ristinni og sendi hann svo hárfínt í markið – alveg fullkomið mark.

  Allison er engu líkur með sínar niðurdýfingarhendur. Hvað hann las óttann úr augum sóknarmannsins sem átti sér þá einu ósk að pot’onum á Pukki sem myndi sjá um að landa markinu. Hann veðjaði rétt og bjargaði þarna dýrmætum sigri. Svakaleg markvarsla.

  Unaðslegt að fylgjast með þessu liði. Sú tíð er liðin þegar við sýndum frjálsar æfingar á gólfi gegn þeim gulgrænu. Nei, nú gildir að gera það sem gera þarf, vinna vel og skipulega, skósmiður – vertu við leistann þinn. Það þarf ekki alltaf að vera konfetti og lendarskýlur.

  Takk fyrir mig Liverpoo. Five more games, Five more games, Five more games to go!!!

  6
 10. Aldrei spurning með að okkar menn myndu klára þetta.
  Eigum við að ræða tímasetninguna í vörslunni hjá Allison eitthvað?
  Hvernig hann beið eftir hárrétta sekúndubrotinu til að slá boltann af fæti Norwich dúddans.
  Meistari.

  Leyfi mér að copy/paste þetta úr frétt á vísi:

  “Alisson hefur nú leikið alls 10 leiki án þess að fá á sig í mark í ensku úrvalsdeildinni. Það sem gerir þá staðreynd enn merkilegri er að markvörðurinn knái hefur aðeins leikið 18 leiki á tímabilinu.”
  “Það sem gerir tölfræði Alisson enn áhugaverðari er að þessir 10 leikir eru 10 af síðustu 11 leikjum sem liðið hefur spilað.”

  Geggjaður markvörður!

  2
  • Þess má líka geta að fyrir 11 leikjum síðan fær Joe nokkur Gomez sæti í vörninni. Niðurstaðan er eitt mark fengið á sig í 11 leikjum.

   Þar á undan hafði Alisson fengið á sig 6 mörk í 6 leikjum.

   2

Liðið gegn Norwich

Atletico Mardíd – Liðið hans Simeone