Meðlimir samfélagsins

Hvað eiga Mike Myers, Daniel Craig, Brad Pitt, Angelina Jolie, Samuel Jackson, John Lithgow, Lana Del Rey, Nelson Mandela, Caroline Wozniacki, Mel C og Jóhannes Páll Páfi II sameiginlegt? Jú öll þeirra eru staðfestir aðdáendur knattspyrnuliðsins Liverpool, og eru svosem ekki ein um að vera í hópi okkar Liverpool aðdáenda (sjá t.d. lista hér og hér).

Glöggir lesendur taka kannski eftir að þessi listi inniheldur að mestu leikara, söngvara, og kirkjunnar fólk. En hvað með fótboltamennina sjálfa?

Það ætti svo ekki að koma neitt á óvart að knattspyrnumenn alast gjarnan upp við það að fylgjast með enska boltanum, og eiga því gjarnan uppáhaldslið áður en þeir fara í atvinnumennsku, rétt eins og við hin. Það er hins vegar fjarri því að vera sjálfgefið að leikmenn endi með að spila með liðunum sem þeir studdu í æsku. Af okkar mönnum, þá erum við vissulega með scousera eins og Trent og Curtis Jones innanborðs, og það þarf auðvitað ekki að minnast á eldri leikmenn eins og Steven George Gerrard. Hitt kann kannski að koma meira á óvart að Jamie Carragher ólst upp við það að styðja Everton, og það er ekki lengra síðan en 1996 að hann fylgdist grannt með gangi leikja hjá Everton, jafnvel á meðan hann var að ferðast með Liverpool liðinu! Það sama ku víst hafa átt við um Fowler, Owen og McManaman. Þeir hristu það samt allir af sér blessaðir.

Hvað með aðra núverandi leikmenn Liverpool? Byrjum á þeim “innfæddu”, þ.e. ensku leikmönnunum sem hafa lifað og hrærst í enska boltanum frá blautu barnsbeini.

 • Fyrirliðinn okkar, Jordan Henderson, er uppalinn hjá Sunderland og hann sást mæta á áhorfendabekkina að horfa á Sunderland á Wembley árið 2014.
 • James Milner er borinn og barnfæddur Leedsari og hóf sinn feril þar, það hafa verið uppi raddir um að hann væri til í að enda ferilinn þar sömuleiðis, sérstaklega ef Leeds ná nú að komast aftur upp í úrvalsdeildina. Sem betur fer gerist það ekki alveg strax í ljósi þess að hann framlengdi til 2022, eða u.þ.b. þegar hann nær hátindi ferils síns.
 • Joe Gomez er fæddur í London, og byrjaði sinn feril með Charlton, og við vitum ekki betur en að það sé hans klúbbur.
 • Adam Lallana kemur kannski ögn á óvart, því hann hélt með Everton í æsku. Rétt eins og hjá Carragher eru það eins og hver önnur bernskubrek sem við fyrirgefum auðvitað.
 • Alex Oxlade-Chamberlain byrjaði ferilinn hjá Southampton áður en hann fór svo til Arsenal. Lengi vel var uppi orðrómur um að hann hafi stutt Liverpool í æsku, og hann hefur talað um að hann hafi viljað vera eins og Gerrard, en í öðrum viðtölum hefur hann talað um að hafa ekki endilega stutt eitt lið frekar en annað.

Það er erfiðara að finna upplýsingar um erlendu leikmennina okkar, þó svo að við Íslendingar höfum alist upp við enska boltann frá því vorum hvítvoðungar, þá er það ekki endilega þannig annars staðar sömuleiðis. En við vitum þó að Minamino lét hafa eftir sér í viðtali skömmu eftir að Klopp tók við sem stjóri að hann væri alveg til í að spila með Liverpool. Eins ku Salah hafa orðið ástfanginn af Anfield þegar hann kom þangað með Chelsea á sínum tíma.

Leikmenn sem studdu Liverpool

Ef við skoðum svo aðra leikmenn deildarinnar, þá eru ófáir leikmenn þar sem studdu Liverpool í æsku.

Þrátt fyrir að Manchester City hafi verið helstu andstæðingar Liverpool á síðustu 2 árum, þá eru a.m.k. tveir fyrrum aðdáendur í röðum þeirra ljósbláu. Sergio Agüero var velþekktur stuðningsmaður Liverpool, þetta var vitað á sínum tíma þegar hann var að koma í ensku deildina og einhverjir vonuðust til að hann myndi velja okkur fram yfir Manchester liðið. En þetta var hins vegar á þeim tíma þegar Roy Hodgson stýrði liðinu og því að mörgu leyti skiljanlegt að hann færi annað. Sama gildir með Kevin De Bruyne, en á sínum tíma var Michael Owen hans uppáhaldsleikmaður.

Meðal leikmannna Tottenham er helst að nefna Dele Alli. Frægt er að hann var mikill aðdáandi Gerrard í æsku, og að hann var alls ekki fjarri því að koma til Liverpool í stað Tottenham.

Það verður nú að játast að í seinni tíð hefur lítið verið um að stuðningsmenn Liverpool spili fyrir Manchester United, og svo öfugt. Á því er þó ein ansi stór undantekning: Ole Gunnar Solskjaer var á sínum tíma stuðningsmaður Liverpool, og þegar hann var nýkominn til United var hann ennþá skráður í stuðningsmannafélag Liverpool í Noregi. Síðustu fréttabréfin sem hann fékk frá þeim klúbbi ku hafa verið send í pósti til Manchester. Þá er til mynd af honum í Liverpool treyju, að vísu er frekar greinilegt að þar er eitthvað lélegt Photoshop í gangi.

Meðal leikmanna Everton eru nokkrir púlarar. Þannig studdi Leighton Baines hina rauðklæddu frá unga aldri, og Lucas Digne er með “I never walk alone” tattóverað á brjóstkassann. En það þarf svosem ekki að segja neitt… Þá studdi Ashley Williams hina rauðklæddu allt fram á unglingsár.

Svo eru menn sem studdu ekki bara Liverpool í æsku heldur eru bornir og barnfæddir scouserar, eins og Conor Coady sem kemur úr akademíu Liverpool en er núna fyrirliði Úlfanna.

Allir þessir leikmenn eru þó sammála um það að um leið og þeir ganga í raðir tiltekins liðs, þá eru þeir orðnir stuðningsmenn þess liðs, og fyrri tilhneigingar eru roknar út í veður og vind. Að því leytinu eru þeir öðruvísi en við hin, sem mörg hver skiptum sjálfsagt oftar um maka á lífsleiðinni heldur en uppáhalds félag.

5 Comments

 1. Góð samantekt!

  Fyrir þau sem eiga erfitt með að bíða milli leikja mæli ég með þessu samtali Carra og Owen. Það er áhugavert að heyra hlið Owen í þessu öllu en á sama tíma alveg smá gaman líka að heyra hann kveljast við að tala um þetta. Hann er gráti næst á kafla. Í lokin finnst mér frábært að heyra þá félaga ausa lofi yfir Fowler og ekki síður Gerrard. Mæli með hlustun!

  https://open.spotify.com/episode/46rbFX9kENLmY8x9d7HThA?si=ndmy_5EoQwWLUhemdROO9w

 2. Síðan má ekki gleyma að margar af stærstu íþróttastjörnum USA og víðar, sem eru samningsbundnar Nike, eru aðdáendur LFC en er bara ekki heimilt að koma fram á viðburðum, leikjum ofl. nema þar sem Nike er styrktaraðili, og hvað haldiði, Liverpool fer inn í Nike pakkann eftir vertíðina, þá eigum við eftir að sjá margar stjörnur bæði í einstaklings og öðrum íþróttagreinum flykkjast á Anfield til að sýna sig og sjá aðra, og umfram allt sjá liðið sitt spila.

  YNWA

  1
 3. Afsakið smá off topic hérna.
  Eru margir hérna sem eru að plana að skella sér í (Áætlaða) skrúðgönguna 18 mai ?

  1
  • Þá er bara að taka hótel í sveitunum í kring, jafnvel manchester ef allt er uppbókað, það er ekkert dýrt að fara á milli ef maður er á annað borð að eyða aur í að fara út til að skella sér í skrúðgöngu 🙂

Liverpool 1 – Shrewsbury 0

Sumarglugginn – Hvað getur Liverpool gert?