Southampton mætir á Anfield

19 stiga forskot, á góðri leið með að vinna Englandstitil númer 19 og búnir að vinna öll 19 liðin í deildinni á þessu tímabili. Næst er það komið að suðurlandastrákunum í Southampton að koma á Anfield og spreyta sig gegn okkar mönnum.

Eftir fall niður í C-deildina 2009 náði Southampton félagið loks að vakna og bjó til skemmtilegt lið sem var komið aftur upp í efstu deild 2012 og voru fljótt búnir að koma sér inn í Evrópudeildina. Þeir réðu áhugaverða stjóra í Pochettino og Koeman og það virtist allt benda til þess að Southampton væri komið til að vera í baráttunni um Everton titilinn, að vera “best of the rest” í ensku úrvalsdeildinni. Síðustu tvö ár hafa þeir hinsvegar verið í harðri fallbaráttu og var útlit fyrir að þeir væru á niðurleið fyrr á tímabilinu þegar þeir töpuðu 9-0 fyrir Leicester og var lítið sem benti til þess að liðið myndi ná að rífa sig upp.

Síðan þá hafa Southampton menn náð í 26 stig í fjórtán leikjum þar af með sigrum gegn Leicester, Chelsea og Spurs og eru nú er efri hluta deildarinnar!

Aðalmaðurinn á bakvið endurkomu Southampton í vetur hefur verið fyrrum Liverpool maðurinn Danny Ings sem er búinn að skora 14 mörk á tímabilinu, þar af tíu í þessum fjórtán leikjum síðan þeir töpuðu fyrir Leicester.

Á þeim tíma sem Southampton var að rísa upp um deildirnar og upp í Evrópudeildina náðu þeir að skapa ótrúlegt magn af spennandi leikmönnum sem fengu síðan félagsskipti annað, flestir til okkar. Aðalsmerki þeirra var þó að ná alltaf að finna eftirmann þeirra leikmanna sem yfirgáfu félagið en núna nokkrum árum seinna er óhætt að segja að það eru ekki margir leikmenn hjá félaginu sem heilla stóru liðin í Evrópu.

Það er gluggadagur í dag en ólíklegt að okkar menn geri eitthvað en Southampton gæti misst Cedric Soares til Arsenal en hann hefði líklega ekki spilað á morgun vegna meiðsla en Yan Valery er einnig meiddur svo við gætum séð nýja manninn Kyle Walker-Peters í bakverði en hann var að koma frá Tottenham á láni. Hassenhuttl talaði þó um að hann væri hugsanlega ekki klár í þennan leik en í síðustu tveimur leikjum hafa þeir spilað miðverði og miðjumanni í hægri bakverði og því enn meiri sorg að Sadio Mané nái ekki þessum leik.

Southampton hafa verið töluvert betri á útivelli en heima í vetur en ef bara eru teknir útileikir væru Southampton í 5. sæti deildarinnar. Þeir hafa fengið á sig 14 mörk í útileikjum vetrarins en tíu af þeim hafa komið eftir 75. mínútu þannig við gætum séð enn einn leikinn þar sem við skorum sigurmark í lokinn.

Okkar menn

Eins og áður kom fram og allir vita erum við með nítján stig forskot á toppi deildarinnar og með sigri á morgun náum við tuttugu og tveggja stig forskoti, allavega þar til á sunnudaginn þegar Man City spila við Jose Mourinho og hans menn í Tottenham Hotspur

Hjá okkar mönnum er það að vanda Nathaniel Clyne sem er frá vegna meiðsla ásamt Sadio Mané. Shaqiri, Milner og Lallana eru allir tæpir en líklegri til að koma aftur gegn Norwich eftir tvær vikur en gætum þó séð einhvern þeirra á bekknum. Divok Origi fór einnig útaf vegna krampa gegn West Ham en allar líkur að hann nái þesum leik.

Á tíma var Southampton lið sem stríddi okkur reglulega en við höfum nú unnið þá fimm leiki í röð og ekki tapað gegn þeim síðan í undanúrslitum deildarbikarsins 2017. Frægast er þó tapið á St. Mary’s í mars 2016 þegar einn Sadio Mané skaut okkur í kaf en sem betur fer þurfum við ekki að mæta honum aftur.

Ég ætla að skjóta á að við byrjum með sama byrjunarlið og í síðasta leik gegn West Ham. Þó eru einhverjar líkur á að Fabinho komi inn í liðið fyrir annað hvort Origi eða Ox en hann hefur virkað ryðgaður í innkomum sínum eftir meiðslin og þá helst í leiknum gegn Shrewsbury á meðan Henderson hefur dottið aftur niður í sexuna og aldrei spilað það hlutverk betur þannig mér þætti það ákveðin synd að færa hann þaðan þó það muni án efa gerast fyrr eða síðar.

Spá

Mo Salah hefur sérstakt dálæti á Southamton en hann hefur skorað fimm mörk í þeim fimm leikjum sem hann hefur spilað gegn suðurstrandastrákunum og ég ætla að spá öðrum 2-0 sigri þar sem hann setur bæði mörkin og tryggir okkur tímabundið tuttugu og tveggja stiga forskot á toppnum.

YNWA

Leikurinn hefst klukkan 15:00 á morgun og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.

8 Comments

 1. Emre Can kominn til Dortmund, sem þýðir bara eitt: Við sláum þá út úr Meistaradeildinni!

  1
 2. Takk fyrir skýrsluna. Það er skrítið að vera með svona mikið forskot í deildinni, spennan farin og maður er farinn að sakna gamalla tíma þegar Liverpool var að ströggla við liðin í neðrihlutanum. Lið eins og Arsenal og Manchester Utd miðað við töfluna í dag. Nú veit maður að þeir sigla þessu heim í hvert einasta skipti. Önnur lið koma skjálfandi á beinunum á Anfield. Það er eins og það á að vera og var þegar ég byrjaði að fylgjast með þessu, þegar Alan Hansen var kóngurinn í miðju varnarinnar, hann var síðan lengi á BBC sem álitsgjafi og maður hélt að hann yrði stjóri Liverpool en hann vildi það ekki. Hann hafði sama sjarma og Klopp og maður var smá leiður að hann færi ekki í þjálfun. Að lokum þetta viðtal við Klopp er mjög skemmtilegt og tekið fyrir rönnið á þessu keppnistímabili. https://www.youtube.com/watchv=3VSAMrNdIqg
  Skylduáhorf og styttir stundir fyrir leik. YNWA

  3
 3. Sælir félagar

  Takkfyrir góða upphitun Hannes Daði. Það er ekki miklu við hana að bæta nema spá; 3 – 1

  Það er nú þannig

  YNWA

  3
 4. Er ekki málið að breyta kommentakerfinu í ljósi ítrekaðra spam-kommenta eins og nr 4 undanfarið.

  2
 5. Spennandi leikur eins og flestir leikir. Manni þykir orðið pínu vænt um Southampton enda hafa þeir verið eins og uppeldisstöð fyrir okkar góða lið. Ef ég tel rétt þá hafa einhverjir sex aðalliðsmenn okkar spilað með Southampton (Mane, Lallana, Lovren, VvD, Clyne og Ox).Síðan er þeirra sprækasti maður Danny Ings sem er sannarlega gleðilegt fyrir stráksa eftir erfiðan meiðslatíma hjá Liverpool. Ef menn taka þennan leik af fullri alvöru þá er þetta þriggja marka sigur. Er ekki komin tími á þrennu hjá Firmino? Finnst einhvernveginn að hann eigi það inni eftir frábæra síðustu tvo mánuði.

  6
 6. Mjög ósammála þessu byrjunarliði. Menn þurfa á fá frí til að pakka og undirbúa sig andlega undir gæðastundir með fjölskyldunni. Þannig að Kellheller, Williams, Laruci, Berg, Hoover, Chiravella, Elliott og einhverjir fermingarstrákar ættu að vera tilbúnir í skírn hjá dýrlingunum. Ég meina ef þeim er treyst fyrir að tryggja liðinu áfram í 3ju mikilvægustu keppni tímabilsins þá geta þeir alveg græjað S´ton, erþaggi?

  Af hverju geta menn eins og Adrian, Lovren, Matip, Jones, Lallana. Keita, Minamino o.fl. fringe players og menn sem þurfa mínutur ekki spilað þennan fa cup leik? Fara svo beint í frí í rúma viku eftir þann leik. Skil ekki almennilega af hverju þessir leikmenn vilji ekki bara einfaldlega spila þennan leik.

  2
  • Sendu Klopp línur varðandi hugleiðingu þína Tigan, held að mailið sé klopp@liverpool.co.uk:). Ég held, svona aftan í hnakkanum hafi liðið í heild sinni mikinn áhuga á að bæta met Arsenal yfir taplausa leiki, við með 41 en Arsenal 49 ekki nema 8 leikir til að jafna. 2-0.

   YNWA

   3
  • Þetta 2 vikna frí er ekki sett upp bara uppá grín, þetta er gert til að leikmenn fái smá líkamlega og andlega hvíld frá boltanum og komi svo sterkir tilbaka og ég tala nú ekki um dýrmætan fjölskyldutíma sem ég held að allir skilji.
   Svo er líka Liverpool og Klopp að hugsa enþá lengra fram í tíman því að flestir af þessum leikmönum eru að fara að spila á stórmótum í sumar og fá því líklega ekki mikla hvíld.

   Ég held bara að Liverpool og sérstaklega Klopp hafi unnið sér inn traust frá stuðningsmönnum að þeir vita 100% hvað þeir eru að gera.

   YNWA

   p.s Ég er ekki samála um að FA Cup sé þriðja mikilvægasta keppni liverpool.
   1. Deildinn eftir 30 ára bið 2. Meistaradeildinn er mælikvarði stórliða 3. HM Félagsliða var bikar sem okkar lið hafði aldrei unnið og aðeins sigurvegarar meistardeildar fá að taka þátt í .
   4. FA Cup var einu sinni elsta og virtasta keppni heims en núna eru hún bara sú elsta. Stórliðinn hafa undanfarinn verið að nota hálfgerð B-lið gegn minni spámönnum og meiri segja miðjumoðs lið og lið í fallbaráttu á Englandi hafa verið að hvíla sína sterkustu leikmenn og leggja aðal áherslu á deildina.

   2

West Ham 0 – Liverpool 2

Liðið klárt gegn Southampton – Umræðuþráður