Bikarrómantík á Englandi! Upphitun fyrir Shrewsbury.

Í vesturhluta Englands, ekki langt frá landamærum Wales, er sjötíuþúsund manna bærinn Shrewsbury. Þessi fornfrægi bær var eitt sinn mikilvægur hlekkur í ullariðnaðinum en er í dag aðallega þjónustukjarni fyrir nærliggjandi sveitir og bæi. Bærinn er líka einn af tugum bæja á Bretlandi sem vekur oftast upp viðbrögðin: Æ já, hef séð þetta nafn á einhverri fótboltatöflu. Þangað munu okkar menn fara á morgun og freista þess að komast í fimmtu umferð í bikarnum í einum leik, sem tókst síðast 2014! 

Shrewsbury Town 

Shrewsbury eru fornfrægur klúbbur, þó þeir hafi aldrei gerst svo frægir að spila í efstu deild á Englandi. Liðið var stofnað 1886 og var fyrstu árin í að spila í „lókal“ deildum mið-Englands. Lengst af spiluðu þeir í Birmingham deildinni ásamt mörgum liða sem hafa síðan lagt upp laupana, en líka frægum félögum eins og Coventry og Stoke svo tvö dæmi séu tekin.  

1950 fékk liðið inngöngu í Football League og hafa skoppað milli deilda síðan. Hæstu flugi náðu þeir á níunda áratugnum en þeir eyddu megninu af honum í B-deildinni. Eftir það kom slæmt fall, sem endaði á þeir féllu niður í Conference deildirnar á fyrsta áratugnum sem eru ystu mörk atvinnumennsku á Englandi. Þeir eyddu aðeins ári þar, unnu sig strax upp í d-deildina og komust í c-deildinaÞeir hafa verið að byggja upp hægt og rólega síðan og líta á leik við Evrópumeistaranna sem verðlaun fyrir hið góða starf sem þeir eru að vinna. 

Shrewsbury menn eru hugsanlega sáttir með stöðu sína í deild þó hún sé ekki frábær. Þeir rétt sluppu við fall í fyrra og hafa ekki unnið síðustu fimm leiki sína. Þeir eru nú um miðja deild, samhliða gamla stórveldinu Blackpool.  

Liverpool hafa aðeins einu sinni áður mætt Shrewsbury. Það var 1996, í fjórðu umferð FA bikarsins. Leikurinn fór 4-0 fyrir Liverpool og er helst minnst fyrir að það þurfti að fresta honum í þrjár vikur vegna gífurlegs frosts á Englandi.  

Ég ætla nú ekki að fara ljúga því að ég þekki vel til þessa liðs og geti talið upp lykilmenn þess. Hins vegar má benda á að fyrir svona félag eru lang bestu úrslitin jafntefli. Ef það þarf að leika annan leik, á Anfield, myndi Shrewsbury fá helminginn af miðasölutekjum. Fyrir lið í C-deild er það risasumma, gæti hæglega verið hærri en árstekjur liðsins. Völlur liðsins er svona meðal mikill kartöflugarður, met aðsókn á vellinum er 10.210 í deildarbikarnum 2014-15. 

Dave Edwards, ein af hetjum Shrewsbury.

Við vitum líklega við hverju er að búast frá liði á þessum stað. Þeir munu pakka í vörn, reyna að beita skyndisóknum og föstum leikatriðum til að skora. Þetta verður rosalegt próf fyrir ungu mennina í liðinu okkar, því harkan er steríótýpiskt meiri á þessu stigi fótboltans.  

Liverpool  

Janúar hefur farið betur en bröttustu menn þorðu að vona, en það er líka augljóst að flestir leikmenn okkar þurfa að fá að slaka aðeins á. Leikurinn gegn Wolves í fyrradag var einn sá erfiðasti sem liðið hefur spilað í vetur og maður skilur ekki enn þá hvernig strákunum tókst að sigra hann. Ég vil sjá gott sem alla sem spiluðu leikinn fá hvíld á móti Shrewsbury. Liðið sem vann Everton á líka skilið að fá fleiri mínútur í þessari keppni og jafnframt ómetanlega reynslu í bankann fræga. Að sama skapi eru nokkrir leikmenn að stíga upp úr meiðslum sem þurfa að fá mínútur til að koma sér í gírinn.  

Það bíður Matip og Lovren risaverk að vinna sig aftur inn í byrjunarliðið í deildinni, en ég held að þeir byrji báðir þennan leik fyrir framan besta varamarkmann deildarinnar. Þá held ég að William verði í hægri bakverðinum og Milner er víst enn þá ekki orðin heill svo Larouci fær annað tækifæri til að sína sig í bikarnum.  

Cirivella stóð sig fínt á móti Everton en ég held að það sé mikilvægara að koma Fabinho aftur af stað en að gefa unga stráknum mínútur, þannig að Brassinn verður djúpur í miðjunni. Lallana færir sig líka á bekkinn til að gefa Keita mínútur (þetta er líklega mesta óskhyggjan í þessari spá) og svo fær költ hetjan Curtis Jones að sjálfsögðu að spreyta sig.  

Myndaniðurstaða fyrir minamino
Komin tími að opna markareikninginn!

Ef að Minamino hefði ekki spilað nánast allan leikinn gegn Wolves myndi ég hiklaust setja hann í spánna. Ég ætla reyndar að spá honum í byrjunarliðið, en ég geri það eftir töluvert hik. Hann Elliot og Origi taka framlínuna. 

Spá 

Þetta verður virkilega erfiður leikur. Flestir leikmenn Shrewsbury vita að þetta er stærsti leikur ársins hjá þeim og fyrir marga stærsti leikur ævinnar. Allir elska rómantíkina í bikarnum þegar risi er feldur af einhverjum Davíð úr neðri deildunum. Allir nema risinn að sjálfsögðu. Ég ætla spá því að gæðin í Liverpool liðinu séu bara of mikil og rauðliðar vinni leikinn 0-3Það er löngu orðið tímabært að sjá Harvey Elliot fagna því að skot hans fari í netið, hann skorar snemma. Minamino bætir svo einu við úr horni og Origi klárar dæmið.  

5 Comments

  1. Þessi leikur er flottur fyrir báða aðila, þeir sem spila fyrir Shrewsbury þurfa ekki að ljúga því að hafa spilað við besta lið heims, því þessi leikur verður í öllum annálum liðsins sem og leikmennirnir sem taka þátt ásamt þjálfara. Fyrir okkur er þetta flottur leikur fyrir okkar ungu og þá sem eru að koma inn úr meiðslum. Það liggur við að ég óski eftir jafntefli, málið er bara við höfum ekki tíma til þess, höfum öðrum hnöppum að hneppa á öðrum vígstöðum. 1-3.

    YNWA

    4
  2. Flott upphitun að vanda. Ég vil stilla upp ungu og spræku liði sem klárar verkefnið fyrir okkur. Fáum svo Tranmere í borgarslagn í næstu umferð.

    7
  3. Vona bara að við fáum frekar sterkt lið á morgun, mun betra lið en gegn everton, vill alveg hvíla einhverja leikmenn en vill nota þá leikmenn sem eru að koma úr meiðslum og svo þá úr aðalliðunu sem hafa verið að spila minna, finnst það mun meira meika sens en að hvíla bara allann 20 manna aðalliðshopinn eins og gegn everton og nota B, C og D liðið okkar. Alltilagi að gefa 3 eða 4 ungum strákum sensinn i bland með reyndari mönnum en ef Klopp stillir upp eins og gegn EVERTON munu okkar menn ekkert grisa oft á að fara áfram eins og þá. Finnst liðið og breiddin bara alveg nógu góð í dag til að reyna að vinna þrennuna sem man utd tók 99 .þetta er allavega mín skoðun á þessu.

    2
  4. Sæl og blessuð.

    Vörnin (lovren, matip og fabinho) verður öflugri en gegn Everton en mér kæmi ekki á óvart að restin verði svipuð. Hér forðum daga hefði maður talað um bananahýði en núna er þetta bara afhýddur banani.

    1
  5. Sælir félagar

    Það er ekki líkum saman að jafna liðum sem eru um miðja efstu deild og liði sem er heilum tveimur deildum neðar. Það er ekki mikil áhætta að tefla fram liði sem er að miklum hluta unglingar í bland við leikmenn sem þurfa að spila sig í form. Það liggur við, eins og JOS hér fyrir ofan, að ég óski eftir jafntefli svo Shrewsbury fái leik á Anfield. Það er möguleiki ef vallarskilyrði er slæm þannig að yfirburðir Liverpool njóta sín ekki.
    Það væri mikið ævintýri fyrir þá og gott fyrir budduna hjá þeim en þessi lið í neðri deildunum hafa úr anzi litlu að spila. En því miður fyrir þá fer leikurinn 1 – 3 og ævintýrinu lokið.

    Það er nú þannig

    YNWA

    1

Wolves 1 – 2 Liverpool

Kvennaliðið mætir Blackburn í bikarnum