Wolves 1 – 2 Liverpool

Skósveinar Klopp mættu í heimsókn á Molineux Stadium, einn erfiðasta útivöll deildarinnar, og munu fara þaðan með 3 stig til viðbótar í farteskinu eftir óþarflega nauman 2-1 sigur.

Mörkin

0-1 Henderson (8. mínúta)
1-1 Jiménez (51. mínúta)
1-2 Firmino (84. mínúta)

Gangur leiksins

Leikurinn var í járnum fyrstu mínúturnar, Úlfarnir fengu fyrsta tækifærið sem eitthvað fútt var í þegar þeir áttu aukaspyrnu á vinstri kanti, og fyrirgjöfin sigldi framhjá bæði rauðum og appelsínugulum treyjum áður en Firmino náði að hreinsa. Fyrsta markið kom svo á 8. mínútu, að sjálfsögðu eftir fast leikatriði, og að sjálfsögðu var það Trent sem tók hornið og átti þar með stoðsendingu á Hendo sem skoraði með haus/öxl. VAR eyddi svona 3 sekúndum í að meta hvort þetta hefði verið hendi og komust réttilega að því að svo var ekki. Leikurinn breyttist ekkert mikið við þennan leik, þetta var áfram barátta enda ætluðu heimamenn greinilega að selja sig dýrt. Stærstu fréttirnar í hálfleiknum voru svo kannski þær að Mané þurfti að fara út af eftir u.þ.b. hálftíma leik, það er ekki alveg ljóst hvort að flensan sem var að hrella Lallana hafi líka náð til Mané, eða hvort hann hafi tognað eitthvað lítillega. A.m.k. virtist hann geta gengið eðlilega út af, reyndar eftir að hafa sest a.m.k. tvisvar í grasið. Við vonum bara að þetta sé ekki alvarlegt. Minamino kom inná í sínum fyrsta deildarleik í staðinn, og fór beint í stöðuna hans Mané, en skipti svo við Ox í hálfleik og var hægra megin á miðjunni megnið af seinni hálfleik. Það voru fleiri tækifæri sem liðin fengu í fyrri hálfleik, Salah fékk boltann frá Mané (augljóslega áður en Mané fór útaf!) og var óvaldaður í teignum en vildi greinilega fá boltann frekar á vinstri, og þurfti því að taka snertingar sem töfðu skotið og því komust varnarmenn Úlfanna fyrir. Undir lokin fékk Salah annað tækifæri, Firmino skallaði boltann inn fyrir þar sem Salah var nánast á auðum sjó og með Minamino vinstra megin við sig, en Salah sá ekki ástæðu til að gefa boltann heldur reyndi að skora sjálfur sem tókst ekki. Úlfarnir fengu líka eitt virkilega gott færi þegar einn þeirra var skyndilega á auðum sjó nálægt öðru markteigshorninu, en skallaði framhjá fjærstönginni.

Staðan var a.m.k. 0-1 í hálfleik, en það var ekki langt liðið á seinni hálfleik þegar Wolves voru búnir að jafna. Robertson seldi sig illa í baráttu á miðjunni, boltinn barst til Traore sem var þar með óvaldaður hægra megin, og átti fína sendingu inn á teig þar sem Jiménez var vel staðsettur og átti fastan skalla sem var óverjandi fyrir Alisson. Staðan jöfn, og þetta var semsagt fyrsta markið sem Alisson fær á sig síðan í undanúrslitum Heimsmeistarakeppni félagsliða um miðjan desember, en fyrsta markið í deild síðan gegn Everton í byrjun desember. Það var greinilegt að hann var ekki ánægður. Hann var örugglega ekki einn um það, og það sem verra var að Úlfarnir voru hreinlega líklegra liðið til að bæta við mörkum. Okkar menn fundu sig alls ekki, talsvert af misheppnuðum sendingum, og þeir áttu erfitt með að finna auð svæði til að spila inn í. Á sama tíma áttu svo Úlfarnir allnokkrar sóknir sem hefðu getað endað verr, í einhver skipti varði Alisson, í önnur voru það þeir Gomez eða van Dijk sem björguðu. Okkar menn fengu svosem líka færi, Salah komst nánast inn fyrir með Oxlade vinstra megin við sig en sá hann líklega ekki heldur kaus að skjóta og hitti ekki markið. Firmino slapp í gegn en lét Patricio verja frá sér. Þá átti Minamino gott skot sem Patricio varði, boltinn barst til Firmino sem hefði í raun getað sett boltann á hvaða stað sem var á markið, NEMA staðinn þar sem Patricio lá eftir að hafa skutlað sér fyrir skot Takumi. Auðvitað þurfti skotið frá Firmino að fara beint á þennan eina stað.

Oxlade-Chamberlain var tekinn út af á 70. mínútu, Fabinho kom inn á, og það var skipt yfir í 4-5-1 leikkerfi með Salah uppi á topp, og Firmino og Minamino á vinstri og hægri köntunum. Það var svo á 84. mínútu sem Salah fékk boltann við vítateigslínuna, dansaði aðeins með boltann í kringum varnarmenn en svo barst boltinn til Henderson sem var rétt utan teigs. Hvort Salah sendi hann þangað viljandi eða hvort boltinn barst þangað óvart eða að varnarmaður potaði boltanum þangað skal ósagt látið. Allavega gaf Hendo boltann í fyrstu snertingu inn á teig á Firmino sem var með varnarmann við hliðina á sér, en lék á einn áður en hann smurði boltanum í fjærhornið, óverjandi fyrir Patricio.

Salah var skipt af velli fyrir Origi strax eftir markið, og okkar menn náðu að sigla þessu nokkuð örugglega í höfn á síðustu 10 mínútunum. 1-2 sigur staðreynd á virkilega erfiðum útivelli á móti liði sem er búið að sigra Manchester City tvisvar á leiktíðinni.

Bestu/verstu menn

Klárum þetta leiðinlega fyrst. Andy Robertson hefur oft átt betri daga. Hraðinn í Traore var honum greinilega um megn, og þar fyrir utan átti hann oft misheppnaðar sendingar. Við hefðum haft áhyggjur af Milner í þessari stöðu, en ég er efins um að hann hefði átt verri leik, og allar líkur á að hann hefði staðið sig betur en þetta. Salah hefur líka oft átt betri daga. Hann er vissulega leikmaður sem þrífst á því að vera svolítið sjálfselskur, og þegar það verður til þess að liðið skorar þá elskum við hann fyrir þennan eiginleika. En þegar það tekst ekki – eins og í þessum leik – þá verðum við svolítið pirruð. Eins og Mané varð í haust sællar minningar.

Hvað bestu menn varðar, þá átti Alisson ágætan leik, varði allt sem hægt var að verja. Þá var Gomez sérdeilis öflugur, sem er svosem ekkert nýtt, og Virgil lék bara eins og hann á að sér. En nafnbótina “maður leiksins” hlýtur Jordan Henderson, og er vel að henni kominn enda búinn að vera mjög öflugur upp á síðkastið. Umræðan um það hvort Hendo sé mögulega kandídat í leikmann ársins er aðeins farin af stað, og með frammistöðum eins og í dag er hann ekki að skemma neitt fyrir sjálfum sér. Er hann leikmaðurinn sem skorar flest mörk eða á flestar stoðsendingar? Nei. En hann er núna óumdeilt leiðtogi þessa liðs, og sýnir það á vellinum með frammistöðu sinni. Fleiri svona frammistöður og tal um að hann hljóti nafnbótina leikmaður ársins mun klárlega verða háværari.

Rétt að minnast aðeins á frammistöðu nýliðans, Takumi Minamino. Hann átti leik sem fer svosem seint í sögubækurnar fyrir magnaða frammistöðu, en var alls ekki að standa sig illa. Bara… venjulega. En hann ku víst hafa orðið fyrir einhverju hnjaski á kálfa snemma eftir að hann kom inná og þurfti meðhöndlun í hálfleik skv. Klopp, og því verður að teljast að hann hafi bara staðið sig með miklum ágætum. Munum líka að það er gríðarlega erfitt fyrir nýja leikmenn að koma inn í þetta lið og ætla að slá í gegn frá fyrsta degi. Robertson og Fabinho eru skýrustu dæmin um það, við skulum því gefa Mino góðan tíma til að læra inn á leikskipulag liðsins. Hann mun reynast okkur vel.

Umræðan eftir leik

Enn heldur þetta lið okkar áfram að slá met og skrá sig á spjöld sögunnar.

 • Nú eru komnir 40 leikir í röð án taps í deild, aðeins Arsenal (49) og Nottingham Forest (42) hafa átt lengri taplausar lotur.
 • Forystan í deild er áfram 1316 stig og leikur til góða, núna þarf liðið að vinna 9 leiki til viðbótar af þeim 15 sem eftir eru, að því gefnu að City vinni alla sína leiki.
 • Trent er kominn með 10 stoðsendingar í deildinni á þessu tímabili. Aðeins 10 leikmenn Liverpool hafa nokkurntímann náð 10 stoðsendingum eða meira á einu tímabili, og Trent er sá fyrsti sem nær því tvisvar. Drengurinn er 21 árs.
 • Firmino er nú kominn með 10 mörk, öll skoruð á útivelli. Fínt að hafa hann bara í því.

Næsti leikur er á sunnudaginn í bikar, en þá leikur liðið gegn StrawberryShrewsbury Town í bikarnum. Það eru allar líkur á að fyrstu 11 verði hvíldir, og að Klopp noti hópinn. Ef ekki á móti liði sem er í þriðju efstu deild, þá veit maður ekki hvenær. Síðan tekur við leikurinn sem var frestað í desember gegn West Ham, en þeir eru sem stendur aðeins markamun frá því að vera í fallsæti. Sá leikur fer fram á miðvikudaginn eftir viku, en ekki láta blekkjast þó Hamrarnir séu ekki í góðri stöðu í deildinni, þetta verður alveg örugglega erfiður leikur. Það er lang líklegast að liðið verði án Sadio Mané í þeim leik, en við treystum restinni af liðinu alveg til að klára þetta samt. Síðasti leikur fyrir vetrarhlé er svo Southampton á Anfield þann 1. febrúar, og þar er nú enn eitt bananahýðið þar sem Saints eru með 4. besta árangurinn í deildinni frá því að þeir töpuðu 9-0 gegn Leicester í haust. Danny Ings er auðvitað funheitur og myndi örugglega ekki leiðast neitt að setja eitt eða tvö gegn sínum gömlu félögum. Vonum að hans gömlu félagar setji bara enn fleiri.

Enn og aftur voru strákarnir okkar að minna okkur á hvað við eigum dásamlega gott fótboltalið. Gleymum ekki að þakka fyrir það, því það er svo fjarri því að það sé eitthvað sjálfsagður hlutur að liðið okkar sé eins og það er.

45 Comments

 1. Sælir félagar

  Þarna var ekkert nema heppni sem bjargaði okkur og eigingirni Mo Salha hafði næstum kostað okkur þennan leik. Með því að leggjann lausan á , fyrst Minamino og svo í seinni á Ox hefði hann líklega lagt upp mark. Í stað þess hnoðaðist hann eins og tuddi og glutrað þar með niður tveimur dauðafærum. Ég er gersamlega brjálaður út í Salah og það er ekki honum að þakka að þessi leikur vannst. Það sem bjargaði færinu og markinu hjá Firmino var það að Salah tapaði boltanum og þannig kom færið til. Hann ætlaði ekki að gefa boltann og ég vil að hann verði bekkjaður í næsta leik.

  Það ern ú þannig

  YNWA

  20
  • Allveg sammála þér. Hann spilar stundum eins og krakki. Stór galli á þessum annars frábæra leikmanni

   5
  • Salah er Salah afþví hann er eigingjarn og nærist á að skora mörk. Þannig eiga framherjar að vera. Ef hann telur sig geta komið boltanum á rammann þá gerir hann það – og á að gera það. Hvorki Minamino né Ox voru í hreinum dauðafærum – treysti Salah betur til að klára sitt erfiða færi en þeim tveimur.
   Skil ekki þetta tuð.

   15
 2. Frábær sigur gegn skemmtilegu liði. Mikil breyting þegar Mane fór útaf og Minamino kom inn. Samt frábært að drengurinn fái að kynnast alvörufótbolta úr því að við unnum 🙂 Hef smá áhyggju af eigingirni Salah en ok meðan við vinnum……..Fleiri orð eru óþörf 🙂
  YNWA

  3
 3. Henderson með mark og stoðsendingu og hleypur um eins og vél – maður leiksins.

  25
 4. Djöfull erum við að verða ofdekraðir stuðningsmenn, þetta lið hatar að tapa stigum og það skiptir engu hversu vel þeir spila, þeir klára bara alla leiki.
  Þetta var erfiður leikur eins og var búist við en 3 stig í hús og 8 fingur komnir á englandsmeistaratitilinn.

  10
 5. Veit ekki með mann leiksins, auðvelt að velja Allison og ekki hægt að velja ekki Henderson.

  4
 6. Viljiði reyna að sjá fyrir ykkur Traoré á hægri kantinum hjá Liverpool? Salah, time’s up!

  2
 7. Maður var búinn að gleyma því hvernig það er að fá mark á sig.

  9
 8. Þvílíkt lið!

  Bara halda alltaf áfram, þó svo margir t.d. hér inni séu búnir að gefast upp!

  5
 9. Hendon maðurinn og ég er mjög sáttur við að Minamino hafi fengið smá tíma í PL. Anaars er merkilegt að horfa á okkar menn því þeir virðast gera það sem þarf þ.e eru ekkert að eyða púðri í Sambabolta heldur bara setjann þegar þess gerist þörf. Ég horfði á leikinn eins og þið og var kannkski ekki sáttur við spilamennskuna en átti erfitt með að benda á sökudólg/útskiptingu. Ég á mínar skoðaninr á seinni hálfleiks skiptingunum og hefði viljað hafa þær öðruvísi en kannski er það ástæða þess að ég er að gera það sem ég geri í dag og Klopp er í sinni vinnu. YNWA.

  11
 10. Ég sem talaði um það eftir síðasta leik að fara bara slaka á og njóta þetta lið ætlar ekkert að leifa manni það og þá ekki síst Salah ! Mætti halda að hann sé að taka einhverjar EGÓ töflur frá ónefndum manni.
  Hendó maður leiksins þurfti nánast að hrifsa af honum Salah boltann til að koma honum á Firmino.
  En sigur er sigur og maður heldur áfram að vera eins og ofdekraður krakki og öskrar á sjónvarpið.
  Legst á bæn fyrir Mané.

  YNWA

  9
 11. Geggjaður sigur!

  Geggjaður Alisson!

  Geggjaður Bobby!

  Geggjaður Hendo!

  Og þetta Wolves lið er geggjað. Frábær þrjú stig!

  18
 12. Frábær sigur , sá besti á tímabilinu án vafa.

  Eru allir að gleyma van dijk, sá var geggjaður líka.

  Og já kaupa Traore helst núna fyrir lokun gluggans TAKK !!!!!!

  6
 13. Sælir félagar

  Maður er búinn að jafna sig eftir þennan leik svona nokkurn veginn. Þetta Úlfalið er erfiðasta lið sem við höfum spilað við á leiktíðinni og það má bara einfaldlega ekki misnota færin sín gegn svona liði. Það er ekki hægt að segja annað en sigurinn hafi verið sanngjarn. Við fengum færi til að klára leikinn í fyrri hálfleik eða amk. komumst í stöður sem áttu að gefa mark. En það er bara ekki alltaf sem það gengur.

  Hendo maður leiksins en Virgil og Alisson mjög góðir og Gómes algerlega frábær. Hann kemst næst því að vera á sama plani og Virgil og Hendo. Vonandi er Mané ekki mikið meiddur og Mino á nokkuð í land að ná hans getu en gott að hafa hann vinnusaman og tekniskan. Bakverðirnir okkar áttu erfitt á köflum og þó sérstaklega Robbo. Adama Traore er skrímsli sem okkar menn réðu illa við nema helst VIrgillinn. En maður er helsáttur með niðurstöðuna og é tel að núna geti ekkert komið í veg fyrir meistartitilinn í vor

  Það er nú þannig

  YNWA

  7
 14. Sæl og blessuð.

  1. Enn einn meistarasigurinn.
  2. Salah þarf að fara fá smá setu á bekk.
  3. Traore … kaup’ann! Jamm… safna aurum og kaupa þennan vígahnött! Hann var besti maður vallarins – þó hann sé ekki maður leiksins!
  4. Henderson er gull af manni.
  5. Við hljótum að klára dýrlingana snemma í næsta leik og taka svo reitabolta.

  8
  • eigum frestaða leikinn gegn West Ham áður en kemur að leiknum í Southampton. Geri ráð fyrir að allir lykilmenn verði hvíldir gegn Shrewsbury

   1
 15. Þessi sigur var frábær og fer í flokk með Man utd, Man City og Everton sigrunum.

  Þetta var einfaldlega 50/50 leikur. Það er full gróft að segja að við áttum ekkert skilið úr þessum leik en þá held ég að margir séu bara vanir að sjá okkur stjórna leikjum og sigra. Við náðum ekki alveg að stjórna þessum nema á nokkrum köflum og bæði lið voru að fá færi en það sem skiptir öllu máli er að við fengum 3 stig.

  Við virkuðum smá þreyttir og eftir að Mane fór útaf þá fannst manni eins og Wolves fengu smá aukakraft en það sem skiptir öllu máli er að við sigruðum og sínum en og aftur að við getum sigrað alla tegunir af leikjum. (yfirspila lið, skyndisóknir, með föstum leikatriðum og 50/50 leiki).

  Besti maður Liverpool var Henderson og svo voru Gomez og Alisson líka mjög flottir. Vonum núna bara að Mane sé ekki lengi frá og leyfum okkur að setja ungu leikmennina í FA Cup leiknum.

  YNWA – 16 stiga forskot á Man City og með leik inni 🙂

  p.s Þetta Wolves lið hefur sigrað Man City tvisvar á þessari leiktíð.

  17
  • Hver var að tala um að við ættum ekkert skilið úr þessum leik ? Var það skrifað á meðan leikar stóðu ? Ég er kanski gamaldags en nenni bara ekki að lesa bölmóð um liðið mitt hvorki fyrir né eftir leiki og les þess vegna aldrei það sem er skrifað meðan leikur stendur yfir hvorki fyrir eða eftir leik.

   YNWA

   6
 16. Næstu 8 EPL leikir Man City:
  Spurs (ú)
  Leicester (ú)
  Arsenal (h)
  Man Utd (ú)
  Chelsea (ú)
  oooog svo Liverpool (h)

  Öll stærsu lið Englands í þessum pakka og nokkuð víst að þeir eiga eftir að tapa stigum.

  En ef þeir gera það ekki og okkar menn ekki heldur þá dugar okkur jafntefli á Etihad og dollan er okkar!

  Er alveg að bilast því það er svo gaman að vera púllari akkúrat núna!!!

  17
 17. Getur einhver útskýrt af hverju VVD fær hærri einkunn en Gomez ? Hef ekkert að setja út á kótilettukarlinn i dag ! Búinn að vera magnaður

  1
 18. Ég veit að það er auðvelt að gagnrýna Salah eftir svona leiki en það er eitt sem hann hefur sem er að mínu mati alveg ómetanlegt….það er sama hversu hlutirnir eru ekki að ganga upp hjá honum þá hættir hann samt aldrei, hann týnist aldrei í leikjum og lætur sig hverfa ef hlutrnir eru ekki að ganga upp.
  Þó hann klúðri og klúðri þá býður hann sig alltaf aftur og gefur sig allan í leikinn og nær undantekningarlaust þá hleypur hann aftur í vörn að hjálpa til þegar að hann missir boltan. Ég held að það sé stórlega vanmetið hvað hann tekur rosalega orku úr mótherjum okkar þannig að oft losnar um aðra.
  Sjáið t.d. markið sem Firmino skorar, það er auðvelt að gagnrýna Salah fyrir að hafa klúðrað boltanum þar og sagt það heppni að Henderson vann hann og sendi á Firmino…En ef þið skoðið það aftur þá sést að Salah var búinn að draga að sér þrjá leikmenn og þegar að hann missti boltan frá sér var alveg búið að losna um Firmino sem Henderson gerði vel að sjá þegar að boltinn barst til hans.
  En það sem ég er að segja um vinnusemina hjá Salah það á vel um hina tvo framherjana okkar líka. Fyrir utan hæfileika þeirra þá er vinnusemi þeirra algjörlega aðdáunarverð, það sást t.d. er við misstum Mane útaf, það er bara óraunhæft að gera þá kröfu á Minamino að svo stöddu að reyna að fylla það skarð sem Mane skilur eftir sig er hann fer útaf.
  Það er verið að kalla eftir að bekkja Salah en ef það yrði gert þá ég held að það muni koma í ljós hvað hann er okkur rosalega mikilvægur inn á vellinum þó svo að hlutirnir séu ekki að ganga upp á við séum að pirra okkur yfir ákvörðunartöku hans. Ég veit að það er auðvelt að missa sig yfir klúðrunum hans ..En hugsið út í það….Munið þið eftir því hvenær Salah týndist síðast í leik þegar að hlutirnir voru ekki að ganga upp hjá honum? Nokkuð sem maður sér oft hjá framherjum (annara liða) þegar að hlutirnir ganga ekki upp.
  En sem betur fer þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því hvern þarf að bekkja…Klopp og félagar hafa svo margsannað það að þeir vita best hvernig best er að stilla upp liðinu fyrir hvern og einn leik og hafa ekki þurft að leita ráða hjá mér eða öðrum sófasérfræðingum.

  54
  • Takk. Eg ætlaði einmitt að tala nákvæmlega þetta. Salah er gríðarlega mikilvægur leikmaður sem dregur mikið til sín. Hann á eftir að fjölina sína adgur og þá mun markatalan okkar nálgast íslenskar mafíuvaxtartölur.

   10
  • Takk fyrir að benda á hið augljósa, sem ekki allir sjá. Salah var mjög mikilvægur fyrir okkur í þessum leik eins og flestum þótt hann nýti færin ekki alltaf, enda oft 2-4 menn að þjösnast á honum.

   5
 19. Alls ekki að bekkja salah því það er alltaf maður á honum og annar í svæðisvörn nálægt. Sem þýðir að leikmenn LFC sem hlaupa að teignum eru alltaf í yfirtölu. Aukin heldur þá er “Senter” sem hugsar ekki alltaf um að skora er gagnlaus.
  Kv. Björn

  18
 20. Tvö atriði.

  Þetta finnst mér óþarfa hógværð “Forystan í deild er áfram 13 stig … ”

  Ég væri til í að heyra mat fólks hvað vantar upp á hjá Wolves? Afhverju eru þeir ekki hærra í töflunni? Liverpool með einhverja langbestu frammistöðu í deild, þurfti að hafa fyrir hlutunum. Besta varnarlína ever réð við þá, skiljanlega. En hvað hefur kostað þá mest í frekari stigasöfnun?

  2
  • Markatalan 35:32 segir allt sem segja þarf. Skora ekki nóg. Fá of mörg mörk á sig.

   1
  • Held að þeir hafi bara farið illa af stað í deildinni enda var álagið mikið þar sem þeir voru í undankeppni evrópudeildarinnar á þeim ´tima.

   2
 21. Flottur sigur á flottu liði Úlfanna.
  Það gleður mig óendanlega að sjá Henderson vera orðinn svona svakalega stöðugur í frammistöðum sínum, eins og ég gat orðið pirrað mig á fyrirliðanum.
  Hann er ómetanlegur í dag.

  YNWA!

  5
 22. Sælir félagar

  Ég vil taka undir það sem Beggi Á segir um Salah og dreg það til baka að það eigi að bekkja hann. Þetta var skrifað í lost ástandi í spennufalli eftir leikinn. Ég fer samt ekki ofan af því að hann átti að gefa á Minamino og hann vissi vel um hann í stöðunni. Hinsvegar hefur hann að öllum líkindum ekk séð Ox í seinna skiptið. Auðvitað er eðlilegt að markamaskína eins og Salah sjái ekkert nema markið og hann tekur til sín það er ekki vafi.

  Það er nú þannig

  YNWA

  12
 23. Það sem er örugglega erfiðast hjá liðinu þessa dagana er að halda einbeitingu. Leikmennirnir eru alveg jafn meðvitaðir um stöðuna og við, þó þeir segi annað í viðtölum.
  Hefur fundist Robertson vera farinn að láta stöðuna ná til sín í undanförnum leikjum. M.a. með því að ætla að gera of mikið, eins og þegar hann seldi sig tvisvar í þessum leik. Það getur eflaust verið erfitt að lenda í erfiðleikum með hraðann og sterkann andstæðing, þegar margir vilja meina að þú sést besti bakvörður í heimi, í besta liði í heimi. En líka í þeim “swagger” sem hann verið að sýna, glottandi eftir tæklingar í staðinn fyrir að hugsa strax um að koma sér í stöðu, eins og hann gerði þegar hann var að sanna sig.
  Þetta á örugglega líka við þegar þú ert í þeirri stöðu að hafa verið stærri hluti af velgengni liðsins en þú ert á þessum tímapunkti, þegar velgengnin er einmitt í hámarki. Þannig á Salah eflaust erfitt með að markatalan sanni ekki mikilvægi hans, þegar allir nema Gomez og Allison eru búnir að skora á tímabilinu. Chamberlain hefur örugglega líka verið meðvitaður um að meiðsli Fabinho voru hans gluggi til að sanna sig.

  4
 24. Erfiðasti leikur tímabilsins í deildinni til þessa. Seinni hálfleikur gegn Chelsea var strembinn og varnarmúr ManUtd á Old Trafford var illviðráðanlegur en þetta Wolves lið gaf Liverpool langerfiðustu 90 mínútur sem liðið hefur spilað í Úrvalsdeildinni síðan að liðið tapaði á Etihad fyrir rúmu ári síðan. Frábært að taka 3 stig heim.

  Minamino fékk heldur betur að kynnast djúpu lauginni í gær, greinilega svolítið stessaður en mér fannst hann komast ágætlega frá leiknum, mun betur en t.d. Oxlade sem var alls ekki góður í seinni hálfleik þegar hann var orðinn einn af fremstu þremur. Hlakka til að sjá meira af Minamino, sem verður vonandi gegn Shrewsbury.

  5
 25. Algjörlega dásamlegt að komast í gegnum þennan leik með 3 stig, fyrri hálfleikur flottur en seinni dapur, Alisson og Hendo menn leiksins, Virgil og Gomez flottir. og enn einn leikinn er Robertson lélegasti maður Liverpool. og nú skulum við bara tala um fótboltamenn þá er röðin svona , Virgil, Mane, Firmino, Salah, Arnold, Gini, Henderson , Gomez, Fabinho, Robertson. og ég er ekki að tala um hvernig menn voru í fyrra, 2016 eða 1985, mér er allveg sama um hvernig menn voru þá

  1
  • Viltu ekki fá bara fá Moreno aftur ? Og varst þú kanski einn af þeim sem drullaði yfir Hendó á sínum tíma? Og varstu jafnvel að segja að Lúkas væri ekki nógu góður fyrir LFC hér áður þú allavega minnir mig mikið á mann sem ég þekki, en hann þolir bara ekki Hendó og sér alltaf eitthvað að í hans fari. Ég er ekki að segja að Robertson sé búinn að vera eitthvað geggjaður í síðustu leikjum en það eru nokkrir sem hafa ekki síður átt slaka leiki en hann t.d. Ox og Salah.
   Horfum bara aðeins tvo síðust leiki sem eru ManU og Wolverhampton. Í ManU leiknum var planið hjá Ole G að loka á bakverðina okkar og það gerði það að verkum að mínu mati að þeir litu báðir illa út í þeim leik en þá að sjálfsögðu stíga eihverjir aðrir upp og miðjumenn okkar Hendó og Wijnaldum gerðu það svo sannarlega. Í Úlfa leiknum var eitt stk Adam Traoré á hans væng og fór hann ansi illa með margan þó að liðið okkar hafi oftast átt gott svar við hans leik heilt yfir. Svo að lokum ef Robertson sem er talinn er besti vinstri bakvörður í heimi er lélegastur af þeim 11 sem byrja leikinn þá er það lúksusvandamál sem allir ættu að geta sæt sig við.

   2
 26. Sælir félagar

  Þegar leikmenn eru dregnir í dilka verður að hafa aðeins meiri yfirsýn en bara einn leikmann og hvernig hann hefur “performerað” í síðustu leikjum. Ég mundi raða þessu svona og taka þá svæði vallarins og þá sem fylla þau svæði. Beztir á sínu svæði eru eftirtaldir leikmenn að mínu mati:

  Mark: Alisson Becker

  Í hjarta varnarinnar: Virgil og Gomes

  Bakverðir: TA Arnold og Robertson

  Miðja: Henderson, Fabinho og Gini

  Sókn: Mané, Firmino og Salah.

  Þetta væri alltaf mín uppstilling á byrjunarliði ef allir væru heilir og tiltækir. Aðrir leikmenn koma svo einfaldlega á eftir þessum 11. Að bera saman t.d. Virgil og Firmino og deila um hvor er betri leikmaður er bara bull. Firmino er betri en Virgillin sem einn af fremstu þremur og Vigil betri en Firmino í hjarta varnarinnar. Þeir eru einfaldlega beztu menn liðsins í sinni stöðu og því fær ekkert breytt.

  Það er nú þannig

  YNWA

  5

Liðið gegn Úlfunum

Bikarrómantík á Englandi! Upphitun fyrir Shrewsbury.