Upphitun: Heimsækjum Úlfana

Annað kvöld mun Liverpool liðið ferðast til miðlandanna á Molineux völlinn þar sem andstæðingarnir verða heimamennirnir í Wolves. Þar mætum við eina liðinu sem hefur spilað fleiri leiki á tímabilinu en Wolves munu á morgun spila sinn fertugasta leik á tímabilinu eftir strembna undankeppni í Evrópudeildinni þar sem þeir þurftu að spila sex leiki áður en þeir komust í riðlakeppnina. Liverpool er þó ekki langt undan en við höfum spilað einum leik minna.

Wolves hefur, þrátt fyrir slaka byrjun á mótinu, náð að stimpla sig inn í Meistaradeildarbaráttuna en þeir sitja í sjötta sæti aðeins sex stigum frá Chelsea í fjórða sætinu. Tímabilið hefur þó verið frekar undarlegt hjá þeim. Þeir hafa aðeins leitt leiki í 305 mínútur í deildinni sem er minnst allra liða í deildinni og hafa fengið á sig fyrsta mark leiksins í sextán af þeim 23 leikjum sem þeir hafa spilað, þar af hefur það gerst í síðustu sjö deilarleikjum. Þeir hinsvegar gefast aldrei upp eins og við sáum bæði þegar þeir snéru við leik gegn Man City og gerðu okkur svo hrikalega erfitt fyrir tveimur dögum seinna. Síðan síðasta tímabil hófst hafa Wolves skorað 68% marka sinna í seinni hálfleik leikja.

Við höfum séð í leikjum þessara liða að Wolves eru stórhættulegir en hinsvegar hefur okkur gengið ótrúlega vel á þessum velli. Liverpool hefur ekki tapað deildarleik á Molineux síðan 1981 og síðan úrvalsdeildin var stofnuð hafa Wolves aðeins skorað þrisvar gegn Liverpool í ellefu deildarleikjum en slegið okkur tvisvar út úr FA bikarnum á sama tíma.

Hvað á svo eftir að segja um þetta ótrúlega Liverpool lið okkar. Liðið hefur náð í 91 af síðustu 93 stigum mögulegum í deild, ríkjandi Evrópu- og Heimsmeistarar og verðandi Englandsmeistarar. Tapi liðið ekki á morgun verður það aðeins fimmta liðið í sögu deildarkeppninnar til að ná að fara 40 leiki án þess að tapa á eftir Arsenal, Chelsea, Nottingham Forrest og Huddersfield og haldi þeir hreinu þá jafna þeir félagsmet, átta leikir í efstu deild án þess að fá á sig mark. Ótrúlegt lið sem við erum að horfa á þessa dagana og megi það lengi halda áfram!

Meiðslalistinn er að minnka en við sáum bæði Matip og Fabinho á bekknum gegn Man United og gætu Lovren og Shaqiri komið aftur í vikunni en verða að öllum líkindum ekki hluti af þessum leik meðan Keita, Milner og Clyne eru enn frá.

Það er leikur í bikarnum um helgina þar sem við sjáum að öllum líkindum mjög breytt lið þannig ég býst við því að við sjáum mjög sterkt lið á morgun og set því liðið svona upp

Fabinho fékk að koma inn gegn United og er því vonandi í nægilega góðu standi til að byrja leikinn á morgun. Þetta er líklega okkar sterkasta lið í dag, fyrir utan kannski Matip sem var ótrúlegur áður en hann meiddist en meðan vörnin heldur hreinu í hverjum einasta leik með Joe Gomez er erfitt að færa rök fyrir því að setja Matip inn.

Jafnvel í leik gegn jafn óútreiknanlegu liði og Wolves er erfitt að spá öðru en Liverpool sigri þessa dagana. Ég ætla því að spá okkur 2-0 sigri þar sem við fáum ekki á okkur mörk þessa dagana og mörkin komi frá Firmino sem er í miklu stuði og að Trent setji eitt úr aukaspyrnu þar sem ég setti bandið á hann í fantasy og þarf á stigunum að halda.

Við minnum svo á það að kop.is er með pub quiz á Sport og grill fyrir leik en það hefst klukkan sex. Hvetjum sem flesta til að mæta.

17 Comments

 1. Afsakið komment á “annað lið” en my god sáuð þið Man. Utd tapa 0-2 fyrir Burnley rétt í þessu á Old Trafford? Leikmenn andlausir, ráðalausir og með hausinn ofaní bringu þegar sá hvert stefndi – og áhorfendur yfirgáfu pallana í stórum stíl!

  15
  • Þetta er rosalegt! Ég held, í alvöru talað, að það verði krísufundur hjá þeim í kvöld og að niðurstaðan verði sú að norski nördinn verði látinn fara. Þvílíka hrunið og þvílíka draslið sem þetta lið þeirra er. Stuðningurinn við hann fer minnkandi með hverjum deginum og þegar áhorfendur gera þetta að þá eiga forráðamenn að bregðast við. Mikið er nú gott að þetta lið sé að eyða hundruðum milljóna í þjálfaraskipti á hverju ári.

   En varðandi leikinn okkar á móti Úlfunum að þá verður það hörkuleikur þar sem við kreistum fram 0-1 sigur og mikið yrði það nú ótrúlega sætt og fallegt!

   5
   • Það virðist nánast allt vera í ólagi hjá MU. Leikmenn ekki í nægilega góðu formi, hvorki andlega né líkamlega, spila með hálfum huga, rekja boltann um völlinnn þangað til þeir komast ekki lengra og líta þá upp til að gá að einhverjum til að gefa á. Ekkert bit. Enginn liðsandi. Og ekki er nú aumingja kallinn hann Maguire aðsópsmikill í kafteinshlutverkinu. Ekki frekar en Solskjær, sem stendur ekki einu sinni upp úr sætinu sínu til að hvetja liðið áfram og leggja línurnar öskrandi af bræði! Jæja, nóg um þetta.

    7
  • Ég verð alltaf pínu áhyggjufullur þegar það verður svona augljóst hvað OSG stendur sig illa. Ekki vill maður nú að hann verði rekinn.

   5
 2. Sæl og blessuð.

  Ég ætlaði að hefja talið á bjartsýnum nótum – við unnum nú mu 2-0 og ættum ekki að óttast Úlfana. En alltaf reyna þeir að lækka í manni rostann..!

  En aftur að dauðans alvörunni … Úlfarnir eru það lið, ásamt City sem ég óttast mest að muni taka frá okkur stigin. Síðast voru þeir vígmóðir eftir hörkurimmu gegn þeim fölbláu þar sem Traore byrjaði á bekknum. Nú eru þeir baneitraðir og á heimavelli. Traore verður með frá upphafi og lítur á þetta sem atvinnuviðtal. Þetta verður einhver svakaleg rimma.

  Leyfi mér samt að halda lífi í voninni. Eigum að geta tekið þetta með blöndu af seiglu og meistaratöktum. 0-1 í spennutrylli dauðans.

  10
 3. Sælir félagar

  Þetta verður hörkurimma að mörgu leyti. Aðallega þó fyrir þær sakir að Úlfarnir gefast aldrei upp og því verður þessi leikur mikið álag á bæði lið. Samt á að vera það mikill munur á þessum liðum að sigur á að vinnast hvað sem tautar. Ég spái 1 – 3 og hlakka til annað kvöld að horfa á öflug lið eigast við sem bæði eru með mikið hjarta en dálítið misjafna getu.

  Það er nú þannig

  YNWA

  8
 4. Wolves stóðu vel í okkar á Anfield og þorðu að spila sinn leik, þeir áttu jafn mörg skot og við í þeim leik sem er mjög sjaldgæft og þorðu að halda bolta.

  Klopp talaði um fyrir leikinn að til þess að sigra Wolves þurfum við að hlaupa mikið því að þeir setja liðið sitt upp þannig að þeir nota alla breyddina á vellinum en það ættu samt að vera góðar fréttir að við erum líklega það lið í deildinni sem hlaupum hvað mest.

  Þeir eru í hefndar hug og telja að VAR hafi skemmt leikinn á Anfield og spáir maður því hörku leik.
  1-1 þar sem Mane mun skora fyrir okkur og við náum 14 stiga forskoti og enþá með leik inni.

  1
 5. Sælir félagar

  Er það misskilnur hjá mér eða . . ? Erum við ekki með 13 stiga forskot og förum í 16 stiga mun ef leikurinn vinnst? Annars bara góður 🙂

  Það er nú þannig

  YNWA

  2
  • Nei það er rétt hjá þér og eigum leik inni þannig að forystan getur orðið 19 stig. Ég endurtek 19 stig 🙂

   4
 6. Úlfarnir eru auðvitað í bullandi baráttu um Evrópusæti þannig að þeir mæta sennilega stemmdir í þennan leik. Eins skrýtið og það nú er þá er maður eiginleg mest hræddur við þennan leik af þeim sem eftir eru.

  1
 7. Erfiður leikur, erfiður andstæðingur sem gefst aldrei upp. Eitt af þremur liðum deildarinnar sem ég óttast mest. Margt er jákvætt þessa dagana, Matip, Lovren og Fabhino að koma til baka og fleiri á leiðinni, forskot í deildinni það mikið að alltaf verður erfiðara að glutra því niður og síðast en ekki síst er tiltölulega lítið leikjálag. En það má ekki slaka á, MC getur tekið upp á því að vinna rest og því verður að ná í mörg stig í viðbót.
  Fyrir mig dugar alveg 1-0 sigur í þessum leik með marki frá Firmino.

  3
 8. Erum með jafnmörg stig og Utd og Arsenal til samans og eigum tvo leiki inni – ótrúlegt.

  Verður röff í kvöld,en gæti trúað því að við fáum jafnvel svipaða frammistöðu og gegn Leicester um daginn – tökum þetta 3 – 0.

  3
 9. Saga frá TAW að Van Dijk hafi nælt sér í nett kvef og verði mögulega hvíldur í kvöld. Alveg óstaðfest – en við lifum það af þó Lovren komi inn með Gomez.

 10. Þessi kjaftasaga reyndist sem betur fer röng. VVD byrjar og uppstillingin sú sterkasta með OX á mipjunni með Hendó og Gini. UP THE REDS!

  1

Gullkastið: WGWTL

Liðið gegn Úlfunum