Kvennaliðið heimsækir Bristol

Það er tvöfaldur leikdagur hjá okkar fólki, karlaliðið okkar fær jú United í heimsókn eins og ætti ekki að þurfa að minna neinn á, en í millitíðinni munu stelpurnar okkar heimsækja Bristol City. Okkar konur áttu að spila við United um síðustu helgi, en þeim leik var frestað vegna afleitra vallaraðstæðna á Prenton Park. Af hópnum er það annars að frétta að Missy Bo Kearns skrifaði undir fyrsta atvinnumannasamning sinn við klúbbinn, og er í framhaldi af því farin á láni til Blackburn Rovers út leiktíðina. Blackburn konur eru að spila í næstefstu deild og eru þar í tíunda sæti af ellefu liðum.

Þá hlaut Niamh Charles nafnbótina leikmaður mánaðarins hjá Liverpool Women, sem þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess að hún skoraði bæði mörkin sem liðið skoraði í desember.

En að leik dagsins: Bristol City eru í næstneðsta sæti deildarinnar með 6 stig, og aðeins okkar konur fyrir neðan þær með 3 stig eftir 3 jafntefli í deildinni. Það er því líklegt að þetta verði mikill baráttuleikur og vonandi að okkar konur sýni sínar bestu hliðar.

Svona verður stillt upp í dag:

Preuss

Jane – Bradley-Auckland – Fahey – Robe

Bailey – Roberts – Furness

Charles – Babajide – Lawley

Bekkur: Heeps, Clarke, Murray, Hodson, Sweetman-Kirk, Rodgers, Purfield

Að öllum líkindum er búið að skipta aftur í 4-3-3, mögulega vegna þess að Kirsty Linnett er hvergi sjáanleg. Það sama á við um Fran Kitching sem hefur verið í marki í síðustu leikjum, en Anke Preuss er komin aftur í markið, og á bekkinn er mætt Eleanor Heeps en hún leikur að jafnaði með U21 liðinu, og var meðal þeirra U21 leikmanna sem var á sameiginlegri mynd af kvenna- og karlaliðunum sem var tekin í haust. Þá er afar jákvætt að sjá að bæði Jemma Purfield og Jesse Clarke eru komnar til baka úr hnémeiðslum, og byrja á bekknum.

Við uppfærum svo færsluna síðar í dag með úrslitum og uppfærðri stöðu í deilinni.


Leik lokið með 0-1 sigri Liverpool, það var Rachel Furness sem skoraði í leik nr. 2 fyrir félagið á 13. mínútu. Babajide hafði átt skot í stöng á 2. mínútu, og svo átti téð Rachel skot í slána undir lok leiksins. Bristol konur fengu kjörið tækifæri til að jafna um miðjan seinni hálfleikinn þegar þær fengu vítaspyrnu, en Anke Preuss gerði sér lítið fyrir og varði af miklu öryggi.

Semsagt, fyrsti sigurinn í deildinni í höfn! Staðan er nú þessi:

Liðið er semsagt í 11. sæti af 12 liðum, og það eru einmitt Bristol konur sem eru í 12. sæti. Bæði lið eru með 6 stig, en markamunur Bristol kvenna er talsvert lélegri. Næsta lið er svo Birmingham með 7 stig, en þær eiga leik til góða. Aðeins eitt lið fellur í vor, og með svipaðri spilamennsku eru ágætar líkur á að okkar konur sleppi við fallið, þó ekki hafi það litið vel út fyrr í haust.

Næsti leikur í deild er svo einmitt á móti Birmingham á Prenton Park þann 2. febrúar næstkomandi, en í millitíðinni snúa stelpurnar okkar sér að bikarkeppninni um næstu helgi. Við höldum að sjálfsögðu áfram að gera því skil.

5 Comments

  1. Rachel Furness kom okkur í 0-1 með fínu marki á 13. mínútu. Áður hafði Babajide átt skot í stöng á 2. mínútu. Liðið lítur vel út í augnablikinu, en það þarf að halda dampi allar 90 mínúturnar.

    2

Upphitun: Rauðu djöflarnir á Anfield

Byrjunarliðið gegn Man Utd