Upphitun: Rauðu djöflarnir á Anfield

Þá er komið að síðari helming þess árlega viðburðar knattspyrnualmanaksins að erkifjendurnir sem hafa verið bestu lið Englands til skiptis síðust 50 árin leiði saman hesta sína. Straumhvörf hafa átt sér stað í hinum mikla ríg þessara tveggja turna enskrar knattspyrnu þar sem Rauði herinn frá Bítlaborginni undir stjórn keisara Klopp hefur komið sér glæsilega fyrir langefst í úrvalsdeildinni. Á meðan hafa United frá Manchester lent í mikilli niðursveiflu eftir brotthvarf Alex Ferguson en þrátt fyrir þau kaflaskil þá eru leikir liðanna alltaf með stærstu viðburðunum á knattspyrnudagatalinu.

Mótherjinn

Manchester United hafa verið álíka sveiflukenndir og jó-jó þetta tímabilið. Nokkrum skrefum fram á við hefur venjulega fylgt nokkur skref afturábak þannig að ókunnugum virðist sem undarlegur norskur línudans sé í fullri sveiflu. Svo rækilega hafa Óli og hjólasveinar hans kannað fjöll og dali úrvalsdeildarinnar að Fróði og föruneytið gætu þótt mikið til ferðalagsins koma.

Á línuritinu má greina Akrafjall, Skarðsheiði og Esju.

Eftir fyrstu umferð mótsins voru þeir í efsta sæti á markamun en tóku svo norskt skíðastökk alla leið neðst niður í 14.sætið. En hagur strympu hefur vænkast síðan þá og í síðustu umferðum hefur rauðhvítum tekist að klifra upp í 5.sætið en þó í vænni fjarlægð frá Meistaradeildarsæti. Stigabilið í okkar eigin Rauða her eru þó massíf 27 stig og sjaldan ef nokkurn tímann verið eins mikið bil milli liðanna á þessum tímapunkti mótsins síðustu áratugi. Síðast þegar liðin mættust á Anfield með álíka stöðu í deildinni þá var það fyrir sléttum 30 árum er LFC voru ríkjandi Englandsmeistarar og Peter Beardsley setti þrennu í 4-0 sigri.

Slíkt deildarform hefur þó sjaldan verið lykilatriði í leikjum liðanna og oft hefur liðið sem fyrir fram er álitið slakara verið meira mótiverað til að skemma fyrir velgengni þess sem hærra flýgur þá stundina. Leikirnir standa oft og falla með mistökum frekar en glæsilegri spilamennsku en vígið á heimavelli hefur verið nokkuð sterkt síðasta áratuginn eða svo. Frá september 2008 þá hafa liðin mæst 13 sinnum á Anfield og í þeim viðureignum hefur Liverpool unnið 7 sinnum, jafnteflin verið 3 talsins og gestirnir unnið 3 sinnum.

Síðasti stjóri MUFC sem tapaði á Anfield var rekinn

Frábær 3-1 sigur Liverpool í fyrra varð einmitt vendipunkturinn í stjórastarfi Jose Mourinho sem var rekinn eftir niðurlæginguna sem var meiri en lokatölur gefa til kynna. Ólíklegt er að Óli sé svo valtur í starfi þessa stundina en undir hans stjórn hefur liðið verið sérlega misjafnt og venjulega fylgir skammvinnri velgengni biturt bakslag stuttu síðar. Liverpool-menn munu auðvitað vona að sú verði rauninn á sunnudaginn þar sem að Man Utd hafa unnið síðustu tvo leiki sína þó bæðir væru reyndar á Old Trafford.

Það má reyndar til sanns vegar færa að gestirnir séu einmitt skárri á útivelli þar sem þeir geta legið meira til baka og beitt hröðum skyndisóknum með sinni fljótu framlínu. Góður sigur þeirra á Man City á Etihad var einmitt gott dæmi um það og áberandi þeirra besta frammistaða á tímabilinu. Þeir hafa einnig mest megnis verið með betra móti í leikjum gegn toppliðinum og í raun bara tap gegn Arsenal á Emirates þar sem þeir voru áberandi lélegir í toppslag. Það má því alveg segja að þeir hafa verið að mæta mótiveraðir og vel undirbúnir þegar að mikið liggur við.

Gestirnir verða án hinna meiddu Paul Pogba, Scott McTominay, Luke Shaw og hugsanlega Marcus Rashford en að þeim frátöldum er Óli stýrimaður líklegur til að stilla sínu liði svona upp:

Líklegt byrjunarlið Man Utd í leikskipulaginu 4-2-3-1

Liverpool

Okkar menn mæta vel hvíldir og vandlega undirbúnir eftir óvenjulega langt 8 daga bil á milli leikja. Ekki það að slíkur biðtími sé neitt úrslitaatriðið í andrenalín-leik sem þessum en það spillir í það minnsta ekki fyrir að fá að hvíla ögn lúin bein eftir stanslaust leikjaálag síðasta mánuðinn. Að því sögðu þá hafa lærisveinar Klopp verið einstaklega öflugir í þessari maraþon-törn og það að hafa unnið alla leiki í sérlega þungu leikjaplani frá og með öðrum degi jóla er frábært. Næstu tveir leikir eru einmitt þeir síðustu af þessari 7 leikja syrpu með afar krefjandi mótherja og það væri einstaklega sætt að viðhalda velgengninni á kostnað erkifjendanna frá Manchester (7,9,13).

Liverpool voru ekki sérlega sannfærandi á lokakaflanum í síðasta leik gegn Tottenham en hafa sýnt að þeir hafa komið sér upp þeirri frábæru formúlu að vinna þrátt fyrir að vera ekki upp á sitt besta. Klopp hefur þó haft góðan tíma í þessari viku til að leggja upp gott leikskipulag og getur stillt upp afar sterku liði sem verður að öllum líkindum það sama og síðustu helgi. Mikið er af góðum fréttum varðandi endurkomur Fabinho, Matip, Lovren og annarra úr meiðslum þannig að það er að birta til á sjúkralistanum. Milner og Keita missa líklega af þessum leik en við verðum með leikmenn á bekknum sem geta breytt leikjum eins og Minamino, Shaqiri, Lallana og super-subinn Origi en sá síðastnefndi er sá eini af þeim fjórum sem ekki hefur skorað mark gegn MUFC.

Byrjunarliðið er mjög líklegt til að vera það sama og í síðasta deildarleik og væri þá eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

X-Faktorinn

Hjá gestunum þá þurfa þeir að leggjast á bæn að Marcus Rashford muni jafna sig tímanlega fyrir leikinn og muni eiga sinn allra besta dag. Ole Gunnar hefur sýnt það áður að hann er tilbúinn að fórna heilsu leikmanna sinna til lengri tíma til að gera Liverpool skráveifu til skemmri tíma. Við getum því alveg gert ráð fyrir því að Rashford muni spila eitthvað í þessum leik, jafnvel þó að hann þurfi að rúlla um völlinn á sjúkrabeði.

Hitt atriðið sem MUFC þurfa að fá með sér er að sá De Gea sem hefur oft unnið leiki fyrir þá á árum áður mæti á svæðið en ekki sá oflaunaði og mistæki veiki hlekkur sem hefur verið á milli stanganna hjá þeim síðustu misserin. Það virðist sem að eftir hörmungar frammistöðu á HM 2018 að allt sjálfstraust hafi sogast úr Spánverjanum eins og sangríu í steggjaveislu á Ibiza. Við Púlarar vonum auðvitað að hann haldi uppteknum hætti með hlægilegum hörmungum en góður leikur hjá honum myndi gera mikið fyrir þá.

Hjá Liverpool er aðalatriðið að við spilum á okkar eðlilegu getu og sem sterkara liðið á þessum tímapunkti í fótbolasögunni þá ætti það að duga til sigurs. Nýtingin á góðum færum er nokkuð sem mætti batna frá og með þessum leik en oft á tíðum hafa leikir Liverpool verið óþarflega spennandi og tæpir fram eftir leik þar sem tuðrunni hefur ekki verið komið nógu oft í netið þrátt fyrir flott uppspil. Spila okkar leik og nýta yfirburðina á Anfield til að tryggja 3 stig í átt að meistaratitlinum langþráða (7,9,13).

Blaðamannafundir

Klopp ræddi ýmislegt á blaðamannafundinum í gær og hægt er að horfa á það hér:

Ole Gunnar hafði einnig ýmislegt að ræða og það má hlusta á hérna:

Spakra manna spádómur

Liverpool hafa ekkert annað að óttast í þessum leik heldur en óttann sjálfan og sína eigin djöfla. Rauðu djöflarnir gætu alveg gírað sig upp í góðan leik gegn okkur en ef allt er eðlilegt þá eigum við að sigra þá á Anfield. Það væri þó alveg eftir því ef að leiðinleg mistök, VAR-dómgæsla eða eitthvað óvenjulegt rugl hefðu mikil áhrif en við skulum vona að góður fótbolti verði í hávegum hafður í þessum hörkuleik.

Ég er vongóður um sigur en geri þó ekkert endielga ráð fyrir neinni flugeldasýningu. Þrjú stig duga mér og Klopp sama hvernig þau koma og það verður afar erfiður útileikur við Úlfana beint á eftir þessum. Mín ágiskun um gæfulega og getspaka niðurstöðu er 2-0 sigur fyrir Rauða herinn og munu Salah og Mané sjá um mörkin.

YNWA

Leikurinn hefst klukkan 16:30 á morgun og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.

22 Comments

 1. Sælir félagar

  Takk fyrir góða upphitun Magnús og er hægt að taka undir hvert orð. Við munum að MU-arar fögnuðu jafnteflinu á Trafford eins og heimsmeistaratitli svo þar eru mörkin ekki sett hátt. Það eina sem kemst inní hausinn á þeim er að tapa ekki leiknum til að geta sagt að þeir hafi ekki tapað fyrir ofurliði Liverpool á leiktíðinni. Það er það eina sem þeir stefna að. Öðruvísi mér áður brá. Undir Rauðnef var jafntefli á Trafford 2 töpuð stig en jafntefli á Anfield ásættanlegt en ekki gott.

  En nú er öldin sem sagt önnur. Að tapa ekki er markmiðið, hvernig sem allt veltist og snýst að öðru leyti. Það er gífurlegur munur á því viðhorfi seinni ára og svo sigurviðhorfi Rauðnefs sem gat kreist fram sigur í leikjum með því að sparka skóm í andlit leikmanna sinna svo úr dreyrði frekar en ekki neitt. Því tel ég að rútunni verði lagt með skyndisóknir í huga og svo auðvitað að vera 11 á bakvið boltann meirihluta leiksins. Vonandi mun þetta ekki duga til. Mín spá 3 – 1

  Það er nú þannig

  YNWA

  9
 2. Klopp hefur aðeins unnið Man utd einu sinni í 8.leikjum í deildinni og hvort sem okkur líkar það eða ekki þá hafa gestunum gengið mjög vel að loka á okkar ofurframlínu.

  Man utd eru einfaldlega gott lið þegar þeir geta leyft sér að spila sem lítið lið(hugsum um Stoke). Að fara inn í leik þar sem þeir geta leyft sér að pakka í vörn(hugsum um Móra eða sleppum því, hugsum aldrei um Móra) og beytta skyndisóknum.

  Þetta er mjög erfiður leikur gegn andstæðing sem hefur staðið sig nokkuð vel á útivöllum gegn sterkum liðum( sjá Man City leikinn).
  Rashford er allan daginn að fara að byrja þennan leik og það sást langar leiðir á glotinu hjá Óla á blaðamanna fundinum þar sem lifnaði yfir honum þegar þessi spurning kom en andlitið hrundi þegar spurt var út í stöðuna á liðinu sínu.

  Spái 2-1 sigri þar sem Dijk og Salah úr víti skora í síðari hálfleik eftir að Rashford hinn meiddi koma gestunum yfir í þeim fyrri . Samála um byrjunarliði en bekkurinn okkar verður mjög vel mannaður og nokkrir sterkir leikmenn þurfa að vera fyrir utan hóp.

  YNWA

  3
 3. Það er sagt að staðan í deildini skipti engu þegar þessi lið spila, svona míta sem notuð er til að skapa stemmingu. Hvernig á annars að búa til stemmingu þegar munur á stigum í deildini er nánast sá sem manu hefur gagnvart LFC, grípa til fortíðar. Svo er peppað upp að manu séu bara ekkert svo slæmir á móti stóru liðunum. Pointið hjá mér er ekki að gera of lítið úr manu sem slíku, en það er eithvað svo vonlaust þarna í gangi síðan Ferguson hætti. Hef sagt að sennilega hafi mestu mistök manu verið þolinmæðisleysi þeirra gagnvart Moyes, síðan eru þeir búnir að reka mann og annan, þar sem allir áttu að vinna allt út á nafnið, en það er þeirra mál. Hvar sem á er litið er Liverpool svo margfallt meira lið, ræturnar virtar, stjórnun klúbbsins sem er einsdæmi í dag hjá stórliði, stjóri sem ég á ekki til orð til að lýsa, sem skapar skemmtilegasta lið segji kannski ekki ever, en raunverulaga bara hægt að segja hvers vegna ekki. 3-0

  YNWA

  6
 4. Þvílík dramatík, Man.City undir fram á 82mín… komast yfir á 86…. en skora svo sjálfsmark í uppbótatíma 🙂 2-2 🙂

  Getum bætt við 2 stigum á morgun í forskotið 🙂

  4
 5. Frábær úrslit hjá Palace í dag, sem fara langt með að gera út um mótið, ef það var ekki þegar orðið.

  Finnst samt alveg að Aguero eigi skilið að fá best-player verðlaunin í ár. Hann leiðir sitt lið í mótstreymi og gefst ekki upp. Hefur held ég aldrei fengið þessa viðurkenningu þrátt fyrir að vera líklega player síðasta áratugar fyrir sitt lið.

  En vá. LFC er besta lið heims í dag. Djöfull skulum við fagna í mars eða apríl, þegar þetta verður staðfest.

  YNWA

  5
 6. Er mig að dreyma eða? Þó svo að við töpum næstu tveimur leikjum að þá verðum við samt með 13 stiga forskot á toppnum! Nú eða ef við vinnum þessa leiki að þá erum við komnir með 19 stiga forskot. 19 stiga forskot!!!

  En að leiknum á morgun. Við megum alveg búast við þéttu liði frá manhjúd því þetta er hápunkturinn á þeirra tímabili og ekki vilja þeir láta Liverpool niðurlægja sig. Ég held reyndar að ef við keyra hratt á þá frá byrjun að þá munu þeir ekki ná að standast prófið. Gæðamunurinn er mikill á þessum liðum og svo er Anfield einn sterkasti heimavöllur veraldar. Ég vona innilega að við náum toppleik og refsum þeim harðlega. Þeir eiga ekkert inni hjá okkur! Ekki rass í bala!

  13
 7. Sælinú.

  Er að rembast við að vera svartsýnn en raunsæin leyfir það ekki. Nokkrar ástæður:

  1. Liðið okkar hefur núna haft rúma viku til að fara yfir það sem ,,fór úrskeiðis” í síðasta leik. Það er f.o.f. slúttin og lokaspretturinn. Framlínan er búin að vera á stöðugum skotæfingum og henni ætti ekki að bregðast bogalistin á morgun.

  2. Við höfum haldið hreinu frá því í desember. Ég held að Lingard (0/0) og félagar verði ekki mikil ógn, hvort sem Rashford verður með eða ekki. Hann verður örugglega þá laskaður nema að þetta hafi bara verið skuespil í úlfaleiknum.

  3. Áhorfendur verða dýrvitlausir. Allt frá því að mu-rútan ekur inn fyrir borgarmörkin og þar til flautað verður til leiksloka verður ærandi hávaði og stuð.

  4. Einhver tölfræði er í gangi sem heldur því fram að framlína mu sé með fleiri mörk en við. Það verður því underdogs-mentalítet hjá okkar mönnum. Þeir verða dýýýýrvitlausir.

  5. Talandi um underdogs – við erum heilu stigi undir MArchester liðinu (eigum reyndar 1-2 leiki til góða). Þannig að það er til mikils að vinna. Með sigri á morgun verðum við komin tveimur stigum fram úr því kombói.

  6.. Þetta verður slátrun, krakkar mínir, slátrun. Þori ekki að grísa á endanlega tölu – nema að mu skorar jafn mörg mörk á morgun og Lingard hefur skorað á tímabilinu.

  6
 8. Eftir leiki dagsins getur City mesta lagi fengið 92 stig ef þeir vinna alla þá leiki sem eftir eru. Fyrir okkur eru 51 stig í pottinum og þurfum við 32 stig til að ná 93 stigum…Það gerir að við þurfum að ná 62,7% af þeim stigum sem eru í boði til að vera öruggir að vinna titilinn….Það sem af er tímabili höfum við náð 96,8% af mögulegum stigum (61 af 63 mögulegum)…..Og miðað við hvað City er óstöðugt þá er maður ekki sjá þá vinna rest…..Þetta er bara farið að líta nokkuð vel út óháð því hvernig leikurinn fer á morgun….En sem betur fer veit ég að Klopp og okkar menn taka fyrir bara einn leik í einu þó svo við stuðningsmennirnir séum kannski aðeins að fara fram úr okkur 😉

  11
 9. Þessir leikir á móti Man Utd eru alltaf stærstu leikir ársins. Verðum að vinna þennan leik því maður nennir ekki að hafa þessar United rottur montandi snæstu mánuðina að hafa náð stigi á okkur. Spái 2-0 þægilegum sigri!

  4
 10. Hodgson gamli pungur.
  13 stig á undan City og eigum 2 leiki inni þetta er hætt að vera fyndið yfirburðir Liverpool eru algjörir.

  5
 11. Ég ætla að vera rosalega svartsýnn og spá okkur 2-0 sigri.

  Áfram Liverpool

  1
 12. Sama hvernig staða þessara liða er í deildinni, þetta er alltaf einn af stóru leikjunum eins og gegn Everton. MU eru alltaf erfiðir og hafa haft fullgóð tök á okkar frábæra liði undanfarin ár. Þetta er líka eina liðið sem getur ennþá náð betri árangri í innbyrðis viðureignum félaganna í vetur sem yrði vissulega visst skúffelsi. Búast má við að MU fari ekki mikið út úr sínum vítateig í þessum leik, spili gróft og verði með eins mikil leiðindi og þeir geta. Á venjulegum degi myndi ég segja 2 til 3-0 en eins og við vitum eru ekki allir dagar venjulegir. 1-0 sigur nægir mér alveg og þarf Salah að setjann í þessum leik.

  5
 13. Það er einfaldlega himin og haf milli þessara liða í getu. Ég geri ekki bara kröfu á sigur heldur rasskellingu. Kominn tími á að sýna þessu lélega United liði hverjir eru kóngarnir. Spái 5-1.

  1
 14. Óþolandi leiðinlegt að spila við manju síðustu misserin. Stórlið sem pakkar í vörn, gerist ekki sorglegra. Samt sem áður er aðalmálið að taka 3 stig og má alveg vera 1 núll iðnaðarsigur fyrir mér.

  Aðeins með Pep og city. Skil ekki þessa rotation policy hjá honum. Hann er kannski með of stóran hóp og er að reyna halda öllum ánægðum. Vinna Villa 6-1 með jesus, kun og mahrez sem fremstu þrjá. Fá góða hvíld fyrir næsta leik en setur jesus og mahrez á bekkinn. Sterling sem er búinn að vera ískaldur undanfarið er valinn framyfir. Að einhverju leyti hlýtur þetta að orsaka þennan rosalega óstöðuleika hjá liðinu.

  2
 15. Ég er ósammála spánni í niðurlaginu og geri ráð fyrir rjóma frammistöðu í kjölfar tiltölulega slakrar frammistöðu í síðasta leik. 3-0 í hálfleik og endar 5-0. Ole rekinn í kjölfarið.
  Hef sjaldan verið jafn rólegur fyrir leik gegn mutd 🙂

  4

Liverpool er líka á siglingu utan vallar

Kvennaliðið heimsækir Bristol