Joe Hardy keyptur frá Brentford (Staðfest)

Tvöfaldur bikardráttur að auki

Liverpool festi kaup á 21 árs framherjanum Joe Hardy frá Brentford fyrr í dag en hann hefur skorað 40 mörk í 80 leikjum fyrir B-lið Brentford og mun hann spila með Liverpool U-23 ára til að byrja með. Rauði herinn er reglulega að fá til sín unga og efnilega leikmenn en það sem gerir þessi kaup öllu áhugaverðari er að Hardy er öllu eldri en gengur og gerist með slíkt sýsl. Kaupin koma í beinu framhaldi af fregnum af því að Rhian Brewster sé að ljúka við líklegan lánssamning til Swansea út tímabilið og mun Hardy því fylla hans skarð í U-23 liðinu og sér í lagi þar sem Paul Glatzel er enn í langtímameiðslum.

Af Joe Hardy er það að frétta að fyrir utan að vera yngri bróðir Frank og vera afar lunkinn við að leysa ráðgátur að þá er hann fæddur hinu megin Mersey-árinnar í Wirral og var fyrir skemmstu á bókunum hjá Man City áður en hann fór til Brentford árið 2017. Hann á því sterkar rætur í Liverpool-borg og eitthvað hafa Michael Edwards og félagar í kaupnefndinni séð nógu merkilegt við hann til að næla í stráksa fyrir óuppgefið kaupverð. Það verður því áhugavert að sjá hvort að Hardy eigi séns á öskubuskuævintýri undir handleiðslu Klopp og LFC.

Joe Hardy leysir ráðgátur utan fótboltavallarins með Frank bróður sínum

Þeir sem vilja sá smá brot af því besta hjá Joe Hardy hjá Brentford B þá gefur þetta þúvarp smá innsýn í hans leikstíl en hann ku vera klassískur stræker í lágvaxnari kantinum en lúnkinn við að klára færin:

Í öðrum fregnum má því við bæta að það var tvöfaldur bikardráttur fyrir karla- og kvennalið Liverpool í dag. Karlalið Rauða hersins tryggði sér annan bikarleik með sigurmarki Curtis Jones í borgarslagnum og munu í verðlaun hljóta útileik gegn annað hvort Shrewsbury eða Bristol City sem þurfa að mætast að nýju eftir 1-1 jafntefli um helgina. Það einvígi verður útkljáð 14.janúar og mun annað hvort liðið taka á móti Evrópu- og heimsmeisturum Liverpool á bilinu 24.-27.janúar.

Kvennalið Liverpool átti einnig sinn miða í bikarhatti og drógu heimaleik gegn Blackburn Rovers Ladies og mun sá leikur fara fram þann 26.janúar. Það verður því tvöföld bikarhelgi hjá báðum kynjum Rauða hersins í lokahelgi janúar!

YNWA

2 Comments

  1. Stórfurðuleg kaup svo ekki sé meira sagt en hvað veit ég sem er en að japla á sokkaparinu mínu eftir síðasta leik.
    Vertu velkominn Joe Hardy og megir þú troða sokk upp í mig sem fyrst fyrir að efast í eitt andartak um Klopp og co.

    3
  2. Ég les ekkert annað í þessi kaup en það kemur fram hér að ofan, til að fylla upp í U23. En Edwards seldi nú Solanke á uþb 20m svo hver veit hvað verður hægt að selja þennan á einn daginn.

    1

Liverpool 1 – 0 Everton

Gullkastið – VARúlfar, Van Wilder og VaraVaraliðið