Liverpool 2-0 Sheffield United

Það er nýtt ár gengið í garð og þá stefnir fólk oft á að gera breytingar á hegðun sinni, lífstíl og líferni en það virðast Jurgen Klopp og leikmenn Liverpool ekki ætla sér að gera og héldu bara uppteknum hætti og unnu enn einn fótboltaleikinn í kvöld þegar liðið lagði sterkt lið Sheffield United auðveldlega með tveimur mörkum gegn engu á Anfield.

Klopp stillti upp sínu sterkasta mögulega byrjunarliði en þurfti að gera breytingu rétt fyrir leik þegar Naby Keita meiðist í upphitun og James Milner tók sæti hans í byrjunarliðinu.

Leikurinn byrjaði ansi vel fyrir Liverpool og má eiginlega segja að hann hafi klárast strax á 4.mínútu þegar Mo Salah skoraði eftir góðan undirbúning og stoðsendingu frá Andy Robertson.

Liverpool hélt boltanum nær allan leikinn og endaði með eitthvað í kringum 75% með boltann í kvöld og að því virðist slógu metið sem Man City átti yfir flestar heppnaðar sendingar í Úrvalsdeildarleik en liðið var með 90% af heppnuðum sendingum og alls 969 talsins í kvöld.

Liðið fékk fullt af fínum færum í leiknum en oft vantaði bara smá herslumun í síðustu snertingunni en leikmenn virtust aldrei fara úr 2.gír í kvöld. Wijnaldum átti ágætis skotfæri, Salah átti fyrirgjöf sem endaði í stönginni, Firmino fékk fínt tækifæri og markvörður Sheffield United bjargaði tvisvar mjög vel frá Salah.

Það var svo endanlega gert út um leikinn á þegar Sadio Mane skoraði eftir laglega skyndisókn og frábæran undirbúning hjá Mo Salah. Báðir léku vel í dag og jákvætt að báðir séu mjög duglegir við að koma sér á blað undanfarna leiki, það vantaði kannski aðeins upp á hjá Firmino í dag en hann átti þó nokkrar jákvæðar rispur.

Joe Gomez og Van Dijk voru frábærir í vörninni og héldu hreinu saman fimmta leikinn í röð og Liverpool hefur nú aðeins fengið á sig eitt mark í síðustu sex leikjum – nei, þessi Deildarbikarleikur gegn Aston Villa telur ekki með í þessu!

Wijnaldum var gjörsamlega frábær á miðjunni og var þetta einn af þeim leikjum þar sem hann man allt í einu að hann er fáranlega góður í tæknilegum hliðum fótboltans og þar að auki miklu, miklu sterkari en flest allir aðrir á vellinum og nýtti það svo heldur betur í sínum leik. Jordan Henderson samt, vá! Þvílík frammistaða hjá fyrirliðanum sem hefur spilað óaðfinnanlega í vetur og þá sérstaklega undanfarnar vikur eftir að Fabinho meiddist. Klárlega maður leiksins í dag og frammistöðurnar sem hann hefur sýnt undanfarið hefur sannað fyrir öllum sem voru kannski ekki vissir um gæði hans, mikilvægi í liðinu og vilja hans til að landa þessum stóru titlum að þeir hafi haft rangt fyrir sér.

Nú hefur liðið farið heilt ár án þess að tapa deildarleik og hefur nú leikið 58 deildarleiki frá upphafi síðustu leiktíðar og þar til núna og aðeins tapað einum leik á þeim kafla. Liverpool hefur nú leikið 37 deildarleiki í röð án þess að tapa en aðeins tvö lið hafa gert betur en það og það er Chelsea með 40 leiki og Arsenal með 49 leiki, Liverpool vonandi nær þeim báðum!

Chris Wilder stjóri Sheffield United hafði ekkert nema gott að segja um Liverpool eftir leikinn og hrósaði spilamennsku þeirra og hugarfari og sagði þá vera sýnibókardæmi um það sem reynt er að kenna í unglingastörfum fótboltafélaga þegar kemur að taktík og tækni. Þetta Liverpool lið hafi það allt saman og sé í virkilega góðu líkamlegu standi og skammaðist sín ekkert við að viðurkenna það að lið hans náði ekki einu einasta höggi á Heims-, Evrópu- og líklega Englandsmeistara.

Um helgina mun Liverpool fá Everton í heimsókn í FA bikarnum en líklegt þykir að Klopp muni rótera liðinu sínu þokkalega fyrir þann leik en þar sem mikið er um meiðsli og bekkurinn verið svolítið þunnur er ekki ólíklegt að margir ungir leikmenn muni taka þátt í leiknum í bland við nokkra eldri og reyndari. Þá mun Takumi Minamino líklega spila sinn fyrsta leik fyrir Liverpool en hann var ekki gjaldgengur í leiknum í kvöld og verður afar spennandi að sjá hann þá vonandi koma inn í leikmannahópinn fyrir leikinn gegn Tottenham sem verður helgina eftir.

Annars þá er það bara 58 stig á toppi deildarinnar. Liverpool og Man City einu liðin sem hafa haft þennan stigafjölda á þessum tímapunkti í Úrvalsdeildar sögunni, þrettán og fjórtán stig í Man City og Leicester og Liverpool á leik til góða á bæði lið og getur náð sextán og sautján stiga forystu á þau. Þetta lið, vá! ÞETTA LIÐ!

19 Comments

 1. Ofboðslega auðvelt og sannfærandi hjá þessu frábæra liði. Skemmtileg statistík btw:

  As of tomorrow, Liverpool will be unbeaten in the Premier League in 365 days. Next longest current undefeated runs: Watford & Southampton (20 days).

  9
 2. Þetta lið er Rolls Royce. Öll hin liðin í deildinni þessa stundina eru Mazda…..

  8
 3. Það er auðvitað alveg út í hött að vera að kvarta á þessum síðustu og bestu unaðsstundum, en hvað er með Keïta?

  Varð meiðslagrýlan hans Sturridge eftir á Anfield og gleypti vesalings Keïta kallinn?

  4
 4. Varla hægt að segja að það hafi reynd á okkar menn í kvöld. Vörnin hefur virkilega stigið upp eftir að Gomez kom aftur í liðið Clean sheet orðið normal og maður er aldrei hræddur um að lið séu að fara skora á okkur. Henderson er á einhverju leveli sem ég bjóst ekki við frá honum leik eftir leik er hann með bestu mönnum, óhræddur að senda fram óhræddur að bera upp boltan meira af þessu Henderson! Eini leikmaðurinn sem mér fannst lélegur í þessum leik var Firminho fyrri hálfleikur var það slakasta sem ég hef séð frá honum lengi sendingar hittu nánast aldrei hann fór í vitlaust hlaup skánaði aðeins í seinni enn engu að síður mjög lélegur leikur hjá honum miðað við undanfarið. Það er samt fátt um veikleika í þessu liði leikmenn eru ekki vélmenni þeir eru mannlegir og munu eiga slaka leiki einstaka sinnum. Enn liðið í kvöld var frábært í 1 gír og gerði það sem þurfti til að ná í 3 stig!

  4
 5. Tittlingaskitur en okei fannst firmino betri í fyrri en seinni hálfleik. En breytir engu bara mín skoðun.

  Annars einn af okkar 4 bestu leikjum seasonsins. Geggjaðir í kvöld, hapressan uppá 9 , undan í alla bolta, varnarleikur uppá 9,5 og bara haklassa frammistaða. Áttum að vinna stærra en yfirburðirnir rosalegir

  • Meira segja lýsendur í leiknum voru að tala um að Firminho var ekki að finna sendingar eða svæði og allt sem hann gerði endaði í vitleysu sérstaklega í fyrri :O Enn Kannski er ég éta of mikið LSD yfir leikjunum….

 6. Ég hef séð á nokkrum stöðum gagnrýni á Firmino í þessum leik. Veit ekki hvort það á rétt á sér. Þegar andstæðingurinn spilar 352 leikkerfi sem oft verður 541 í vörn, þá er gríðarlega erfitt að spila stöðu Firmino þar sem stöðugt eru 2-3 varnarmenn innan við skref frá manni. Í raun má segja að það að lið þurfi að spila með þrjá miðverði sé einmitt til að eiga við Firmino (og bakverðina) og það hvernig hann getur opnað fyrir Mane og Salah ef hann fær eitthvað pláss. Í dag sáum við Firmino þurfa að hlaupa eins og djöfullinn út um allan völl til að færa varnarmenn með sér og opna þannig fyrir Gini og Milner.

  Áfram Bobby…

  31
 7. Glæsilegur sigur og greinilega ekkert vanmat í gangi. Ótrúlegt þetta lið okkar. Nánast eina áhyggjuefnið nú um stundir eru meiðsli leikmanna og fer um mig pínu skjálfti þegar listinn er skoðaður. Hvaða lið myndu ekki sakna Lovren, Matip, Fabhino, Keita, Ox og Shagiri. Rúmlega hálft lið og engir pappakassar og væru byrjunarliðsmenn í flestum liðum.
  Tek undir með Gary Lineker en hann sagði að Henderson væri gríðarlega vanmetinn leikmaður. Henderson er búinn að vera frábær síðustu mánuði en hve oft er hann valinn í lið vikunnar hjá fjölmiðlum. Hann geldur fyrir að skora lítið og leggja upp fá mörk en hann gerir nánast allt hitt, hleypur endalaust, mikið í boltanum, dreifir spilinu, sinnir varnarvinnunni vel og hvetur sitt lið áfram. Hann væri ekki fyrirliði í besta liði heims ef hann væri einhver bjálfi sem hefði ekki fullkomið traust frá leikmönnunum og Klopp.

  14
  • Sammála varðandi meiðslin en sem betur fer eru þau ekki að trufla okkur. Ótrúleg liðsheild!

   2
 8. Sælir félagar

  Takk fyrir góða skýrslu Ólafur Haukur. Þar er flest satt og rétt eins og venjulega í skýrslum ykkar kop-ara en þó vil ég gera eina athugasemd eða ef til vill frekar taka undir það sem Andri#6 segir í sínni athugasemd. Þegar 5 manna varnarlína og stundum með 4 miðjumenn að auki er allt í kringum Firmino þá er ekki vit í að segja að hann hafi átt slakan dag. Það var í raun ótrúlegt hvað hann gat athafnað sig í þessum óvinafagnaði og það var greinileg dagskipun að taka hann úr sambandi í þessum leik.

  Þar af leiddi gátu aðrir Salah og Mané fengið meira pláss. Þeir skoruðu reyndar þessi tvö mörk sem mér er til efs að hefðu komið ef Firmino hefði ekki verið þrídekkaður allan þann tíma sem hann var inná. Ég held líka að Klopp hafi skipt honum útaf í sparnaðarskini en ekki vegna þess að hann hafi verið svo slakur. Bobby Firmino er alger lykilmaður í þessu liði og verður að njóta sannmælis finnst mér.

  Annars fannst mér allir leikmenn liðsins frábærir í dag og Gomesinn er orðinn þvílíkt skrímsli í vörninni að hvorki Matip, sem spilaði eins og engill meðan hans naut við, né Lovren munu getað rótað við honum í hjarta varnarinnar. Fyrirliðann þarf ekki að nefna slíkur afburðamaður sem hann er. Virgillinn og Alisson eru nottla frábærir og svo bakverðirnir ungu sem er þyngdar sinnar virði í gulli.

  Milnervélin og Gini átu miðjumenn S. United allan leikinn enda kom ekkert frá þeim allan leikinn. Uppsetning Klopp og félaga á þessum leik var eins og endranær fullkomin og er greinilegt að ekki er slegið slöku við þegar leikgreining og taktík fyrir leiki er annars vegar. Það var líka gaman að sjá 16 sextán ára guttann fá leikinn í ferilskrána sína sem vonandi verður bæði löng og áhrifarík í rauða búningnum.

  Það er nú þannig

  YNWA

  16
 9. Umræðuefnið fær ekkert að breytast, liðið okkar sér svo sannanlega til þess. Hversu oft og lengi á maður að skjalla þetta lið, hver eiga næstu lýsingarorð að vera, þau eru öll uppurin, er einhver uppástunga að nýjum lýsingarorðum? Þessi stjóri SU, Chris Wilder held hann heiti, segjir einfaldlega að Liverpool sé skólabókardæmi um vel rekið félag, taktikin sé einsdæmi og sé til eftirbreitni fyrir önnur lið, það er kannski nýja lýsingarorðið. Neyddist til að sjá leikinn á veitingastað, étandi rif, franskar og kokteilsósu ásmt súpandi af einstöku vatni, mikið breyttu frá upprunanum, það freiddi en eðli málsins vegna ekki Gull 2,5% enda á öðrum stað á hnettinum þar sem gullið kemur annars staðar frá.

  YNWA

  4
  • 100% Sammála Óskar. Henderson var frábær ! sem og allt liðið.

   5
   • Eruð þið búin að skoða töfluna í dag? Ekki í mínum villtustu draumum hefði hún litið svona út. Eins og nefnt var á ThisisAnfield-síðunni að þá settu city þennan þröskuld á deildina í fyrra og hann var viðmiðið. Auðvitað er Kloppo það mikill schnillingur að hann hefur náð að hoppa yfir þröskuldinn og gott betur en það.
    Að lesa bókina um hann er mikil upplifun og þegar ég hélt að maður gæti ekki dýrkað manninn meira að þá les maður um að hann hafnaði spurs, sitty, arsenal og manhú áður en hann kom til okkar. Honum fannst konseptið í kringum manhju ,,unsexy” ???
    Er hægt að vera meiri goðsögn í lifandi lífi?

    19
   • Hlakka til að lesa bókina um Klopp….besta sem FSG hefur gert var að ráða Klopp maður sem var búinn að vera hjá Mains í 7 ár og Dortmund i 7 ár búinn að reyna allan pakkann gríðalega mikilvæg reynsla sem hann er með í bakpokanum….

    1
   • Æ er ekki kominn tími á að hætta þessum barnalegu nöfnum á keppinautum okkar.. þessi síða er með aðeins meiri sjarma en það!

    8

Byrjunarliðið gegn Sheffield United

Bikarslagur á morgun