Áramótaupphitun: Sheffield United á Anfield

Við félagarnir á Kop.is viljum óska lesendum og hlustendum síðunnar gleðilegs nýs árs 2020 og þakka fyrir hið magnaða sigurár 2019 sem var að líða. Liverpool heldur vonandi áfram á sömu sigurbraut á nýju ári og þá verður kátt á hjalla í kommentakerfinu, hlaðvörpum og pistlum síðunnar.

Takk fyrir samveruna og samskiptin á þessu magnaða ári 2019 og njótum framtíðarinnar félagar! YNWA!

En aftur að hefðbundnum upphitunarstörfum….

 

Það mun sverfa til stáls á sjóðheitasta heimavelli í heimi þegar að Rauði herinn mætir Blöðungunum á heimavígstöðvum sínum. Súperliðið gegn spútnikliðinu í fyrsta LFC-leik ársins 2020!

Mótherjinn

Það er engum blöðum um það að fletta að The Blades eru óvæntasti hástökkvari Úrvalsdeildarinnar það sem af er þessu tímabili. Nýliðar í deildinni, eytt hóflega á leikmannamarkaðnum (samtals 42 mill punda) og með stjóra sem er að stýra liði í fyrsta sinn í EPL. Þeir hafa verið afar stöðugir í frammistöðum og aldrei tapað meira en einum deildarleik í röð, tapað jafn mörgum leikjum og meistarar Man City og verið mikið til í Evrópudeildarsætum í deildinni (sjá línurit).

Þeir hafa verið toppliðunum erfiðir með sigur gegn Arsenal og jafntefli við Tottenham, Man Utd, Chelsea og Wolves. Við áttum í miklu basli með þá á Brammal Lane fyrr í vetur þegar að lukkumark frá Gini Wijnaldum smaug í gegnum lánsmarkmann frá Man Utd sælla minninga. Hinn 52 ára Englendingur Chris Wilder hefur því verið að framkvæma kraftaverk með Sheff. Utd. og það eftir að hans fyrri stjórastörf voru í neðri deildunum með Alfreton Town, Halifax Town, Oxford United og Northampton Town.

Öskubuskuævintýri hjá Wilder og Jamie Carragher jós hann nýlega hrósi í Monday Night Football og þá sér í lagi þá nýstárlegu nálgun hvernig hann beitir hafsentunum sóknarlega í sínu 3-5-2 kerfi. Það er því ljóst að það er meira taktískt spunnið í Wilder en marga af hans hefðbundnari samlöndum í stjórastólum eins og Pulis, Allardyce, Hodgson og Neil Warnock fyrrum stjóra Sheff.Utd.

Liðsuppstilling gestanna verður væntanlega eitthvað á þessa leið:

Líkleg liðsuppstilling Sheffield United í leikkerfinu 3-5-2

Liverpool

Í síðasta leik var lítil rótering á liðinu er Lallana kom inn fyrir Keita en hins vegar breytti Klopp frá sínu hefðbundna leikkerfi úr 4-3-3 í 4-2-3-1. Við unnum vissulega Wolves þannig og þar með mætti gefa breytingunum kredit fyrir sigurinn en það var klárlega ekki sama flæði í spilinu og gegn Leicester í leiknum á undan. Fyrri hálfleikurinn var sæmilegur en í seinni hálfleik sóttu Wolves stíft á okkur þannig að það væri því alls ekki óvænt að sjá Keita koma aftur inn í liðið og gamla góða 4-3-3 gírað aftur í gang.

Spurning er helst hver verður nálgun Klopp varðandi bikarleikinn gegn Everton sem verður 3 dögum síðar en Liverpool var liða heppnast með jóladagskránna hvað hvíld á milli leikja varðar en að sama skapi hafa þeir allir verið í þyngri kantinum. Við erum þó í miðri syrpu af þremur heimaleikjum og það kæmi ekki á óvart ef að leikmenn eins og Origi, Milner, Lallana myndu spila frá byrjun og jafnvel ungliðarnir Elliott eða Jones koma inn af bekk.

Það verður eflaust eitthvað óvænt frá Klopp en mín uppástunga er þessi:

Líkleg liðstuppstilling Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Blaðamannafundir

Meistari Klopp hafði þetta að segja um meiðslastöðu á nokkrum leikmönnum á blaðamannafundi nýársdagsins:

“Nobody is back. Ox looks good, Joel looks good, Fabinho looks good, Shaqiri looks good, Lovren looks good. But not ready. It will be the same group as last time.”

Um að gera að horfa á blaðamannafundinn í heild sinni hérna:

Chris Wilder tjáði sig einni fyrir leik liðanna á sínum blaðamannafundi:

Spakra manna spádómur

Sögulega séð þá hafa Liverpool unnið 67% leikja milli þessara liða á Anfield og miðað við formið á Evrópu-, Ofur- og heimsmeisturunum þá eru allar líkur á heimasigri okkar manna. En Sheffield United hafa reynst toppliðunum erfiður andstæðingur og ekki tapað tveimur leikjum enn sem komið er á tímabilinu þannig að við munum þurfa að hafa fyrir hlutunum í fyrsta leik nýs árs.

Mín spakmannlega spá er tekin að láni frá uppáhalds Strandamanninum mínum sem spáir öllum LFC-leikjum 2-1 fyrir Liverpool og hefur glettilega oft rétt fyrir sér. Ég geri hans spá að minni og spái því 2-1 heimasigri fyrir okkar menn og Origi mun skora fyrra markið en Milner setur örugga VAR-dómgæslu-vítaspyrnu í uppbótartíma til að stela sigrinum í lokin.

YNWA

Leikurinn hefst klukkan 20:00 á morgun og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.

17 Comments

 1. Það síðasta sem manni dettur í hug er að vanmeta þetta Sheffield United lið, enda stál lið að hjartarrótum. Stjóranum leyfist að haga sér eins og normal manni, ekki margir stjórar sem hafa þann munað. En þeir vita það, sem og við að Liverpool er bara betra, hversu vel það kemur í ljós á eftir verða, en á bilinu 3-1 til 2-1

  YNWA

  3
 2. Höldum hreinu, það er á hreinu.
  Hvað sagði Klopp annars um þá sem eru meiddir?
  Ekkert uppgefið um þá þrjá sem okkur vantar helst, Fab, Matip og Lovren?

 3. Já hvað er að frétta af meiðslunum ?
  Annars bara að vinna þennan leik, megum ekki lenda í erfiðum janúar eins og hefur gerst nokkrum sinnum hjá klopp

  Spái 2-1. Mane og salah

  1
  • Er verið að tvítryggja spána ? Þú sagðir 3-0 í spákeppninni miklu og svo segir þú 2-1 hérna.

   • Ég mundi ekkert hvað ég sagði í spakrppninni, skilaði þeirri spá fyrir nokkrum dögum hahaha en já ætli ég sé þá ekki bara að tvitryggja hahaha

    1
 4. Sæl og blessuð og gleðilegt árið!

  Þá hefst janúarþrautargangan. Hvernig mætir liðið til leiks eftir ægilegt álag undanfarið, ferðalög og læti? Það verður ekki annað sagt en að desemberúthaldið hefur gengið vel. Það var bara orkudrykkjarbikarinn sem skolaðist út með baðvatninu en að öðru leyti var þetta snilldar-rönn.

  Að leiknum: Sheffield er svakalega töff lið og þessi þriggja manna varnarlína er erfið viðureignar. Ætli þrumufleygurinn Chambo og skotmaskínan Shaquiri séu fit-for-fight? Ég viðurkenni að ég væri massasáttur við að hafa Salah á bekk og skapandi Origi í byrjunarliði. Vil frekar fá hann ólman inn á völl á 75. mínútu en tafsandi frá þeirri fyrstu.

  Það er mikil gæfa hvað þeir hafa náð glæsilega saman Gomez og Virgill. Loksins, loksins hefur tekist að halda hreinu nokkra leiki í röð. Það gefur von um að skipulagt mótlæti gestanna kosti okkur ekki þrjú stig. Eitt núll sigur væri glæsilegur árangur – alveg hreint. Við vonum að það takist!

  2
 5. Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla kæru Liverpool menn og konur.
  Megi nýja árið færa okkur góða heilsu og áframhaldandi velgengni á fótboltavellinum.
  Takk fyrir mig kæru Kop stjórnendur.

  6
  • Takk sömuleiðis Tryggvi og gleðilegt nýtt Liverpool-ár 🙂

   YNWA

   1
 6. Ég hugsa að Klopp mæti með sitt sterkasta lið. Róteri frekar á móti Everton. Afhverju er ekki hægt að gefa það út hvenær er von á mönnum úr meiðslum ?

  1
 7. Down in the end, eða á endanum á alvöru íslensku, þá skiptir hugarfarið öllu máli í þessum leik, séu menn með hausinn á réttum stað, sem ég sjálfur efast ekki um, þá vinnum við.

  YNWA

  2
 8. verður enginn hvíldur í kvöld, halda að origi spili í stað mane er fantasía.
  verður sterkasta lið í kvöld.. þeir fá svo 1 og hálfa viku til að hvíla sig.

  kjúklingaliðið sér um fa cup ég efast ekki um það, verða einhverjir með eins og origi, milner, adrian, minamino og lallana.

  4
 9. Sælir félagar

  Takk fyrir skemmtilega upphitun Magnús Þórarinsson eins og alltaf. Að mínu mati verður þetta hunderfiður leikur þó líkurnar séu með okkar mönnum í kvöld. En það er nú svo að líkur eru ekki niðurstaða, síður en svo. Þó ætla ég að spá okkar mönnum sigri og ef hugarfarið og einbeitingin verður til staðar þá ætti leikurinn að vinnast svona 3 – 1 eða svo. Það er því mín spá.

  Að lokum þetta; ég óska öllum stuðningmönnum Liverpool í öllu heila universinu til hamingju með liðið þeirra á liðnu ári og árangri þess. Einnig óska ég þeim þess sama á þessu ári í stigum, skoruðum mörkum og ánægju og endalausrar skemmtunar yfir leikjum Liverpool. Fowler veri með oss öllum

  Það er nú þannig

  YNWA

  4
  • Kærar þakkir Sigkarl og gleðilegt nýtt Liverpool-ár 🙂

   YNWA

   1
 10. Já jú gleðilegt nýtt ár hér
  Það verður ánægjulegt að sjá liðið spila á nýju ári en verður janúar þynnka í okkar liði eða eru allir með hausinn á réttum stað (og ætla sér að vera þannig út leiktíðina) og koma með ákefð og kraft í leikinn( svona svipað og gegn leicester) sem kafsiglir besta (sheffield) united liðið á tímabilinu? Ég vona að sú verði raunin, klopp er ekkert hættur.
  YNWA

  1
 11. Gleðilegt nýtt ár öll sömul og takk fyrir það liðna og vonandi gleðilegt kvöld það væri mjög gott að byrja árið á sigri gegn góðu liði Sheffield.
  Það er hægt að segja ýmislegt um þá en þeir eru góðir og hafa sýnt það í vetur.
  Væri gaman að halda hreinu en 3 stig er það eina sem skiptir máli.

  YNWA

  2
 12. klopp er minn maður.. með sitt sterkasta lið á vellinum.

  fa cup er fyrir kljúklingana.. deildin er forgángsatriði nr 1.

  1

Liverpool – Wolves 1-0

Byrjunarliðið gegn Sheffield United