Leicester – Liverpool 0-4

Liverpool mætti til leiks í ensku úrvalsdeildinni að nýju eftir tæplega tveggja vikna pásu vegna þáttöku sinnar í Heimsmeistarakeppni félagsliða í Qatar. Verkefnið var stórt, kvöldleikur á King Power á annan í jólum gegn liðinu í öðru sæti, Leicester. Klopp gerði eina breytingu á byrjunarliðinu frá því liði sem hóf leikinn í Qatar s.l. laugardag. Gini blessunarlega orðinn leikfær og kom inn á miðjuna í stað Ox, sem verður frá eitthvað inn í janúar hið minnsta vegna meiðsla.

Liverpool bauð til veislu, jólaveislu og átti sinn besta leik það sem af er tímabili með 0-4 sigri gegn Leicester í leik sem hefði líklega frekar átt að enda með 7 eða 8 marka sigri.

0-1  – 31 min, Firmino
0-2  – 71 min, Milner (víti)
0-3  – 74 min, Firmino
0-4  – 78 min, TAA

Fyrri hálfleikur

Leikurinn fór fjörlega af stað, Trent átti fínt skot á fyrstu mínútu leiksins sem að Kasper varði en í næstu sókn átti Salah góða sendingu fyrir sem Firmino missti af en Mané var aleinn (og ekki rangstæður) á markteig en skaut framhjá nánast inn í markinu, dauðafæri!

Eftir 4 mínútna leik átti Evans hræðilega sendingu úr vörninni, Mané komst inn í sendinguna og sendi á Firmino sem setti boltann í fyrsta á Salah sem átti slakt skot úr fínu færi – hefði líka getað sent aftur á Firmino sem var í fínni stöðu. Liverpool á þessum tímapunkti búið að fá 2-3 fín færi en ekki náð að nýta þau.

Eftir hornspyrnu Leicester á 10 mínútu náði Salah að hreina boltann á Keita sem vann návígi, sendi frábæra sendingu innfyrir á Salah, Kasper Schmeichel kom á móti, Salah komst framhjá honum en reyndi að skjóta í þröngu færi í stað þess að senda knöttinn á annað hvort Mané eða Henderson sem kom í seinni bylgjunni og slakt skot fór í hliðarnetið. Dauðafæri.

Á 31 minútu kom svo loksins fyrsta markið. Robertson gerði mjög vel í að vinna hornspyrnu með góðri pressu, boltinn barst út rétt fyrir utan vítateigshornið vinstra megin þar sem að TAA átti algjörlega frábæra sendingu á fjærstöng þar sem Salah og Firmino mættu báðir en sá síðarnefndi skallaði í nærhornið, 0-1!

Liverpool fékk tækifæri tveimur mínútum síðar í að tvöfalda forskotið þegar Mané vann boltann inn í teig hjá Leicester og var aleinn nánast á markteig en lét Schmeichel verja frá sér úr dauðafæri! Á þessum tímapunkti hefði ekki verið ósanngjarnt þó Liverpool hefði verið þremur eða fjórum mörkum yfir – spilamennskan frábær en færanýtingin ekki alveg eftir því. Ekkert marktækt gerðist síðustu 10 mínúturnar eða svo og staðan því 0-1 í hálfleik. 0-8 í skotum og Liverpool 59% með boltann.

Síðari hálfleikur

Síðari hálfleikur hófst nákvæmlega eins og þeim fyrri lauk, algjörir yfirburðir hjá Liverpool! Fyrstu 10 mínúturnar eða svo fengu gestirnir fullt af fínum færum og voru að gera sig ansi líklega til að tvöfalda forystuna – besta færið líklega á 54 mínútu þegar Robertson pressaði vel, vann boltann upp við hornfánann vinstra meginn, sendi fyrir á Firmino sem mætti á nærstöng en skaut framhjá fjærstönginni úr dauðafæri. Alveg ótrúlegt að þessi yfirburðir væru ekki að endurspeglast betur í stöðunni.

Heimamenn náði sínu fyrsta skoti á 61 mínútu eftir að Vardy fékk aukaspyrnu við vítateigshornið, vinstra meginn en skot Maddison fór framhjá.

Salah og Keita fóru útaf á 67 mínútu fyrir Milner og Origi. Keita verið jafngóður í þessum leik og Salah var slakur (sem sagt frábær) en var orðinn þreyttur. Í næstu sókn átti Liverpool hornspyrnu vinstra megin, spyrna TAA fór beint í útrétta hönd Soyuncu og réttilega dæmd vítaspyrna. Upp steig herra áreiðanlegur og skoraði örugglega, Milner 0-2!

Tveimur mínútum síðar átti Liverpool frábæra sókn! Henderson, Milner og Origi voru með flottann þríhyrning fyrir utan teig Leicester, boltinn barst út á TAA sem sendi fastan boltann út í vítateig á Firmino sem átti algjörlega frábæra móttöku sem setti upp öruggt skot innanfótar upp í samúel, 0-3 – frábær spilamennska og enn betri afgreiðsla!

Maður var varla hættur að fagna þegar Milner fékk boltann á 76 mínútu við hliðarlínuna vinstra megin við miðju vallarins, sendi flottan bolta undir pressu inn á miðju á Mané sem kom hlaupandi á vörnina með Origi sér á vinstri hönd, Firmino fyrir miðju og bakvörðinn TAA til hægri. Trent varð fyrir valinu sem tók líka þetta skot á vítateigslínunni í bláhornið vinstra meginn, 0-4!!

Henderson fékk takkana frá Ayrez í legginn á 82 mínútu og þurfti að fara af velli og Lallana kom inná – líklega ekkert alvarlegt þó þetta hafi verið vont.

Lítið gerðist síðustu 10 mínúturnar eða svo og virkilega öruggur sigur Liverpool staðreynd. Bestu 93 mínútur tímabilsins hjá gestunum gegn erfiðum andstæðingi þar sem liðið í öðru sæti var í raun látið líta virkilega illa út. Meira svona, takk!

Bestu menn Liverpool

Hvar á ég að byrja? Keita var algjörlega frábær í fyrri hálfleik, eins og liðið allt. Henderson var einnig virkilega öflugur á miðjunni, eins og hann er búinn að vera síðustu misseri – að það skuli í alvöru vera til menn þarna úti sem efast um hann finnst mér með ólíkindum!

Mér hefur fundist Roberson vera frekar slakur síðustu 4-5 leiki eða svo en í dag var hann aftur “back to his best”. Gomez og Virgil stigu ekki feilspor allan leikinn – Vardy var ósýnilegur fyrir utan þessa “soft” aukaspyrnu sem hann fékk um miðjan síðari hálfleik. Held ég hafi aldrei séð Vardy jafn lítið í Leicester leik og í kvöld.

Það eru í raun bara tveir sem koma til greina, annars vegar Firmino, sem skoraði tvö mjög góð mörk ásamt því að eiga mjög góðan alhliða leik í dag. Link-up spilið hjá honum mun betra en það hefur verið undanfarið og slúttið komið aftur þegar líða tók á desember mánuð! Minn maður leiksins er þó Trent Alexander-Arnold. Hann er 21 árs en orðinn einn af okkar allra bestu og mikilvægustu leikmönnum (í liði sem var með þrjá leikmenn í topp fimm í Ballondor!) Hann var með mark og tvær stoðsendingar í dag og var sífelld ógn í 93 mínútur. ÓTRÚLEGUR.

Umræðan

 • Firmino. Eftir gúrkutíð í október/nóvember erum við farnir að sjá Bobby okkar aftur. Tvö mörk í Qatar og  tvö mörk í dag – virkilega, virkilega, virkilega jákvætt!
 • TAA. Hvað er hægt að segja um Trent Alexander-Arnold? Jú, hvert einasta lið lætur reyna á hann þar sem að Virgil er vinstra megin af okkar miðvörðum. Hann á það til að vera gripinn í bólinni varnarlega en menn verða samt að horfa til þess að í 38 leikjum er a.m.k. í 37 þeirra sem að lið leggja upp með að sækja á hann og Matip/Lovren/Gomez í stað Virgil/Robertson. Hvað sem því líður – sú vídd og ógnun sem hann kemur með í sóknarleik liðsins er slík að við gætum fyrirgefið það þó hann væri á pari við Cissokho í varnarleiknum. Hann er kominn með 8 stoðsendingar það sem af er leiktíðar og 16 stoðsendingar í deildinni í 32 leikjum á árinu 2019!!
 • Keita. Eftir virkilega erfiða byrjun (ef byrjun skal kalla, komnir 18 mánuðir síðar hann gekk til liðs við Liverpool) þá erum við loksins farnir að sjá Keita ná saman nokkrum leikjum í röð og þá spilamennsku sem menn bjuggust við frá honum. Var frábær í dag, sérstaklega fyrstu 55 mínúturnar og hefur verið frábær allan desember mánuð. Að fá þann Keita inn, sem við héldum að við værum að kaupa, núna í desember er hrikalega mikilvægt fyrir liðið! Hann er ekki líkur neinum af okkar miðjumönnum og kemur með allt annað krydd í þessa miðjublöndu okkar.
 • Salah. Líklega okkar slakasti leikmaður í dag, ekki að leikurinn í dag sé tilefni til að finna eitthvað neikvætt en þá finnst mér hann verða eigingjarnari með hverjum leiknum sem líður. Vondur dagur á skrifstofunni en samt skoraði Liverpool 4 mörk og hefði getað skorað a.m.k. 7 eða 8 – jákvætt!
 • 500. Þriðja mark Liverpool í leiknum var fimm hundraðasta mark Liverpool undir stjórn Klopp (í 239 leikjum).
 • Liverpool. Ef það var einhver spurning um hvaða lið ætlaði að veita Liverpool keppni um titilinn þá var henni svarað í kvöld, það verður ekki Leicester (ef eitthvað lið endar ofan en Man City þá verður það lið meistari – sú staðreynd hefur ekki breyst frá því í ágúst). Liverpool sýndi í kvöld að það er í öðrum styrkleikaflokki en þetta Leicester lið. Heimamenn áttu ekki eitt skot á markið í 93 mínútur á King Power í kvöldleik á Boxing Day gegn liðinu sem þeir eru að elta. Ekki bara það, þeir sáu í raun ekki til sólar fyrr en í kringum 65 mínútu þar sem þeir áttu 5-10 mínútna kafla þar sem þeir tóku þátt í leiknum. Að leikurinn hafi endað 0-4 er í raun ótrúlegt. Ég ætla ekki að fagna neinu ennþá, hlutirnir geta breyst hratt í fótbolta, en mikið anskoti er gaman að styðja svona fáránlega gott fótboltalið!

Næsta verkefni

Næsti leikur er eftir þrjá daga (29/12), Wolves á Anfield áður en Sheffield United verður fyrsta liðið sem sækir Liverpool heim á árinu 2020 þann 2 janúar. Stutt á milli leikja, allt stórir stórir leikir!

YNWA

39 Comments

 1. Þvílíkir yfirburðir, vááááááá. Leicester leit mjög illa út í þessum leik. Þvílíkt lið sem Liverpool FC er í dag. Ég er bara orðlaus !

  12
 2. Einn besti leikur Liverpool á tímabilinu með algjörlega yfirburði frá fyrstu mínutu.
  Trent er ekki bara besti bakvörður í heimi heldur er líklegast að verða sá besti frá upphafi.
  Þetta virkaði allt svo auðvelt fyrir þá í kvöld og Firmino algjörlega frábær sá hefur aldeilis verið að heilla mann undanfarið.

  Maður leiksins Trent auðvelt val.

  21
 3. Þetta lið, hvað er hægt að segja.
  Klárlega besta lið sem sést hefur í ensku deildinni, stend við það.

  19
 4. Þessi leikur minnti mig á leikinn gegn Bournemouth um daginn þar sem heimaliðið hafði lítinn áhuga á að sækja og vonaði bara það besta með þéttum varnarleik.

  Þetta hlýtur að vera tímabilið okkar – algjört yfirburðalið og sjálfstraustið í botni allsstaðar á vellinum.

  Úlfakjöt á borðum þann 29…….

  11
 5. Sælir félagar

  Ég spáði 1 – 3 fyrir leikinn og einhverjum fannst örugglega ég vera frekar bjartsýnn. En sú var ekki raunin. Ég var í raun frekar svartsýnn miðað við þetta bezta knattspyrnulið í heimi. Þvílíkt lið sem við styðjuum Púllarar

  Það er nú þannig

  YNWA

  23
 6. Ég á ekki til orð! Ég er dofinn af gleði og geðshræringu.

  17
 7. Ég hef áhyggjur af Allison, hann gæti greinst með kulnun í starfi.

  59
 8. Einn tók í hendina á mér fyrir þremur árum og sagði mjög kokhraustur. ” Ég skal veðja við þig að Leeds verði Englandsmeistari á undan Liverpool”. Hann vildi meina að Liverpool yrði aldrei nokkurn tímann Englandsmeistari, ekki undir stjórn Klopp, hvað þá hjá öðrum stjóra.

  Ég velti fyrir mér hvort hann sé eins kokhraustur núna þegar Liverpool er komið með 13 stiga forskot í deildinni. Hann má endilega hafa samband. Er reyndar stórlega efins um að hann kannist nokkuð við að hafa látið þetta upp úr sér og vilji frekar ræða um bútasauma og þjóðdúkkur.

  YNWA.

  10
 9. Gjörsamlega frábær frammistaða og heilmargir menn að spila upp á 8 eða meira. Galið hvað þetta er gott lið. Hef ekki séð betra í enska boltanum, svei mér þá.

  Best að endurvinna loks athugasemd mína úr leikþræðinum og svo af twitter:

  Trent er eins og blanda af Xabi Alonso, Dani Alves (m.t.t. að stjórna leikjum úr hægri bakvarðarstöðunni) og David Beckham. M.a.s. Captain Fantastic var ekki með svona góðan fót (sérstaklega sendingarnar) á þessum aldri. Algjörlega einstakt talent!

  11
 10. Skemmtilegt TEDx talk hjá Peter Moore https://youtu.be/YcIPVv-LKg8 um hans vegferð í lífinu þar til hann tók við stjórnartaumunum hjá Liverpool FC….svona á meðan menn bíða eftir leikskýrslunni 🙂

  4
 11. Ég set þetta bara í sviga og geymi það til vorsins…

  (…en ef þetta heldur áfram svona verður að skíra nýju Annie Road stúkuna KLOPP END!…)

  #nojinx

  5
  • KOP vs KLOPP ekki slæm hugmynd ? Frábær leikur í alla staði TAA geggjaður Bobby stígur upp þegar vængirnir stíga aðeins niður. Allir aðrir í liðinu bara geggjaðir síðan horfir maður sultu slakur á morgun þegar Úlfarnir taka Man C.

   YNWA

   5
 12. Algerlega stórkostleg jólaveisla sem Liverpoll bauð uppá á útivelli gegn liðinu í öðru sæti!
  Hlaðborð færa og fyrirgjafa, miðjan og vörnin algerlega skotheld sem varð til þetta að andstæðingarnir náðu ekki skoti á markið í 93 mín!

  Geggjað að horfa á þetta stórkostlega Liverpool lið.

  14
 13. Skýrslan er komin inn.

  Það eru forréttindi að halda með þessu liði!

  16
 14. Ég veit ekki á hvaða vegferð liðið okkar er á, en spennandi er vegferðin, það er morgunljóst. Ætla mér ekki einu sinni að reyna að leikgreina þennann leik, eða velja úr ,,þann besta,, enda til hvers, allt liðið var perfekt. Maður minn hvað leikgleðin skín hjá þessum strákum okkar, þegar þannig er, þá virðist allt vera svo auðvelt, sama hvort verið er að spila um heimsmeistaratitil í langtíburtu og vinna, eða við næst efsta liðið í deildini.

  YNWA

  7
 15. Hjá Thisisanfield.

  Trent Alexander-Arnold – 10 (Man of the Match).

  Þessi gutti er… Priceless! Verðmiðinn, miðað við aldur og fyrri störf, 500 mill.pund!

  Það verður spennandi að fylgjast með hvernig chity munu mæta til leiks annað kvöld í úlfagarði.

  8
  • 13 stig á Leicester og leik til góða
   14 stig á Man City.

   Hvað lið er eiginlega að fara lenda undir dráttarvélinni næst.

   7
 16. Hi guys, we were playing against team in 2nd place, not against team in 2nd division, right?

  14
 17. Ekki nóg með að TAA átti 2 stoðsendingar og skoraði eitt, þá átti hann líka skotið (hornspyrnuna) í höndina á Tyrkjanum sem varð að vítinu…
  þ.e. hann kom að öllum fjórum mörkunum.

  Maður leiksins??? Ég held það.

  14
  • Þetta verður leikur, jafnvel leikurINN, sem menn munu skoða í baksýnisspeglinum eftir 10-15 ár eða svo, þá í nostalgíugír yfir hvar þetta byrjaði allt hjá TAA.

   Þetta var algjör skaðræðisframmistaða, hann gjörsamlega jarðaði liðið í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni og það með bros á vör. 10/10 er pen einkunnagjöf en það er víst ekki meira í boði.

   Sá á framtíðina fyrir sér!

   4
 18. Gleðileg jól og til hamingju með þetta pollarar nær og fjær. Glæsilegur leikur sem hæfir heldur betur okkar frábæra liði. Fögnum meðan vel gengur. Umhugsunarefnin sem flest eru jákvæð…
  … Gini ómeiddur
  … Firmino farinn að skora reglulega
  … Henderson heldur áfram að vera frábær
  … halda hreinu
  … TAA ekki eðlilegur
  … frábærar innkomur varamanna
  … styttist í Lovren, Matip og Fabhino
  … fagna hverjum sigri en ekkert er komið. Ekkert lið hefur orðið meistari með 52 stig og því þarf að halda áfram vel á spöðunum. Man enn vel eftir leikjum td við Arsenal og Chelsea þar sem titillinn var hrifsaður úr okkar höndum á síðasta augnabliki. Í dag er það MC sem eru stórhættulegir og geta þess vegna unnið 15 leiki í röð. Þar að auki er seinni leikurinn við þá eftir. Stilli því mínum fagnaðarlátum í hóf þó vissulega sé hægt að fagna því sem komið er.

  12
 19. Hendo ekki meiddur fékk högg á kálfan eða sköflungin og það blæddi en ekki tognun eða eh álíka. Þannig hann ætti að jafna sig fljótlega. Gott mál

  6
 20. Ég bjóst við erfiðum leik, en þvílíkir yfirburðir ! Alveg frábært að Firmino er farinn að skora svona mikið og ég bara tárfelli af stolti þegar ég hugsa um hvert Trent Alexander Arnold er kominn. Ég sé ekki Matip fara beint í byrjunarliðið þegar hann verður heill, en Fabhino vil ég sjá sem allra fyrst í byrjunarliði aftur. Sá var nú aldeilis búinn að stimpla sig rækilega inn.

  7
 21. Sæl og blessuð.

  Sárt að þurfa að sitja í jólaboði meðan leikurinn stóð yfir. Leyfði mér nú samt að fagna hverju marki háum rómi og nuddaði Arsenal-fólkinu í kringum mig upp úr þeirri staðreynd að Marchenal Udt er með samtals jafnmörg stig og okkar ástkæra félag (sem á leik til góða!!!)

  Hvaða lúxusvandi er það þegar maður að nafni Mo. Salah er sístur af okkar mönnum? Hvers konar dásemd er það þegar nían okkar er búin að finna markagenin sín og TAA er að skrá nafn sitt gullnu letri á spjöld sögunnar? Hvað er hægt að segja þegar Gómezinn er aftur orðinn beast-of-a-defender?

  Þetta lið, þetta lið, þetta lið er bara svo rosalegt að það bugar það ekki neitt. Jú, janúarblúsinn er framundan en við erum búin að nesta okkur vel af stigum, að ef við lendum í tveimur-þremur jafnteflum þá er það enginn heimsendir. Það ætti ekki að koma að sök. Þetta var í raun fyrri úrslitaleikurinn um PL. Næsti úrslitaleikur er þegar við mætum þeim fölbláu og sigur eða jafntefli ætti að vera smiðshöggið sem vantar á að enduheimta bikarinn eftir þrjátíuára fjarveru.

  Svo ef mér reiknast rétt til þá eru Úlfar á matseðlinum eftir refaketið í gær. Þeir mæta City í kvöld og það er aldrei að vita nema að Traore sá snillingur geri þeim skráveifu. Þeir óransbrúnu fá skemmri hvíld á milli leikja en við – sem er óvæntur lúxus. Eins og Leicester eru þeir klemmdir á milli stórveldanna. Ættum því að geta dreift álagi.

  Þetta er svo magnað – með rosalegan meiðslalista erum við að sigra með þessum yfirburðum! Hélt við myndum ekki spjara okkur án Fabinho og Lovren/Matip var mikil blótaka, auk Chambos (sem við söknuðum með verkjum í fyrra). En þetta í þessu liði kemur bara snillingur í snillingsstað og þeir ná einhvern veginn að blómstra í nýjum rullum þessir drengir okkar.

  Nú fylgist maður spenntur með næstu tveimur leikjum hjá Úlfunum!

  12
  • Stórkostleg alveg hreint og sammála þér en varðandi Mo Salah að þá dregur hann svo mikið til sín þá svo að hann geri ekkert annað en að sýna sig og fallegu krullurnar sínar. Þetta er teymisvinna og það er hrikalega gott jafnvægi í þessu hjá okkur.

   Þessi leikur í gærkvöldi er sá besti síðan við rústuðum Barca, 4-0.

   8
  • Og ekki feilaði þessi spá hjá Lúðvíki.

   Traore sannaði sig heldur betur og át Monníóla í eftirmat!

   1
 22. Sælir félagar

  Takk fyrir góða leikskýrslu Eyþór og ekki svo sem miklu við hana að bæta. Ég vil þó taka undir gagnrýni á Salah og eigingirni hans. Það var engin ástæða til þess hjá honum að vera óánægður með útafskiptinguna. Hann einfaldlega spilaði ekki fyrir liðið heldur sjálfan sig og það gengur ekki í liði hjá Jurgen Klopp. Þar eru allir fyrir einn og einn fyrir alla. Sá sem ekki spilar þannig fær einfaldlega útafskiptingu.

  Annars er ekki tilefni til að taka einhverja út úr þessari liðsheild Klopp’s. Hver og einn spilaði mjög vel og lagði sitt af mörkum til sigursins í þessum leik. Það er samt ánægjulegt að sjá Nabi Keita vera ná þeim gæðum sem Klopp var að leita eftir þegar hann vildi fá þennan leikmann. TAA er auðvitað kapituli útaf fyrir sig og virðist vera að bæta sig með hverjum mánuðinum sem líður. Liðsheildin er mögnuð og skilar árangri sem verður sögulegur ef svo fer fram sem horfir.

  Ekkert er þó fast í hendi ennþá. M. City er eins og við bjuggjumst alltaf við sá andstæðingur sem verður okkur skeinuhættastur og geta þess vegna unnið restina af leikjum sínum. Þá er gott að hafa 14 stiga borð fyrir báru ef liðið okkar höktir eitthvað seinni hluta leiktíðar. Ég reikna með að Tottenham, Arsenal og Leichester verði þau lið sem berjast um 3. og 4. sætið. Ég er sammála Magga mínum um það að Chelsea mun ekki ná þeim markmiðum enda farnir að hökta verulega núna. Litla liðið í Manchester borg þarf ekki að ræða og vonandi færa sólskerjamóri að vera þar sem lengst.

  Það er nú þannig

  YNWA

  5
 23. Stálkafteinninn okkar…

  Jordan “Dances with Cups” Henderson!

  5

Liðið gegn Leicester

Gullkastið – Stanslaus veisla