Úrslit á HM! (upphitun)

Á morgun klukkan hálf sex munu stuðningsmenn Liverpool taka sér pásu frá jólastressinu og horfa á rauðu hetjurnar reyna að verða heimsmeistara. Andstæðingurinn er brasilíski risinn Flamengo, stærsta lið Suður-Ameríku. Með sigri klára Liverpool bikarsafnið sitt, þetta er eini bikarinn sem við eigum eftir að vinna! Flamengo eru samt engin lömb að leika við, koma frá knattspyrnuóðustu þjóð heims og eru búnir að eiga frábært tímabil inn á vellinum.

Brasilía

Þann 22. apríl, á því herrans ári 1500, lenti portúgalskur floti undir stjórn Pedro Álveres Cabral á strönd í Suður-Ameríku, þar sem borgin Porto Seguro í Bahia fylki Brasilíu er staðsett í dag. Pedro skírði landið Eyju hins helga kross og stofnaði þar nýlendu portúgalska ríkisins í nafni Manúels fyrsta konungs. Nær öruggt er að Pedro hafi verið að fylgja í fótspor fyrri landkönnuða en sagnfræðingar hafa ekki getað staðfest það.

Með tíð og tíma kom í ljós að svæðið var ekki eyja heldur meginland og hið óþjála nafn Land hins heilaga kross breyttist í Brasilíu. Það nafn er dregið af Brasilíutrénu (Paubrasila). Tréð er rauðleitt, var mikið notað til að framleiða fatalit og var fyrstu öldina sem Portúgalar réðu helstu útflutningsvara nýlendunnar. Á þessum árum var ekki óalgengt að sjómenn kölluðu löndin sem þeir ferðuðust til eftir varningnum sem þeir sóttu þangað. Samanber Fílabeinsströndina og Kryddeyjarnar (sem eru í dag kallaðar fyrra heiti þeirra Mólúkkaeyjar.) Fundist yfirlýsingar frá þessum árum frá fína fólkið sem biður almúgann um að nota ekki hið „ókristna nafn“ Brasilía en á það var ekki hlustað.

Mjög lítið er vitað upp daglegt líf innfæddra fyrir nýlendutímann. Portúgölsku nýlenduherrunum fannst ættbálkarnir ekki nógu merkilegir til að skrá margar heimildir um þá og það sem var skráð einkennist af miklum fordómum og staðalímyndun. Næstu aldir áttu eftir að vera martröð fyrir þjóðirnar sem bjuggu þarna fyrir landnám Portúgala. Talið er að um þrjár milljónir innfæddra hafi búið á svæðinu sem í dag heitir Brasilía þegar Portúgalar stofnuðu fyrstu nýlenduna. Í dag eru um 200.000 sem getað kallast afkomendur þessara milljóna. Eins og víða í Ameríkunum tveimur stráfelldu farsóttir innfædda og auk þess stunduðu nýlenduþjóðirnar blóðuga þrælastefnu.

Portúgalar skiptu nýlendunni í 15 svæði og hinir ýmsu herforingjar og lávarðar skiptust á að stjórna þeim næstu aldir. Hægt og rólega stækkaði yfirráðasvæðið og hagkerfið breyttist. Frá skógarhöggi, í kaffi og sykurrækt og námuvinnslu þegar stórar demanta- og gullnámur fundust í Chapata Diamantia. Til að láta þetta ganga upp voru þrælar fluttir inn til landsins í stórum stíl, mestmegnis frá vesturströnd Afríku, einkum Angóla. Talið er að næstum sjö milljónir hafi verið fluttir sem þrælar á þennan hátt og Brasilía var síðasta ríkið í vesturheimi til að banna þrælahald, sem var ekki gert fyrr en 1888. Í eldri hlutum Brasilíu, til dæmis Bahia og Minas Gerais er menningin í dag hrærigrautur hefða frá nýlenduherrunum, þrælunum og innfæddum.

1808 flutti portúgalska konungsfjölskyldan til Brasilíu og var portúgalska heimsveldið þá eina evrópska veldið sem hafði höfuðborg sína utan Evrópu. 1821 neyddist konungurinn til að snúa aftur til heimalandsins til að stemma stigu við óánægju þar. Sonur hans, Pedro, var einn ötulasti talsmaður þess að pabbi gamli færi heim. Ári seinna lýsti Brasilía yfir sjálfstæði sínu og Pedro var krýndur Pedro fyrsti, Brasilíukeisari. Fyrstu árin voru stormasöm og Pedro og eftir átta ár afsalaði Pedro sér keisaratigninni og flutti heim til Evrópu en Brasilía hélt sjálfstæði sínu.

Á þeim tvö hundruð árum sem Brasilía hefur verið sjálfstætt ríki hefur margt gengið á, sum gott og margt slæmt. Árið 1889 var keisaradæmið lagt niður og landið varð lýðveldi. Fyrsta lýðveldinu var steypt af stóli í byltingu 1930. Einræðisherrann Vargas réð lögum og lofum næstu fimmtán ár sem í sögubókunum er skipt niður í annað og þriðja lýðveldið. Því fylgdi fjórða lýðveldið sem tók enda 1964 þegar grimmileg herstjórn tók völdin í 21 ár. Landið er í raun enn þá að jafna sig á þeim árum og  það er engan veginn gefið að þeir Brassar sem muna þá tíma séu tilbúnir að ræða þá. Þessum ósköpum lauk 1990 þegar fyrsti kjörni forsetinn í áratugi tók við völdum.

Brasilía er land andstæðna. Menning innfæddra blandaðist menningu þrælanna og ný trúarbrögð urðu til. Evrópubúarnir sáu til þess að allir væru skírðir til kaþólskrar trúar en í Brasilíu er algengur brandari að Brasilía sé „stærsta og minnst kaþólska land í heimi.“ Náttúruperlurnar eru ólýsanlega fallegar, iðnaðurinn miklu meiri en þú heldur. Ef þú kaupir japanskt mótorhjól einhvers staðar í Evrópu eru miklar líkur á að það hafi verið framleidd í Manaus í Amazon skóginum. Fótbolti er trúarbrögð en langt því frá eina íþróttin sem er vinsæl samanber MMA, Capoeira, kraftlyftingar, meira segja hand- og körfubolti eru stundaðir af kappi. Það er líka langt því frá að bara Portúgalar hafi komið til landsins á undanförnum öldum. Þjóðverjar og Ítalir byggðu margar af borgunum í suðurhluta landsins (Ef einhver var að pæla í hversu óbrasilískt nafn Alison Becker er þá voru amma hans og afi  þýsk). Í Sao Paulo má finna stærstu ,,Litlu Tókýó“ í heimi og meira að segja er vitað um nokkra Íslendinga sem settust að í Brasilíu á 19.öld.

Ein stjarna fyrir hvert fylki, plús höfuðborginaLandið skiptist í 26 fylki og er skipulagið mjög svipað og við könnumst við í Bandaríkjunum. Borgirnar og fylkin endurspegla fjölbreytni landsins. Salvador er drekkhlaðin sögulegum minjum og sál landsins á heima þar. Manaus er stórfurðuleg borg; iðnaðarklessa með gullfallegum miðbæ í hjarta Amazon skógarins. Höfuðborgin Brasilía var byggð árið 1960 í landfræðilegri miðju landsins til að vera sameiningartákn og draumur arkitekta, teiknuð til að líta út eins og flugvél úr lofti. Utan um þessa miðju er svo eitt stærsta fátækrahverfi landsins, mennirnir sem skipulögðu borgina voru ekki mikið að pæla í hvað ætti að gera við alla sem fluttir voru þangað til að byggja hana. En hjarta landsins er Rio De Janeiro, heimili Flamengo.

Rio De Janeiro

Það eru til margar þjóðsögur um stofnun Rio De Janeiro (oftast kölluð Ríó). Guanabara flói er frábær höfn af náttúrunnar hendi, þar sem á rennur til sjávar og flóinn er umkringdur risavöxnum granítfjöllum og þess  utan eru meira en 100 eyjur á svæðinu. Til þessarar paradísar komu Portúgalar fyrsta janúar 1502 og skýrðu svæðið þess vegna Janúaránna. Einhverjar af sögunum um sjómennina sem komu til svæðisins til að byggja nýlendur eru ansi klúrar en það eru líklega bara sjóarasögur.

Fallegasta borgarstæði í heimi.

Borgin stækkaði hratt þökk, sé sykurrækt í nágrenninu. Á átjándu öld var Ríó gerð að höfuðborg Brasilíu á kostnað Salvador og var þá þegar orðin fjölþjóðaborg. Til dæmis hafði vaxið þar hverfi þar sem Hollendingar og Englendingar héldu sig. Hverfið var skýrt eftir portúgalska orðinu yfir Hollendinga: Flamengo.

Borgin tók stakkaskiptum 1808 þegar portúgalska hirðinn flúði þangað. Á örstuttum tíma þurfti að byggja villur og húsnæði fyrir þúsundir aðalsmanna og starfsfólk þeirra. Mörg glæsihýsi voru byggð en margir aðalsmenn hentu einfaldlega fólki úr húsnæði þeirra og tóku það yfir. Frá sjálfstæðinu og til 1960 var Ríó höfuðborg Brasilíu og mörg helstu kennileiti borgarinnar voru byggð á þeim tíma. 1912 var fyrsta lyftan upp í Sykurbrauðsfjallið byggð og þar má sjá eitt fallegasta útsýni heims. Styttan fræga af Krist var byggð 1940, Ipanema strönd varð heimsfræg 1962 þegar einn ástsælasti söngvari Brasilíu gaf út Stúlkan frá Ipanema. 

En borgin er fræg fyrir fleira en fegurð sína og tónlistina. Meira en þúsund favelur eru í borginni. Favela þýðir fátækrahverfi og búa um 20% allra í Ríó í slíkum hverfum. Þökk sé kvikmyndum eins og Tropa de Elite og Cidade de Deus er mynd heimsins af þessum hverfum sú að þar ráði gengi lögum og lofum, skotbardagar séu daglegt brauð og allir selji eiturlyf. Í örfáum hverfum á það kannski við  en flestíbúanna sem búa í þessum hverfum  er bara venjulegt fólk sem vill vera látið í friði, fólk sem elskar tónlist og eins og allir Brassar, elskar fótbolta. Það er algeng sjón á götum Rio að sjá börn hlaupa um og gefa allt frá litlum tuðrum til uppvafinna sokka á milli sín. Sumir telja að þessi götufótboltamenning úr favelunum útskýri að hluta hversu margir teknískir leikmenn koma frá Brasilíu.

Fótboltinn og Brasilía

Os ingleses o inventaram, os brasileiros o aperfeiçoaram“ Englendingar fundu upp fótbolta, Brasílumenn fullkomnuðu hann” – Algengur frasi í Brasilíu

Þegar skotinn Thomas Donohoe skipulagði tíu manna fótbolta leik á velli í Banguhverfinu í Ríó árið 1894 hefur honum varla órað fyrir hverju hann væri að koma af stað. Næstu ár hófu íþróttafélög að stofna fótboltadeildir en flestir elstu klúbbarnir voru ekki stofnaðir sem fótboltafélög. Flamengo var til dæmis stofnað sem róðrafélag.

Sökum gífurlegrar stærðar landsins (ef norðvesturhorn landsins væri hjá Færeyjum, næði vesturhluti landsins utan um Írland, Bahia væri í Ukraínu og Rio Grande de Sul væri í Lybíu) og frumstæðra samgangna var engin efsta deild fyrir allt landið fyrr en 1959. Þess vegna stofnaði hvert fylki sína deild og bikarkeppni og þessar keppnir eru allar í gangi í dag. Flestar þeirra eru ekki merkilegar og fótboltasamböndin eru sífellt að grúska í hvernig þær eru skipulagðar. Við kvörtum yfir leikjaálaginu á Liverpool þessa dagana en England á ekkert í Brasilíu þegar kemur að fjölda leikja.

Tímabilið í Brasilíu hefst í febrúar. Þá byrjar deildirnar í hverju fylki fyrir sig og stærstu liðin spila bæði í þeim keppnum og svo deildunum sem ná yfir allt landið, sem hefjast í maí. Minni bikarkeppnirnar hefjast þegar minni deildirnar klárast og þegar þeim er lokið er spilað um Copa de Brasil, bikarkeppni sem er opin sigurvegurum og efstu liðum úr öllum fylkjabikurunum. Þegar Flamengo hefur leik á laugardaginn í heimsbikarnum verður það leikur númer 74 á tímabilinu. Það mesta sem Liverpool gæti náð, ef þeir kæmust í úrslit í öllum keppnum er 68. Það eykur heldur ekki gæði  brasilíska boltans að sumarglugginn í Evrópu sker tímabilið í tvennt og geta góð lent í því að vera rifin í sundur af evrópskum liðum á miðju tímabili.

Brasilíu hefur í gegnum árin verið eitt af stórveldum heimsknattspyrnunnar. Þeir eru eina þjóðin sem hefur tekið þátt í öllum HM landsliða og þeir hafa unnið keppnina fimm sinnum. Þegar upphaflegi bikarinn var smíðaður var sú regla sett að fyrsta liðið til að vinna keppnina þrisvar fengi að eiga bikarinn. 1970 afrekaði Brasilía það að eignast bikarinn og var hann geymdur í Ríó þangað til 1983, þegar honum var stolið og hann hefur ekki fundist síðan, líklega var hann bræddur niður.

Þrátt fyrir alla sigrana eru tveir ósigrar sem vega þungt á fótboltasál Brasilíu. Sá fyrri af þessum ósigrum var árið 1950 þegar Brasilía hélt HM í fótbolta í fyrra sinn. Eftir að hafa rústað álfukeppni Suður-Ameríku árið áður með glimrandi sóknarbolta var þjóðin sannfærð um að bikarinn færi á loft í brasilískum höndum á Maracana (heimavelli Flamengo). Aðeins Úrúgvæ stóð í vegi fyrir þeim, smáríki sem er staðsett milli Brasilíu og Argentínu. Árið áður höfðu Brasilía sigrað Úrúgvæ 5-1 í álfubikarnum.

Sögurnar af sigurvissu Brasilíu taka í sig þjóðsagnablæ. Búið var að semja sigurlag, búið var að útbúa sérstaka gullpeninga með nöfnum allra leikmanna, stjórnmálamenn og áhrifafólk kepptist um að hitta liðið dagana fyrir leikinn til að geta sagst hafa gert það. Á morgni leikdags var kvöldblaðið í Ríó prentað með fyrirsögninni: „Heimsmeistarar!!!“ Sagan segir að fyrirliði Úrúgvæ hafi keypt eins mörg eintök af blaðinu og hann gat og migið á þau fyrir leikinn.

Talið er að næstum 200.000 þúsund manns hafi verið á vellinum þennan dag. Þegar lokaflautan gall var dauðaþögn, fyrir utan fagnaðarlætin í nokkrum Úragvæum. Ásakanirnar byrjuðu strax eftir leikinn. Ein af afleiðingum leiksins var að einhver ákvað að búningur Brasilíu (sem þá var hvítur) væri ekki nógu þjóðlegur og honum var breytt í fræga gula búninginn sem við þekkjum í dag. Handan við hornið var gullöld með Pelé í broddi fylkingar en fæstir vissu það 1950.

Seinni ósigurinn sem hvílir þungt á brasilísku fótboltasálinni átti sér stað 2014. Þá fékk Brasilía hrottalegan skell á heimavelli. Þá töpuðu þeir 1 – 7 í undanúrslitum HM og leikurinn sá er einn sá eftirminnilegasti í seinni tíð.

En ást þjóðarinnar á íþróttinni hefur ekkert minnkað. Brasilía elskar fótbolta og horfir hann örlítið öðrum augum en Evrópubúar. Í Brasilía er ungum leikmönnum fyrst og fremst hrósað fyrir sköpunargleði, fyrir að gera það óvænta. Sumir vilja meina að ást landsins á futsal sé ástæða þess hversu tæknískir leikmenn koma þaðan. En það er engan veginn þannig að allir Brassar í hæsta klassa hafi spilað futsal mikið. En alls staðar í Brasilía elskar fólk að sjá unga leikmenn reyna brögð, fara fram hjá varnarmönnum óvænt og spila með bros á vör. Ef þú ert ekki brosandi á meðan leik stendur, hver er tilgangurinn? Fyrir mér er engin brasilískur leikmaður jafn brasilískur og Bobby okkar Firmino, einmitt út af þessari blöndu af leikgleði og hinu óvænta.

Flamengo

Róðraklúbburinn Flamengo spilaði sinn fyrsta fótboltaleik árið 1912 og vann sér fljótt sess sem einn af „stóru fjórum“ liðunum í Ríó. Hin eru Fluminense, Botofogo og Vasco de Gama. Flamengo hefur unnið fylkjadeild Ríó oftar en nokkuð annað lið, 35 sinnum. Þeir hafa líka unnið landsdeildina sex sinnum, síðast núna árið 2019.

En frægustu sigrar liðsins hafa verið á alþjóðavettvangi. Árið 1981 unnu þeir Suður-Ameríku bikarinn í fyrstu tilraun og tóku því þátt í heimsmeistaramóti félagsliða í fyrsta sinn. Þá samanstóð mótið af einum leik, milli Evrópu og Suður-Ameríku. Á Ólympíuvellinum í Tókýó mættu þeir með sína allra mestu goðsögn í broddi fylkingar, Zico. Þeir sigruðu ríkjandi Evrópumeistar, okkar heittelskuðu Liverpool með Sir King Kenny Dalglish í fremstu víglínu.

Áðurnefndur Zico er mesta goðsögn í sögu Flamengo. Hann spilaði sinn fyrsta leik með liðinu 1971 og þann síðasta 1989, tók reyndar fjögur ár í Evrópu. Í 731 leik fyrir liðið skoraði hann 508 mörk, vann fjóra landstitla og var oft kallaður Hvíti-Pele.

Árið 2019 hefur verið bæði eitt það versta og besta í langri sögu félagsins. Eins og mörg lið í Brasilíu skipti Flamengo um þjálfara á miðju tímabili og við tók portúgalinn Jorge Jesus sem var þjálfari Benfica lengi og ætti að vera einhverjum Kopverjum kunnugur. En árið hófst á mun stærra og sorglegra máli. Morguninn áttunda febrúar kviknaðir eldur í Ninho de Urubu (Hrægammahreiðrinu), æfingasvæði félagsins, og tíu ungir leikmenn létust. Þess að auki slösuðust margir og saksóknari Ríó er að undibúa málaferli gegn nokkrum starfsmönnum félagsins en drengirnir voru sofandi í gámum sem hafði verið breytt í heimavist. Lýst var yfir þriggja daga þjóðarsorg í Ríó og Flamengo spilaði með sorgarbönd út tímabilið.

Stíll liðsins er nokkuð líkur Liverpool. Þeir eru að spila mesta sóknarboltann sem sést hefur í Brasilíu síðan á tíunda áratug síðustu aldar og að klára besta tímabil í sögu félagsins. Þeir reyna að pressa hátt upp á vellinum, með bakverði sem fara mjög hátt upp á völlinn, eru með eldfljóta framlínu og skoruðu 86 mörk í 38 leikjum. Þeir unnu Serie A með 16 stiga mun og 49 mörk í plús, þrátt fyrir að tapa í síðasta leiknum 0-4 gegn liðinu í öðru sæti. Það má bæta við að líkt og Liverpool hafa þeir á sér orð fyrir  að skora seint í leikjum þegar andstæðingurinn er farinn að þreytast. Þeir kláruðu líka Ríódeildina og auðvitað Suður-Ameríku bikarinn.

Veikleikar þeirra eru vörnin en þeir hafa sérstaklega átt í erfiðleikum með lið sem pressa þá hátt upp á vellinum. Hafsentarnir eru ekkert sérstaklega fljótir, hvað þá bakverðirnir sem eru með stórt hlutverk í sókninni. Markmaðurinn Diego Alves er virkilega fínn, spilaði lengi með Valencia þar sem hann hafði orð á sér sem einn besti vítabani Evrópu með 15 varin víti á sex ára ferli. Helsti styrkur liðsins er miðjan þar sem þeir eru með úrúgvæska landsliðsmanninn Giorgian De Arrascaeta, brasilíska landsliðsmanninn Everton og varnartengiliðinn Aroa sem var orðinn hálfgerður brandari áður en Jesús tók við liðinu og blæs nýju lífi í kappann. Frammi eru svo Bruno Henrique og Gabriel Barbosa sem hvorugur náðu að gera garðinn frægan í Evrópu, en hafa verið frábærir árinu.

Okkar menn

Desembermánuðurinn brjálaði heldur áfram og það er klárlega farið að sjá á hópnum. Engin veit hver staðan er á Wijnaldum, Van Dijk ætti að vera orðin heill af veikindum en maður er svo sem ekki viss. Mané og Firmino fengu að hvíla sig í undanúrslitunum og munu vonandi koma aftur inn í byrjunarliðið ásamt Trent. Að því gefnu að Van Dijk sé heill þá held ég að Hendo færi sig í stöðuna sem Lallana var að spila.

Ég held að fyrir þennan leik verði engar pælingar um að hvíla menn nema það þurfi bráðnauðsynlegt, það er dolla í boði!

Spá

Það er ekkert leyndarmál að þessi bikar er meira virtur í Brasilíu en á Englandi og fyrir Flamengo er sigurinn 1981 ein stærsta stund í sögu félagsins. Ef þeir ná að vinna okkur núna er 2019 orðið besta ár í sögu félagsins og þeir munu spila með það í huga. Ríó verður nánast lokuð á morgun og allir með hugann við leikinn. Synd að Liverpool mun skemma það partí með 4-2 sigri, þar sem Firmino skorar, Mané með tvö og eitt úr óvæntri átt, að ég held Henderson.

Koma svo!

12 Comments

  1. Skemmtileg yfirferð, með dassi af sögu Brasilíu og fótboltans þar, sem er einstakur. Í þá daga sem Pele spilaði með Santos var farið í sýningarferðir til Evrópu, allir vildu sjá Pele, ef hann einhverra hluta var ekki með, þá var messufall. Ég man alveg fyrir áratugum síðan eftir nefndum liðum í greinini, fannst alltaf nafnið Vasco de Gama geðveikt flott, sem er reindar nafn þess sem sagt er að fyrstur hafi siglt fyrir suðurodda Suður-Ameríku og þaðan upp norður, kannski lent í Río á leiðini til…………… who knows. Þetta verður flottur leikur og það má ekki vera með neitt vanmat því þeir kunna fótbolta. Aðalatriðið verður að njóta vonandi þess besta sem alvöru fótbolti bíður upp á, spái 2-1 fyrir okkar mönnum.

    YNWA

    3
  2. Þetta er útúrdúr en, Mane skoraði að mínu áliti besta mark síðustu leiktíðar, mark þar sem hann hugsar möguleikann á örskotstundu, boltinn fyrir framan hann, hann flikkar honum aftur fyrir sig, Mark. Pele skoraði mark með batta, battinn var andstæðingurinn, hugsun á örskotsstndu, svona mörk gera bara snillingar.

    YNWA

    3
  3. Algjörlega frábær upphitun, Suður-Evrópu Ingimar, slegið.

    Hef miklar áhyggjur af því hvað afi Alisson var að brasa áður en hann flutti til S-Ameríku, var það nokkuð fljótlega eftir 1945…? 🙂

    Gaman að lesa sig til um landi og eins deildina þarna, hef aldrei sett mig inn í það hvernig þetta virkar og þ.a.l. aldrei skilið þetta almennilega. Missir rosalega marks og villandi að fylgjast með hver vann hvað. Enda eru Brasilísku liðin jafnan verri en t.d. Argentísku liðin og hefur gengið mjög illa í þessum alþjóðlegu keppnum þrátt fyrir að það sé langmest af peningum í Brasilíska boltanum (í S-Ameríku).

    Eins áhugavert hvað Brasilískum þjálfurum hefur gengið illa utan heimalandsins, það eru ótrúlega fáir þjálfarar frá Brasilíu m.v. hvað þetta er fjölmenn og fótboltageðveik þjóð.

    5
    • Ágætis pæling Einar, hvað afinn var að þvælast til Brasilíu upp úr 1945, hver var hann? Hvað var hann að brasa? Er mér að litlu leiti skyllt, afi afabarns míns er einnig af þýskum ættum, reyndar bjó í Kosta Ríka og öll fjölskyldan býr þar enn, á heljar land að sjó sem hefur að geyma margar af vinsælustu ströndum Kosta Rika. Að endingu þá framleiddi Kobbi Magg í Stuðmönnum heimildarmynd um íslendinganýlendu í Brasilíu, lagði nánast allt undir við gerð hennar, en um það má lesa í endurmynningum hans, það verður engin svikinn af lestri þeirrar bókar.

      YNWA

      3
  4. Sæl og blessuð.

    Frábær upphitun og við erum margs vísari – en Alisson Becker – þýskur í aðra ættina og … hvaðan er hinn leggurinn? Væntanlega kokteill af portúgölsku, innfæddu og einhverju öðru djúsí. Alinn upp í Brasilíu. Það er er nú ekki amaleg uppskrift að stórbrotnum knattspyrnumanni!

    Leikurinn á morgun verður gríðarleg prófraun. Ef Virgillinn spilar ekki, eða spilar á hálfum krafti – þá erum við illa stödd. Að öðrum kosti ætti þetta að sleppa hjá okkur. Þvílík reynsla sem þetta lið er búið að sanka að sér. Væri ekki amalegt að bæta nýjum bikar við í safnið!!!

    4
  5. Risa Risa leikur allt á hvolfi i Braselíu yfir þessum leik Heimsmeistarar felagsliða það gerist varla stærra önnur nálgun er ekki rétt…..þegar sagan verður skrifuð þá verður alltaf talað um þennan titil þessi BIKAR á bara eftir að stækka allir Liverpool áðdáendur….koma svo náum i hann…

    5
  6. Enn ein meistararitgerðin… Enda erum við Evrópumeistarar og langflottastir.

    5
  7. Sælir félagar

    Ingimar á þakkir skildar fyrir frábæra upphitun og mér er til efs að nokkrir stuðningsmenn búi við jafn góða penna í þessa veru og við. Hvað leikinn varðar þá verður þetta hunderfitt og verður mikil gleði ef hann vinnst. Brasilíu menn vita hvað þetta er í raun stór bikar. Að hampa honum þýðir að vera beztur af þeim beztu í heiminum. Það er ekki flóknara en það. Ég vona að okkur takist að vinna þennan leik og spái 3 – 1 fyrir Liverpool.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  8. Alltaf fær maður snilldar pistla frá þessum höfðingjum það er unnið óeigingjarnt starf í þeim efnum!
    Manni hlakkar mikið til þessa leiks og auðvitað yrði yndislegt að vinna þennan bikar ég býst við erfiðum leik gegn erfiðu tudda liði.

    Ætla spá 2-1 í þessum leik.

    YNWA

    3
  9. Þvílík upphitun ! Mögnuð lesning, takk fyrir mig Ingimar. Nú er leikdagur og ég vona að við tökum þennan bikar. Það væri líka gott að fá “hagstæð” úrslit í leik city og leicester.

    3

Gullkastið – HM í Katar

Byrjunarliðið vs. Flamengo í úrslitaleik Club World Cup