Monterrey 1 – 2 Liverpool

Liðið okkar heldur áfram að vinna leiki 2-1, þessi leikur í kvöld engin undantekning þar á, og ég veit ekki af hverju við efuðumst fram undir 90. mínútu.

Mörkin

0-1 Keita (12. mín)
1-1 Funes Mori (14. mín)
1-2 Firmino (90. mín)

Gangur leiksins

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað, en eftir rúmar 10 mínútur kom fyrsta markið, Salah var aðal arkitektinn að því með því að renna boltanum í hlaupaleið Keita beint inn á teig, Keita var dauðafrír og gerði allt hárrétt. 0-1, og maður vonaði að þetta væri bara forsmekkur að því sem koma skyldi. En það liðu bara rétt rúmar 2 mínútur þangað til Monterrey voru búnir að jafna. Aukaspyrna á miðjum vallarhelmingi okkar, fyrirgjöf inn á teig sem tókst ekki að hreinsa almennilega, boltinn barst að markteigshorni og þaðan kom skot sem Alisson varði, en beint í lappirnar á Funes Mori sem var á markteig einn og óvaldaður, og gerði engin mistök. 1-1 eftir korter, og fleiri mörk voru svo ekki skoruð í hálfleiknum. Færin til þess voru þó vissulega til staðar. Milner komst einn upp að markteig en lét verja frá sér, og þegar var farið að nálgast hálfleik komst Keita aftur einn innfyrir eftir sendingu frá Salah, en markvörðurinn kom út og náði að veiða boltann af löppunum á honum. Monterrey fengu líka sín færi, en Alisson var vandanum vaxinn í öllum tilfellum.

Í síðari hálfleik hélt sama sagan áfram. Monterrey vörðust vel, okkar menn fundu sig alls ekki. Í raun voru afskaplega fáir að spila á venjulegri getu, helst hægt að nefna Alisson, Keita og e.t.v. Robertson. Salah ágætur í fyrri hálfleik en síðri í þeim seinni. Sá fyrsti til að víkja af velli var Shaqiri, hans frammistaða var ekkert endilega sú lélegasta af okkar mönnum, en afar gleymanleg frammistaða þrátt fyrir það. Mané kom inná í stað hans og byrjaði strax að valda usla, án þess þó að búa til afgerandi færi. Næst fór þúsundþjalasmiðurinn James Milner af velli í sínum 200. leik, og inná kom Trent. Þegar 5 mínútur voru til leiksloka kom svo síðasta skiptingin, Origi fór af velli eftir líklega eina slöppustu frammistöðu sína í seinni tíð, þar sem hann kiksaði m.a. fyrir opnu marki skömmu áður en hann var tekinn af velli. Og þegar að leikmenn, áhorfendur og annað einvalalið var farið að telja niður í lokaflautið og þar með framlengingu, þá loksins náðu okkar menn að brjóta ísinn. Salah fékk stungusendingu inn fyrir, það fóru strax tveir varnarmenn í hann og lokuðu fyrir fyrirgjöfina, en hann renndi boltanum í staðinn út á Trent. Vorum við búin að tala um hversu margar stoðsendingar Trent er kominn með á þessari leiktíð? Það er held ég engin tilviljun hve þær eru orðnar margar, því hann lagði boltann á hárréttan stað inn á markteig þar sem Firmino var á hárréttum stað og renndi boltanum hárrétt framhjá Barovero. Var ég búinn að minnast á að það var hárrétt að öllu þessu staðið? Af því að það var akkúrat það sem gerðist. Okkar menn náðu svo að sigla þessu í höfn, og sluppu blessunarlega við framlengingu sem hefði verið algjör óþarfi að fara í á þessum tímapunkti.

Bestu/verstu menn

Það lenda óþægilega margir í seinni hlutanum. Lallana var svona allt að því ósýnilegur í leiknum. Hendo og Gomez voru ekki sannfærandi í miðverðinum. Origi virkaði ósannfærandi og hefur oftast spilað betur, stundum er hann ósýnilegur en kemur svo með eitt brilliant atriði sem bjargar áliti manns á frammistöðu hans, en það kom ekkert slíkt núna. Shaqiri oft spilað betur. Þeir sem við getum sagt að hafi staðið sig vel eru (eins og áður sagði) Alisson, Keita, Salah af þeim sem spiluðu allan leikinn, og Trent og Firmino gerðu mjög vel á þeim mínútum sem þeir voru inná. Held það sé ekki sanngjarnt að gefa einhverjum einum titil fyrir bestu eða verstu frammistöðuna.

Umræðan eftir leik

  • Jújú, enn einn 2-1 sigurinn. Eigum við ekki að vera farin að kunna þetta?
  • Vörnin er orðin hættulega þunnskipuð, þegar það þarf að tefla fram tveim miðjumönnum. Aðal málið er auðvitað að það verði hægt að tefla fram sómasamlegri vörn í næstu tveim leikjum (sjá neðar).
  • Djöfulli er Trent góður.

Næstu verkefni

Tveir ansi stórir leikir framundan. Leikur gegn Flamengo um bikar sem Liverpool hefur aldrei unnið áður, auðvitað vilja Klopp og hver einasti leikmaður krækja í þann bikar. Svo er flogið heim, og spilað gegn Leicester á annan í jólum. Við vitum alveg hvað er í húfi þar, mikið væri nú gaman að hirða þrjú stig í þeim leik. Svo Úlfarnir og Sheffield sitt hvoru megin við áramótin, og Everton í bikarnum þann 5. janúar. Mikið verður nú gaman að sjá Minamino skora á móti þeim bláu!

16 Comments

  1. Það hefði verið skelfilegt að missa þennan leik í framlengingu í þessari jólatörn, virkilega vel klárað hjá Firmino og geggjuð sending hjá Trent.
    Nú er bara að vona að Van Dijk verði klár í úrslitaleikin því að Gomez og Hendo eru ekki alveg með þetta.

    9
  2. Góður sigur en mér leið eins og ég væri að horfa á æfingaleik á undirbúningstímabili en ekki undanúrslitaleik. Vonandi voru þeir bara að spara orkuna fyrir úrslitaleikinn.
    YNWA

    9
  3. Þetta var þungt, þreytt og rólegt en við hverju bjóst maður svo sem ? Dómararnir alveg búnir á því, nenntu ekki að bæta nema 3 mínútum við þrátt fyrir alla krampa. Gerðum það sem þurfti til þrátt fyrir all sérstaka uppstillingu.
    YNWA

    3
  4. Haha þeir voru liggjandi um allan völl með krampa það ræður enginn við Liverpool.
    Menn geta æft og æft en Liverpool eru á öðru leveli hvað það varðar.

    Firmino með frábæra innkomu og Trent að gera það sem hann er vanur að vera með stoðsendingar.
    Keita frábær í þessum leik virkilega ánægður með hann.

    13
  5. þetta slapp fyrir horn, vona að við getum still upp topp liði á laugardaginn.

    kominn tími á að fá síðustu dolluna sem okkur vantar í safnið

    7
  6. Erum bara með þetta, þarf ekki alltaf að vera flugeldasýning. Hinir voru orðnir frekar slappir í lokin.
    Núna bara að bíða eftir laugardeginum

    Áfram Liverpool

    3
  7. Það er engin tilviljun að við séum að klára svona marga leiki í blálokin. Þetta er merki um brjálaða þjálfun, mikil gæði og óbilandi trú.

    YNWA!

    10
  8. Mikið svakalega hlakka ég til þegar Mikiðínetið, eða hvað hann heitir, kemur… 🙂

    4
  9. Ha ha, hélt um tíma að Everton hefði þetta í bikarnum. Megi Leicester og City spila a.m.k. 180 mín. um þennan verðlausa bikar og eyða í það orku og pústrum… á meðan LFC fetar sig áfram upp töfluna.

    6
    • Hvaða sæti er fyrir ofan sæti 1 ?
      Hélt að “feta sig upp” myndi þýða að klífa upp um sæti .. 😉

      2
      • He he jú reyndar. Bara kannski svona upp í stigasöfnun og kannski að auka bilið í næstu lið og svona… 😉

        2
  10. Er þetta ekki gott fyrir okkur að detta út úr litla bikarnum?city og leicester eru áfram og eykur álagið á þá?

    4
    • Nei það var ekki gott að detta út þar sem við vorum að spila á allt öðrum mönnum en aðalliðsmönnum, þó tveir til þrír af þeim hefðu eflaust verið með í næsta leik. Hefði þ.a.l. verið fínt fyrir þessa stráka að fá fleiri alvöru leiki.

  11. Skýrslan er komin inn, önnur verkefni þetta kvöldið komu í veg fyrir að hún kæmi inn fyrr. Og þá er komin inn ný færsla! Ég held svei mér þá að ritstjórn kop.is þurfi að fara að bæta við starfskröftum fyrir allar þessar greinar.

    5

Liðið gegn Monterrey

Minamino kominn (staðfest!)