Aston Villa 5-0 Liverpool

1-0 Conor Hourihane (’14)
2-0 Morgan Boyes (’17, sjálfsmark)
3-0 Jonathan Kodjia (’37)
4-0 Jonathan Kodjia (’45)
5-0 Wesley Moraes (’92

Ungmannalið Liverpool mættu fullir sjálfstrausts á Villa Park í dag og hófu leik ágætlega. Innan skamms var liðið búið að láta reyna á markmann Aston Villa en draumurinn varð fljótt að martöð þegar Villa fékk aukaspyrnu úti á kanti sem Hourihane tók, boltinn flaug inn á teiginn þar sem Kodjia reyndi við boltann sem truflaði Kellegher í markinu og boltinn endaði í netinu. Stuttu seinna komst El Mohamady upp sama kant og gaf boltan fyrir en hann hrökk af Boyes og yfir Kellegher í markinu og fljótt orðið 2-0.

Liðið leit oft ágætlega út með boltann og náði nokkrum sinnum upp góðu spili og reyndu nokkrum sinnum á Nyland í marki Villa manna en á 37. mínútu átti Van Der Berg afleita sendingu sem leiddi til þess að Kodjia slapp einn inn fyrir og skoraði. Kodjia náði svo að bæta við öðru fyrir hlé og 4-0 í hálfleik og útlit fyrir að lokastaðan gæti orðið frekar ljót.

Í seinni hálfleik hægði Liverpool aðeins á leiknum og Villa menn minnkuðu nokkuð ákefðina sjálfir líka. Bæði lið áttu nokkra sénsa, Kellegher varði nokkrum sinnum vel og Nyland flottur í marki Villa manna varð til þess að lítið kom upp úr seinni hálfleik þar til rétt fyrir lokaflautið þegar Wesley sem kom inn sem varamaður fyrir Kodjia kláraði 5-0 sigur Villa manna og þeir komnir í undanúrslit deildarbikarsins.

Bestu menn Liverpool

Harvey Elliott sýndi okkur að hann er hrikalega flott efni og mun líklega verða mjög góður leikmaður en það var nánast alltaf hætta þegar hann fékk boltann og fóru Villa menn að passa mjög vel upp á hann. Ki-Jana Hoever var fínn í bakverðinum og Herbie Kane ágætur á miðsvæðinu. Tony Gallacher átti undarlegan leik. Flest færi Villa manna komu á hans kanti en sóknarlega, sérstaklega í seinni hálfleik, leit hann vel út.

Vondur dagur

Kellegher átti nokkrar góðar vörslur í seinni hálfleik en hefði mátt gera betur í fyrstu mörkunum og lítur alltaf illa út þegar markmaður er búinn að fá á sig fjögur mörk og andstæðingurinn búinn að eiga þrjú skot á rammann. Longstaff og Thomas Hill virtust alls ekki klárir í svona leik í sókninni og Van Der Berg er ekki jafn klár og maður vonaðist til þegar hann var keyptur í sumar.

Umræðupunktar

Menn gegn strákum var mikið talað um fyrir leik og þó frammistaðan á vellinum hafi verið ágæt á köflum sást það í færaklárun að það var mikið til í því en þetta er undarleg aðstaða sem Liverpool lennti í með að eiga tvö leiki á tveimur dögum í tveimur heimsálfum og verður líklegast eitthvað sem við sjáum aldrei gerast aftur og því lítið að fara leita að einhverjum umræðupunktum öðrum en hvaða strákar sem voru á vellinum í dag virtust klárir og hverjir ekki.

Bara upp og áfram nýr dagur á morgun, nýr leikur á morgun og þá sjáum við aðalliðið okkar spila í Heimsmeistarakeppninni og getum vonandi sagst vera heimsmeistarar á laugardaginn!

12 Comments

  1. Sorry, en ég sá bara ekkert jákvætt í leik okkar unga liðs, nema að fremstu menn voru nokkuð sprækir rétt í upphafi. Kanski samt hægt að sjá tvo leikmenn í framtíðarliði.

    4
    • Sorry, en ég verð bara að vera algjörlega ósammála þér, Villa eru með ábyggilega 30 – 40 ár meira af sameiginlegri reynslu í sínu liði samt er markmaðurinn þeirra maður leiksins. Þeir skora 4 mörk úr 3 skotum á rammann í fyrri hálfleik en okkar menn héldu áfram og voru óheppnir að skora ekki. Varnarmennirnir okkar gerðu mistök sem er auðvelt að læra af með meiri reynslu. Mér fannst strákarnir bara standa sig vel og loka tölur alls ekki í samræmi við gang leiksins.

      19
  2. Í fyrri hálfleik átti Aston Villa þrjú skot í heildina en skoraði fjögur mörk – er það ekki eitthvað met?

    2
  3. Sælir félagar

    Mér fannst krakkaliðið okkar vera afar óheppið í þessum leik og AV að sama skapi heppið. Mark númar tvö var klár heppni og ótrúlegar vörslur varamarkmannsins “voru heppni, að stórum hluta, að mjög stórum hluta” svo ég vitni í Halla Melló í auglýsingunni. Að sama skapi var engin heppni með krökkunum sem hefðu með henni getað verið í stöðunni 3 – 3. En svo fór nú ekki 🙂

    Ég ætla að gera eftirfarandi orð Andra að mínum en hann setti þetta inná leikþráðinn;
    “Liverpool hafa spilað stórskemmtilegan fótbolta og eiga skilið að vera undir svona 3-2. Það er alveg ljóst að nokkrir leikmenn eiga alveg erindi að spila í bestu efstu deildum Evrópu ef þeir halda áfram að þroskast. Að vonast til þess að lið með fjölmarga leikmenn 16-18 ára geti spilað jafnfætis fullorðnum leikmönnum liðs í ensku efstu deildinni væri kjánaskapur. Ólíklegt að bestu 11 leikmenn heims í hverri stöðu á þessum aldri myndu sigra lið um miðja ensku deildina”.

    Krakkarnir eiga ekkert nema gott skilið eftir þennan leik. Þeir sem ekki sjá það og skilja eiga bara bágt og þurfa meðferð við því.

    Það er nú þannig

    YNWA

    12
  4. Já já þarf ekkert að ræða þetta sá ekki leikinn og hef því ekkert að segja annað en tökum þetta World cup og rústum því leikur á morgun fer 5 – 0 líka og þá er þetta tap úr huganum nei var ekkert að hugsa um það.

    YNWA.

    1
  5. Ég sá þetta svolítið í bútum en fannst mjög athyglisvert að það var auðþekkjanlegur Liverpool-stíll á spilamennskunni. Pressuðu virkilega vel á köflum og náðu hröðu og fínu samspili. Ekkert að marka þó varnarlínan hafi ekki verið jafn góð og fremri hlutinn, það liggur í hlutarins eðli að góður varnarmaður þarf fleiri ár til að ná fullum líkamlegum þroska. Meira að segja van Dijk var lélegur sem unglingur, segir hann sjálfur. Verður spennandi að sjá hvort bestu mennirnir, Hoever og Elliott, koma eitthvað við sögu í aðalliðinu á þessari leiktíð. Þeir lofa amk. góðu.

    1
    • Sammála, sá það strax í byrjun þegar t.d. fjórir menn voru komnir í kringum varnarmann AV.

      Góð reynsla fyrir unga liðið okkar en mjög ólíklegt að margir af þessum gaurum munu ná alla leið hjá einu allra besta liði veraldar. Er hrikalega spenntur fyrir Elliot, hann lofar mjög góðu.

      Er nokkuð langt í næsta leik?

      2
  6. Að sjálfsögðu bjóst ég aldrei við sigri í þessum leik, en þessir krakkar voru almennt ekki að spila vel, nema Elliot sem stóð upp úr og á vonandi framtíð í liðinu.

    2
  7. Þessi leikur tikkar vel í reynslubankann hjá þessum ungu leikmönnum.
    Elliott er klárlega framtíðar meistari, þvílíkur leikmaður og aðeins 16 ára 🙂

    1
  8. Ég sá meiripartinn af leiknum og fannst strákarnir spila nokkuð vel, sérstaklega á upphafsmínútunum og voru óheppnir að ná ekki inn marki. Voru óhræddir og spiluðu oft skemmtilega á milli sín í þröngum stöðum. Annað mark Villa var náttúrulega hrein óheppni og eftir það kom í ljós reynsluleysið þ.e. ákefðin bar menn ofurliði og þeir fóru út úr stöðu aftur og aftur svo reyndir og líkamlega sterkari Villa menn refsuðu grimmilega. En það eru þó nokkuð margir sem lofa góðu í þessu liði þó mest hafi borið á Elliot og Hoever. Síðasta markið sem þeir fengu á sig var svona týpískt mark þegar allir liggja í sókn á loka mínútunum og reyna að skora og hefði getað komið fyrir hvaða lið sem er.

  9. Eins og margir hafa bent á, þá átti liðið alls ekki skilið að tapa 5-0, bæði ef við skoðum tölfræði leiksins, og manni fannst pjakkarnir líka bara standa sig ótrúlega vel. Vissulega má segja að Villa hafi sett svolítið í hlutlausan í seinni hálfleik, þeir hefðu sjálfsagt getað keyrt yfir okkar menn ef þeir hefðu sett á fullt gas, en það var bæði óþarfi og þeir hefðu jafnvel litið verr út fyrir vikið. Enda erum við að tala um Liverpool var að slá gamla metið yfir lægsta meðalaldur byrjunarliðs, og það ekki bara um einhverja daga eða vikur, heldur um hérumbil þrjú ár!

    Höfum líka í huga að margt kom mjög vel út, t.d. var hlutfall heppnaðra sendinga í kringum 86%, en aðalliðið hefur verið með þetta hlutfall í kringum 83% síðustu vikur og mánuði.

    Sumir hafa áhyggjur af því að þetta hafi ekki verið jákvæð lífsreynsla fyrir þessa pjakka, og auðvitað er aldrei gaman að tapa, hvað þá 5-0. En þeir átta sig nú alveg á því að þarna voru unglingar að spila við fullþroskaða karlmenn. Þeir geta líka núna allir sagt: ég hef spilað fyrir aðallið Liverpool. Það eru ekkert margir leikmenn sem geta sagt það yfirhöfuð. Þeir hafa líka fengið hrós frá mönnum eins og Critchley, Klopp, Terry og mörgum fleirum, og ég vona að þeir taki það frekar með sér frekar en að einblína á markatöluna.

    Nú veit ég ekki hversu mikla áherslu Klopp ætlar að setja á bikarkeppnina, og þar með á Everton leikinn þann 5. janúar, en ég væri a.m.k. alveg til í að sjá eitthvað af þessum pjökkum þar á bekk. Augljóslega eru margir þeirra langt frá því að vera fullþroskaðir knattspyrnumenn, sbr. Longstaff og Hill, og það verður bara gaman að sjá hvernig þeim muni ganga með U23 á næstunni.

    1

Liðið gegn Villa

Liverpool – C.F. Monterrey (upphitun)