Kvennaliðið mætir Chelsea

Síðasti leikur ársins hjá kvennaliðinu verður núna kl. 14 þegar stelpurnar okkar mæta Chelsea. Þessi leikur er ekkert ósvipaður leik karlaliðsins í gær, þ.e. hér mætast liðin á sitt hvorum endanum á töflunni. Chelsea eru að vísu í 3. sæti, en eiga tvo leiki til góða á lið Arsenal og City, en þau eru einmitt að spila í þessum töluðu orðum, Arsenal gegn Everton og City gegn Brighton.

Það var pínku tæpt að leikurinn færi fram vegna vallaraðstæðna, og búið að fresta tveim öðrum leikjum nú þegar, en eftir skoðun var ákveðið að völlurinn slyppi og því verður spilað samkvæmt dagskrá.

Vicky Jepson stillir sínu liði upp svona:

Kitching

Jane – Bradley-Auckland – Fahey – Robe

Bailey – Roberts

Lawley – Linnett – Charles
Babajide

Bekkur: Rodgers, Kearns, Hodson, Murray, Sweetman-Kirk

Babajide fær semsagt tækifærið í framlínunni eftir ágætis frammistöðu í vikunni í bikarnum gegn Durham. Aftur er Preuss hvergi sjáanleg, er ekki viss um hver myndi taka markið að sér ef Kitching meiðist.

Leikurinn verður sýndur á The FA Player eins og venjulega, hefst kl. 14 eins og áður sagði, og við uppfærum færsluna með úrslitum síðar í dag.


Leik lokið með jafntefli, 1-1. Liverpool komst yfir snemma leiks með marki frá Niamh Charles, en 10 mínútum síðar jafnaði Bethany England. Bethany þessi er okkur að góðu kunn enda lék hún með Liverpool fyrir tveim árum, þá á láni frá Chelsea. Fleiri urðu mörkin svo ekki, bæði lið fengu færi en alls ekki hægt að segja að okkar konur hafi verið eitthvað síðri aðilinn þó svo að Chelsea hafi e.t.v. verið meira með boltann.

Í tilefni þess að Liverpool stelpurnar eru ekki lengur í neðsta sæti birtum við hér stöðuna í deildinni. Vissulega markast hún aðeins af því að það á eftir að spila einhverja leiki, en gefur samt nokkuð góða mynd af stöðunni. Við sjáum líka að þrátt fyrir að stelpurnar okkar hafi tapað full mörgum leikjum, þá hafa þeir flestir tapast 1-0, á meðan önnur lið í neðri hlutanum hafa verið að tapa mun stærra fyrir toppliðunum.

Næsti leikur verður svo þann 5. janúar þegar Liverpool heimsækir Brighton, og að sjálfsögðu óskum við eftir því að fyrsti sigurinn í deildinni líti dagsins ljós þá.

Liverpool – Watford 2-0

New Kids on the Block mæta Villa í bikarnum