Upphitun: Liverpool vs. Watford á Anfield

The Liverbird vs. The Hornets

Það verða tveir andstæðir pólar í úrvalsdeildinni sem mætast á Anfield í hádegisfréttatíma Gufunnar á laugardaginn þegar að toppliðið mætir botnliðinu. Liverpool eru reyndar það norðarlega í deildinni að við sitjum í setustofunni hjá jólasveininum á Norðurpólnum en Watford liggja það sunnarlega að þeir kúra í kuldanum með mörgæsum.

En engir leikir eru unnir fyrirfram á pappírnum og því þarf að gera uppkast að uppbyggilegri og upplýsandi upphitun án uppgerðar og uppistands. Upp, upp mín sál & up, up the REDS!

Mótherjinn

Watford hefur verið rjúkandi rúst frá byrjun tímabilsins og fyrir lið sem komst alla leið í úrslitaleik FA Cup síðasta vor og endaði í 11.sæti í deildinni þá er fallið sorglega hátt. Tónninn fyrir hrunið var hugsanlega gefinn með 6-0 niðurlægingunni í bikarúrslitunum en mikið rótleysi hefur einkennt stjórastöðuna og hafa hinir gulsvörtu frá Hertford-skýri nú þegar rekið tvo slíka á tímabilinu.

Javi Gracia þurfti að taka poka sinn í september og í byrjun desember tók Quique Sanchez Flores hatt sinn og staf. Eftir margar Miðjarðarhafs-mannaráðningar í röð þá hafa Watfordingar vent kvæði sínu í kross Sankti Georgs og ráðið Englendinginn Nigel Pearson. Sú ráðning kom á óvart enda Pearson eingöngu einu sinni stýrt liði í úrvalsdeildinni en það var Leicester City og var hann rekinn þaðan í kjölfar skandals árið 2015. Við starfi hans hjá Leicester tók Claudio Ranieri og restin af því ævintýri er sagnfræði.

Hversu mikil áhrif stjóraskiptin mun hafa er alls óljóst enda verður leikurinn á Anfield sá fyrsti undir stjórn Pearson en leikmenn Watford sýndu takmarkað lífsmark við síðustu skipti og vonum við að það gildi hér líka. Í það minnsta hefur Nigel ekki tekist að stýra liði til sigurs gegn LFC í þeim þremur tækifærum sem hann hefur fengið til þess með tvö töp og eitt jafntefli í þeirri tölfræði.

Ekki er ólíklegt að nálgun gestanna verði “breskari” með meiri áherslu á mikla baráttu og beinskeytt boltaspil en Liverpool hafa sýnt það að þeir geta unnið alla leikstíla þannig að háir boltar og harðar tæklingar eru ekki að fara að hræða okkur.

Fyrsta uppstilling Pearson gæti verið eitthvað á neðangreinda leið en Holebas, Welbeck, Cleverley og Prödl eru meiddir með Dawson og Janmaat tæpa.

Líklegt byrjunarlið Watford í leikskipulaginu 4-2-3-1

Liverpool

Rauði herinn á svo lygilega mikilli velgengni að fagna þessi misserin að það er orðinn mikill partýleikur á Twitter og víðar að bridda upp á alls konar tölfræði sem staðfestir yfirburði okkar yndislega liðs. Einfaldasta upptalningin í þeirri stemmningu er að við höfum ekki tapað deildarleik í 33 leiki í röð og höfum ekki tapað deildarleik á Anfield síðan í apríl 2017. En í raun skiptir engu hvort við mælum eða metum þetta Liverpool-lið með tölfræði eða augunum að þá er þetta magnaður mannskapur sem er að ná einstökum árangri og vinnur vonandi sem mest af titlum og bikurum á sínum háfleyga hápunkti.

Eftir flottan sigur í Meistaradeildinni sem tryggði efsta sæti riðilsins þá er aftur komið að aðventuróteringu líkt og verið hefur í síðustu leikjum mánaðarins. Ég spái því að Jordan Henderson verði hvíldur eftir að hafa spilað 90 mínútur í 4 af síðustu 5 leikjum og eigum við ekki að giska á að Lallana komi inn í staðinn fyrir samlanda sinn. Þá þætti mér ekki ólíklegt að Shaqiri og Origi myndu hefja leik líkt og í grannaslagnum gegn Everton og vonandi með sama stórfína árangri.

Klopp er líklegur til að stilla sinni rauðu herdeild upp á eftirfarandi hátt:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

Blaðamannafundir

Klopp mætti ferskur á blaðamannafund dagsins og fyrsta spurning snéri að sjálfsögðu að stórfrétt dagsins um undirritun á framlengingu samnings hans við Liverpool.

Nigel Pearson hafði þetta að segja á blaðamannafundinum fyrir sinn fyrsta leik:

Spakra manna spádómur

Ef panta ætti þægilegan leik eftir mikilvægan meistaradeildarleik þá væri það að fá botnliðið á heimavelli. Markatalan í síðustu þremur viðureignum liðanna á Anfield er 16-1 heimamönnum í hag þannig að sú tölfræði er uppörvandi. Ekkert er þó unnið fyrirfram frekar en fyrri daginn en ég treysti okkar mönnum fullkomlega til að halda einbeitingunni þrátt fyrir augljósan getumun á pappírnum.

Mín spaksmannlega spá er því 4-0 heimasigur með tveimur mörkum frá Origi ásamt sitt hvoru markinu hjá Shaqiri og Oxlade-Chamberlain.

YNWA

Leikurinn hefst klukkan 12:30 á morgun og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.

11 Comments

 1. Nigel Pearson á mikla virðingu skilið. Sigurganga Leicester hófst undir hans stjórn í lok tímabilsins sem hann var rekinn og ef ég man rétt þá var eina raunverulega viðbótin sem Raneri gerði var að fá Ngolo Kante frá franska liðinu Caen sem reyndar er enginn smáviðbót, enda Kante einn af allra bestu leikmönnum ensku deildarinnar. Stærstur hluti Englandsmeistaraliðs Leicester spilaði undir stjórn Person og Raneri hefði aldrei náð að gera lið að Englandsmeisturum á einu ári nema að Person hefði ekki verið að gera eitthvað af viti í sínu starfi sínu sem framkvæmdarstjóri.

  Ég skil því ráðningu Watford mjög vel en tíminn verður að leiða í ljós hvernig honum vegnar svo í starfi

  3
 2. Og þá hefur James Milner framlengt við LFC til ársins 2022 sem þýðir væntanlega að hann leggur skóna á hilluna sem leikmaður Liverpool.

  11
 3. Eintómir jólapakkar í dag!

  Klopp framlengir,
  Mr. Professional Milner framlengir,
  og Minamino í skóinn!

  Nú mega jólin koma fyrir mér 🙂

  16
  • Jólin eru fyrir löngu komin hjá mér, þau hófust 1.júní!

   8
  • Þú meinar!

   Kominn 2 mínútur inn í myndbandið, hann virðist geta leyst alla 3 í framlínunni af og einhverja í miðjunni líka.

   Hvar mun hann festa sig í sessi?

   1
 4. OK förum úr pakkaflóðinu í alvöruna, Liverpool-Watford. Hver eru áhrif leikmanna á yfirlýsingu Klopp. Mín skoðun er sú að þeir séu í alvöru himinlifandi. Watford á undir engum kringumstæðum að vera nein hindrunm, en ég er viss um að okkar strákar hafa ekkert vanmat á Watford enda hörku lið á góðum degi.
  Spái 4-0 sagt og skrifað.

  YNWA

  2
 5. Engann veginn sammála þessu byrjunarliði. Heilaga þrenningin verður inná og sama miðja og síðast, kannski Chambo í stað Gini. Tel að Keita fái að halda áfram að starta leikjum.

  Annars frábærar fréttir með Klopp. Þetta sem hann sagði varðandi mögulega efa leikmanna að joina lfc ef hann yrði bara til 2022 er crucial. Ég hef sagt síðan í sumar að Mbappe komi 2020 og þessar fréttir í dag eru ekkert að fara minnka líkurnar á að hann komi.

  3
 6. Nú má ekkert klikka í þessum leik. Menn gætu ósjálfrátt slakað aðeins á og verið komnir með hugann við sólina og keppnina í næstu viku. Vonandi fáum við að sjá Ox, Origi, Shagiri og Milner í byrjunarliðinu og Comez sem kemur sjálfkrafa inn fyrir Lovren. Á venjulegum degi gæti okkar lið unnið 4-0 en ég sætti mig alveg við 1-0.
  Gleðifréttir vikunnar eru Klopp og Milner og þeirra nýju samningar. Alveg viss að það er ekki tilviljun að þeir framlengja á sama tíma Milner er einn af leiðtogum liðsins og í uppáhaldi hjá Klopp. Bjóst við einu ári í viðbót hjá Milner en ekki tveimur því hann verður orðinn 36 ára við lok samnings 2022 og því ekki líklegt að hann fari annað. Þó aldrei að vita.

  3
 7. Hæ Hó, er hér í móðurskipinu og verð á vellinum á morgun. má aldei vera vanmat í gangi og við rúllum þokkalega yfir þetta á morgun. Ég er allavega hér ekki til annars. Stuð og stemming í bítlastræti kvöld og takka fyrir mig.

  4
 8. Sælir félagar

  Takk fyrir upphitunina Magnús og til hamingju Púllarar með fréttirnar í gær. Það er auðvitað gleðiefni að báðir þessir snillingar skuli ætla að vera lengi enn og svo fréttin um Mini sem vonandi er rétt. það er verið að gera grín að Púllurum fyrir viðbrögðum við Mini fréttinni og er það svo sem í lagi en auðvitað er undirrótin öfund.

  Hvað leikinn á eftir varðar þá hefi ég ekki áhyggjur af honum sem slíkum en svolitlar af stöðu miðvarðanna okkar en það er mál sem Klopp og félagar leysa. Ég er sammála því sem SSteinn sagði í podkastinu ef mig misminnir ekki að við því vandamáli verði varla brugðist í janúarglugganum. Það verður leyst innan félagsins enda skammtímavandamál. Ég veit og trúi að okkar menn klári þennan leik með sóma og 3 – 0 er líkleg niðurstaða en gott væri að fá 6 – 0 uppá markatöluna.

  Það er nú þannig

  YNWA

  1

KLOPP FRAMLENGIR!!!!!!

Byrjunarliðið gegn Watford