VAR þetta góð hugmynd?

Árið er 2005, staðurinn Anfield. Í dynjandi hávaða nær Luis Garcia að pota boltanum í markið eftir nokkurra sekúndna leik, þó Gallas nái að hreinsa hann út áður en hann syngur í netinu og hávaðinn margfaldast. 15 árum seinna er Mourinho ennþá fúll yfir þessu, Garcia klæðir sig upp sem draugur á hverri einustu hrekkjavöku og myndböndin eru ekki afgerandi.

2010, HM í Suður Afríka. England – Þýskaland, staðan er 2-1 fyrir þjóðverjum. Frank Lampard lætur vaða innan í D-boganum og boltinn smellur í slánni, niður í jörðina og út úr markinu. Allir sjá að boltinn fór inn fyrir nema tveir menn, dómarinn og aðstoðardómarinn. Þjóðverjar taka öll völd á vellinum í síðari hálfleik og England tapar. Fjölmiðlar, stuðningsmenn og leikmenn spyrja sig: Hvað ef ?

2019, janúar, Etihad völlurinn. Í stöðunni 0-0 er Mané millímetrum frá að skora, en tæknin ályktar að John Stones hafi náð að hreinsa boltann af línunni. City vinna leikinn 2-1. Örfáir eru með samsæriskenningar um að marklínutækni sé ekki svona nákvæm en þeir þagna fljótt eftir leikinn. Enda eru flestir sem hafa hug á að kvarta yfir leiknum fúlir yfir að dómari frá Manchester sendi ekki fyrirliða Menchester liðsins af velli fyrir tæklingu á Salah. Nóg er rifist um það, en til lengri tíma véfengir engin ekki-markið

Það er auðvelt að gleyma hversu algeng rifrildi um hvort boltinn hafi farið yfir línuna voru fyrir nokkrum árum. Það er líka auðvelt að gleyma hversu margir voru mótfallnir marklínutækni á sínum tíma. Stærstu rökin sem ég man eftir voru að hluti af rómantík fótboltans væri að hann væri eins spilaður á Fáskúsfirði og Old Trafford. Sumir gengu svo langt að segja að rifrilidin eftir leiki væru hluti af gleðinni við sportið. Þeir menn sem héldu því fram, hljóta að vera að njóta sín í botn á tímum VAR.

Ég tek þetta dæmi til að sýna að aukin tækni í íþróttum er ekki í eðli sínu slæm. Marklínutækni er líklega sú nýjung sem hefur heppnast hvað best: Nánast ósýnileg, vinnur hratt og hefur fækkað hávaðarifrildum innan vallar sem utan. Við sem vorum hvað spenntust fyrir VAR vorum að vonast eftir að nýja kerfið yrði svipað.

Nú þegar tólf umferðir eru liðnar af ensku úrvalsdeildinni getum við dregið andann djúpt, hugsað aðeins og spurt okkur hvort þessi VAR sé af hinu góða. Ef við komust að því að svo sé ekki, er það framkvæmdin, tæknin sjálf eða eitthvað annað sem er að klikka?

Myndaniðurstaða fyrir VAR

Hver er tilgangur VAR?

Hvort sem það er í fótbolta, handbolta eða öðrum íþróttum þá dáist ég endalaust að mönnum og konum sem nenna að vera dómarar. Þetta er þakkarlaust starf, ef þú vinnur það vel tekur engin eftir þér eða kannski verða bæði lið jafn brjáluð út í þig. Jafnvel í yngri flokkum þarf stundum að hlusta á kex bilaða foreldra öskra á þig. En þetta er bráðnauðsynlegt starf og ekki gera menn þetta fyrir peningana.

Við viljum að leikurinn sé dæmdur hratt og helst fullkomlega. Það er auðvitað ekki mögulegt. Dómari tekur að meðal 245 ákvarðanir í hverjum leik. Engin hefur nokkurn tímann tekið svo margar ákvarðanir og allar eru réttar, en dómarasamtök Englands halda því fram að 5 ákvarðanir séu rangar í hverjum leik. Stór hluti fótboltadómara er auðvitað að ein röng ákvörðun getur hæglega ráðið úrslitum leiks.*

Hugmyndin á bakvið VAR var auðvitað að auðvelda starf dómara. Að fækka röngum dómum, láta leikinn fljóta hraðar og auka samræmi milli ákvarðanna. Það eru tugur myndavéla á stórleikjum sem taka upp hverja sekúndu, hvern svitadropa og hvern einasta söng á leiknum. Ætti ekki að vera hægt að nýta þetta til þess að dæma leikinn betur?

*Þetta er tölfræðin sem dómarasamtök Englands gefur upp.

Hvernig hefur þetta gengið utan Englands og utan fótboltans?

Sambærileg kerfi við VAR hafa verið í notkun utan fótboltans um nokkurt skeið. Rugby byrjaði að prufa sig áfram með sitt kerfi 2001, NHL 1991, NBA 2002. Hvergi gekk þessi nýja tækni snurðulaust fyrir sig, en með fikti og breytingum virðast áhorfendur að mestu hafa sætt sig við þessa nýjung, hún sé orðin hluti af leiknum.

Alls staðar hefur verið það mynstur að við já/nei ákvarðanir (fór pökkurinn inn/var hann búin að skjóta þegar bjallan gall) hefur myndbandsdómgæsla bætt leikinn, menn eru ekki jafn sammála um dóma sem eru túlkunaratriði (var þetta brot/verðskuldar það spjald).

Fyrsta fótboltamótið sem nýtti sér VAR á öllu mótinu var Heimsmeistaramótið 2018. Mótið setti met í fjölda vítaspyrna á einu móti, ekki varð úr að leikir lengdust gífurlega og flestir töldu VAR heppnast vel, svona miðað við fyrsta mót. Helsta gagnrýnin var að það væri verið að refsa og mörgu, svo og að það væri óþarfi fyrir dómarann að fara sjálfur að myndbandsskjánum í sífellu.

Myndaniðurstaða fyrir VAR

Hvað er að klikka?

Ég skora á þig að finna einn fótboltaáhugamann sem er 100% sáttur við framkvæmd VAR í Meistaradeildinni eða ensku deildinni. Á vellinum er það helst að stuðningsmenn hafa ekki hugmynd um hvað er í gangi, heima í stofu spyr maður sig af hverju sumt fer til VAR og sumt ekki. Svo ekki sé talað um að þrátt fyrir VAR virðast dómarar ná að klúðra augljósum ákvörðunum. En eru þær svo augljósar?

Það var tekið meðvituð ákvörðun fyrir tímabilið að VAR myndi bara leiðrétta „augljósar villur“ dómarans. Hins vegar var lítið útskýrt hvað væri augljós villa. Ætti það ekki að vera augljóst? Nei, því miður ekki. VAR hefur klárlega staðið sig best í ákvörðunum sem eru ekki matsatriði. Annað hvort er maðurinn rangstæður eða ekki (nema hann heiti Firmino). Ákvarðanir sem eru matsatriði hafa hins vegar verið út um allt. Þetta á sérstaklega við um handadóma.

Myndaniðurstaða fyrir VAR offside
Hvort þetta sé of nákvæmt er svo annað mál

Það hjálpar ekki að reglunum um hendi var breytt fyrir tímabilið. Hugmyndin var að nýju reglurnar myndu skýra hvað væri og væri ekki hendi, reynslan hefur verið þveröfug. Nú er alltaf hendi ef það leiðir til marks, en fyrir utan þá er það hendi ef líkaminn er gerður „óeðlilega stærri.“ Já og ekki hendi ef boltinn fer af öðrum leikamanni eða skoppar af eigin líkama. Ekki hendi ef leikmaður er að bera fyrir sig hendur meðan hann dettur, nema líkaminn sé gerðu stærri með því að bera fyrir sig hendurnar. Kýrskýrt að hætti FIFA.

Eftir þriggja mánaða mót var búið að leiðrétta matsdóm með VAR einu sinni. Eru fleiri réttir rangstöðu dómar og einn leiðréttur matsdómur nóg til að leiðrétta ókostina við kerfið?

Hvar liggur vandinn? Eru áhorfendur og þjálfarar hluti af honum?

„Við viljum ekki að VAR mæti og dæmi leikinn upp á nýtt.“ Sagði Mike Riley, yfirdómari ensku Úrvalsdeildarinnar, fyrir tímabilið. Ég held að þarna kjarnist vandamálið við framkvæmd VAR: Að dómarar og aðrir lýti á VAR sem persónu sem er komin til að taka yfir, ekki verkfæri til að nýta sér.

Maður sér þetta víða, fólk talar um VAR sem manneskju, ægilegt yfirvald sem er að skemma leikinn í stað manns að horfa á sjónvarpsskjá. Gæti verið að dómarar séu svo staðráðnir að vera ekki leiðréttir af einhverju tölvukerfi að þeir þora ekki að nýta sér það? Að þeir skammist sín svo mikið fyrir að gera mistök að þeir þori ekki að viðurkenna þau?

Margir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni þéna meira á viku en dómarar á ári. Með hverju ári aukast kröfurnar á þá. Leikurinn verður sífellt hraðari, leikmenn taka fleiri spretti í hverjum leik og eftir því sem peningarnir fara vaxandi verður pressan meiri. Á hverju ári fjölgar fjölmiðlum sem fjalla um leikinn og það eru alltaf þjálfarar, leikmenn og spekúlantar tilbúnir að drulla yfir frammistöðuna. Það er kannski ekki furða að maður upplifi dómarastéttina í vörn gagnvart gagnrýni og breytingum.

Myndaniðurstaða fyrir fourth official yelled at football
Ég er ekki sammála svona hegðun, en það er samt hægt að hlægja af svona myndum.

Hefurðu einhvern tímann unnið vinnu, þar sem þú þarft að standa milli tveggja öskrandi manna og hvert sinn sem þú tekur ákvörðun byrjar annar þeirra að hrauna yfir þig? Hvað þá verið í starfi þar sem í hvert sinn sem þú vinnu vinnuna þína koma menn hlaupandi til að útskýra hvað þú átt að gera og hvað gerðist? Þannig er að vera annars vegar fjórði dómari og hins vegar aðaldómari í efstu deildinni. Þetta byrjar í yngri flokkunum, í fótbolta er einfaldlega ekki borin mikil virðing fyrir dómurum. Er það furða að þeir séu meðvitað eða ómeðvitað hræddir við að gera mistök? Að dómara samtökin séu í vörn gagnvart hlutum eins og VAR?

(Ef einhver vill draga í efa þessa lýsingu á starfsumhverfi dómar: Ég sendi hana á einstakling sem hefur dæmt slatta á Íslandi og spurði hvort hún væri nákvæm. Svar hans var eftirfarandi: já, nema vantar svívirðingar, hótanir um líkamsmeiðaingar/að konunni/systur manns verði nauðgað af áhorfendum, svívirtur eftir leik, hótað líkamsmeiðingum þegar þú mætir leikmönnum á B5.)

Ég er ekki að segja að dómarar eigi að vera hafnir yfir gagnrýni. En það þarf að fara að skoða hvernig sú gagnrýni fer fram. Það er fáránlegt að í hvert sinn sem dómari blási komi hálft lið og rífist við hann. Það er absúrd að fjölmiðlar reyni sitt allra besta til að gera fyrirsögn úr öllum mistökum. Það er stórfurðulegt að fjórði þurfi að sitja undir reiðipistlum frá þjálfurum heilu og hálfu leikina (Klopp á svo sannarlega skilið gagnrýni fyrir þetta). Asnalegast af öllu er að þegar við sjáum okkar eigin lið hegða sér svona, þá erum við ánægð með það, með að leikmenn „séu að sýna ástríðu og berjast fyrir sitt lið.“

Myndaniðurstaða fyrir klopp fourth official yelled at football
Og svona

Þessi menning er auðvitað engum einum að kenna. Sem þýðir því miður að enginn einn getur lagað þetta. Ef dómgæsla á að batna þarf menningin í kringum fótboltann að batna. Dómurum verður að hætta að líða eins og þeir séu óvinir leikmanna og þjálfara, hvað þá stuðningsmanna. Þetta þarf að koma frá báðum áttum. Bæði þurfa félög sem sinna grasrótastarfi að leggja meiri metnað í þjálfun og utanumhald við dómara og svo þurfa þjálfarar og leikmenn á hæsta stigi að vera fyrirmyndir.

Hvað kemur þetta VAR við og hvað er næst.

Við erum flest sammála um VAR er ekki að virka eins og það hefur verið framkvæmt hingað til. Sú litla bót sem hefur orðið á dómgæslu er ekki nóg til að réttlæta tafirnar á leiknum, ósamræmið milli leikja og óvissuna fyrir áhorfendur á vellinum. En VAR er bara verkfæri. Ég held að hin svakalega reiði sem við erum búin að fylgjast með síðustu vikur sé að miklu leiti reiði yfir dómgæslu almennt, VAR er bara heppilegt skotmark.

Með auknum gæðum og hraða í fótbolta þurfa dómarar að bæta sig. Það voru mistök hjá dómurum að berjast gegn innleiðingu kerfisins, þeir hefðu átt að vera þeir sem mótuðu notkun kerfisins. Það voru líka mistök að prufukeyra kerfið ekki meira áður en það var notað á stærstu sviðunum. Við erum líklega að fylgjast með byrjendamistökum núna. En VAR er komið til að vera, sem betur fer. Ég vona bara að reynslan þessa mánuðina skemmi ekki viðhorfið til tækninnar varanlega. Ég myndi óska þess að VAR muni hægt og rólega leiða til þess að með betri dómgæslu muni skapast jákvæður hringur, þar sem viðhorf til dómara batnar hægt og rólega og það hjálpi til með að bæta dómgæsluna. En það er líklega óskhyggja.

13 Comments

 1. VAR var bætt við Meistaradeildina á síðasta tímabili og Liverpool vann.
  VAR var bætt við ensku deildina á þessu tímabili og Liverpool er á toppnum með 8 og samt eiginlega 9 stiga forystu eftir aðeins 12 umferðir.

  VAR er ljómandi – en bara þegar það kemur sér vel fyrir Liverpool.

  19
 2. Það er samt alveg mikilvægt að vita að starf fótboltaþjálfara er undir. Mistök frá dómara geta látið þig missa vinnuna. Er bara að benda á þann punkt. Annars mjög mikilvægt að tækla þessa stæla fólks gegn dómurum.
  En ég er mjög hrifinn af VAR. Finnst þetta samt taka rosalega mikinn tíma. Fullt af drasli sem þarf að skoða en þarf að slípa þetta betur til. Skella inn einhverri hagnaðarreglu eða eitthvað til að tryggja að áhorfandinn sé sneggri að fá það staðfest að þetta er mark. Ég vil ekki að Klopp sleppi því að fagna, nú eða ég þegar Origi skoraði og ég í Kop stúkunni.

  Ég til dæmis setti mér eina reglu fyrir nokkrum árum að tuða aldrei yfir að innkastið var dæmt á hitt liðið ranglega. Af því ég er ekki Tony Pulis þetta skiptir ekki lykilmáli fyrir mitt lið.

  Marklínutæknin var frábær viðbót. Hún bara virkar.

  3
 3. Djöfullinn sjálfur ég er farinn að skoða hvaða dómari dæmir næsta leik hjá okkur og hverjir eru í VAR herberginu !! Þetta er algjörlega nauðsynlegt til að maður viti hvaða töflur maður á að taka fyrir leik.
  CRY vs LIV
  Referee: Kevin Friend. Assistants: Matthew Wilkes, Adrian Holmes. Fourth official: Oliver Langford. VAR: Chris Kavanagh. Assistant VAR: Sian Massey-Ellis.

  Og það verður ekki síður spennandi að sjá leika MCI vs CHE.
  Referee: Martin Atkinson. Assistants: Lee Betts, Constantine Hatzidakis. Fourth official: Jonathan Moss. VAR: Andre Marriner. Assistant VAR: Andy Halliday.

  LFC sleppur við Atkinson allavega í þessari umferð.

  YNWA

  2
 4. VAR á eftir að verða frábært fyri fótbolta þegar upp er staðið en á meðan það er verið að koma þessu inn í leikinn og þróa þetta þá virkar þetta eins og klúður.

  Þeir hefðu mátt einfaldlega einfalda þetta mikið og bæta svo við.
  T.d byrja bara með VAR fyrir rangstöðu og rauðspjöld
  Svo þegar þessir þættir eru orðnir góðir er hægt að bæta við vítaspyrnum og þá haft skýrari reglur.
  Svo væri hægt að bæta inni aðdragandi marka og hvort að brot ætti sér stað.

  Þeir hentu þessu bara öllu í okkur og voru ekki alveg tilbúnir með framkvæmdina og því hefur þetta verið mjög ruglingslegt t.d til að fá að breytta vítaspyrnudómi af eða á þarf nánast að vera 100% sönnun í leik sem alltaf er hægt að túlka aðeins í báðar áttir.

  Þetta er s.s komið til að vera og er ekki alveg að gera sig núna en þetta á eflaust eftir að lagast og við fáum fleiri réttar ákvarðanir í leikinn en missum þá aðeins af þessum mannlegu tengslum sem eru dómaramisstök sem gátu bæði gefið og tekið og sumir sérfræðingar tala um að þetta jafnast alltaf út sem við vitum að er algjört kjaftæði.

  3
 5. Tottenham búnir að reka Pochettino….held þeir ættu að fara með þessa ákvörðun í Var….

  2
  • Hahahhaha! Þetta var bara tímaspursmál. Gott að hann fer ekki til manhjúr. Væri ekki fínt að fá hann sem dýfingarþjálfara hjá okkur? Ef við myndum fá fleiri vítaspyrnur þá gætum við klárað deildina í febrúar.

   1
 6. Pochettino farin, kemur fiflið Mourinho eina ferðina enn inni deildina eða mögulega Benitez eða þriðji kosturinn Rodgers. Kemur mjög a ovart þessi brottrekstur þrátt fyrir lelegt gengi i vetur. Þeir eru eflaust með eftirmanninn kláran.

  1
  • Þá brenna þeir endanlega allar brýr að baki sér ef þeir ráða portúgalska fúleggið. Bare vær så god.

   2
 7. Mér finnst þetta virkilega lélegt hjá Tottenham.
  Já það hefur ekki gengið vel hjá þeim í vetur en þetta er smá niðursveifla eftir að hafa farið með þetta lið hátt upp. Það hlýtur að vera að Pocettino hafi gefið það tilkynna að honum langaði að fara því að Tottenham er ekki lið sem er í þeiri stöðu að geta látið svona gæðastjóra frá sér því að það eru ekki margir sem toppa þennan stjóra.

  Móri gæti komið aftur sem væri mjög athyglisvert en hann er þekktur fyrir sterkan varnarleik og er hann líklegastur til að koma en ekki viss um að hann sé rétta svarið en hann er vanur að vera með eigendur sem eiga mjög djúpa vasa en ekki viss um að Tottenham er tilbúið að eyða eins og Real eða Man utd.
  Rodgers er líka góður kostur en efast um að hann vilji fara frá sínu liði núna sem lítur mjög vel út.

  Það kæmi manni ekki á óvart að kappi eins og Harry Kane farið að horfa í kringum sig .

  1
 8. Ég var skíthræddur við að VAR tæki af okkur þá ánægju að rífast um allt og ekkert og leikurinn yrði sótthreinsaður eftir VAR en ef eitthvað er þá hefur bara gefist fleiri tækifæri til þessa að þenja sig um eitt og annað.

  1
 9. Mjög góður pistill. Sammála flestu og er á VAR vagninum. Fyrir mér voru mistökin þau (í kerfi sem á að reyna óvissuþáttum og gera matsatriði augljósari) að setja inn regluna um augljós mistök sem skilyrði þess að VAR overridei ranga ákvörðun dómara. Þar er einfaldlega búið að draga úr virkni kerfisins og rangar ákvarðar dómara fái að standa. Ekki er kannað af þessum sama dómara hvort hann telji sjálfur tilefni til að endurskoða ákvörðun sína frá betra sjónarhorni og því missir kerfið tilgang við þessar aðstæður. Út þarf að fara mannlegi mistakaþátturinn við lykilákvarðanir ef betra view er í VAR, sama hvað dómara finnst hann viss í sinni (röngu) sök.

  Síðara atriði er það sem þú réttilega bendir á með samræmið, einkum varaðandi hendi sem þarf einfaldlega að tryggja að sé eins dæmt milli leikja. Það á ekki að vera geinvísindi að gera/

  Ef þetta væri klárt og VAR herbergið fengi meira vald til að hafa úrslitavald um ákvarðanir myndi þetta ganga betur (og réttara) fyrir sig.

  1

Liverpool – Everton derby á Anfield

Pochettino rekinn frá Spurs!