Liverpool – Everton derby á Anfield

Jú þið lásuð það rétt. Þrátt fyrir landsleikjahlé þá munu lið Liverpool og Everton mætast á Anfield núna kl. 15:00. Glöggir hlustendur hafa löngu áttað sig á að meðlimir karlaliðsins eru fjarri góðu gamni, enda eru það stelpurnar okkar sem ætla að skemmta okkur í staðinn.

Kvennaliðið leikur almennt ekki á Anfield, heldur á Prenton Park, heimavelli Tranmere. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að aðsóknin að leikjum liðsins er einfaldlega ekki nægilega góð til að réttlæta það að setja Anfield vélarnar í gang. Anfield tekur jú 54.074 manns í sæti, en að jafnaði er aðsóknin á leiki kvennaliðsins mæld í hundruðum, ekki þúsundum. En í haust hafa allnokkrir leikir í kvennadeildinni verið leiknir á aðalleikvöngum liðanna, bæði í Manchester, London og víðar. Og nú er komið að stelpunum okkar að fá að láta ljós sitt skína á Anfield.

Sumir hafa haldið því fram að þetta sé í fyrsta skiptið sem kvennaliðið spilar á Anfield. Það er þó ekki alveg rétt, því árið 1997 léku þessi sömu lið á Anfield. Sá leikur fór 2-0 fyrir þeim bláklæddu, en það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan það var. En það er ekki þar með sagt að við getum bókað betri úrslit í dag. Gengi liðsins á þessari leiktíð hefur því miður ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir. Liðið er í neðsta sæti deildarinnar, hefur aðeins skorað eitt mark og það var úr vítaspyrnu. Vissulega hafa margir þessara leikja verið að enda 1-0 eða 2-0 fyrir andstæðingunum, og gleymum líka ekki að nokkurnveginn nákvæmlega sama lið vann Everton í vor. Og betra tækifæri til að snúa við blaðinu gefst varla heldur en að mæta á Anfield og spila gegn Everton.

Liðið sem labbar út á völlinn mun líta svona út:

Preuss

Jane – Bradley-Auckland – Fahey – Robe

Bailey – Roberts

Lawley – Linnett – Charles
Sweetman-Kirk

Bekkur: Kitching, Hodson, Kearns, Murray, Rodgers, Babajide

Ég ætla a.m.k. að giska á að uppleggið sé 4-2-3-1, með Kirsty Linnett í holunni en það er staða sem hún hefur verið að prófa sig áfram með. Skemmst að minnast þess að hún skoraði þrennu í bikarnum fyrr í haust gegn Coventry, og því vonandi að hún sé enn á skotskónum. Síðan væri aldeildis gaman ef Courtney Sweetman-Kirk kæmist aftur í gang í leiknum í dag, hún var jú markahæst leikmanna liðsins á síðustu leiktíð en hefur ekki fundið taktinn í vetur. Hún kom einmitt frá Everton, og því væri afar sætt að sjá hana setja eins og eitt mark við Kop stúkuna.

Það var frá upphafi ákveðið að selja ekki í allar stúkur vallarins, en að fylla fyrirfram ákveðin stæði. Þannig ættu flest svæði í Kenny Dalglish stúkunni að vera í notkun, sem og megnið af The Kop, og að lokum fá Everton aðdáendur að vera í Anfield Road stúkunni. Í gær var svo tilkynnt að það væri uppselt á leikinn í þessar stúkur sem verða í notkun, svo það er vonandi að stemmingin verði góð.

Það er ekki alveg ljóst hvort leikurinn verður sýndur á FA Player síðunni, en hann verður a.m.k. sýndur á Facebook síðu Liverpool Women, sem og frítt á heimasíðu Liverpool.

Við uppfærum svo færsluna síðar í dag með úrslitum leiksins.


Leik lokið með enn einum 0-1 ósigrinum. Í þetta skiptið skoruðu Everton konur með síðustu snertingu fyrri hálfleiks, með skoti sem Preuss hefði varið auðveldlega í svona 99.99% tilfella, en tókst á einhvern óskiljanlegan máta að missa framhjá sér í þetta skiptið. Og þrátt fyrir að okkar konur hafi verið heilt yfir betri aðilinn í leiknum, þá vantaði gæði á síðasta þriðjunginum. Allnokkur færi sem liðið fékk, það besta kom um miðjan fyrri hálfleik þegar Kirsty Linnett átti skalla sem markvörður Everton varði mjög vel. Annars fullt af hálffærum, en ekki nóg til að brjóta ísinn.

Það er því ljóst að liðið er komið í virkileg vandræði. Staðan virðist vera þannig að önnur lið hafa styrkt sig og eru einfaldlega komin upp á næsta þrep, en hæstráðendur hjá Liverpool hafa ætlað að stóla á að ungu stelpurnar gætu tekið við keflinu. Það hefur einfaldlega ekki gengið eftir. Vissulega margar efnilegar í hópnum, en það vantar meiri reynslu og einfaldlega meiri gæði. Hver veit nema það verði sér pistill um stöðuna hjá stelpunum okkar fljótlega, ég veit að Maggarnir báðir hafa sterkar skoðanir þar.

Ein athugasemd

 1. Langar að spurja aftur, og mun spurja aftur…..

  Eftir að hafa komip inn á þessa síðu lengur en flestir aðrir sem sækja hana, http://www.eoe.is/kop. Já áður en hún varð http://www.kop.is…..

  Er ekki hægt að hafa þetta kvennaliðs dót undir öðrum link http://www.kop.is/kvennabolti

  Þetta ýtir nyður skemtilegum pistlum og umræðu….

  Hef ekkert á móti kvennabolta, finst þetta bara skemma annars góða síðu.

  En þetta er bara mín skoðun og hugmynd.

  1

Besta úvalsdeildarlið Liverpool

VAR þetta góð hugmynd?