Liverpool 5-5 Arsenal – sigur í vítaspyrnukeppni

Liverpool er komið áfram í átta liða úrslit Deildarbikarsins eftir sigur á Arsenal í vítaspyrnukeppni eftir einn skrautlegasta fótboltaleik sem við höfum séð á Anfield í ansi langan tíma!

Klopp gerði ellefu breytingar á byrjunarliði sínu frá síðasta leik og hreinsaði af bekknum svo þarna voru fullt af ungum leikmönnum að spila í bland við nokkra sem voru á bekknum í síðasta leik. Það var því ansi óvanalegt lið sem við sáum í kvöld. Adrian var á bekknum og Kelleher byrjaði í markinu, Neco Williams spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið í hægri bakverðinum, Brewster og Elliot voru sitt hvoru megin við Origi frammi og Sepp van den Berg byrjaði við hlið Joe Gomez í miðverðinum.

Leikurinn byrjaði ágætlega fyrir Liverpool þegar Chamberlain keyrði upp kantinn og gaf boltann inn í teiginn þar sem frekjan hann Mustafi ákvað frekar að skjóta boltanum í eigið net en að leyfa Brewster að opna markareikning sinn með aðalliðinu. Arsenal jafnaði nokkrum mínútum síðar þegar Torreira var rangstæður og fylgdi eftir skoti sem Kelleher varði.

Það var svo Gabriel Martinelli sem skoraði tvö mörk með stuttu millibili og kom Arsenal 3-1 yfir. Vörn Liverpool gerði frekar illa í báðum mörkunum, rangar ákvarðanir, röng hlaup, slakar sendingar og ég veit ekki hvað og hvað sem kostaði liðið þarna. James Milner minkaði muninn úr vítapsyrnu eftir að brotið var á Harvey Elliot. Staðan 3-2 í hálfleik.

Arsenal jók forystu sína í 4-2 snemma í seinni hálfleik þegar vörn Liverpool klikkaði aftur. Örfáum augnablikum síðar skoraði Chamberlain sturlað mark úr langskoti og minnkaði muninn í 4-3 og fjórum mínútum síðar skoraði Origi frábært mark þegar hann snéri á varnarmann Arsenal og skoraði með góðu skoti. 4-4 og hvað í fjandanum var í gangi?!?

Willock skoraði svo fáranlega flott mark fyrir Arsenal og þeir komnir 5-4 yfir og þá hlaut þetta að vera búið en svo var nú ekki. Neco Williams átti góða fyrirgjöf í uppbótartíma og Origi jafnaði metinn með frábæri afgreiðslu. Það var því haldið í vítaspyrnukeppni, fullkomin leið til að enda þetta chaos sem þessi leikur var!

Milner, Lallana og Brewster skoruðu fyrstu þrjú víti Liverpool og Arsenal skoraði úr öllum sínum fyrstu þremur. Kelleher varði svo spyrnu Ceballos og Origi skoraði til að koma Liverpool yfir í vítaspyrnukeppninni. Arsenal skoraði svo fjórða mark sitt áður en Scouserinn Curtis Jones tók fimmtu spyrnu Liverpool og tryggði liðinu sæti í næstu umferð. Ekki amalegt kvöld fyrir hann að skora sigurmark úr vítaspyrnukeppni fyrir framan Kop!

Það er mjög erfitt að ætla að rýna eitthvað taktískt í þennan leik. Það voru mikið af breytingum, margir leikmenn sem höfðu aldrei spilað saman og jafnvel einhverjir að spila sínar fyrstu mínútur í aðalliði gegn nokkuð sterku og reyndu Arsenal liði. Þessir strákar sýndu samt mikinn karakter og baráttuvilja til að komast áfram.

Það að strákar eins og Curtis Jones, sem kom inn fyrir meiddan Keita, hafi breytt leik liðsins til hins betra var ágætis dæmi um það. Hann átti þátt í fyrra marki Origi og var mjög líflegur á boltanum. Harvey Elliot sýndi á köflum að hann er enn bara barn en þess á milli átti hann nokkrar mjög góðar rispur og faldi sig aldrei í leiknum þó það hefði verið mjög auðvelt að skilja og fyrirgefa ef svona ungur strákur hefði gert það.

Vörnin strögglaði en Neco Williams kom flottur inn og Kelleher gerði margt fínt en hefði sömuleiðis getað gert annað betra. Brewster datt svolítið inn og út úr leiknum en var mjög flottur seinni part leiksins. Chamberlain heldur áfram að skila mörkum og var með mark og stoðsendingu í dag sem er frábært fyrir hann og Liverpool. Origi skoraði tvö stórglæsileg mörk og var ansi flottur að minnsta kosti í seinni hálfleiknum. Milner hefur svo sannarlega átt betri leiki og kostaði meðal annars mark en skoraði úr vítaspyrnu og vann sig svo sem þokkalega inn í leikinn þegar leið á. Keita var frekar daufur og Lallana ekki nægilega sannfærandi sem djúpi miðjumaðurinn í liðinu í kvöld.

Þetta er flott, guttarnir munu nú fá annað tækifæri til að spreyta sig í bikarnum og börðust svo sannarlega fyrir því í kvöld og uppskáru eftir því. Frábær skemmtun þessi leikur, skemmtilegur og skrautlegur fótbolti hjá báðum liðum, frábær mörk og svona mætti lengi telja. Þessi leikur spilaðist allt öðruvísi en undirritaður hafði séð fyrir!

Næst er það Aston Villa um helgina, svo Genk í Meistaradeild og Man City helgina þar á eftir áður en næsta landsleikjahlé verður. Það má reikna fastlega með öðrum ellefu breytingum í næsta leik.

26 Comments

 1. Þetta kallar maður alvöru skemmtun.
  5-5 og sigur í vító.

  Mitt álit er það að heilt yfir var þetta auðvita ekki vel spilaður leikur, varnarleikurinn var lélegur og fáranlega við þetta er að við skoruðum 5 mörk en lengi vel var sóknarleikurinn okkar bitlaus en svo eftir að við skoruðum úr vítinu þá fór allt í gang og síðari hálfleikur var veisla.

  Þetta fer allt í reynslubankan hjá ungu gaurunum en heilt yfir var engin af þeim sem átti frábæran leik.
  Kelleher átti sinn þátt í sumum mörkum.
  Williams var í miklum vandræðum varnarlega og komst varla í takt við leikinn en bjargaði andlitinu undir lok leiksins með frábæri fyrirgjöf.
  Van Der Bert gerði sín misstök en það eru einmitt það sem ungir menn gera.
  Elliot – Náði sér ekki alveg á strik en hann var vinnsludýr þarna frami
  Brewster – var vonbrigði en hann týndist á löngum köflum í leiknum.

  Reynsluboltarnir
  Millner – Átti ekki góðan leik gaf mark og en skoraði úr víti eins og sannur meistari.
  Gomez – Var í vandræðum varnarlega og má segja að þrátt fyrir mikla hraða og íþróttahæfileika þá getur Lovren sofið rólega en hann mun allan daginn byrja næsta leik.
  Lallana – Var í sinni nýju stöðu sem varnartengiliðir en hann var góður að dreyfa boltanum sóknarlega og hélt boltanum of vel en varnarlega var hann í vandræðum og var gjörsamlega sprungin í restina(kannski ekki skrítið)
  Ox – Fór vel af stað, átti svo slæman kafla og skoraði svo geðveikt mark og þá vakniði hann aftur.
  Origi – er fáranlegur fótboltamaður. Hann átti stóran þátt í einu markinu sem við fengum á okkur með leti vörn og útá vellinum var hann ekkert að brilla en strákurinn er orðinn sérfræðingur í að skora mikilvæg mörk.
  Keita – Átti fína spretti inn á milli en heilt yfir dapran leik.

  Besti maður Liverpool í þessum leik fannst mér vera Curtis Jones hann gjörsamlega breytti leiknum fyrir okkar lið með frábæri inná komu. Hann virkaði eins og að hann hafi verið lykilmaður þarna í mörg ár. Hann var öruggur með boltan, kom honum vel frá sér á rétta staði, vann boltan og hann var vítamín sprautan sem keyrði þetta allt í gang aftur, en ef Keita hefði ekki meiðst þá er ég ekki viss um að við værum að ræða um sigurleik núna ef Jones hefði komið síðar inná.

  Maður er ekki alltof ánægður með aukið leikjaálag í þessari litlu bikarkeppni en ungu strákanir fá vonandi að vera í aðalhlutverki og þeir eiga seint eftir að gleyma þessum magnaða sigri á Arsenal liði sem ætlaði sér stóra hluti í þessum bikar( líklega sá bikar sem þeir ættu mesta möguleika á að vinna á tímabilinu ef maður á að vera hreinskilinn).

  YNWA – 5-5 og sigur í vító (eins og maður spáði í hálfleik)

  p.s Vona að við fáum Man utd í næstu umferð á Anfield og sjáum kjúklingana stríða þeim aðeins(þeir myndu spila sínu sterkasta)

  8
 2. Smá ráð til allra: Ekki horfa á tíu marka fótboltaleik á símanum á meðan á starfsmannafundi stendur. Hróp og steyptir hnefar útí loft eru ekki vel séðir þar…

  Annars er maður bara kampakátur með þetta, vissulega margt sem hefði mátt vera betra í okkar leik, en þetta var geggjuð skemmtun og reynslan fyrir ungu mennina ómetanleg.

  Hugsið ykkur, 2013-14 voru allir leikir svona! Hvernig lifðum við það af?

  9
  • Starfsmannafundur sem teygir sig langt fram yfir kl. 19:30 og er ekki Halloween partý, eða skipulagning þess? … ef það voru einhverjir Arsenal eða mu áhangendur á þessum fundi þá byrjaði Halloween bara snemma í ár fyrir þau.

   2
 3. Reynið að hugsa ykkur hvernig þessi leikur hefði verið með VAR…

  5
 4. 5-5 .. Ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast um það. Aðal málið er auðvitað að þessir strákar fengu góða kennslu þarna í að gefast ekki upp.

  En hvað er eiginlega langt síðan við vorum með 8 Breta inná vellinum? Roy-tímabilið?

  3
  • Voru þeir ekki meira að segja 9 eftir að Jones kom inná fyrir Keita? En svo aftur 8 þegar Chirivella kom inná fyrir Ox.

   1
 5. Ég er í skýjunum og ætla ekki að gagnrýna ákveðna leikmenn. Það er nokkuð ljóst að verkefni kvöldins var alltaf að fara vera gífurlega erfitt, sér í lagi vegna þess að Arsenal stillti upp nokkuð sterku liði og voru með talsvert sterkari bekkjarmenn en við gátum státað okkur af.

  Joe Gomez var líklega sá sem átti erfiðasta verkefni kvöldsins og hann leysti það oft mjög vel. Ekkert grín að vera með 18 ára ungling í hægri bak og 17 ára miðvörð við hliðin á sér ásamt að vera með ungan og efnilegan markmann með litla reynslu fyrir aftan sig. Milner er svo enginn bakvörður en leysir hana samt af fullum hug en maður sér miklu betri fótboltamann í honum þegar hann er á miðsvæðinu.

  Lallana er ALLS ekki djúpur miðjumaður og Keita og Ox fundu oft fyrir því að þeir voru soldið berskjaldaðir fyrir aftan sig sem gerði þeirra vinnu ögn erfiða, eflaust soldið nýtt fyrir þeim og því ekki alveg á tánum. Geta betur en voru bara alls ekki slæmir.

  Harvey er 16 ÁRA!.. það eiginlega má ekki gagnrýna svona unga leikmenn sem er komnir á þetta level, 16 ára var ég að spila counter-strike og þamba mountain-dew fram undir morgna og skrópa í skólann. Maður sér á honum að honum langar að skora og gera vel og við fögnum þannig unglingum í liðið. Vonandi að Klopp skrúfi hausinn rétt á og pússi hann vel.

  Origi er bara Origi. Ég á erfitt með að skilja hann. Með allan þennan styrk og hraða (og heppni)… hann gæti verið svo sudda góður en hann virðist oft týna fjölinni sinni en svo poppa upp þessi frábæru moment eins og tvisvar í kvöld.

  Ég er hinsvegar spenntastur fyrir Brewster og Curtis. Það þarf svo margt að laga og bæta hjá Brewster en hraðinn og hraðabreytingarnar, greddan og viljinn er eitthvað sem lofar virkilega góðu. Curtis er svo bara fanta fínn fótboltamaður, eflaust ekkert síðri en “mesta talent” sem Pep hefur séð hann Phil Foden.. Rólegur og yfirvegaður á boltanum, heldur honum vel við sig og með frábærar sendingar. Hann á 100% eftir að vera oftar á vellinum í ár.

  GEGGJAÐUR sigur í geggjuðum leik. Vonandi fáum við Colchester eða Oxford svo við getum gefið fleirri unglingum tækifæri í næstu umferð enda er hún spiluð í ekkert eðlilega þéttu prógrammi í des!

  YNWA

  9
  • Oxford United – Manchester City
   Manchester United – Colchester United
   Aston Villa – Liverpool
   Everton – Leicester City

   2
 6. Sælir félagar

  Leikurinn var hin besta skemmtun og svo sem ekki mikið meira um hann að segja. Unglingarnir okkar gerðu margt gott nánast allir en gerðu líka sín mistök eins og búast mátti við. Vonbrigði þar eru aðeins ein. Brewster. Mér er algerlega fyrirmunað að skilja af hverju Klopp lagði svona mikla áherslu á að halda þessum dreng. Hann virkar eins og ofdekraður krakki inná vellinum og nennti ekki að leggja mikið á sig, seinn og lítil ógn í honum. Origi sýndi aftur á móti af hverju hann er supersub en ekki byrjunarliðsmaður.

  Curtis Jones bar af öllum inni á vellinum og eru þá allir taldir með. Mikil hamingja að Keita skyldi fara af velli og Jones koma inná. Það var algert lykilatriði sem skildi á milli feigs og ófeigs. Lallana, og Keita sýndu það í þessum leik af hverju þeir eu ekki byrjunarliðsmenn. Svo virðist Keita vera alger meiðslapakki a la Lallana. Þar getur haltur leitt blindan. Það virðist vera að þeim peningum hafi verið eytt í hæga suðaustan golu með einstaka skúrum inn á milli. Skúrirnar eru þó anzi fáar sýnist mér.

  Það er aftur á móti leiðinlegt ef Klopp neyðist til að stimpla liðið út úr þessari keppni sem er tilvalin fyrir unglingana að takast á við stóra sviðið. Við sjáum til en vonandi getur Klopp leyft þessum strákum að sprikla í amk. einum leik í viðbót hvað sem öðrum kepnum líður.

  Það er nú þannig

  YNWA

  5
 7. Klárlega eru Gylfi og félagar orðnir fjórða besta liðið í Liverpool.

  11
 8. Frábær sigur sem svo sannarlega fer í reynslubankann hjá mönnum. Varnarlega kannski ekki merkilegur leikur en það átti ekki síður við um Arsenal liðið. Reyndar var svo skrítið að sjaldan hef ég verið svo viss um sigur og í þessum leik. Það sem mest er jákvætt að nú eru margir óreyndir ungir leikmenn búnir að fá eldskírn í tveimur leikjum í deildarbikarnum. Það eru bara allt öðruvísi þegar helmingur leikmanna hefur nánast enga leikreynslu og þurfa að bera uppi leikinn heldur en þegar tveir til þrír óreyndir koma inn. Origi, Lallana, Ox, Keita, Comez og Milner svosem allir í 18 manna hópi félagsins en gleymum því ekki að Comez er enn bara hálfur maður og Keita í lítilli leikæfingu. Curtis Jones lofar ekkert smágóðu sem og hinir ungkálfarnir. Niðurstaðan er því sú að ég er verulega kátur með mína menn sem fá þá líka einn leik í viðbót. Miðað við heppni Liverpool þegar kemur að drætti þá er ekki ólíklegt að annaðhvort Manchester liðanna komi eða þá Everton.

  2
 9. Ég skemmti mér konunglega yfir leiknum átti auðvitað mín rollercoster tilfiningamoments þar sem ég sótbölvaðist yfir varnarleik okkar manna en maður sá þeir gáfust aldrei upp þrátt fyrir að nánast gefa þeim mörk á silfurfati ekki öll auðvitað en það var hægt að gera betur í þó nokkrum tilfellum en skiptir ekki öllu máli.

  En að einu ég hef áhyggjur af Keita hvað er málið með hann virtist ekki almennilega vita sitt hlutverk á vellinum það voru 16-18 ára drengir þarna inná sem voru með hlutina miklu meira á hreinu en hann. Og svo leit út að hann hefði fengið högg þarna í endann er hann þá meiddur aftur eða hvað vona ekki en hann verður að fara girða í brók ef hann ætlar að spila í þessu liði.

  Mér fannst gaman að sjá Williams og Elliot sem var stanslaust að pressa á þá mjög vel gert hjá honum virkilega spennandi leikmaður. Brewster átti sín moment og mér fannst innkoma Curtis til fyrirmyndar. Ox og Origi hvað er hægt að segja algjörir yfirburðamenn í leiknum fannst mér.
  Origi klárlega maður leiksins.

  2
 10. Vá ef maður hefur ekki gaman að svona leik þá getur maður allt eins hætt að fylgjast með fótbolta. Missti reyndar af megninu og er því ekki alveg dómbær en sá endursýningar.

  Af þeim virðist Chambo hafa verið magnaður og gefur fyrirheit um mikilvægi sitt í titilbaráttu þessa sísons. Einhver besti skotmaður deildarinnar. Sá kemur inn með sjálfstraust og gæði í lið Evrópumeistara. Enginn afsláttur. Hér er ég: fylgist með. Geggjað. Og Divock flottur. Vissulega smá annar standard en í deildinni en frábært að sjá ástríðuna hjá þeim leikmönnum sem banka á dyrnar í aðalliðið.

  Svona á þetta að vera! Flott lið í öllum keppnum.

  On we go.

  3
 11. Origi ad tryggja ad styttan a Anfield verdur gerd ur gulli ekki bronsi.

  2
 12. Sæl og blessuð.

  Já, svona var þetta hérna forðum daga. Vörnin alltaf hriplek og nagandi óvissa allt til lokaflauts. Maður var miklu rólegri í fyrra í stöðunni 1-0 fyrir okkur og klst. eftir af leiknum en hér í denn, þegar við vorum kannske með þriggja marka forystu og kortér til leikskoka (hóst*** hóst *** cp 2014). Það er hollt að rifja upp þau ósköp og vera þakklát fyrir núverandi stöðu mála.

  En heillakarlinn Origi er að mínu mati MOM og hann á mikinn heiður skilinn fyrir að hafa pakkað þessum hrekkjavökuþriller inn með bleksvörtum borða með hauskúpum á. Jónsi var líka á einstöku kalíberi. Tek annars undir nett vonbrigði með þá reynslumiklu í líðinu. Svekkjandi að Lallana og Keita skyldu ekki taka leikinn í sínar hendur og sýna yfirburði sína. Ég gæti vel trúað því að sá fyrrnefndi verði látinn sigla sinn sjó í sumar og hinn ,,gíneski Joe Allen” má alveg fara að girða sig í brók.

  Annars var fyndið að sjá Özilinn þarna mættan eins og ekkert hefði í skorist. Hann var að mínu mati baneitraður og gott ef hann átti ekki stóran þátt í þremur mörkum nallanna áður en hann var tekinn út af! Mikið svakalega hlýtur hann að fara í taugarnar á þjálfaragreyinu.

  Annars bara góður. Nei – reyndar pirrandi að City skuli enn eina ferðina fá kjúklinga til að kljást við í svona bikarkeppni. Vonandi halda þeir Oxfordmenn hlöðuball á vellinum kvöldið fyrir leik.

 13. Vá, geggjaður leikur, þvílíkur rússíbani 🙂

  Smá könnun: Hvort vilja menn sjá Gomez eða Lovren í hafsentinum á móti Villa nk. laugardag?

  1
 14. Mér finnst athyglisvert hvað Rashford sagði um markið sitt í chealsea vs manu leiknum. Að Mitre boltinn væri léttari og flökkti meira. Gæti skýrt að einhverju leiti markasúpuna og þessi geggjuðu mörk.

  Svo er ég líka hugsi yfir VAR. Saknaði þess mikið eftir ars markið en svo bara ekki neitt stuttu síðar þegar LIVERPOOL fékk víti. Eins og framkvæmdin er núna vil ég t.d. ekki sjá VAR en ef þeim tekst að bæta flæðið þá gæti ég dottið á VAR vagninn.

  Annars fannst mér Origi bestir og Williams mest spennandi af ungu mönnunum. Jones átti líka fína innkomu en virkar soldið léttur.

  Áfram Liverpool!

  1
 15. Sameina leikinn við Villa, deild og bikar, eru hvort eð er báðir á heimavelli Villa og málið er dautt. Endi leikurinn með jafntefli fær hvort lið 1 stig í deildini, en vítakeppni sker úr um sigur í bikarnum.

  YNWA

  4
 16. Langar að taka upp hanskann fyrir Brewster. Held að málið sé það að hann er að læra að spila Klopp bolta. Á blaðamannafundinum fyrir leik talaði Lijnders mikið um að strákarnir þurfi að læra að spila í samræmi við leikaðferð Liverpool. Ef þeir eiga að geta komið inní aðalliðið til að leysa af eða sem varamenn, þurfa þeir að vera í takti við það leikkerfi og þau hlutverk sem þar eru spiluð. Fannst þetta til dæmis birtast í því að í staðinn fyrir að reyna eitthvað vonlaust sjálfur, hélt Brewster lífi í sókninni og kom boltanum aftur til Williams sem gaf stoðsendingu fyrir Origi.
  Það var mín tilfinning að þetta væri það sem gerði leikinn jafn óútreiknanlegan og raun bar vitni. Að ungu strákarnir voru ekki mættir til að sýna hæfileika sína, heldur til að sýna að þeir gætu spilað sem Klopp lið.

  3
 17. [url=https://waterloo-collection.ru/6949/]???? ????? ??????? ?? ???????? ?? XIX ??????????? ????? ? ??????.[/url] ???? ????? ??????? ?? ???????? ?? XIX ??????????? ????? ? ??????. ?????? 1968 ?. ???. , ??????? ????? ????????? ??????? ? ??????? ????????? ????? ????.

  ??????? ???????? ???????????? ???????? [url=https://waterloo-collection.ru]waterloo-collection.ru[/url] ??????, ?????, ?????????, ????, ?????, ???-?????, ???-????? ? ?????? ??????

Liðið gegn Arsenal

Upphitun: Aston Villa vs. Liverpool