Spurs heimsækja Anfield

Við erum stödd á 87. mínútu. James Milner stillir sér upp við hornfánann, tekur sér góðan tíma í að plana hvernig hann skuli taka hornspyrnuna, réttir svo upp vinstri hönd til merkis um hvert hann ætli að senda. Boltinn er skallaður frá, en þó ekki betur en svo að varnarmenn Tottenham þurfa að skalla boltann aftur frá. Og aftur. Eftir síðasta skallann lendir boltinn fyrir fótum Joel Matip sem er fljótur að hugsa og rennir boltanum til vinstri á Divock Origi. Origi leggur boltann fyrir sig með vinstri, og rennir honum svo fast en jafnframt hnitmiðað í fjærhornið, á líklega eina staðinn sem Hugo Lloris gat ekki með nokkru móti náð til. Staðan 2-0, og þannig endaði úrslitaleikur Meistaradeildarinnar í vor.

Líklega þarf ekkert að rifja þessi augnablik upp fyrir nokkrum einasta stuðningsmanni Liverpool, en við gerum það nú samt. Gleymum því samt ekki að þessi leikur þann 1. júní, og bikarinn sem Jordan Henderson lyfti svo eftirminnilega á loft eftir leik, munu ekki skipta neinu máli þegar verður flautað til leiks á Anfield á morgun. Nýr leikur, nýjar áskoranir, sömu andstæðingarnir. Það eru ný 3 stig í pottinum, og okkar menn munu klárlega þurfa að hafa fyrir hlutunum.

Andstæðingarnir

Það verður ekkert undan því litið að Tottenham liðið sem mætir á sunnudaginn hefur oft verið sterkara, og oft verið á meiri siglingu en undanfarna mánuði. Við skoðum mynd:

Gengi þeirra á útivelli er semsagt ekkert til að hrópa húrra yfir, en þeir hafa ekki unnið í síðustu 10 leikjum. Inni í þeirri seríu er reyndar 2-2 jafntefli gegn City snemma á leiktíðinni, svo það er ljóst að þeir geta alveg strítt hvaða liði sem er. En svo geta þeir líka tapað fyrir hvaða liði sem er, sbr. þegar þeir féllu úr leik í deildarbikarnum gegn Colchester, að vísu í vítaspyrnukeppni, en samt. Og jújú, þeir voru með eitthvað veikara lið en gengur og gerist, en samt fullt af leikmönnum sem eru að jafnaði í byrjunarliðinu.

Svipað gildir um síðustu leiki þeirra á Anfield. Það gerðist síðast árið 2011 að þeir unnu leik í deildinni, en þá var Luca nokkur Modric á skotskónum í 0-2 leik sem er sem betur fer löngu gleymdur. Síðan þá hafa liðin mæst 8 sinnum á Anfield í deildinni, í 3 leikjum hafa liðin fengið 1 stig hvort, en Liverpool unnið 5 þeirra, þann síðasta núna í vor þegar sjálfsmark í uppbótartíma réði úrslitum, eins og sést á myndinni hér að ofan.

Síðasti leikur þeirra var hins vegar í vikunni þegar Rauða stjarnan kom í heimsókn og mátti lúta í gras, 5-0 takk fyrir. Það er því ýmist í ökkla eða eyra í Meistaradeildinni hjá Spurs á þessu tímabili, enda ekki langt síðan liðið mátti þola 2-7 tap á þessum sama velli, þá gegn Bayern. Stöðugleiki er því ekki fyrsta orðið sem manni dettur í hug til að lýsa liðinu um þessar mundir.

Hvað meiðslalistann hjá Tottenham varðar, þá er Lloris vissulega frá eitthvað fram yfir áramót. Lo Celso og Sessegnon eru tæpir, en ekki útséð með hvort þeir nái leiknum.

Okkar menn

Staðan á okkar mönnum á að vera bara nokkuð góð. Salah kom inn í leikinn á miðvikudaginn og spilaði hann allan, en var svo ekki á myndum af föstudagsæfingunum, svo það er spurning hvernig hann er upplagður. Shaqiri er ennþá meiddur en það er vonandi stutt í að hann fari að æfa aftur. Matip er tæpur, og maður myndi veðja á að hann komi ekki við sögu, hugsanlega verður hann á bekk. Trent fékk flensu og fór ekki til Belgíu, en ætti að vera orðinn góður. Robertson var tekinn af velli í kringum 60. mínútu úti í Genk, þá var talað um að hann hefði orðið fyrir hnjaski en það var líklega bara lítið og hann ætti því að vera leikfær á morgun sömuleiðis. Keita og Ox spiluðu sig líklega inn í plön Klopp með frammistöðu sinni á miðvikudaginn, en hvort þeir byrji á morgun er kannski vafasamara. Enda nóg af leikjum framundan, strax leikur gegn Arsenal í deildarbikarnum næsta miðvikudag, og svo er það Villa um næstu helgi.

Það er líka alveg ljóst að deildin er í algjörum forgangi, og í ljósi þess að City vann sinn leik fyrr í dag, þá vill Klopp örugglega krækja í 3 stig á morgun. Við megum því eiga von á að Klopp stilli upp sínu sterkasta liði á morgun. Spurningin er bara: hvernig lítur það lið út? Fyrir viku síðan hefði miðjan í því liði verið Fabinho, Gini og Hendo, en í dag spyr maður sig hvort Keita eða Ox séu búnir að spila sig inn í þetta lið. En í ljósi þess að þeir eru báðir að spila sig í form, og léku báðir lengi á miðvikudaginn, þá ætla ég að veðja á að Klopp hlífi þeim aðeins, hugsi þá frekar í leikinn á móti Arsenal á miðvikudaginn.

Það eru auðvitað alls konar möguleikar þarna. Kannski fær Gomez sénsinn. Kannski þarf að hvíla Salah, eða einhvern af hinum fremstu. Kannski fær Keita sénsinn. Svo er líka áhugavert að í U23 leiknum gegn Blackburn í dag voru Brewster, Elliott og van der Berg hvergi sjáanlegir, og Curtis Jones var tekinn af velli snemma í síðari hálfleik, líklega með Arsenal leikinn í miðri viku í huga. Kæmi samt mjög á óvart ef einhver þeirra sæist á morgun, hugsanlega gætu annaðhvort Brewster eða Elliott sést á bekk.

Við skulum svo spá því að þessi leikur fari 2-0. Mörk frá Fabinho (víti) og VVD eftir hornspyrnu.

KOMA SVO!!!

Leikurinn hefst klukkan 16:30 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð. 

15 Comments

  1. Ég vil ekki sjá Lovren í þessum leik. Hann fær að lágmarki eitt heilafret í hverjum leik og það er heilu freti of mikið!

    2
  2. Í raun skiptir engu hverjir mæta í þennan leik, ekki frekar en Barca leikinn heima. Það má eðlilega vera með spekúlasjónir, en Klopparinn okkar hefur enadaorðið hverjir þeir verða. Núna kemur rullan, við viljum vinna, allir stuðningsmenn vilja vinna, leikmenn vilja vinna, og síðast en ekki síst Klopp vill vinna, þannig hvað vantar, jú að vinna þennan leik, bara einfaldlega.

    YNWA

    4
  3. Hvað heitir hann aftur þarna franski karlinn sem ætlaði í framboð en var svo gripinn með hendina uppí rassgatinu á einhverri skúringakonu?

    1
  4. Miðjun er alltof geld með Winaldum, Fabinho og Henderson. Keita og Ox koma með miklu meiri kraft sóknarlega. Vona að Klopp setji annan þeirra í byrjunarliðið.

    3
  5. Kanske er Brendan Rodgers betri þjálfari en við gáfum honum kredit fyrir????

    10
  6. Brendan Rogers var og er góður þjálfari, en eigendur höfðu bara meiri trú á Klopp úr því þeir gátu fengið hann, enda samrýmdist hann algjörlega hugmyndafræði eigenda LFC eða FSG. Ég segji fyrir minn part, ég vil frekar hafa Klopp með mér en á móti mér, þ.e. Liverpool. En leikurinn í dag á eftir að verða eithvað til að horfa á, þeir eiga náttúrulega harma að hefna fyrir úrslitaleikinn í Meistaradeildini og koma dýrvitlausir á Anfield, en mín tilfinning er að LFC sé of stór biti fyrir þá. Spái 3-1 hverjir skora mörkin er mér nokk sama, nema vil sjá Salah setjann amk 1.

    YNWA

    4
  7. Sindri má ég spyrja, hvert er pointið með innleggi þínu? Getur virkað hálf fyndið, en ég næ ekki fullri fyndni úr þessu, nema þú útskýrir betur.

    YNWA

    1
  8. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitunina Daníel. Þennan leik er algerlega nauðsynlegt að vinna. Eftir skituna á Gamla klósettinu um daginn og afgerandi sigur M. City í gær er að verða anzi lítið borð fyrir báru. Tapist leikurinn eru aðeins 3 stig sem skilja á milli og jafntefli er ekki mikið betri niðurstaða. Þetta vita Klopp og strákarnir og vonandi mæta þeir gjörsamlega dýrvitlausir og slátra þessu 2 – 1

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
  9. Sæl og blessuð.

    Þeir eiga að vera reynslunni ríkari eftir síðasta tímabil þegar svipuð staða var uppi – reyndar um áramótin. Það er ekki bara liðsmenn sem eiga að spila með öðru hugarfari, áhorfendur ættu líka að vita betur en að láta taugarnar hlaupa með sig í gönur.

    Staðan er auðvitað frábær. Við ættum að sigra þennan leik miðað við gengi á heimavelli og stöðuna á Spur-Cola. Auðvitað skipta fyrri leikir ekki sköpum en þeir fylla mann nú samt bjartsýni. Þann 10. nóvember mætum við City með ótrúlega laskaða vörn. Ef við verðum enn sex stigum fyrir ofan þá fölbláu, þá þeir verða í klemmu – verða að sigra og þar með sækja en þurfa að hafa varann á sér í hvívetna. Svo við höldum áfram, með vaxandi gengi Chelsea og jafnvel Arsenal (sagt með fyrirvara…) verður spennandi að fylgjast með þeim rimmum – sem við höfum þegar sótt sex stig úr.

    Ætla því að leyfa mér að vera bjartsýnn. Nú sáum við tvo öfluga liðsmenn sýna hvað í þeim býr. Það er ekki lítil viðbót við vopnabúrið!

    Spur-cola mætir til leiks með adrennalínið í botni en svo fellur það jafnt og þétt þegar fyrirsjáanlegir yfirburðir okkar manna koma í ljós. Við vinnum þetta með sama mun og City vann AV.

    2
  10. Já og ekki gleyma Leicester! Hirtum þrjú stig af þeim líka… hvernig ætli leikur þeirra við City muni fara?

    1
  11. Tottenham liðið er einfaldlega gríðarlega sterkt og með fullt af leikmönum sem geta gert okkur lífið leitt.

    Þeir reyndar geta sagt sama um okkur en þetta verður mjög erfiður leikur en ólíkt leiknum við Man utd þá efast ég um að Tottenham fari í 11 manna rútubolta og munu reyna við 3 stig sem eykur líkurnar að við fáum mörk á okkur en líka að við skorum.

    3 stig í dag væri rosalega mikilvægt en þá værum við búnir með leiki gegn Arsenal, Chelsea, Tottenham, Man utd og Leicester í fyrstu 10 leikjunum okkar og værum með góða forustu á toppnum.

    Man Citu eru búnir með Tottenham af þessum stórliðum(bætum Lecester inn í þennan hóp í ár því að þeir hafa sýnt að þeir eru með topplið á þessu tímabili) og þeira leikjaprógram fer að vera aðeins meira krafjandi á næstu vikum.

    3
    • Óháð því hvernig Ox stendur sig þá efast ég um að hann muni byrja tvo leiki í viku. Hann er enn að vinna í fitnessinu og þurfum við líklega að bíða fram á næsta ár til að sjá hann þola eitthvað leikjaálag.

      Þar sem mótherjinn er Tottenham á ég von á að Klopp snúi aftur til Gini og Hendo þó ég voni að Keita fái tækifæri.

      1
  12. Eitthvað verið að slúðra um að Salah sé ekki í hóp. Ef svo er þá verða hinir einfaldlega að stíga upp.

Nike 1 – New Balance 0 (Liverpool $$$)

Kvennaliðið heimsækir Birmingham