Risa-risa-risaleikur á Old Trafford á morgun!

Sama hvaða lið eru steruð upp af olíumilljónum, sama hvaða bláklæddir nágrannar halda, sama hvernig lið Arsene Wenger, Guardiola, Mourinho og allir hinir ná að byggja upp, þá er bara eitt rétt svar við „hver er stærsti rígurinn í enskri knattspyrnu:“ Liverpool og Manchester United.

Myndaniðurstaða fyrir klopp vs ole

Það er sama hvaða mælistika er notuð: flestir titlar, stærstu augnablikin, sagan, ljótustu atvikin eða bestu leikmennirnir. Alltaf komum við niður á rauðu liðin tvö. Rígurinn nær aftur 19. aldar í það minnsta og þó liðin hafi ekki verið í titilbaráttu við hvort annað nema tvisvar eða þrisvar á þessari öld þá eru þetta alltaf stærstu leikir tímabilsins.

Á morgun fer topplið Liverpool í heimsókn til stórveldisins sem er (lítur á töfluna á símanum, flettir niður, langt niður) í tólfta sæti, tveimur stigum fyrir ofan Everton sem eru í fallsæti. Með sigri jafnar Liverpool metið fyrir flesta unna leiki í röð í deildinni. Ekkert mál, eða þannig.

Manchester United – Hvað í ósköpunum er í gangi.

United-menn eru ekki hræddir við neitt, nema líklega þá stund þegar Sir Alex tilkynnir það að hann sé hættur. – Ritstjóri Rauðu Djöflanna árið 2013, nokkrum vikum áður en rauðnefurinn tilkynnti að hann væri að hætta.

Í undirbúningi fyrir þessa upphitun fór ég að grúska í gömlum upphitunum á Kop.is (ég hafði of mikinn tíma og of lítinn fótbolta, næst þegar landsleikjahlé hittir á fríhelgi bið ég um aukavakt) til að sjá hvernig stemninginn fyrir þessa leiki hefur breyst.

Það er í raun ótrúlegt hversu mikið vatn hefur runnið til sjávar á ekki lengri tíma. Ferguson hætti. Síðan þá hefur United eytt 33 milljónum punda í það eitt að reka þjálfara, eytt næstum milljarð punda, brúttó, í nýja leikmenn og verið utan meistaradeildarinnar þrisvar . Þeir hafa náð í þrjá bikara á þessum tíma, sem hjá flestum liðum þætti frábært en stuðningsmenn, ekki endilega eigendur, vilja setja markið miklu hærra. Sérstaklega þegar þessi gífurlega eyðsla er tekinn inn í reikninginn og fæstur hafa trú á því að fleiri dollur séu á leiðinni.

Síðustu vikur hefur mikið verið skrifað um vandræði United. Niðurstaðan er alltaf sú sama: Endalausar skyndilausnir, eigendurnir eru eitur sem komust yfir klúbbinn með vafasömum hætti og engin innanhús virðist hafa yfirsýn yfir hvert klúbburinn stefnir. Þegar Ferguson hætti skyldi hann eftir gapandi tómarúm í klúbbnum, leikmannahóp á síðasta söludag og eftirmaður hans hafði það helst á ferilskránni að vera skoskur.

Þeir fimm þjálfarar sem hafa stýrt liðinu síðan í maí 2013 hafa haft gífurlega mismunandi skoðanir á hvernig skal spila knattspyrnu og í hvert sinn sem einn þeirra nær í einhvern smá árangur fara væntingarnar upp úr öllu valdi. Þegar næsta óhjákvæmilega bakslag kemur er það stærra en síðast, sem krefst nýrra skyndilausnar. Þetta er vítahringur sem liðið mun vera fast í þangað til að eitthvað breytist hjá þeim, sem verður vonandi ekki í bráð. Ég ætla að taka út alla sú þórðargleði sem ég get á meðan, eftir áratugi af því að hafa þurft að horfa upp töfluna til að finna erkifjendurnar.

Minntist ég á að United er tveimur stigum fyrir ofan fallsæti?

 

Þegar United menn voru endanlega búnir að fá nóg af José Mourinho þurfti ferskan andvara inn í liðið. Þeir hefðu ekki getað fundið ólíkari mann til að taka við stjórninni. Ole er goðsögn hjá félaginu, hefur aldrei unnið titil, gefur ungum mönnum spilatíma og vill spila sóknarbolta. Til að byrja með virtist þetta vera að virka. Beislinu var sleppt og Ole náði í nokkra sigra í röð áður en hann toppaði með því að slá út PSG í meistaradeildinni. Viskubrunnar eins og Rio Ferdinand heimtuðu að hann fengi langtíma samning, stjórnin hlustaði og gengi liðsins hrundi. Síðan Ole skrifaði undir langtímasmaning hefur liðið ekki unnið nema fimm leiki!

Það er samt ekki alveg allt í rúst hjá þeim. Vörnin virðist vera að smella, hafa ekki fengið á sig nema 8 mörk í deildinni í fyrstu átta leikjunum. Bara Liverpool, Leicester og Sheffield hafa fengið færri á sig. Meiðsli hafa líka vera að hrjá liðið og ef lykilmenn snúa aftur eru allar líkur á að þeir nái að slíta sig úr botnbaráttunni og jafnvel gert atlögu að Evrópudeildarsæti.

Ég myndi reyna að lýsa leikstíl þeirra eitthvað en ein stærsta gagnrýninn á Ole er að hann virðist ekki vera að koma neinu kerfi á liðið. Sóknarbolti fyrstu leikjanna er horfinn og þeir munu kláralega leggja stærstu rútu sem þeir finna fyrir framan markið gegn Liverpool.

Það eru kenningar á kreiki að Pogba sé í raun heill heilsu og muni byrja.Rökin að Ole sé að reyna að koma Klopp á óvart. DeGea er hins vegar klárlega ekki að fara að spila. Spurningarmerki hanga yfir Phil Jones og Lingard. Líklega snúa Martial og Wan-Bissaka aftur í byrjunarliðið. Luke Shaw heldur áfram að vera á meiðslalista. Byrjunarliðið er líklega sirka svona:

Okkar menn

Þetta landsleikjahlé var okkar mönnum blíðara en maður er vanur. Engin hefur meiðst, Alisson er komin í gott stand, Matip með brakandi ferskan samning og flestir hafa fengið sex eða svo daga í frí. Það er ekki alveg öruggt að Salah og Matip séu orðnir alveg heilir, aðrir eru frískir.

Ég ætla að tippa á að báðir byrji og þá er eiginlega bara spurning hverjir verða á miðjunni. Hendo og Wijnaldum spiluðu báðir helling í landsleikjahléinu, þannig að ég held að Milner komi inn fyrir annan þeirra, veðja á Gini. Þá mun þetta líta svona út:

Spá

Í fyrsta lagi spái ég að það verði rosaleg stemning á Sport&Grill í Smáralind, sem er staðurinn okkar í vetur. Þetta eru leikirnir sem maður vill horfa á í hóp.

Ég nenni ekki einhverri raunsýni, ég nenni ekki neinni bölsýni. Liverpool er með miklu, miklu betra lið en United. Þetta fer 0-4 fyrir Liverpool, Matip skorar fyrsta merkið, svo Salah með tvennu og Milner nær í eitt í lokið fagnar með að setja upp einn fingur fyrir hvern Evrópumeistaratitil Liverpool!

Myndaniðurstaða fyrir milner six

Koma svo strákar!

12 Comments

  1. Sælir félagar

    Liverpool er að fara að spila við lið sem eytt hefur tæpum milljarði punda í leikmenn og leikmannasamninga á undanförnum árum. Hvernig er hægt að vinna lið sem hlýtur að vera svo geðveikislega vel mannaðeftir slíka eyðslu? það er spurning sem Klopp og strákarnir hans svara á morgun. Ég er svo bjartsýnn að halda að okkar menn hafi svör við einu dýrasta liði sögunnar eða hvað?

    Já ég trúi því og spái 1 – 3 í erfiðum og leiðinlegum leik þar sem dómarinn reynir, sinn eftir sinn, að bjarga MU frá algeru þroti. Það er nefnilega þannig að ég er eins og Ssteinn og get ekki notið þess að horfa á þessa leiki því þeir fara algerlega á sálina á mér. En vonandi get ég andað léttar í miðjum fyrri hálfleik og skemmt mér yfir rest.

    Það er nú þannig

    YNWA

    11
  2. Sæl og blessuð.

    Hjartað segir mér að vera uggandi. Þetta verða háloftatæklingar, vafasamir dómar, gargandi lýður og mögulega einhver óheppni/taugaveiklun hjá okkar lykilmönnum. Langt hlé frá síðasta leik er þ.a.a. aldrei gott, hvað sem veldur. Það kann að vera að þeir þurfi tíma til að spila sig saman, eins og stundum hefur gerst.

    Hausinn, aftur á móti, leggst í smá samanburð – þjálfarar eru afar ólíkir og hjá okkur er valinn maður í hverju rúmi, m.a. á bekk. Það er því ekkert skynsamlegt við það að vera smeykur við þennan leik – hann ætti að vinnast.

    Svo þarna stendur rimman, þangað til flautað verður til leiksloka.

    3
  3. Erfitt að sjá Man U skora. Við höfum hinsvegar ekki verið duglegir að skora gegn þeim síðustu ár. Þeir eru duglegir að parkera rútunni. Spái að minn maður Arnold geri gæfumuninn eins og oft áður.

    2
  4. Leikdagur

    Hjartað á fullu og maður er farinn að telja niður. Maður er alltaf hræddur við þessa leiki og það þarf ekki nema eina stungusendingu á hina eldfljótu James/Rashford til að skemma daginn.

    Svo fer maður að snúa þessu við og ýminda sér að vera stuðningsmaður Man utd. Þá koma fleiri spurningar
    Ætlar A.Young að stopa Salah eða Mane? Hvernig á liðið að skora gegn Liverpool eða það náði varla að ógna Newcastle?
    Veikleiki Liverpool er að það vantar skapandi miðjumenn en Matic, Mctominay, Mata, Pereira og Fred eru ekki að halda vökum fyrir Klopp.

    Spái hörkuleik þar sem við sigrum 0-1

    YNWA

    1
  5. Alltaf smeykur við þennan leik og er ennþá sár eftir drulluna þarna á síðasta tímabili en ef við skoðum liðin þá ætla ég að spá bursti 0 – 4 Salah, Mane, Bobby og Milner úr víti.

    1
  6. Þessi leikur er bananahíði fyrir okkar menn, það eitt og sér segir allt um getu muninn á liðunum í dag.

    1
  7. 872336 541655Oh my goodness! a fantastic write-up dude. Thanks a great deal Nonetheless We are experiencing trouble with ur rss . Do not know why Not able to sign up to it. Maybe there is anybody obtaining identical rss issue? Anyone who knows kindly respond. Thnkx 534273

One Ping

  1. Pingback:

Matip krotar undir nýjan samning!

Kvennaliðið heimsækir Coventry í ContiCup