Upphitun: Liverpool mætir Leicester City

Keisarinn Klopp vs. Refurinn Rodgers

Það verður titrandi toppslagur í Liverpool-borg á laugardaginn þegar að ósigraðir heimamenn í langefsta sætinu mæta hinum spræku Leicester sem eru í 3.sæti. Evrópumeistar 2019 gegn Englandsmeisturum 2016 og til að krydda kappleikinn þá mætir kunnuglegt andlit aftur á Anfield.

Mótherjinn

Það verður að sjálfsögðu ekki hjá því komist að nefna endurkomu Brendan Rodgers með lið sitt á sínar fyrri heimaslóðir. Forlögin hafa hagaði happadrætti leikjaskipulagsins þannig að í dag eru nákvæmlega 4 ár frá því að hinum norður-írska var sagt upp störfum hjá LFC og í kjölfarið kom Klopparinn knúsglaði í hans stað. Rodgers tjáði sig um margt sem tengdist við meistara Carragher nú í vikunni og hægt er að lesa áhugaverða mola úr því viðtali hér hjá Liverpool Echo. Í því viðtali sýnir hann sinn klassa og virðingu gagnvart Rauða hernum og mér alltaf líka vel við hans persónu sama þó að hann hafi stundum orðið skotspónn háðsglósa.

Brendan mun þó varla líta á viðburðinn 4. október á dagatalinu ljúfum augum en hann hefur síðan þá byggt upp orðspor sitt norðan landamæranna hjá Glasgow Celtic og með því að landa sjö skoskum deildar- eða bikartitlum. Sá góði árangur ásamt góðri úrvalsdeildarreynslu með Swansea og LFC gerði hann að fínum valkosti fyrir Refina er þeir létu hinn óvinsæla Claude Puel flakka í febrúar síðastliðnum. Í þeim 19 keppnisleikjum sem Rodgers hefur stýrt þeim þá hafa 10 leikir unnist (52,6% vinningshlutfall) og eingöngu 4 leikir tapast. Það verður að teljast vel viðunandi árangur og hefur skilað bláliðum í baráttuna um meistaradeildarsæti í byrjun tímabilsins.

Brosir Brendan breiðar en hinn brosmildi Jürgen er bardaginn er búinn?

Í sumarglugganum seldu Leicester hafsentinn Harry Maguire til Man Utd fyrir metfé en sú brottför hefur síður en svo bitnað á liðinu varnarlega. Þeir hafa fengið jafnfá mörk á sig og LFC eða 5 mörk samtals sem er best í deildinni og sér í lagi hefur hinn tyrkneski miðvörður Çaglar Söyüncü nýtt tækifærið til að láta ljós sitt skína. Vargurinn Vardy hefur verið upp á sitt skæðasta og skorað 5 mörk í 7 leikjum en James Maddison hefur líka verið öflugur með 1 mörk og 2 stoðsendingar í sama leikjafjölda. Sá síðarnefndi gæti þó misst af leiknum því hann ku tæpur vegna meiðsla en ég er nokkuð viss um að hann verður tiltækur á bekknum.

Það þarf ekki mikinn spámann til að geta sér þess til að Leicester muni byrja varnarsinnaðir og djúpir á morgun með áherslu á að keyra fram í snöggar skyndisóknir á sinn öskufljóta fremsta mann. Fyrsta markið mun ráða miklu um þróun leiksins og vonandi fellur það réttu megin sem myndi opna leikinn fyrir sóknarþrennuna okkar. Ef að líkum lætur þá yrði þetta uppstillt lið Brendan Rodgers á morgun:

Líklegt byrjunarlið Leicester City í leikkerfinu 4-1-4-1

Liverpool

Hin kaflaskipta frammistaða í miðri viku gegn Salzburg gæti haft áhrif á liðsuppstillingu Liverpool á laugardaginn og þá helst í hjarta varnarinnar og á miðjunni. Augljóslega þá kom Gomez inn í stað Matip sem er ennþá ólíklegur til spilamennsku og það raskaði hugsanlega jafnvæginu í varnarlínunni þó að Joe hafi ekkert verið svo slæmur. Með það í huga gæti Lovren átt möguleika á að fá tækifæri í staðinn en þar sem spretthlauparinn Vardy verður fremstur manna þá er ekki víst að það væri gott að taka Gomez úr liðinu þar sem hann er líka frár á fæti.

Henderson og Wijnaldum áttu ekki sinn besta dag heldur og það kæmi ekki mjög á óvart ef að Oxlade-Chamberlain og Naby Keita fengju sénsinn. Jordan og Gini eru líklegir til að spila tvo leiki í landsleikjahléinu sem kemur í kjölfarið og því væri þetta gott tækifæri til að dreifa álaginu. Framlínan verður þó væntanlega með öflugasta móti og ekkert til sparað í sprengikraftinum.

Klopp mun hugsanlega stilla liði sínu upp á eftirfarandi máta:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Blaðamannafundir

Klopp mætti eldhress að vanda á blaðamannafund dagsins um að gera fyrir alla að renna því í gegn. Þar staðfesti hann að Matip og Shaqiri yrðu fjarri góðu gamni vegna meiðsla en að Alisson væri að nálgast leikform og kæmi jafnvel til greina á morgun.

Spakra manna spádómur

Þetta verður hörkuleikur með áhugaverða undiröldu tengdri þjálfurum liðanna og 100% byrjun heimamanna í húfi. Þó að bæði lið hafi fengið á sig fá mörk í byrjun móts þá verður eitthvað undan að láta í leik sem þessum. Mín spá er að okkur takist ekki að halda hreinu en munum hafa nægileg gæði í framlínunni til að þenja netmöskvana oftar en mótherjinn.

Lokaniðurstaða verður 3-1 að mati pistlahöfundar og munu Mané, Salah og Keita sjá um markaskorun.

YNWA

Leikurinn hefst klukkan 14:00 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.

8 Comments

 1. 2-0.. það væri sannfærandi..
  Ég hef smá áhyggjur eftir síðasta leik.. en þetta verður vonandi allt í góðu samt.

  Dijk verður að berja vörnina saman hvort sem það verður Gomes eða Lövren..
  Og vá.. hann Henderson var mikið slappur í síðasta leik verð ég nú bara að segja..
  Mætti alveg gefa honum frí á morgun..

  1
 2. Eg skal eins og SSteinn um arid borda hatt minn og sko ef Keita og Chamberlain byrja a morgun a kostnað Henderson og Wijnaldum. Klopp er bara aldrei ad fara gera tvær breytingar a midjunni i leik sem tessum og er eg i raun ótrúlega hissa ad greinarhöfundur telji tad líklegt.

  Hvad um tad eg er buin i minni spakeppni spa okkar mönnum eins og greinarhöfundur 3-1 sigri. Eg vona ad okkar menn komi 300 prósent klárir og vinni helst sannfærandi og er ad tala um 3-0 4-1 5-2 eða eitthvað i ta áttina en tek alltaf sigur hvernig sem það verður gert.

  Geggjaður leikur á morgun og eg get ekki bedid og segi bara afram Liverpool

  6
 3. Á mjög erfitt med ad sja Ox og Keita báda i byrjunarlidinu gegn top-4 lidi. Thad væri alls ekki i takt vid fyrri starting XI hja Klopp fyrir svona leiki. Thessi uppstilling væri i besta falli glæfraleg og vanvirding vid Leicester. Auk thess thurfa Liverpool ad fara thetta radirnar betur eftir sidustu leiki og thvi er thetta aldrei ad fara lita svona ut.

  1
 4. Þurfum við ekki að bjarga Son frá þessu sökkvandi Spurs liði? 🙂
  Fullkominn leikmaður fyrir okkur

  3
 5. Þetta verður hörkuleikur tveggja sterkra liða! Vonandi vinnum við þetta og markatalan skiptir mig engu máli, ég vil bara þrjú stig!

  Núna verður Pochettino leystur undan samningi sínum, þetta gengur ekki lengur hjá spurs, þó svo að okkur sé skemmt.

Liverpool 4 – 3 RB Salzburg

Liðið gegn Leicester