Salzburg mætir á Evrópukvöld á Anfield

 

Á morgun mun Liverpool mæta Red Bull Salzburg í fyrsta sinn í sögu félaganna. Salzburg kemur inn í leikinn eftir að hafa unnið Genk 6-2 í fyrstu umferð meðan við töpuðum 2-0 gegn Napoli og er því gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið en Salzburg gæti sett mikla pressu á okkur ef þeir ná stigi eða stigum úr þessum leik.

Andstæðingarnir

Salzburgar liðið var stofnað 1933 undir merkinu SV Austria Salzburg en var ávallt í skugga Vínar liðanna sem skiptu á milli sín titlunum í Austurríki, fyrir utan fáein skipti þar sem titillinn fór til Innsbruck. Það var ekki fyrr en 1994 sem Salzburg vann sinn fyrsta deildartitill, þá undir nafninu SV Casino Salzburg. Ári sienna tóku þeir þátt í Meistaradeildinni í fyrsta sinn og komust þá í riðlakeppnina en féllu úr leik eftir að lenda í 3.sæti á eftir Ajax og AC Milan, liðunum sem kepptu úrslitaleikinn það árið í keppninni. Saga félagsins breyttist svo 6. apríl 2005 þegar orkudrykkja framleiðandinn Red Bull keypti liðið. Þeir breyttu litum félagsins í sinn hvíta og rauða lit, hönnuðu nýtt merki og til að byrja með tilkynntu þeir að þetta væri nýtt lið með enga sögu á bakvið sig en þurftu að hverfa frá þeim hugmyndum eftir þrýsting frá austurríska knattspyrnusambandinu. Þetta reitti mikið af stuðningsmönnum félagsins til reiði sem voru óánægðir með meðferðina á félaginu sínu og klauf það aðdáendur í tvo hópa annar kallaður þeir “rauð-hvítu” sem voru spenntir fyrir nýjum tímum og settust í Red Bull lestina og þeir “fjólublá-hvítu” sem vildu halda í hefðir klúbbins og neituðu að styðja nýja liðið sem endaði með því að annað lið var stofnað í borginni undir merkjum SV Austria Salzburg sem spilar nú í Salzburger Liga sem er landshlutaskipt fjórða efsta deildin í Austurríki.

MRed Bull veitir vængi og í Salzburg var það fyrsta sem þeir gerðu var að ráða Giovanni Trapattoni sem þjálfara og ári seinna urðu þeir meistarar og hafa unnið þann titil tíu sinnum síðan Red Bull keypti liðið fyrir fjórtán árum síðan. Í ár eru þeir hinsvegar í fyrsta sinn í riðlakeppni Meistaradeildar síðan þeir unnu sinn fyrsta deildartitil. Þeir eru þó engir muggar þegar kemur að Evrópukeppnum og síðustu tvö ár hafa þeir gert vel í Evrópudeildinni. í fyrra komust þeir í sextán liða úrslit þar sem þeir féllu úr leik fyrir vinum okkar í Napoli samanlagt 3-4 og ári fyrr komust þeir alla leið í undanúrslit þar sem þeir féllu úr leik í framlengdum leik gegn Marseille eftir að hafa slegið út Lazio, Dortmund og Sociedad.

Þjálfari liðsins er Bandaríkjamaðurinn Jesse Marsch sem Red Bull men binda miklar vonir við en hann var fenginn til að taka við New York Red Bulls árið 2015 og gerði þá að meisturum á fyrsta ári og var valinn þjálfari ársins en var svo fluttur yfir til Red Bull Leipzig árið 2018 til að aðstoða Ralf Rangnick og gerði tveggja ára samning og átti að aðstoða Nagelsmann en þegar Monchengladbach réð þjálfara Salzburgar í sumar fékk hann tækifæri á að færa sig þar yfir sem aðalþjálfari. Hann varð í síðustu umferð fyrsti bandaríski þjálfarinn til að þjálfa í Meistaradeildinni.

Salzburg hefur unnið með þá stefnu að fá unga leikmenn ódýrt til félagsins sem sanna sig síðan í austurrísku deildinni og eru síðan seldir annað með hagnaði eða fara yfir til Leipzig til að sanna sig í enn stærri deild og hefur Liverpool verið eitt þeirra liða sem hefur grætt á þessari stefnu en tveir núverandi leikmenn Liverpool fóru í gegnum þennan skóla. Sadio Mané fór frá Salzburg til Southampton áður en hann kom til okkar á meðan Naby Keita spilaði fyrir bæði Red Bull liðin. Einnig höfum við átt mann sem fór í hina áttina en ungverski landsliðsmarkmaðurinn Péter Gulácsi eyddi nokkrum árum í unglingaliði Liverpool og á láni her og þar áður en hann gekk til liðs við Salzburg en spilar nú hjá Leipzig. Tveir aðrir leikmenn hafa verið samningbundnir báðum liðum er markmaðurinn Alex Manninger hóf feril sinn hjá Salzburg en endaði hann hjá okkur án þess að spila leik og fyrrum ungstirnið Andé Wisdom eyddi ári á láni hjá Salzburg.

Marsch var ekki afhennt auðveldasta verkefnið í sumar því Salzburg seldi fyrir 73 milljónir evra í sumar og keypti aðeins fyrir rétt rúmar tuttugu og þar af voru fimm byrjunarliðsmenn sem yfirgáfu liðið. Hann breytti einnig leikstíl liðsins, fór frá tígulmiðjunni sem þeir notuðu í fyrra og hefur stillt upp annað hvort í 4-4-2 eða mjög sókndjörfu 3-5-2 kerfi og pressað hátt upp völlinn. Andstæðingar Salzburg hafa í vetur aðeins náð 5.21 sendingum innan eigin liðs áður en þeir rauðhvítu ná boltanum aftur að meðaltali. Það verður hinsvegar áhugavert að sjá hvernig ameríkaninn setur upp í sínum fyrsta leik gegn liði sem er sterkara en hans á pappírnum.

Salzburg, eins og áður kom fram leggur áherslu á ungu strákana og það eru nokkrir áhugaverðir innan þeirra raða. Stærsta nafnið í dag er líklega hinn 19 ára norðmaður Erling Braut Håland sonur Alf-Inge en hann var keyptur fyrir ári síðan en kláraði tímabilið með Molde áður en hann kom, sá og sigraði austurrísku deildina. Hann hefur skorað sautján mörk í tíu leikjum á tímabilinu og verður líklega seldur fyrir haug af peningum eftir tímabilið. Hann er hinsvegar með einhverja flensu strákurinn og verður hugsanlega ekki með á morgun.

Næstur er vonarstjarna Ungverja, Dominik Szoboszlai, en hann á að verða arftaki Balázs Dzsudzák sem þeirra helsta stjarna. Hann fór mjög ungur til Austurríki þar sem hann samdi við FC Lifering sem er nokkurskonar uppeldisstöð fyrir Salzburg og spila í næstefstu deild. Hann spilaði þar í eitt og háft ár áður en hann flutti sig yfir til Salzburg. Hann er uppalinn sem tía en hefur spilað mest úti vinstra megin í ár og hefur honum verið líkt við Milinkovic-Savic hjá Lazio og var hann orðaður við Arsenal í sumar til að leysa Aaron Ramsey af hólmi. Þeir sem spila Football Manager kannast kannski við þennan strák þar sem hann er víst hrikalega efnilegur í síðustu tveimur leikjum.

Að lokum ætla ég að benda á varnarmanninn Maximilian Wöber 21 árs austurrískur stákur sem er uppalinn hjá Rapid Wien en hefur á sínum stutta ferli einnig spilað fyrir Ajax og Sevilla áður en Salzburg keypti hann á 12 milljónir evra í sumar sem gerir hann að dýrasta leikmanni austurrískur Bundesligunnar. Örvfættur miðvörður sem reynir að spila boltanum úr vörninni og miklar vonir bundnar við. Sagðist bara ætla að nefna þessa þrjá en bæti við franska unglingalandsliðmanninum Antoine Bernéde á miðjunni er leikmaður sem ég þekkti ekki áður en ég fór að skrifa þessa upphitun en hann kom í frá PSG og er að byrja flesta leiki inni á miðsvæðinu aðeins tvítugur.

Geri ráð fyrir að norðmaðurinn hristi af sér veikindin til að fá að spila á Anfield og þeir stilli upp sama liði og þeir gerðu gegn Genk, þó það sé alltaf möguleiki að Marsch reyni að fara með meiri varkærni inn í þennan leik.

Liverpool

Þá að okkar mönnum en það komu bæði góðar og slæmar fréttir frá æfingasvæðinu í dag því Klopp staðfesti að það væri að styttast í Alisson, þó hann væri ekki til í að gefa nákvæma tímasettningu hljómar eins og þetta sé hreinlega á næstu dögum. Hinsvegar fékk Joel Matip eitthvað högg í leiknum gegn Sheffield United um helgina og verður ekki með á morgun þannig við munum að öllum líkindum sjá Joe Gomez í vörninni.  Xherdan Shaqiri meiddist líka í síðustu viku og verður hann ekki með og Sadio Mané missti líka af æfingunni í gær en það er talið vera smávægilegt og hann verður að öllum líkindum með gegn sínum gömlu félögum.

Eftir tapið gegn Napoli í fyrstu umferð er mikilvægt að ná í sigur í þessum leik til að tryggja okkur sæti í útsláttarkeppninni sem fyrst og búa ekki til sömu dramatík fyrir loka riðlaleikinn og við gerðum í fyrra. Það verður því líklegast lítið hvílt í þessari umferð þó það sé möguleiki að Divok Origi fái leik á kostnað eins af fremstu þremur og ég gæti séð Milner fá tækifæri í byrjunarliði.

Býst við ansi sterku liði á morgun og það verði frekar skipt snemma ef við náum forrustu. Setti Milner inn fyrir fyrirliðan því ég geri ekki ráð fyrir að Hendo fái þrjá leiki á einni viku og eigum erfiðan leik um helgina. Langaði að setja Origi inn en sé Klopp ekki hvíla fremstu þrjá nema að Mané sé ekki jafn heill og ég geri ráð fyrir.

Spádómur

Ég held að Liverpool sé of stór biti fyrir frískt lið Salzburgar, þó ég sé að verða hrifnari og hrifnari af liðinu eftir því sem ég kynni mér þá betur. Við erum hreinlega með hrikalega sterkt og professional lið og það er erfitt fyrir mig að sjá Liverpool mæta í svona leik og vanmeta andstæðingin sem væri mjög auðvelt í svona leik og margir stuðningmenn munu líklega gera. Spáin er því 2-0 sigur þar sem Salah setur eitt og Joe Gomez skori sitt fyrsta mark á ferlinum!

YNWA

8 Comments

 1. Ég er á því að menn eru farnir að taka þessum geðveiku upphitunum sem sjálfsögðum hlut.
  Ég segi bara takk fyrir mig.

  2-0 sigur og spái því að Gomez, Origi og Milner byrja allir inná.

  10
 2. Já ég er sammála og það gildir það sama um gengið hjá okkar mönnum. Sumir eru bara reiðir og pirraðir ef við vinnum ekki alla leiki í fyrri hálfleik.

  Pochettino rekinn í kvöld?

  2
 3. Mjög flott upphitun, fróðleikur að venju.
  Ég vona að Klopp breyti liðinu eitthvað og væri jafnvel til í að sjá bæði Gomez og Lovren koma í vörnina því að það er ljóst að meistari Van Dijk spilar ekki alla leiki og deildin ætti að vera í forgangi og við eigum flotta miðverði sem hafa ekki verið að spila.
  Gefa Naby Keita sénsinn á morgun og Origi líka.

  4
 4. Eins og ég sé þetta þá er möst að vinna þessa úrvalsdeild. Meistaradeildin er bara bónus bikar núna og finnst sjálfsagt mál að halda allri dramatík í hámarki en þó eingöngu í þeirri keppni.

  Þetta fer 4-3 eftir að við lendum 2-0 undir. Braut skorar bæði mörkin og verður kominn í liverpool búning í janúar. Lendum svo í basli alla þessa meistaradeild áður en við tökum þann titil líka.

  3
 5. Takk fyrir þessa fínu upphitun. Vona að Klopp hvíli einhverja lykilmenn, Hendo, Mane, Matip (meiddur) , VvD, Robertson og jafnvel fleiri. Eins og einhverntímann hefur verið sagt er eitt lið ekki bara 11 menn heldur amk 16-18 menn sem þurfa alltaf að vera klárir. Deildin verður þar fyrir utan að vera í forgangi og númer eitt. Satt best að segja hef ég líka meiri áhuga á FA bikarnum í vetur heldur en CL bikar.

  2
 6. Menn kannski aðeins að fara framúr ser og vilja hvila ansi marga, tetta Salzburg lid virðist nokkud gott med einn heitasta framherja Evrópu og tap i tessum leik setur okkur i mjög erfid mal og jafnvel veseni ad fara uppúr riðlinum. Klopp held eg er alltaf ad fara spila sinu sterkasta lidi, hvilir kannski 2 sidan um helgina en ekki meira held eg.

  Eg vill vinna tessa keppni aftur og tott eg vilji frekar vinna deildina ta erum vid lid til ad fara all in i tessa keppni lika og eg held Klopp geri tad.

  Spai öruggum 3-0 sigri, Mane og Salah hvorugur skorað i síðustu tveimur leikjum og skora hundrað prosent báðir i tessum leik ásamt Firmino.

  3
 7. Það er ekki hægt að tala um að vera með lið til að vinna allar keppnir en ætla svo að spila á sömu leikmönnunum allt tímabilið.
  Ef það á að fara langt þá á einmitt að vera skynsamur og nota hópinn.
  Það er ekki eins og restin af liðinu se eittvað rusl Keita, Origi, Lovren, Gomez, Oxlade og Milner mættu spila þennan leik

  2
 8. Frábær upphitun Hannes, ekki síst í ljósi þess að hún var unnin með svona sólarhrings fyrirvara 🙂

  Áhugavert lið og project hjá Red Bull þó ekki sé maður mjög spenntur fyrir þessu og skil vel ef þetta lið er ekki vel liðið í heimalandinu. Rosaleg leikmannavelta hjá þeim en akkurat stærð af liði sem getur keypt unga leikmenn fyrir töluverðar fjárhæðir og gefið þeim alvöru spilatíma og þannig hækkað þá fáránlega í verði. Mané er þeirra mesta succsess saga hingað til og vonandi fylgir Keita því eftir. Fá vonandi báðir þennan leik.

  Spáði 4-2 í podcastinu, þetta verður allt annað en létt, gengi þeirra í Europa League sýnir að þeir geta alveg unnið stóru liðinu og stemmingin fyrir því að mæta Evrópumeisturunum er svakaleg.

  1

Sheffield United 0 – 1 Liverpool

Gullkastið – Fallegur ljótur sigur