Sheffield United 0 – 1 Liverpool

Mörkin

0-1 Wijnaldum (70. mín)

Gangur leiksins

Þetta var líklega versta frammistaða liðsins á þessari leiktíð, og telst þá tapið í Napoli með. Afskaplega fáir leikmenn voru að sýna þann leik sem við vitum að þeir geta sýnt. Sérstaklega þá fremstu þrír, sem fóru á köflum afskaplega illa með færi sem hefðu verið afgreidd í netið flesta aðra daga. Þar fór Mané fremstur í flokki, hann komst einn í gegn eftir góða sendingu frá Virgil um miðjan fyrri hálfleik en átti bara virkilega lélegt skot sem hitti ekki rammann. Þá fékk hann tækifæri til að bæta fyrir þetta nokkru síðar þegar skyndisókn endaði á því að Salah gaf á Firmino sem gaf á Mané dauðafrían á vinstra markteigshorninu, en hann setti boltann í stöng. Sheffield fengu líka sín færi en voru ekki heldur á skotskónum.

Maður skyldi ætla að Klopp hafi talað vel yfir hausamótunum á sínum mönnum í hálfleik, en það var svosem ekki að sjá á spilamennskunni í seinni hálfleik. Þegar 20 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik kom fyrsta skiptingin, Origi kom inná í stað Henderson. Og jafnvel þó svo að Origi sé líklega ekki hæfileikaríkasti eða sterkasti leikmaðurinn sem við höfum yfir að ráða, þá á hann það alveg til að eiga þátt í því að snúa leikjum okkur í hag. Sú varð enda raunin í þetta skiptið sömuleiðis, því á 70. mínútu fékk hann boltann vinstra megin við teiginn, sendi góða sendingu fyrir, hún var skölluð frá en beint í lappirnar á Wijnaldum sem var við vítateigslínuna og þrumaði á markið. Reyndar beint á markvörðinn, Dean Henderson sem er hjá Sunderland Sheffield í láni frá öðru United liði frá Manchester. Sá hefði átt að verja þetta skot en boltinn skoppaði aðeins og var sjálfsagt í erfiðari kantinum, a.m.k. missti hann boltann undir sig og hann beinlínis lak í netið. Wijnaldum kann semsagt alveg að skora, og gerir það gjarnan á mikilvægum augnablikum, því þetta var fyrsta markið hans síðan hann skoraði tvö gegn Barcelona í mjög svo tilteknum leik núna í vor. Þetta var jafnframt fyrsta markið sem kemur frá miðjumanni núna á leiktíðinni í deildinni.

Það komu vissulega upp fleiri atvik í seinni hálfleik sem hefðu getað breytt úrslitunum. Mané var felldur í teignum, og hefði alltaf átt að fá víti. Í raun óskiljanlegt af hverju þetta var ekki skoðað betur með VAR. Salah komst aleinn í gegn en lét verja frá sér. Þá fengu Sheffield menn líka sín dauðafæri, þar af eitt þar sem einn þeirra manna slapp dauðafrír í gegn en setti boltann yfir.

Milner og Ox komu svo inná þegar skammt var eftir, en hvorugur setti neitt áberandi mark sitt á leikinn.

Það var a.m.k. talsvert fagnaðarefni þegar dómarinn flautaði til leiksloka eftir 4 uppbótarmínútur. 3 stig í höfn, líklega tæpasti sigurinn af þessum 7 sigrum sem komið hafa í deildinni á þessari leiktíð.

Hvernig voru menn að standa sig?

Eins og komið hefur fram voru fáir að eiga neitt sérstaklega góðan dag. Adrian var þó nokkuð öruggur í öllum sínum aðgerðum. Fabinho var öflugur á miðjunni, og Virgil van Dijk sömuleiðis, og fær nafnbótina maður leiksins að þessu sinni. Hins vegar voru margir að eiga dapran dag, í raun var enginn af fremstu þremur að finna sig. Annaðhvort voru þeir að klúðra þeim færum sem þeir fengu, eða þá bara lítt sýnilegir. Í raun getum við verið mjög þakklát fyrir að hafa unnið leik þar sem allir 3 fremstu manna áttu dapran dag.

Umræðan eftir leik

Sjö sigrar í sjö leikjum er nú bara hreint ekki svo slæmt. Þetta er n.b. í annað sinn í sögu félagsins sem þetta gerist (1990-1991), og einnig í annað sinn í sögu úrvalsdeildarinnar (Chelsea 2005-2006) sem þetta gerist. Liðið er núna komið með 16 sigurleiki í röð, metið eiga City menn en þeir náðu 18 leikjum síðasta haust. Ég held að Klopp sé svona hérumbil alveg nákvæmlega sama um svoleiðis met, hann er fyrst og fremst að hugsa um að hala inn stigum. En þar sem stigasöfnun og met yfir flesta sigurleiki í röð fara ágætlega saman þá þætti okkur nú ekkert leiðinlegt að slá metið, eða hvað? Já og ef við skoðum stigasöfnunina yfir síðustu 38 leiki, þá hefur liðið halað inn 99 stigum í þeim leikjum, sem er félagsmet.

Framundan eru svo tveir erfiðir leikir: RB Salzburg á miðvikudaginn, og næsta laugardag kemur Brendan Rodgers í heimsókn með Leicester. Báðir leikirnir eru reyndar á heimavelli, sem er mjög jákvætt. En alveg ljóst að báðir leikirnir vera erfiðir, Salzburg eru búnir að vera á mikilli siglingu og mæta með ungstirnið Erling Braut Håland sem er búinn að skora eins og enginn sé morgundagurinn á síðustu vikum og mánuðum. Þá eru Leicester menn á góðri siglingu, og ef við skoðum deildartöfluna síðustu 19 leiki eða síðan Brendan tók við, þá eru þeir í þriðja sæti á eftir okkar mönnum og City. Þeir hafa lítið saknað Maguire í vörninni, sem sést á því að þau lið sem hafa fengið fæst mörk á sig í deildinni í vetur eru Liverpool og Leicester með 5 mörk hvort félag. BR mun sjálfsagt ekkert leiðast það neitt ef honum tekst að stöðva sigurgöngu síns gamla félags, en við vonum að það gangi ekki eftir.

Núna seinna í dag munu svo Everton tapa fyrir City á Goodison Park, svo 8 stiga forystan sem við erum með núna verður komin aftur niður í 5 stig í lok dags.

En gleðjumst yfir því að enn eina umferðina er Liverpool á toppi deildarinnar!

29 Comments

 1. Ljótu sigrarnir telja jafn mikið og bestu liðin vinna svoleiðis annað slagið, Ferguson stundaði þetta td. Eg er alsæll með þetta og þakka Man Utd fyrir að hafa lánað Sheffield þennann meistara sem stendur i markinu hja þeim og færði okkur þennan sigur.

  Maður fer vel sáttur inni þennan dag.

  16
 2. Það er ekki oft sem maður getur sagt að Henderson tryggði okku sigurinn??

  14
 3. Þessi sigrar eru extra sætir þegar liðið er ekki alveg að ná sér á strik en ná samt í 3 stig.

  Menn voru alveg að leggja sig 100% fram í dag en af einhverjum ástæðum þá náðum við ekki merkilegum leik en þáttur heimamanna spilar auðvita stórt hlutverk í því en þeir voru með 11 manna varnarpakka og voru hættulegir þegar þeir keyrðu á okkur.
  Varnarlega vorum við nokkuð traustir en við þurftum að kasta okkur fyrir nokkra bolta í leiknum og gerðum það vel en þeir fengu ekki mörg færi í leiknum.
  Sóknarmenn okkar hafa oft leikið betur en bæði Salah/Mane fengu dauðafæri til að skora en inn vildi boltinn ekki.

  Dijk maður leiksins fyrir mér en það var gaman að sjá Origi koma sterkan inná af bekknum og sú skipting að láta Firmino fremstan á miðjuni skilaði sér í meiri ógn.

  Trent átti skelfilegan leik í dag og held ég að hann hafi átt fleiri lélegar sendingar í þessum eina leik heldur öllum hinum til samans á tímabilinu.

  3 stig eftir heppnismark, gefa jafn mikið og 3 stig eftir stórsigur = Svo að maður er bara mjög sáttur

  YNWA

  P.s Mjög kaldhæðnislegt að sjá okkur gultspjald fyrir leiktöf þegar heimamenn gerðu þetta nánast allan leikinn þangað til að þeir lentu undir.

  11
 4. Jedúddamía, ég var að hugsa eftir ca klukkutíma leik að það þyrfti að skipta út Winjaldum. Eins gott að Klopp er ekki að lesa mínar hugsanir.

  6
 5. Völlurinn var líka mjög slæmur þó það sé engin afsökun þá var það staðreynd var alls ekki að hjálpa menn voru að renna útum að allann völl.
  Feginn að engin meiðsli urðu aðalega eftir þennan leik svo best sem maður veit þaes.
  Er sáttur við stiginn 3!

  4
 6. Sigur er sigur og 3 stig, samtals 21 stig er staðreynd, um það sníst þetta. Það má alveg segja að þessi sigur hafi verið eins og slæmt harðlífi, sér í lagi þegar pésarnir okkar klikka á dauðafærum, en í sigri þá reitir maður ekkert hár sitt, við göngum öll kát til næsta verkefnis RB Salzburg.

  YNWA

  2
 7. Flottur en erfiður sigur. Þetta sheffield lið á örugglega eftir að slíta inn nokkur stig í vetur. Velskipulagðir og með fína liðsheild. Tökum þessi þrjú stig allan daginn. “Keep on rocking” Þetta lítur vel út það sem komið er í það minnsta.

  2
 8. Fannst ykkur þetta ekki fallegur sigur? Ég er að kafna úr gleði og ást yfir þessu liði okkar!

  WWWWWWWWWWWWWWWW

  18
 9. þetta var ekkert annað en meistara heppni! núna hef éf fulla trú að við verðum loks meistarar og Manudt menn munu hætta að rífa kjaft 🙂 koma svo!!!!

  4
 10. Sterkur útisigur gegn fínu baráttuliði. Man City tapaði nú stigum á útivelli gegn nýliðum. Bara njóta þess í nokkra klukkutíma að vera á toppnum með 8 stiga forskot eða þangað til að City slátrar varaliði Everton. Að venju hlýtur Everton að þurfa hvíla lykilleikmenn gegn City. Búið að vera hrikalegt leikjaálag á bláliðum.

  6
 11. City eru að fara taka létt æfinga prógram gegn ömurlegu liði Everton.

  3
 12. Yndislegt! Er í vinnutörn og svaf af mér leikinn, fátt fallegra en að sjá 0-1 sem lokaniðurstöðu. Kannski var þetta leikurinn til að sofa af sér. 21 stig, fólk. Meiriháttar.

  3
 13. Sammála leikskýrslunni. Þessi leikur var lélegur og Liverpool sýndi ekki sitt rétta andlit. Það var of mikið af svæðum að skapast fyrir aftan bakverðina og ég er á því a’ Sheffield hefði getað nýtt sér það betur ef þeir hefðu vængmenn sem búa yfir meiri gæðum. Í hreinskilni sagt fannst mér Sheffield oft á tíðum betra liðið á vellinum, þó Liverpool hafi skapað hættulegri færi. En það er eitthvað við seigluna í leik LIverpool sem gefur af sér heppni. Það getur varla talist tilviljiun að sigrar uppskerast sökum glapræða hjá andstæðingnum. Það hlýtur að hafa eitthvað með spilamennsku Liverpool að gera. Þessi stöðuga pressa úr öllum áttum, kallar á að andstæðingurinn gerir mistök.

  Mér finnst Sheffield vera gott lið og er á því að þeir verði um miðja deild, jafnvel ofar. Það eru einhver gæði í liðinu sem ég kom ekki alveg auga á. Leikmenn sem fara líklega til stærri liða á næstu árum. . Ég held að mörg önnur lið lendi í vandræðum í viðreignum við þá í vetur og af þessum leik að dæma geta þeir náð stigum gegn nánast hvaða liði sem er í deildinni.

  En vonandi nýttist þessi vikuhvíld vel því framundan er leikur í meistaradeildinni og síðan leikur gegn Leicester sem verður aldrei auðveldur viðfangs.

  2
 14. Við vinnum leiki þegar við erum lélegir og rústum leikjum þegar við erum góður. Það er uppskrift að titlum.

  7
 15. Þetta loð okkar er magnað. Bara að njóta í botn á meðan hægt er og veita svo stuðning þegar á þarf að halda.

  1
 16. Massív hamingja yfir þremur stigum í húsi!

  Þvílíkt bananahýði, ég hélt bara að við ætluðum að tapa þessum leik. Fjúff!

 17. Allir sigrar eru fallegir, töpin eru ljót. Ef við vinnum alla næstu leiki svona þá verðum við meistarar.
  S. United voru bara ekki svo slæmir. Það var svolítið merkilegt að allir byrjunarliðs menn hjá þeim, voru Skotar, Írar og Bretar. Örugglega alveg eins dæmi. Ekki einn “útlendingur”.
  Þessi sigur gefur líka 3 stig.

  Áfram Liverpool.

  4
 18. Dýrasti varnamaður heims að gera þvílík byrjendamistök bara frábært.

  YNWA.

  1
 19. Við trónum á toppnum eins og engill með jólatré í afturendanum… Svo eru mahú í 10.sæti og neverton í því 15.

  Ekki klípa mig, vil ekki vakna upp frá þessum draumi!

  7
 20. Matip meiddur ekki vitað hversu lengi ekki gott búinn að vera einn af bestu mönnum liðsins undanfarið.
  Kemur manni samt ekkert á óvart að menn hafi meiðst eftir að spila í þessum glórulausu aðstæðum á móti Sheffield.
  Jæja þá kemur vonandi Gomez sterkur inn á móti Salzburg áfram gakk!

  1

Liðið gegn Sheffield

Salzburg mætir á Evrópukvöld á Anfield