Upphitun: Milton Keynes Dons í deildarbikarnum

Liverpool hefur oftast allra engilsaxneskra hampað deildarbikarnum eða 8 sinnum og gildir þá einu við hvaða drykk sá bikar hefur verið kenndur það skiptið. Þessi misserin er það hinn tælenski orkudrykkur Caraboa sem styður heilshugar við bakið á Mjólkurbikarnum forna. Nafngiftin ku vísa til vatnabuffala þar í landi eins og hin hornfagra hauskúpa gefur til kynna. Núverandi bikarhafar eru hið illa ofurolíuveldi Man. City og hafa þeir unnið bikarinn fjórum sinnum síðan 2014.

Mótherjinn

Andstæðingurinn sem Rauði herinn dró upp úr hattinum er League One liðið Milton Keynes Dons FC en það lið kennir sig samnefnt bæjarfélag í Buckingham-skíri sem er staðsett norðvestur af London eða 23 mílna steinsnar frá Luton. Dons nafngiftin er að sjálfsögðu dreginn af nafni Wimbledon en fyrir þá sem gráta það klikkaða gengi var sú yfirtaka og gengisfall norskættuð harmsaga af hæstu gráðu. MK Dons er stofnað 2004 og hafa sveiflast milli neðri deildanna en oftast nær verið í þeirri þriðju efstu sem þeir komust uppí að nýju síðasta vor.

Heimavöllurinn MK Dons Stadium

Tölfræði í viðureignum liðsins við Liverpool er eitt stórt núll á alla kanta þar sem að þau hafa aldrei mæst í keppnisleik. Það verður því um tímamótaleik að ræða er þau leiða saman hesta sína á hinum 30 þúsund sæta Stadium MK. Eini snefill af beinum tengslum þeirra í milli eru kaup Liverpool á markverðinum David Martin sem kom 20 ára gamall til Anfield í janúar 2006 fyrir 250 þús.pund. Pilturinn sá spilaði þó aldrei fyrir LFC en sat reyndar í 19 skipti á varamannabekknum án þess að þörf væri fyrir hans innkomu og snéri hann aftur til MK Dons á frjálsri sölu árið 2010.

Óbeinni tengslin er ögn fleiri en Didi Hamann er stærsta nafnið sem verið hefur hjá báðum klúbbum og er keisarinn þar í hópi með mörgum vonarstjörnum sem voru öflugri í Championship Manager heldur en raunheimum. Liverpool komst einnig hársbreidd frá því að kaupa frægasta uppalda leikmann MK Dons en Delle Alli var sérlega mikill aðdáandi Steven Gerrard og hitti Brendan Rodgers eftir rúnt um Melwood en örlögin atvikuðust þannig að hann endaði hjá Spurs í staðinn.

Keisarinn og krakkarnir

Sem nýliðar í deildinni hafa MK Dons byrjað tímabilið ágætlega og eru um miðja deild í 12.sæti. Þeir hafa unnið 4 leiki, tapað 5 en ekkert jafntefli gert þannig að þeir eru afdráttarlausir í aðra hvora áttina í úrslitum. Markaskorun hefur verið hógvær með 11 skoruð í 9 leikjum en 13 fengin á sig þannig að töflureiknirinn sýnir neikvætt markahlutfall upp á tvö mörk í mínus.

Þrátt fyrir að vera besserwisser í hæsta gæðaflokki þá ætla ég ekki að gera tilraun til að vita mikil deili á leikmannahóp MK Dons og engin nöfn þar stökkva upp af blaðinu. Þó má upplýsa að velski framherjinn Rhys Healey hefur byrjað tímabilið vel með 2 mörkum og 2 stoðsendingum en hann kom frá Cardiff í sumar eftir að hafa spila sáralitla rullu þar á bæ með Aron Einar og co. í fyrra. Þá var miðjumaðurinn Alex Gilbey valinn leikmaður ársins hjá klúbbnum á síðasta tímabili og framherjinn Kieran Agard kosinn bestur af liðsmönnum sínum með sín 22 mörk.

Leikkerfið 3-4-1-2 hefur verið notað í byrjun móts en það er spurning hvort að það breytist í 5 manna varnarlínu gegn stórliðinu frá Bítlaborginni og framherjum verði fækkað á kostnað fagurfræðinnar. Besti stjóri ársins hjá FIFA og í raun besti stjóri alheimsins mun því hafa gaman af því að taka taktíska refskák við Paul Tisdale framkvæmdarstjóra heimamanna. Hinn 46 ára Maltverji hefur stýrt MK Dons með góðum árangri frá því að hann tók við þeim í fyrra en þar áður stýrði hann Exeter City í heil 12 ár og Team Bath í 5 ár.

Liverpool

Pep Lijnders aðstoðarknattspyrnustjóri sá um blaðamannafundinn í dag í aðdraganda leiksins og hafði margt áhugavert að segja varðandi hugsanlega liðsuppstillingu annað kvöld.

Á blaðamannafundinum hrósaði Pep innkomu Harvey Elliot á meistaraflokksæfingar í hástert og þau fögru orð auka líkurnar á að hann fái margar mínútur í leiknum. Þá þykja ungstirnin Ki-Jana Hoever, Curtis Jones, Rhian Brewster, Yasser Larouci og markvörðurinn Caoimhin Kelleher líklegir til að spila með frá byrjun í bland við reyndari bekkjarsetumenn. Naby Keita er einnig orðinn heill heilsu og líklegur til að spila en Shaqiri og Origi verða væntanlega fjarri góðu gamni í leik sem þeir hefðu pottþétt viljað spila frá byrjun.

Byrjunarliðið gæti því verið eftirfarandi og sérlega spennandi blanda af reynslu og ungum efnilegheitum:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

 

Spakra manna spádómur

Ég hef óvenju mikla trú á þeim leikmönnum sem munu spila leikinn og tel að allir verði gríðarlega vel mótíveraðir til að sanna sig af mismunandi ástæðum. Þó að uppstillingin hefði getað verið klippt út úr leik á æfingartímabilinu þá er að mínu mati nógu mikil gæði til að sprengja andstæðinginn í tætlur og vel það. Spá upphitunarhöfundar er því að Liverpool sigri 0-4 í markaleik og að mörkin muni dreifast jafnt á Brewster, Elliott, Lovren og Lallana.

Við viljum endilega heyra ykkar spá á niðurstöðu leiksins bæði í neðangreindri könnun og einnig tölulegri nákvæmni í kommentakerfinu.

Hvernig fer leikurinn gegn MK Dons?

Skoða niðurstöður.

Loading ... Loading ...

YNWA

7 Comments

 1. Akkurat liðið sem ég myndi vilja sjá nema að ég myndi vilja halda Adrian í markinu, Alisson fer að koma til baka og því ekkert að þvi að leyfa honum að halda sætinu sínu.
  Fúlt að Shaqiri skuli hafa meiðst og missa af þessum leik en það verður flott ef að Naby Keita fær að byrja, það er svo sannarlega komin tími á hann.
  Ég spái þessu 0-3.

  Svo þá kannski bæta því við að spurs voru að detta út í kvöld.

  4
 2. Lijnders hefur greinilega unnið mikið og náið með Klopp, ég meina hann segir það sama er afslappaður og drekkur meira að segja úr vatnsflöskunni eins og Klopp.

  5
 3. Sammála liðinu að flestu leyti þó ég vilji ekki að Keita, nýkominn úr meiðslum, verði hent beint á misgóðan völlinn með froðufellandi league one tudda tilbúna í alvöru baráttu. Frekar að Keita fái 20 til 30 min og komi inná fyrir AOC sem byrjar. Hvað með þennan Glatzel, er hann ekki líklegri en Jones að byrja?

  • Glatzel er meiddur, og verður frá í einhverja mánuði eftir að hafa meiðst snemma á undirbúningstímabilinu.

   1

Klopp og Alisson bestir í sínu fagi hjá FIFA

Gullkastið – Þetta eru allt bananahýði!