Napoli – Liverpool 2-0

SEXFALDIR Evrópumeistarar Liverpool heimsóttu Napoli í kvöld í fyrsta leik liðsins í CL þetta árið og gerði Klopp þrjár breytingar á liðinu sem sigraði Newcastle á laugardaginn, Milner og Henderson komu inn á miðjuna í stað Gini og Ox og Firmino tók sér stað á milli Salah og Mané eins og við var búist.

Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega en það var Napoli sem átti fyrsta alvöru færið á 7 mínútu leiksins þegar Adrian varði vel skot fyrir utan teig, hann varði einnig frákastið en frákast númer tvö hafnaði í netinu en var réttilega dæmt af vegna rangstöðu – sluppum með skrekkinn þar.

Eftir 20 mínútur fékk Mané ágætis færi eftir að Liverpool vann boltann ofarlega á vellinum, Milner sendi boltann á Mané sem skaut beint á Marent úr þröngu færi.

Leikurinn var nokkuð jafn þó svo að mér hafi þótt Napoli vera líklegra í sínum sóknaraðgerðum en Fabinho virkaði sem klónaður þarna fyrstu 45 mínúturnar, var gjörsamlega út um allt!

Liverpool átti flotta skyndisókn á 43 mínútu en sending Milner á Salah, sem var aleinn á fjærstöng, var bjargað naumlega í horn. Úr horninu kom svo okkar besta færi. Hornspyrnan var tekin stutt á Milner sem sendi góðan bolta á Firmino sem átti skalla í stöng!

Annars var þetta ágætis hálfleikur, ekki mikið um færi en leikurinn nokkuð jafn og bæði lið fengið nokkur hálffæri. Frammistaða Liverpool mikið mun betri en hún var á sama tíma í fyrra, reyndar þurfti ekki mikið til.

0-0 í hálfleik og allt í járnum.

Síðari hálfleikur

Heimamenn komu mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleik. Strax á 49 mínútu kom besta færi leiksins og guð minn góður, Adrian! Heimamenn teygðu vel á vörn okkar manna sem skilaði sér í frábærri fyrirgjöf yfir Virgil og beint á Mertens á fjærstöng en skot hans var frábærlega varið af Adrian í marki Liverpool sem bjargaði klárlega marki þarna!

Mané komst inn í sendingu fimm mínútum síðar og skyndilega voru gestirnir komnir í tveir á móti einum en Manolas spilaði þetta vel, lokaði á Salah og þröngvaði Mané í þrönga stöðu og lélega sendingu. Gullið tækifæri, staða sem við nýtum okkur oftar en ekki.

Á 64 mínútu fékk Salah sitt besta færi, Koulibaly skallaði boltann úr teignum en Manolas “kiggsaði” boltann sem barst á þann egypska en Meret varði skot hans vel í horn.

Heimamenn fengu vítaspyrnu á 79 mínútu þegar Robertson var dæmdur brotlegur. Ég er ekki alveg seldur á að þetta hafi verið vítaspyrna en Robertson bauð uppá þetta með slökum varnarleik. Upp steig Mertens, Adrian var í boltanum en varði hann í hliðarnetið, 1-0. Svekkjandi.

Liverpool pressaði eftir þetta og reyndu hvað þeir gátu án þess að skapa sér mikið. Ekki nóg með það heldur fengu þeir annað mark í andlitið eftir mistök í öftustu línu, sending Virgil á Robertson rataði á Llorente sem skoraði auðveldlega einn gegn Adrian, 2-0 fyrir Napoli og Liverpool fer heim frá Napolí með svekkjandi tap í farteskinu annað árið í röð.

Maður leiksins

Liðið var heilt yfir ágætt, þrátt fyrir að úrslitin hafi verið slæm. Þetta er mjög erfiður völlur heim að sækja, við þekkjum það af eigin reynslu. Minn maður leiksins í kvöld er Fabinho. Brassinn var algjörlega frábær í kvöld, sérstaklega í fyrri hálfleik og var allt í öllu og út um allan völl. Eftir rólega byrjun á Liverpool ferli sínum þá hefur hann heldur betur stigið upp og er nú orðinn okkar besti miðjumaður og er erfitt að sjá þessa miðju fyrir sér án þristsins okkar.

Umræðan

 • Fabinho. Gary Neville segir hann besta aftur liggjandi miðjumann í heiminum í dag og ég held að hann sé ekki fjarri lagi. Hann er ekki bara öflugur varnarlega heldur er hann frábær í að snúa vörn í sókn þegar boltinn er unninn. Það eru ansi margir farnir að detta í flokkinn “fyrsta nafn á blað” þegar kemur að byrjunarliði og er Brassinn engin undantekning þar á!
 • Adrian. Spánverjinn hefur verið undir stækkunarglerinu eftir meiðsli Alisson og eftir að hafa gert klaufaleg mistök gegn Southampton (sem kostuðu okkur ekki stig) þá stimplaði hann sig svo sannarlega inn í dag með stórbrotinni markvörslu sem hefði átt að skila okkur amk stigi í kvöld.
 • Annað árið í röð tapar Liverpool á þessum velli. Stig þarna í kvöld hefði verið gott vegarnesti í þennan riðil, svona uppá ef við viljum ná að tryggja okkur áfram áður en kemur að loka leiknum svona eins og einu sinni. Þeir eiga þó eftir að koma á Anfield, eitthvað sem hefur ekki reynst þeim auðvelt síðustu misseri.

Næsta verkefni

Næsta verkefni er stærsta verkefni liðsins það sem af er deildarkeppnarinnar þegar við heimsækjum Chelsea á Stamford Bridge á sunnudag áður en við mætum svo MK Dons í bikarnum eftir rétt rúma viku.

21 Comments

 1. Ég fyrirgef þessa frammistöðu ef við vinnum celski á sunnudaginn 😉

  3
 2. Gott lið Napoli. Milner, Robbie og Mane áttu ekki sinn besta dag. Hef ekki áhyggjur af þessu, 3 -0 á Anfield

  3
 3. Það eru blendnar tilfiningar eftir þennan leik. Framistaðan heilt yfir var ágæt, við vorum nokkuð solid varnarlega og fengum góð færi til að skora.
  Það var kaldhæðnislegt að þegar þeir fá þetta mjög svo soft víti þar sem Andy nær að draga fótinn tilbaka áður en snerting verður þá voru það okkar menn svo voru líklegri að til að skora og voru heimamenn farnir að pakka í vörn og við stjórna leiknum.
  Svo kemur þetta mark og við förum að taka aðeins meiri áhættur og endum með að fá á okkur klaufamark í blálokinn.

  Framistaðan var ágæt(miklu betri en á síðustu leiktíð)
  Úrslitinn voru léleg
  Fabinho var frábær
  Adrian átti sína bestu markvörslu á ferlinum og var hún það góð að maður velti fyrir sér hvort að Alisson hefði varið þetta(Adrian fær ekki meira hrós)

  Það var vitað mál að þetta yrði erfiðasti leikurinn í riðlinum en góðu fréttirnar eru þær að maður er alltaf tilbúinn að tapa fyrir Napoli ef það endar eins og á síðasta tímabili.

  YNWA – Útileikur gegn Chelsea næst á dagskrá en þeir voru að tapa fyrir Valencia á heimavelli sínum í kvöld og munu koma dýrvitlausir til leiks.

  7
  • ‘Með fullri virðingu þá trúi ég ekki að þú kallir þetta “solid” frammistöðu ! ! Að fá á sig tvö mörk og skora ekki mark ! Þetta var mjög dapurt að mínu mati, og ég sá okkur ALDREI fara að vinna þennan leik.

   2
   • Klopp talar sjálfur um góða framistöðu í leiknum og hrósar strákunum. Við fengum nokkur færi til að skora úr, áttum nokkra kafla í leiknum sem við stjórnuðum miðjunni, þeir fá vafasamt víti og svo sprelli mark alveg í blálokinn. Ekki frábær leikur en solid að mínu mati þar sem við höfum oft leikið verr en þetta og fengið færri færi og endað með sigur en í dag gekk það ekki og eru það mörkin sem telja þegar upp er staðið.
    Fyrir mér þá getum við átt ekki merkilegar framistöður og góð úrslit en líka átt solid framistöðu en slæm úrslit eins og í kvöld.

    5
   • Það er ekki vænlegt til vinnings að byggja árangursmatið á niðurstöðu leikja.

 4. Held að þetta hafi verið fínt … nú heldur bara sigurgangan áfram í deildinni … fínt að losa 1 til 2 töp í þessari keppni …

  2
 5. Sæl og blessuð.

  Held þetta hafi verið skólabókardæmi um erfiðan útivöll. Áhorfendur snarvitlausir, flötin virkaði ójöfn og boltinn rann illa, leikmenn voru fremur taktlausir og náðu ekki að fullnýta góð færi. Súrt fyrir Adrian að ná ekki að bjarga stigi með heimsklassa-markvörslu.

  Fróðlegt verður að sjá hvernig málin þróast. Saltborg er sjóðheit og þeir eru til alls líklegir. Hörkuriðill!

  2
  • Þessi völlur var ekki einu sinni hálf fullur. Ég skil ekki hvernig menn hérna geta verið sáttir við svona frammistöðu. Kannski eru margir hérna bara saddir eftir einn titil ? Það gæti verið.
   Þetta var bara skítlélegt !

   3
 6. Förum nú ekki að breyta vinningsformúlunni frá því í fyrra.

  Gleymdist að tengja myndavélarnar við VAR í kvöld? Því þetta ,,ekki víti” hefði aldrei farið í gegnum þann prósess. Annarst snýst þetta um að nýta færin og það gekk ekki í gær. Ef við skorum ekki þá getum við ekki unnið en vonandi eru allir heilir eftir þetta ævintýri.

  2
 7. Eg er sallarólegur eftir þetta tap. Rúllum upp hinun liðunum. En eg vil adrei sjá Milner, Henderson og Fabinho saman a miðjunni. Þrjár alveg eins týpur sem gera ekkert annað en hliðarsendingar. Synist Milner að vera segja sitt síðasta.

  2
 8. Það er bara eitt hægt að segja um VAR í kvöld og það er einu sinni var ! Mikið vantaði upp á gæðinn hjá þessum dómara og fékk reyndar besta maður vallarins í kvöð að rífa næstum hausinn af Mané í fyrrihálfleik án þess að dæma einu sinni aukaspyrnu.. Hefðum átt að spila upp á stig og halda þessu en svona er þetta bara næsta leik takk.

  YNWA.

  3
 9. Sælir félagar

  Ekkert um þetta að segja umfram skýrsluna. Svona gerist í fótbolta og ekkert við því að gera. Dómarinn slakur og alls ekki í meistaradeildarklassa. Hefði átt að vera í bláum buningi.

  Það er nú þannig

  YNWA

  6
 10. Skulum ekki hengja haus við erum Lang efstir í deildinni fyrir mig skiptir það langmestu máli YNWA 🙂

  6
 11. Hefði getað endað verr og hefði auðveldlega getað endað betur, horfði á leikinn á Bein Sport og sá brotið sýnt oft eftir leik frá mismunandi sjónarhornum og hraða og því miður þá var þetta brot, Napoli leikmaðurinn nær að pota í boltann á undan Robertson og svo kemur snertingin. Mitt mat er víti.
  Eftirá að hyggja þá er mesta svekkelsið fyrst að við töpuðum er hvað þessi leikur var orkufrekur.

  2
  • Aldrei víti, sá bláklæddi fiskaði þetta og dómarinn beit á agnið. Svona er þetta, pínu Kane-lykt af þessu. Ef þetta hefði verið Salah þá væri jörðin búin að umpólast á tveimur klukkustundum.

   Í sjálfu sér breytir þetta tap mjög litlu varðandi framhaldið, svo framarlega sem við skilum nægilega mörgum stigum inn í box í riðlinum.

   9
 12. Leikmenn Napoli gáfu allt í þetta og náðu að loka sendingarleiðum, sérstaklega lokuðu þeir á bakverðina. Þetta tók sinn toll hjá Napoli vörninni þvi í þetta þurfti mikil hlaup og voru margir leikmenn þeirra búnir á því og komnir með krampa undir lokin. Held að mörg lið muni skoða þennan leik vel og átta sig á því hvernig snillingur eins opg Ancelotti fór að þessu. Við hefðum vissulega getað skorað en það vantaði að ljúka sendingum og sóknum almennilega, þeir köstuðu sér í allt. Þetta er hörku lið hjá Napoli og þeir eru með frábæran þjálfara, við munum samt vinna þennan riðil.

  5
 13. Þetta var bara einfaldlega einn af þessum shit happands leikjum, hef akkúrat engar áhyggjur af þessum riðli, og gott að slæmi leikurinn kom þarna.

  YNWA

  5
 14. hef engar áhyggjur af þessu, skiptir engu hvort liðið verði í 1 eða 2 sæti

  2
 15. Hef litlar áhyggjur. Þetta var samt ákveðin vakning. Miðlarnir farnir að bóka titilinn á okkur eftir 5 umferðir. Hef trú á að þetta tap losi ákveðna pressu af herðum leikmanna. Þrátt fyrir þessi tvö skítatöp síðustu vikur, erum við ótrúlegt en satt taplausir í deildinni. Trú mín er sú að það endist fram yfir Celski leikinn og að við náum a.m.k. í stig þar, janvel þrjú.

Liðið gegn Napoli – þrjár breytingar

Gullkastið – Tap í Napoli