Kvennaliðið heimsækir Tottenham

Þá er góðri helgi fyrir okkur Púlara að ljúka. Við erum að sjálfsögðu í skýjunum með að vera með 5 stiga forskot á toppi deildarinnar eftir að kanarífuglarnir hjá Norwich lögðu lærisveina Pep á Carrow Road, og sýndu vonandi hinum liðunum í deildinni hvernig á að fara að því að vinna þá ljósbláu.

U23 liðið okkar spilaði einnig í gær, andstæðingarnir voru Derby og fóru leikar 3-3. Mörkin hjá okkar piltum komu frá Dixon-Bonner, Curtis Jones setti eitt og átti almennt mjög góðan leik, og svo fékk liðið eitt mark að gjöf frá Derby. Þar að auki varði markvörður liðsins, Ben Winterbottom, eitt stykki víti, en Derby fékk svo annað víti í lok leiksins og náðu að jafna, og þóttu bæði vítin vera soft. Helsta fréttin fyrir okkur úr þessum leik er þó mögulega sú að Brewster spilaði ekki nema 15-20 mínútur en var þá tekinn út af, líklega sem undirbúningur fyrir Napoli leikinn á þriðjudaginn. Jú og svo voru þeir Sepp van De Berg og Ki-Jana Hoever í miðverðinum, áhugavert að sjá hvort planið sé að vera með hollenska varnarlínu í framtíðinni.

Núna kl. 13 að íslenskum tíma spila svo stelpurnar okkar leik nr. 2 í deildinni þegar þær heimsækja Tottenham, en Spurs eru núna að spila í fyrsta sinn í efstu deild kvennaboltans eftir að hafa komið upp um deild í vor ásamt United. Bæði lið töpuðu sínum leikjum í fyrstu umferð, en það var grannaslagur á milli Tottenham og Chelsea í fyrstu umferð í London. Það var góðkunningi okkar, Bethany England, sem skoraði eina mark leiksins fyrir Chelsea, en hún lék einmitt með okkar konum fyrir tveim árum síðan þegar hún var á láni.

Nóg um það. Það er búið að tilkynna liðið:

Preuss

Jane – Bradley-Auckland – Fahey – Robe

Rodgers – Bailey – Charles

Lawley – Sweetman-Kirk – Clarke

Bekkur: Kitching, Purfield, Hodson, Babajide, Linnett

Semsagt, sama lið og síðast. Bekkurinn aðeins þynnri, ég átta mig ekki á því af hverju Bo Kearns er ekki aftur á bekk eins og síðast, en skoski landsliðsmaðurinn Christie Murray virðist ennþá vera meidd og er hvergi sjáanleg.

Minnum á að leikurinn er sýndur hér – reyndar eins og aðrir leikir umferðarinnar í kvennaboltanum – en þó þannig að það þarf að skrá sig sem notanda á síðunni:

https://faplayer.thefa.com/home/womens-super-league

Við uppfærum svo færsluna að leik loknum með úrslitum.


Leik lokið með afskaplega pirrandi 1-0 sigri Tottenham, en þær fengu víti í uppbótartíma fyrri hálfleiks og skoruðu úr því. Um miðjan síðari hálfleik slapp svo einn leikmanna í gegn, Niamh Fahey elti hana og tók hana niður, og fékk beint rautt spjald fyrir vikið. Í reynd var leiknum lokið eftir þetta, og Preuss sá til þess að tapið yrði ekki stærra með því að verja vel ein á móti einni þegar um 10 mínútur voru eftir.

Næsti leikur liðsins er svo á móti United, og það kemur ekkert annað til greina en að berjast sem ljón í þeim leik. Vissulega mun ekki hjálpa að Fahey verður í leikbanni, enda eru hreinlega ekkert allt of margir varnarmenn leikfærir í augnablikinu.

Liverpool 3-1 Newcastle

Upphitun: Napoli á San Paolo