Newcastle á laugardaginn

Já lömbin mín, það styttist í að þetta blessaða landsleikjahlé taki enda. Þessi stund sem við Púlarar bíðum eftir með meiri eftirvæntingu en 7 ára barn bíður eftir að mega taka upp pakkana á aðfangadag. Það skal reyndar viðurkennast að þetta hlé kom á óvenju góðum tíma ef við skoðum málið út frá meiðslum Alisson, enda var ágætt að hann fengi þar með ögn lengri tíma til að ná sér í kálfanum. Ekki það að Adrian hefur svosem staðið vaktina með miklum ágætum í millitíðinni, og við vonum bara að það haldist áfram eins lengi og þörf er á. Víst er að nú tekur við talsvert leikjaálag, og því morgunljóst að það þarf allar hendur upp á dekk.

Þetta landsleikjahlé fór reyndar mun mýkri höndum um strákana okkar en oft áður. Það er ekki vitað til þess að neinn af okkar mönnum hafi komið meiddur til baka, en oft hefur það ekki verið svo gott. Meiðslalistinn er því áfram þannig að á honum eru Clyne, Keita og Alisson. (Reyndar hefur Alison Becker lofað að vera í markinu á laugardaginn ef hún fær nægilega mörg “retweet”. Það lítur nú ekkert allt of vel út með það þegar þetta er skrifað. En það er önnur saga.)

Hvað varðar frammistöðu og leikþáttöku í hléinu hjá okkar mönnum, þá lítur listinn svona út:

 • Wijnaldum lék báða leikina hjá Hollandi og skoraði 2 mörk, eitt í hvorum leik, og var meðal albestu manna.
 • Virgil van Dijk spilaði sömuleiðis báða leiki Hollands.
 • Jordan Henderson spilaði báða leiki Englands, var skipt út af um miðjan seinni hálfleik í fyrri leiknum.
 • Trent lék allan leikinn í 5-3 sigri Englendinga á Kosovo.
 • Oxlade-Chamberlain spilaði síðasta korterið á móti Kosovo.
 • Robertson lék báða leikina með Skotlandi.
 • Firmino spilaði í báðum leikjum Brasilíu en tókst ekki að skora.
 • Lovren lék í báðum leikjum Króata, skoraði í þeim fyrri og þótti standa sig vel gegn Slóvakíu, en var síðri gegn Azerum.
 • Origi lék fyrri hálfleikinn með Belgíu gegn San Marínó.
 • Fabinho lék síðustu mínúturnar með Brasilíu í tapleik gegn Perú.

Gomez var á bekknum í leikjum Englands en kom ekki inná.

Þá léku þeir Kelleher, Brewster, Elliott, Hoever, van Den Berg, Wilson og Jones allir eitthvað með yngri landsliðum sínum.

Það sem er kannski athyglisverðast er að nokkrir af okkar mönnum spiluðu bara alls ekki neitt. Hvorki Egyptaland né Senegal áttu leiki, og því gátu þeir Mo Salah og Sadio Mané æft að gefa hvor á annan sleikt sólskinið og slakað svolítið á fyrir leikjatörnina. Shaqiri ákvað þar að auki að gefa ekki kost á sér, mögulega til að komast í betra líkamlegt form, mögulega til að æfa betur taktík. Kemur í ljós hvort það skili sér í auknum mínútum á vellinum á næstunni, en það er nú bara alls ekkert ólíklegt að hann fái aðeins að njóta sín í ljósi þess hve þétt verður spilað á næstunni. Nú og svo tók Adrian víst aukaæfingar á Melwood enda var honum hent full harkalega út í djúpu laugina þegar hann var rétt nýkominn til liðsins, varla búinn að taka takkaskóna sína upp úr töskunni. Að lokum má minnast á að James Milner mætti á góðgerðarleik Vincent Kompany, á einhverjum tímapunkti ku hafa staðið til að hann myndi spila en af því varð ekki.

En þá að leiknum á laugardaginn. Okkar menn hafa núna unnið 13 leiki í röð í deildinni (4 á þessu tímabili, 9 á því síðasta), og hafa ekki tapað á Anfield síðan guðmávitahvenær. Liðið hefur þar að auki gert góða hluti gegn Newcastle á síðustu árum, af 13 síðustu heimaleikjum gegn liðinu hafa 11 unnist. Liverpool er á toppnum í deildinni á meðan Newcastle er í 14. sæti. Það lítur semsagt allt út fyrir að þetta séu bara bókuð 3 stig. En við vitum betur, ég er nokkuð viss um að Klopp og strákarnir viti betur, og Spursarar vita svo sannarlega betur eftir að hafa tapað fyrir Newcastle á heimavelli. Þetta er nefnilega lið sem getur alveg varist og barist til síðasta blóðdropa.

Og hvernig mun svo Klopp stilla upp? Þó það séu núna 2 vikur frá síðasta leik gegn Burnley, þá má sjá af upptalningunni að megnið af liðinu er búið að vera á faraldsfæti á þessum síðustu tveim vikum, og sumir leikmanna hafa spilað allt að 180 mínútur á þessu tímabili. Nú og svo er ekki svo langt í næstu leiki. Það verður strax á þriðjudagskvöldið að okkar menn þurfa að mæta út á San Paolo völlinn í Napoli (vonum bara að búningsklefarnir verði tilbúnir…), svo er leikur gegn Chelsea á útivelli um næstu helgi, annar útileikur gegn MK Dons í deildarbikarnum miðvikudaginn þar á eftir, leikur gegn Sheffield United helgina þar á eftir, að lokum koma svo tveim heimaleikir þar sem Salzburg koma í heimsókn í miðri viku áður en Brendan Rodgers kemur loksins aftur á Anfield, í þetta sinn til að stýra Leicester. Það mun því ekkert skorta leikjaálagið á næstu vikum, og ef einhverntímann verður róterað verður það í þessum leikjum. Þannig er t.d. alveg klárt mál að MK Dons leikurinn verður í höndum B-liðsins, þar sem við munum örugglega sjá menn eins og Lovren, Shaqiri, Lallana, Brewster og jafnvel einhverja enn meiri kjúklinga byrja inná.

En við höfum nú minnstar áhyggjur af þessum seinni leikjum í augnablikinu. Núna þarf bara að sækja 3 stig á heimavelli á laugardaginn. Og það er nú lang líklegast að Klopp stilli upp sínu sterkasta liði eða a.m.k. svona næstumþví. Mögulega munum við sjá 1-2 leikmenn byrja sem væru kannski ekki að jafnaði í byrjunarliði ef það þyrfti ekkert að hugsa um leikjaálag.

Við skulum a.m.k. prófa að stilla þessu upp svona:

Adrian

Trent – Matip – Virgil – Robertson

Henderson – Fabinho – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mané

Þetta myndi maður kalla sterkasta liðið sem völ er á í dag. Og ef Klopp ætlar að bregða eitthvað út frá því, þá er ekki ólíklegt að Robertson fái e.t.v. smá hvíld (og Milner verði þá kallaður til í vinstri bakvörðinn), hugsanlega fær Wijnaldum pásu hafandi spilað tvo heila leiki í landsleikjahléinu, og þá gæti t.d. Oxlade-Chamberlain komið inn fyrir hann. Að lokum má líka velta fyrir sér hvort Firmino megi ekki fá smá pásu, enda talsverð ferðalög á honum síðustu daga. Það mætti annaðhvort leysa með því að skipta Origi beint inn í staðinn, nú eða færa Mané fremstan og setja Shaqiri á kantinn í hans stað.

Og spáin? Hún er góð: skýjað með köflum, hæg breytileg átt, hiti 14-21 stig. Persónulega væri ég svo sáttur við hvaða sigur sem er, svo lengi sem menn sleppa ómeiddir frá leiknum. Bónus ef Adrian myndi ná að halda hreinu annan leikinn í röð. Segjum 2-0 og allir sáttir.

KOMA SVO!

7 Comments

 1. Sælir félagar

  Takk fyrir góða upphitun Daníel. Ég segi eins og Ssteinn í Gullkastinu að ég er mjög áhyggjulítill fyrir þennan leik. Slys geta þó gerst og ég spái að þeir röndóttu setji eitt mark í leiknum í stöðunni 2 – 0. Það mark mun setja spennu í leikinn og Newcastle menn opna sig meira í von um jöfnunarmark. Það verður þeim að falli og okkar menn setja 3 í viðbót í leiknum sem endar 5 – 1. Það er sem sagt sami markamunur og hjá Ssteini.

  Hverjir skora mörkin? Ja það er nú það. Ætli Salah leggi ekki eitt upp fyrir Mané og Mané eitt upp fyrir Salah. Svo sjáum við til hvað gerist en báðir munu þeir skora eitt eftir stungu frá Hendo og svo setur Virgillinn eitt ú föstu leikatriði reikna ég með. Firmino byrjar en fær hvíld um miðjan seinni og Brewster kemur inn í stöðunni 3 – 1. Ef til vill skorar hann eitt – hver veit.

  Það er nú þannig

  YNWA

  3
 2. Sæl og blessuð.

  Svakalegt mót atarna – sigur í hverjum leik og ekkert annað í boði! Held þetta sé bara hollur þankagangur, þarna eru allar taugar þandar til hins ýtrasta og maður sér það á prospektunum að þau leggja sig öll fram um að komast inn fyrir í hlýjuna, eða því sem næst.

  Lallana æfir eins og óður maður og Shaquiri sendir skilaboð hástöfum. Sé fyrir mér að þessir strákar fái sínar 60 mínútur á laugardaginn, í það minnsta. Milnerinn ætti að vera í bakverðinum og Origi mætti svo koma inn á. Það má ekki taka áhættu með þessa þrjá fremstu í ljósi þess hversu mikilvægir leikir eru framundan.

  Vinnum Hnjúkaselið 1-0. Foráttusigur.

  3
 3. Takk fyrir góða upphitun….Klopp gerir örugglega breytingar á liðinu frá síðustu leikjum…spái öruggum sigri…

  1
 4. Þessi leikur veltur á því hversu snemma við skorum. Ef við skorum á ca 20 mínútu, þá endar þessi leikur 4-0 hið minnsta. Ef hins vegar Newcastle nær að halda út varnarlega fram á 50-70 mínútu, þá endar þessi leikur 2-0. Er nokk sama hverjir skora, vil bara sjá hreint lak þegar drengirnir okkar fara að sofa.

  YNWA

  3
 5. Nú segir Klopp ad Allison se ekki klar fyrr en eftir næsta landsleikjahle, fjandinn eg var ad vonast eftir honum fljótlega eftir landsleikjahleid sem er ad ljuka, tad eru 7 leikir nuna a 3 vikum fram ad næsta landsleikjahle.

  En vardandi leikinn a morgun ta fer hann 5-0 Salah med trennu, Mane og Firmino med sitthvort markid. Mane leggur oll upp fyrir Salah hahaha. En an djoks eigum ad rulla yfir Newcastle og höfum oft i gegnum tidina skorad fullt af morkum a ta a anfield. Verdur geggjaður leikur ekki spurning.

  2
 6. Jæja, ég var ekki svo fjarri þessu. Hendo og Firmino á bekknum, Ox og Origi inná í staðinn.

  1

Gullkastið – meistararnir mæta til leiks

Kop.is ferðir í samstarfi við VITA