Ofurbikarinn á morgun

Annað kvöld fer fram Ofurbikar Evrópu í Istanbul þegar Evrópumeistarar Liverpool mæta Evrópudeildarmeisturum Chelsea. Liverpool flaug til Istanbul á þriðjudags morgni og sat Klopp ásamt Mane á blaðamannafundi seinna um daginn.

Embed from Getty Images

Á blaðamannafundinum sagðist Mane vera klár í að byrja leikinn annað kvöld og að þreyta sé bara eitthvað sem er í hausnum á manni. Það má því sterklega búast við því að hann muni að minnsta kosti byrja annað hvort á morgun eða um helgina.

Klopp og leikmenn Liverpool virðast mjög tilbúnir í þennan leik og hungraðir í að vinna þennan bikar sem vonandi veit á gott. Á blaðamannafundinum hrósaði Klopp einnig þeirri ákvörðun að kvenkyns dómarar myndu dæma þennan leik og væri það í fyrsta skipti sem konur dæmi leik sem þennan, hann sagðist mjög spenntur fyrir því að vera hluti af jafn sögulegum atburði og að þetta væri vonandi sá fyrsti af mörgum.

Annars er það að frétta af hópi Liverpool að Lovren ferðaðist ekki með til Istanbul þar sem hann er veikur. Klopp segir að hann sé í alvöru veikur en hann er sterklega orðaður við félagsskipti til Roma svo það spilar líklega eitthvað inn í og hann mun að öllum líkindum semja við þá fljótlega.

Alisson er frá eins og flestir ættu að hafa frétt núna og verður það næstu 4-8 vikurnar mætti maður reikna með. Adrian sem kom til Liverpool rétt fyrir lok félagsskiptagluggans í Englandi mun því taka stöðu hans í millitíðini og byrjar leikinn annað kvöld fyrir Evrópumeistarana og gæti unnið Evrópubikar í sínum fyrsta byrjunarliðsleik. Hann segist mjög spenntur fyrir þessari áskorun og trúi nánast ekki að hann sé í þessari stöðu. Vonandi verður hann flottur á milli stangana fyrir okkur næstu vikurnar.

Naby Keita haltraði út af æfingu í kvöld og hætti æfingu vegna varúðarráðstafana. Hann fann fyrir einhverjum stífleika aftan í lærinu og þjálfara- og læknateymið mun meta stöðuna á honum betur á morgun. Vonandi er þetta ekki neitt neitt og hann verður í hópnum annað kvöld. Aðrir en þá Alisson, Lovren og kannski Keita ættu að vera klárir í leikinn.

Líkt og í úrslitum Meistaradeildarinnar verður hvort lið með tólf skiptimenn og velja þá bara sín 23 manna leikmannahóp fyrir leikinn. Í hópi Liverpool er líklega ekkert óvænt ef óvænt skal kalla fyrir utan það að Harvey Elliott og Ki Jana Hoever eru einu unglingarnir ásamt Brewster sem verða með. Markvörðurinn Kelleher ferðaðist með en er ekki alveg klár í leik og þá fékk Andy Lonergan skammtíma samning hjá Liverpool og verður líklega í leikmannahópi liðsins í smá tíma þar til Kelleher og Alisson verða klárir í slaginn. Ég er ekki viss um að á þessum tíma fyrir nokkrum mánuðum eða vikum hafi Lonergan dottið í hug að hann myndi æfa allt sumarið með Liverpool, fá samning og vera í leikmannahópi í úrslitaleik í Evrópukeppni!

Chelsea steinlá fyrir Man Utd á sunnudaginn og fá tveggja daga styttri hvíld á milli leikja en Liverpool. Frank Lampard stjóri Chelsea segir að Kante hafi meiðst eitthvað gegn Man Utd og óvissa er með hvort hann geti byrjað leikinn en þeir eru að fá sterka leikmenn eins og Rudiger upp úr meiðslum en óvíst er hvort að hann byrji eða ekki. Þetta er aðeins öðruvísi en þau Chelsea lið sem Liverpool hefur mætt undanfarin ár og nú er Hazard farinn frá þeim svo maður veit ekkert hvað maður á von á frá þeim en miðað við það sem þeir sýndu um helgina þá ætti Liverpool að vinna þennan leik svona nokkuð sannfærandi.

Ég held að Klopp sé ekki að fara að breyta liðinu mikið frá því í síðustu tveimur leikjum. Hann byrjaði með sama lið í Samfélagsskildinum og hann gerði í opnunarleik deildarinnar gegn Norwich og ég held að það verði bara nokkuð svipað liðið á morgun. Ég ætla að fara í mótsögn við mig strax og segja að hann geri samt þrjár breytingar á liðinu sem eru samt ekki það stórar að maður missir hökuna í gólfið.

Adrian

TAA – Matip – VVD – Robertson

Henderson – Fabinho – Milner

Salah – Firmino – Mane

Ég held að Mane komi inn í byrjunarliðið á kostnað Origi sem var frábær gegn Norwich, sömuleiðis þá kæmi mér ekki á óvart ef að Matip fengi að byrja þennan leik þar sem Gomez byrjaði síðustu tvo og jafnvel að Milner kæmi inn á miðjuna. Ef að Milner byrjar ekki á miðjunni þá held ég að við getum alveg bókað það að tvær fyrstu skiptingar Klopp yrðu líklega Origi og Milner sama hvernig staðan er og leikurinn spilast.

Ég hlakka mikið til leiksins annað kvöld og ég held að Liverpool vilji virkilega landa þessum bikar. Þetta er eitthvað sem stendur þeim til boða eftir að þeir unnu magnað afrek og urðu Evrópumeistarar og Evrópumeistarar eiga að vinna Ofurbikar Evrópu. Þetta er bikar sem skiptir máli og Liverpool ætlar og þarf að vinna hann. Vonandi sjáum við Henderson lyfta öðrum Evrópubikar annað kvöld og það verði bara fyrsti af nokkrum í vetur.

11 Comments

  1. “Naby Keita haltraði út af æfingu í kvöld ” Eru sem sagt meiðslapésarnir farnir að láta vita af sér, er þá ekki Lallana næstur.

    2
    • sýnist þessi keita vera svona sturridge týpa.. má ekki anda á hann þá er hann meiddur.

      1
  2. Þetta er STÓR bikar og mikilvægt að vinna hann.

    Til þess að fá að spila um hann þá þarftu að vinna annað hvort meistaradeild eða evrópudeild sem þýðir að þú færð ekki mörg tækifæri að bæta þessum í safnið.
    Ef við vinnum þennan bikar og hann verður okkar eini þá verður þetta allavega bikar tímabil sem er meira en flest önnur á þessari öld.
    Ég vona að Klopp stillir upp okkar sterkast og sæki þessa helvítis dollu

    YNWA

    13
  3. Veit einhver hvort leikurinn í kvöld verði sýndur í opinni dagskrá?

    2
    • Svara þessu bara sjálfur þ.s. ég hringdi í Stöð 2. Leikurinn er ekki í opinni dagskrá.

      2
  4. Sælir félagar

    Það verður öðruvísi Chelsea lið sem mætir á völlinn í kvöld en sú skelfing sem spilaði við MU um helgina. Það lið átti fyrstu tíu mín. í hvorum hálfleik og eftir það þá spilaði liðið eins og 3ju deildar lið í Uzbekistan. Því miður munu þeir girða sig í brók og berjast til síðasta manns í þessum leik en það á ekki að skipta máli. Liverpool á alla daga að vinna þá bláu enda allmiklu betra lið en Chelsea. Spá mín er því 2 – 0 fyrir okkar menn og Salah og Mané með mörkin.

    Það er nú þannig

    YNWA

  5. Spái því að liðið verði einhvern veginn svona Adrian; Gomez, Matip, Van Dijk, Robertson; Lallana, Milner, Wijnaldum; Salah, Firmino, Origi.
    TAA, Fabinho og Henderson verði hvíldir og við vinnum 2-1.

  6. 3-1, það verður ekkert flóknara en það. Allavega er maður að spenna kassann út eftir síðasta tímabil og fyrsta leik þessa tímabils.
    Vonandi mæta sem flestir á ölver!

    1
  7. LIVERPOOL TEAM NEWS

    Liverpool team to play Chelsea: Adrian, Gomez, Matip, Van Dijk, Robertson, Fabinho, Milner, henderson, Oxlade-Chamberlain, Mane, Salah.

    Subs: Lonergan, Kelleher, Hoever, Elliott, Alexander-Arnold, Wijnaldum, Shaqiri, Lallana, Firmino, Brewster, Origi.

  8. Þetta er alveg hræðilegt að horfa á þennan leik, vörnin eins og hjá Val, míg lekur.
    Verðum að snúa leiknum við í hálfleik

Dejan Lovren á leiðinni til Ítalíu?

Byrjunarliðið vs. Chelsea í Istanbul