Liverpool 4 – 1 Norwich

Mörkin

1-0 Hanley (sjálfsmark) (7. mín)
2-0 Salah (19. mín)
3-0 Virgil (28. mín)
4-0 Origi (42. mín)

Gangur leiksins

Ef við skoðum markaskorunina þá er eins og að þetta hafi bara verið einstefna hjá okkar mönnum fyrsta hálftímann, en svo var reyndar ekki. Norwich mættu á Anfield til að spila fótbolta, og áttu alveg nokkur gegnumbrot og færi sem með meiri heppni eða meiri getu hefðu alveg getað skapað vandræði fyrir okkar menn. Alisson átti t.a.m. ónákvæma sendingu snemma leiks sem Pukki komst inní, og svo voru 2-3 önnur tilfelli þar sem leikmenn með meiri gæði hefðu jafnvel refsað fyrir. En það var semsagt á 7. mínútu að Origi fékk boltann uppi í vinstra horni, gaf sendingu inn á markteig sem leit út fyrir að yrði hreinsuð frá, en Hanley kiksaði á boltanum þannig að hann flaug óverjandi í hornið, óverjandi fyrir Tim Krul. Næsta mark kom eftir smá barning við vinstra vítateigshornið, þar sem bæði Trent og Salah misstu boltann frá sér, en svo barst boltinn á Firmino sem renndi honum inn fyrir á Salah, hann gerði engin mistök og renndi boltanum í fjærhornið. Mark númer 3 kom eftir hornspyrnu sem Salah tók, beint á kollinn á Virgil van Dijk sem var á markteig, vissulega ekki óvaldaður, en völdunin var bara ekki betri en svo að hann fékk frían skalla og stangaði boltann í netið. Nokkru áður hafði Trent átt svipaða sendingu á Firmino sem tók hann frábærlega á kassann og skaut svo viðstöðulaust á markið en það var varið vel.

En það var svo 10 mínútum síðar sem það atvik varð sem hugsanlega á eftir að draga mestan dilk á eftir sér fyrir Liverpool. Alisson tók ósköp hefðbundna markspyrnu, var ekki undir neinni pressu, en rann til og lagðist strax í grasið. Leikurinn var ekki stöðvaður fyrr en boltinn barst til Krul hinumeginn, og þá kom læknateymið inná. Greinilegt að Alisson hafði meiðst þannig að hann gæti ekki haldið áfram. Adrian var því kallaður til, og það er pínku kaldhæðnislegt að í næsta leik eftir að Mignolet fer frá klúbbnum til að fá meiri spilatíma, þá meiðist Alisson þannig að það verði að kalla til varamarkvörðinn. Það voru komnar inn börur til að bera Beckerinn útaf, en hann afþakkaði það og haltraði útaf með aðstoð læknisins. Við vonum að það sé merki um að meiðslin séu ekki mjög alvarleg, en það eru samt sem áður allar líkur á að hann verði frá í næstu leikjum.

Það var svo Origi sem setti fjórða markið eftir frábæra fyrirgjöf frá Trent, en sendingin frá honum rataði beint á kollinn á Origi sem skallaði rétt innan við vítateigspunkt og framhjá Krul.

Staðan 4-0 í hálfleik, og þetta var meðal þess sem flaug í gegnum hug Liverpool aðdáenda í hléi:

Við áttum örugglega mörg von á að Liverpool myndi halda sama dampi í seinni hálfleik, en mörkin létu á sér standa. Ekki það að liðið óð í færum: Henderson átti skot sem Krul varði í þverslá, Firmino fékk boltann aleinn á markteigshorninu með Origi sér við hlið en snéri eitthvað klaufalega og endaði á að setja boltann framhjá.

Á 64. mínútu náðu svo Norwich að setja eitt mark, og þar var að sjálfsögðu að verki Finninn fljúgandi Teemu Pukki, sá sem var markahæstur í næstefstu deild í fyrra. Greinilegt að þetta er hörku leikmaður sem á eftir að láta til sín taka í vetur. Hann fékk einfaldlega góða sendingu inn fyrir og Adrian gat lítið gert til að verja þetta, en miðað við hvað vörnin hafði verið ryðguð þá kom þetta þannig séð ekki neitt svakalega á óvart. Vissulega hefðum við þó kosið að okkar menn hefðu frekar bætt í heldur en að fá á sig mark í staðinn.

Mané kom svo inná fyrir Origi, og Milner í staðinn fyrir Firmino, en hvorugur þeirra náði að setja mark sitt á leikinn, og þetta er því í fyrsta skiptið í 4 ár sem Mané skorar ekki í opnunarleik liðsins.

Umræðan eftir leik

Það er klárlega gott að byrja með 3 stig og 4 mörk, en slæmt að hafa ekki náð að halda hreinu, og enn verra að missa Alisson í meiðsli. Í augnablikinu er staðan ekki alveg ljós, en Klopp sagði þó þetta:

Það sem er jafnvel enn áhugaverðara er hvaða markvörður verður þá á bekknum. Síðast þegar ég vissi var Kelleher ennþá meiddur, þó svo að hann sé ekki talinn upp í Physioroom listanum. Líklega verður Milner bara kallaður til eins og venjulega ef Adrian (guð forði okkur frá því) tekur upp á því að meiðast líka.

Síðan er ljóst að það er ekki ennþá búið að stilla vörnina saman að fullu. E.t.v. hefði vörnin verið þéttari með Matip í stað Gomez, en það virðist ljóst að Klopp sér Gomez sem meiri langtímakost, og er því tilbúinn til að gefa honum spilatíma þrátt fyrir að það geti þýtt ögn ótraustari vörn fyrir vikið í einhvern tíma. Þá á Trent líka ennþá til að vera ótraustur, og því megum við alveg búast við að lið muni sækja meira upp vinstri kantinn.

Það er svo erfitt að velja mann leiksins, enda var liðið heilt yfir að spila vel. Persónulega myndi ég segja að Henderson og Origi geti báðir vel gert tilkall til nafnbótarinnar, sömuleiðis má færa rök fyrir að Firmino og jafnvel Salah gætu átt hana, en við skulum tilnefna Origi í þetta skiptið. Hann átti jú sendinguna sem skapaði fyrsta markið, og skoraði svo sjálfur annað. Aðrir kæmu vel til greina: Fabinho var sama jarðýtan á miðjunni eins og hann getur verið, Trent byrjaði að raða inn stoðsendingunum (5. leikurinn í röð í deildinni þar sem hann á stoðsendingu), og van Dijk var öflugur í vörninni eins og svo oft áður.

Næst á dagskrá

Það er stutt í næsta leik, því nú heldur liðið til Istanbul og spilar þar við Chelsea næstkomandi miðvikudag í UEFA Super Cup. Af einhverjum ástæðum spila Chelsea ekki fyrr en á sunnudaginn og fá því talsvert styttri hvíld, þó svo leikurinn á sunnudaginn verði nú sjálfsagt auðveldur. Það væri nú alveg gríðarlega skemmtilegt ef okkar menn kræktu í bikar í þeim leik. Síðan kemur leikur í deildinni gegn Southampton á þeirra heimavelli, og þar munum við mæta Danny Ings og félögum enda er salan á honum loksins gengin í gegn.

En það er ágætt að byrja leiktíðina á því að skella sér á topp deildarinnar. Vonum að liðið endi þar líka!

20 Comments

 1. Öruggur og þægilegur sigur og 3 stig í hús. Vona að Allison sé ekki mikið meiddur.
  Origi flottur og hann á eftir að reynast okkur vel í vetur, það er ég viss um.

  3
 2. Sæl og blessuð.

  1. Norwich voru starstruck í upphafi og greinilega fóru þeir illa með spennuna sem sat í skrokknum. Svo er leið á leikinn fengu þeir meira sjálfstraust og stóðu sig betur.

  2. Ég veit að það er fáránlegt að segja þetta – en okkar menn máttu vera skilvirkari í sóknarleik sínum. Voru oft þrír á þrjá, fjórir á fjóra osfrv. en nýttu ekki skyndisóknir seinni hálfleiks. Ekkert að kvarta en maður vill sjá ögn betri nýtingu.

  3. Að sama skapi voru þeir gulu oft ó- eða illa valdaðir í lykilfærum. Hvaða rugl var það? Trentarinn átti víst sökina á réttstöðu Pukki og svo var sá kúbverski alveg frír en fór illa með færið. Margt sem má laga í varnarleik.

  4. Rosalegt ef Alison er með slitin liðbönd. Það setur allar vonir í uppnám.

  Annars auðvitað sáttur við úrslitin, að #4 frátöldum. Liðið nýtir þessa leiki til að spila sig saman!

 3. Öruggur sigur og það var vitað að okkar menn myndu vera aðeins rólegri í seinni óþarfi að sprengja sig í 90+ þegar þeir voru með 4 marka forskot í fyrri samt óþarfi að fá á sig þetta mark. Engu að síður þá var þetta vel gert hjá Pukki hann á eftir að skora fleiri fyrir þá það er morgunljóst.

  Maður er með miklar áhyggjur af Alisson vonandi er þetta ekki mikið sem hrjáir okkar mann bíðum spennt eftir að fá meistarann okkar til baka.

  4
 4. Glæsilegt að byrja svona, svo er bara að vona það besta með Allison.
  Mótið rétt byrjað og Liverpool strax komið með 3 stig á næstu lið!?

  2
 5. Þægilegur sigur okkar manna. En 4-0 í hálfleik, býst maður við meiru í þeim seinni, en………….AFRAM LIVERPOOL. 3 stig í byrjun. GOTT!!!!!!!!!

  4
 6. 1. Flott 3 stig – Að klára leik í fyrirhálfleik er auðvita frábært.
  2. Alison meiðslinn eru það sem maður er núna að hugsa um og vonandi var þetta bara lét tak í kálfan.
  3. Varnarleikurinn okkar var oft á tíðum lélegur. Trent er án efa einn besti sóknarbakvörður heims en varnarlega á hann langt í land og það var áhyggju efni hversu oft þeir komust bakvið okkur.
  4. Gaman að sjá Mane fá nokkrar mín og sjá hvað Firmino/Salah voru sprækir.

  Aðeins um Norwitch – Mér fannst þeir gera þetta alveg rétt með planinu sínu, þeim gekk nokkuð vel að halda boltanum og spila. Þegar þeir komust yfir miðju þá virkuðu þeir hættulegir og hefðu getað skorað fleiri mörk.
  Það var auðvita sjálfsmark sem skemmdi mikið fyrir þeim og svo fengu þeir þetta mark á sig eftir hornspyrnu sem drap leikinn(eftir að þeir hefðu fengið tvö hálfæri í stöðuni 2-0). Þeir eru ekki sterkir varnarlega en ég sé þá geta bjargað sér í vetur ef þeir halda áfram að vera hugrakir með boltan en þeir fá ekki betra pressu lið á sig en Liverpool.

  Bestu menn Liverpool: Firmino átti frábæran leik, Salah virkar í góðum gír, Henderson var gjörsamlega út um allt í dag og Andy átti vinstri vængin.

  YNWA – Góð byrjun á tímabilinu(ef Alison er ekki mikið meiddur)

  4
  • Klopp confirms Alisson suffered calf injury. Good news, in sense he hasn’t snapped ankle or knee ligaments, but he’s out of Super Cup final on Wed: “It’s a calf injury. He felt as if something hit him from the back he won’t be ready for Wednesday, I can say that already” #LFC

  • Sælir félagar

   Ótrúleg skemmtun á Anfield í gærkvöld. Fyrir mér sem var á leiknum var Salah maður leiksins. Það eru alveg ótrúleg gæði sem þessi drengur býr yfir. Hendo var nottla úti um allan völl og Firmino er auðvitað bestur í fótbolta á Englandi það er enginn vafi og svo er vinnslan ódrepandi. Mané átti flotta innkomu og sá á eftir að láta finna fyrir sér í vetur. Vörnin á eftir að sinka svo það er bara bjart frammundan.

   Það er nú þannig

   YNWA

   3
 7. Flottur sigur en smá svekkjandi að sjá ekki þetta drápseðli brjótast fram í liðinu og ganga frá Norwich í seinni hálfleik þó svo Norwich hafi sýnt það að þeir eru miklu betra lið en spil þeirra gaf til kynna í fyrri hálfleik þá var þetta óþarflega dapurt.
  Origi og sóknarmennirnir í raun allir mjög flottir.
  Ég vil sjá Matip frekar í byrjunarliði á kostnað Gomez, Matip spilaði gríðarlega vel seinni hluta síðasta tímabils og á ekki skilið að missa sætið.
  Miðjan finnst mér rosalega geld með Gini, Fab og Henderson. Vantar meira sóknarþenkjandi mann þarna inn og leiðinlegt að fá ekki Ox, Saq eða Keita inn á einhverjum tímapunkti.

  4
 8. Góður leikur. Menn frískir á velli og óhræddir. Bestu menn: Bobby, Robbo, Hendo, Salah og Origi. Fabinho fær einnig viðurkenningu.

  Maður leiksins, Elvar Geir hjá Símanum. Yfirveguð og góð lýsing.

  3
 9. Held því miður að þetta séu ekki kálfameiðsli hjá Alisson.

  Skv Klopp þá segir Alisson að honum hafi fundist eins og hann hafi fengið högg á kálfann. Það er klassískt einkenni hásinaslits. Því miður.

  En gæti líka verið tognun í vöðva. Vonum það besta.

  1
  • Hann hefði nú varla gengið af velli ef hann hefði slitið hásin … eða er það? Vonum hið minnsta það besta. Þótt Adrian sé fínn markmaður er munurinn á honum og Allison örugglega hið minnsta tvö sæti í EPL yfir heilan vetur.

   1
 10. Virkilega flottur sigur hjá okkar mönnum og núna strax eru city og co byrjaðir að elta okkur.

  Krossum fingur og vonum það besta hvað Alisson varðar!

  YNWA!

 11. hugsa að hann verði frá í 2-3 mánuði.

  hinn reddar þessu fyrir okkur, hefði grátið úr mér augun hefði mignolet farið í markið.

  1

Liðið gegn Norwich

Gullkastið – Ekki hægt að byrja mikið betur