Liverpool 0-3 Napoli

Mörkin

0-1   Lorenzo Insigne 18.mín
0-2   Arkadiusz Milik 29.mín
0-3   Amin Younes 52.mín

Leikurinn

Upphitun með sekkjapípum, „Allez, Allez, Allez“ í flutningi Jamie Webbster og auðvitað „You‘ll Never Walk Alone“ gaf tóninn áður en upphafsflautið gall. Sú stemmning átti þó ekki eftir að smitast inn í frammistöðu Liverpool í leiknum sjálfum.

Strax á 4.mínútu keyrði Robertson upp sinn vinstri væng og sendi frábæra fyrirgjöf beint í fæturnar á Origi fyrir miðju marki á teignum en sá belgíski sneiddi boltann framhjá rammanum.
Verdi átti sæmilegt bogaskot með vinstri fæti á 10.mín en Mignolet varði hættulítið skotið en þurfti að hafa ögn meira fyrir skoti Insigne beint úr aukaspyrnu mínútu síðar.

Okkar menn voru mistækir í sendingum og á 18.mínútu töpuðum við boltanum þannig að Napoli keyrði upp í 3 á móti 3 skyndisókn. Insigne fór listavel á skotlöppina og skoraði auðveldlega framhjá Mignolet með skoti rétt fyrir utan teig. Napoli komnir yfir og lítið sem ekkert að gerast hjá Liverpool.

Ekki kveikti það neitt í okkar mönnum að lenda undir og Napoli voru meira að ógna. Samspil LFC var löturhægt og fyrirsjáanlegt og endaði oftar en ekki með lítið hættulegum fyrirgjöfum eða töpuðum boltum á hættulegum stöðum. Það kom því ekkert á óvart þegar Insigne fór á 29.mínútu niður vinstri vænginn og lagði einfaldan bolta fyrir markið á Milik sem kláraði vel af stuttu færi. Staðan 0-2 fyrir Napoli og Liverpool virtust algerlega rænulausir í bæði sókn og vörn.

Síðustu 5 mínútur hálfleiksins sást smá lífsmark með sóknarleik rauðliða en helst til tíðinda var þrumuskot Wijnaldum í kolrangstæðu upp í nærskeytin sem réttilega var dæmt af. Dómarinn blés því næst til leikhlés í því sem auðveldlega má flokka sem handónýtasta hálfleik æfingatímabilsins hingað til.

0-2 fyrir Napoli í hálfleik

Liverpool mættu ákveðnari út úr búningsklefanum og fóru að pressa grimmt ofarlega á vellinum. Úr því kom hálffæri strax eftir tvær mínútur er Milner var grjótharður að vinna boltann og sóknin endaði með skoti Fabinho beint á markvörðinn.

En þessi bragarbót var skammlifuð þar sem að Insigne valsaði enn og aftur upp vinstri vænginn, labbaði auðveldlega fram hjá TAA og skaut að marki. Mignolet varði boltann beint út í teiginn þar sem Amin Younes skoraði auðveldlega í tómt markið. Áfram héldu Napoli að fá hættuleg upphlaup í yfirtölu án þess þó að skora og í öðru færi varði Mignolet ágætlega.

Ekki gat ástandið mikið versnað og eftir rúman klukkutíma leik gerði Klopp nokkrar skiptingar þegar Lovren, Lallana, Wilson og Brewster komu inn fyrir Matip, Henderson, AOC og Origi. Hreyfanleikinn fremst jókst eilítið við þetta en það skilað sér ekki neinum teljandi færum og Napoli voru sáttir við stöðuna. Lítið annað að gera en að fjölga varamönnum á vellinum og á 74.mínútu komu Gomez og Hoever inná fyrir Robertson og TAA í bakvarðabýttum þar sem hinn hollenski Hoever fékk prufukeyrslu í vinstri bakverðinum.

Enn yngdist í liðinu inná vellinum þegar 5 mínútum síðar voru Duncan, Lewis, van den Berg og Elliott settir inná fyrir Fabinho, VVD, Wijnaldum og Milner. Hraðinn í sókninni jókst smávægilega og upp úr nettu spili kom besta færi Liverpool í leiknum þegar að varnarmaður Napoli skoraði næstum sjálfsmark en Meret í markinu gerði vel að verja af stuttu færi. Wilson keyrði einnig nokkrum sinnum vel á vörnina og rétt undir lok leiksins hlóð hann í þrumufleyg fyrir utan teig sem Meret varði aftur vel. Úr hornspyrnunni fékk Gomez einnig séns en því miður beint á títtnefndan Meret í markinu. Nær komust Liverpool ekki að skora mark og leiknum leik með sannfærandi skítatapi.

Lokatölur 0-3 fyrir Napoli í Edinborg

Umræðan

Það er slétt vika í fyrsta alvöru knattspyrnuleik tímabilsins og sama hversu mikils eða lítils áhangendur meta Góðgerðarskjöldinn þá er það stórleikur gegn Man City á Wembley sem gæfi sjálfstraust og stemmningu að vinna. Miðað við að í þessum leik var okkar sterkasta varnarlína inná með varnarsinnaða og vinnusama miðju og framlínu fyrir framan sig þá var mikið sjokk að sjá hversu skelfilegur varnarleikurinn var. Mörkin sem við fengum á okkur hefðu auðveldlega geta verið fleiri og broddleysið fram á við í sókninni var átakanlega slæmt.

Enginn Liverpool-leikmaður á hrós skilið fyrir frammistöðuna í dag og það virkaði mikill þungi yfir spilinu og formi leikmanna. Vonandi er ekki um að ræða seddu hjá leikmönnum eftir stóra titilinn í Madrid því að ekki virðist vera sem neinir hungraðir A-liðsmenn verði keyptir til að auka samkeppni, gæði eða breidd þetta sumarið. Auðvitað vantar sóknarþrennuna og Alisson í markið en þetta var arfaslakt hjá þeim sem spiluðu og mikið þarf að breytast á einni viku ef ekki á illa að fara.

YNWA

15 Comments

 1. Flugþreyta í gangi, greinilega. Fínt að tapa æfingaleikjum ef það hjálpar til að skerpa á þeim þáttum sem eru ábatavanir.

  YNWA!

  3
 2. Hef ekki séð neina af þessum sumarleikjum en ætli okkar menn séu ekki að spila undir getu viljandi til að það verði keyptir einhverjir snillingar inn. Bakverðir og einn sóknarmaður mættu alveg koma. Á ekki annars að taka titilinn?

  2
 3. Sælir félagar

  Frammistaðan í þessum leik var skelfilega léleg og það virðist vera ástæða til að hafa áhyggjur. Sjáum til hvað gerist í framhaldinu áður en bölmóðurinn rennur á mann af fullum krafti. Okkar menn voru þungir, hægir og virtust frekar áhugalitlir. Napóli liðið var einfaldlega mikið betra í þessum leik og því fór sem fór.

  Það er nú þannig

  YNWA

  7
 4. Sæl öll

  Nettur Phil Jackson í gangi hjá okkar mönnum. Æfingaleikir skipta engu máli!
  Æfing og leikur á föstudaginn, ferðalag til Bretlandseyjar í austur-átt=tapar klukkutímum og er ekki sunnudagur?
  Ég mundi samt vilja fá til liðsins einn sóknarmann sem er nær “skyttunum þremur” í getu. Saga Origi er voða rómantísk en hann er bara ekki nægjanlega ógnandi að mínu viti. Hann er ekki afgerandi á neinu sviði og í mínum huga verður 4. kostur í sókn Liverpool að vera það.

  6
 5. Töluvert áhyggjuefni inn í veturinn.

  Ég veit að þetta er pre-season. Ég veit að þetta eru æfingaleikir sem erum búnir að spila. En, viðvörunarbjöllurnar eru sí-hringjandi og þær eru nokkrar.

  Í dag spilaði aðal vörnin okkar, helstu miðjumennirnir og vara framherjarnir í 3ja leiknum í röð. Við töpuðum 2 leikjum illa og náðum einu jafntefli. Napoli yfirspilaði okkur algjörlega í dag og við vorum lélegir á ölllum vígsstöðvum.

  Veikleikarnir eru augljósir (og sáust líka stundum á síðasta tímabili) – breiddin í bakvörðum er lítil, miðjan er hrikalega “static”, hæg og skelfilega veik framávið (Henderson, Wijnjaldum og Milner), það vantar sárlega skapandi miðjumenn og “vara” framlínan er ekki á vetur setjandi.

  Nánar;

  Vörnin – erum ágætlega settir með miðverði það er ekkert alvöru backup fyrir bakverðina (Cline frá út leiktíðina) og það er því möst að fá 1-2 aðila sem geta stokkið inn í þær stöður.

  Miðjan – Lallana er búinn og hraðinn farinn, Ox er engan vegin að nýta tækifærið og er hreinlega skelfilega lélegur (eins og framan af síðasta vetri), Henderson komin í “gamla góða” formið (lítið getað framávið og skelfilegur skotmaður) og Wijnaldum hverfur í leikjum eins og oft á síðustu leiktíð. Keita er svo stórt spurningamerki, er mikið meiddur og var oft utangátta síðasta vetur. Shaq er svo wild card sem Klopp virðist hafa misst trúnna á.
  Og það er líka pínlega augljóst að okkur vantar sárlega skapandi miðjumann. Sást einstaklega vel í dag. Er þessi miðja á vetur setjandi?

  Sókn – við erum ágætlega settir með þrennuna okkar en hvað svo? Þeir hafa spilaði ótrúlega marga leiki síðustu 18 mánuði, koma seint inn, tóku ekkert undirbúningstímabil og þurfa líklega tíma til að koma sér af stað og hvíld í vetur vegna leikjaálagsins sem er framundan. Hver er að leysa þá af? Er Origi málið? Þrátt fyrir ágæt mörk á síðustu leiktíð er hann ekki heimsklassa framherji. Horfum bara raunhæft á það.
  Og horfum aðeins lengra – hvað ef Origi meiðist – hver er þá næstur inn? Brewster? Erum við að fara að slást um PL með hann sem fremsta mann með allri virðingu?

  Ég hef stórar áhyggjur af þessu ástandi – mér finnst augljóst að ef við ætlum að vera að berjast á nokkrum vígsstöðvum (og sérstaklega að vinna PL) þá VERÐUM við að bæta hópinn. Við sáum svo sárlega hveru mikils virði það er að hafa stóran hóp (sbr. City) þegar við fórum í niðursveifluna í jan/feb og töpuðum forystunni og titlinum á síðustu leiktíð. Þá kom breidd hópsins hjá City í ljós og kláraði þetta fyrir þá. Við eigum eitthvað af efnilegum leikmönnum en þeir eru ekki nærri því komnir í þann klassa að taka við keflinu og halda dampinum.

  Það er augljóst að versla verður backup í bakverði, einn sterkan miðjumann, sóknarsinnaðan miðjumann og 1-2 sóknarmenn. Og það bara til að vera á pari við helstu keppniautana….

  13
 6. Ég ætla bara hrósa Napolí þeir voru með mikið betra og áhugasamara fótboltalið í dag. Ég ætla rétt að vona að það sé ekki kominn einhver hroki í okkar liðsmenn og þeir haldi innra með sér að þeir séu það góðir að það þurfi ekkert að taka á því fyrr en í alvöruna er komið ! Chel og Man C á eftir að slátra liðinu okkar ef þessi niður gangur heldur áfram.

  YNWA.

  2
 7. Vá, vidvörunarbjöllur heldur betur eftir thessa æfingaleiki, ég hefdi keypt 2-3 klassa eda backup leikmenn fyrir timabilid. En ætli Klopp sé ekki med thetta á hreinu frekar en ég. Skil bara ekki alveg ad evrópumeistarar halda aftur ad sér i leikmannakaupum, hélt ad thad ætti ad nyta ser medbyrinn /peninginn sem bikarinn gaf?? Sjáum hvad setur?

  6
 8. Fint ad fa thennan slappleika nuna i stadinn fyrir thegar deildin er byrjud. Liverpool er orku-lid og thurfa rosalega mikla orku til ad spila sinn besta leik. Thad segir sig sjalft thegar menn eru ad hlaupa sig i gang a undirbuningstimabili ad their hafa ekki lappirnar i full execution a thessum leikstil.

 9. Skil ekki alveg þessi rólegheit hjá Liverpool á leikmannamarkaðnum. Það vantar almennileg backup fyrir bakverðina. Spurning með framlínuna líka. Síðan vil ég að Van Dijk og Gomez verði miðvarðapar númer eitt. Gomez er sneggri en Matip. Liverpool var að spila vel í æfingaleikjum fyrir síðasta tímabil en ílla núna og það boðar ekki gott.

  3
 10. Liðið virkaði rosalega þungt sem skýrist líklegast af miklu æfingaálagi þessi dægrin. Ég er nokkuð viss um að menn séu ekki sáttir við úrslitin og að fá á sig 3 mörk. Annað held ég að sé ekki mikið að pirra Klopp og co. Mér fannst AOC áberandi mistækur en hef trú á að skerpan komi þegar tímabilið fari af stað. Mér fannst Harvey Elliot koma vel inn í þetta, 16 ára og var tilkynntur í gær en var ótrúlega mikið í boltanum á þessum mínútum sem hann fékk. Fyrir utan hárgreiðsluna þá er hann mjög spennandi dæmi. Eins fannst mér Ki Jana Hoever eiga góða innkomu.

  Það getur ekki talist óskastaða að fá aðalleikmenn liðsins í vinnu vikuna fyrir fyrsta leik . Að sama skapi er tímabilið langt og mikivægt að menn fái hvíld til að viðhalda ferskleika eins og hægt er. En þetta pre-season hefur alveg náð að lækka væntingarnar fyrir fyrsta leik, það verður að viðurkennast.

  5
 11. Það verður að segjast eins og er að það er aðalsmerki Liverpool aðdáenda að fara í neikvæða gírinn við minnsta motlæti og ég skal auðfúslega viðurkenna að ég er einn af þeim sem fell stöðugt í þessa gryfju. Stóð mig að því á sunnudaginn að gagnrýna gagnrýna leikmenn og bölsótast yfir árangri eins og um alvöru keppnisleik væri að ræða. Gefum strákunum tækifæri að sanna sig ! Þvílík gleði og ánægja sem síðasta tímabil gaf okkur aðdáendum Liverpool. Þeir eru ekkert lélegri í fótbolta 3 mánuðum seinna, þvert á móti hafa þeir nú reynslu sem á eftir að hjálpa þeim við að gera atlögu að titlinum. Klopp er með plön. Hann veit nákvæmlega hvaða leikmenn hann ætlar að nota og hvernig. Ég er sannfærðir um að hann ætlar Keita, OAC og Brewster stór hlutverk á komandi leiktíð. Þetta eru nánast þrír nýjir leikmenn. Hann fékk ekki það sem hann vildi út úr Keita á síðasta tímabili. Ég hef trú á því að hann eigi eftir að blómstra. Brewster er rosalegt efni og hefur allt til að bera til að verða heimsklassa markaskorari. Við vitum að OAC er góður í fótbolta. Treystum Klopp.

  5
 12. Finnst samt smá scary að ætla treysta manni eins og AOC sem hefur aldrei náð almennilegu tímabili í deild.

  1
 13. Er einhver sem þekkir leið til að kaupa miða á Anfield sem kosta undir 550 pundum? Er þetta bara orðið algengt verð til að sjá liðið spila? Hef prófað allar helstu síður sem eru að selja miða á netinu, Facebook o.þ.h. og allir með þetta verð… VIP pakkaverð sem ég hef ekkert að gera með. Er einhver sem er með tengingu til að fá miða á lægra verði?

 14. Alveg ótengt Napoli leiknum, Þá á ég til einn miða á Lyon leikinn á morgun, fer alveg fríkeypis ef að einhver hérna er á ferð um Sviss á morgun:)

  2

Liðið gegn Napoli í Edinborg

Gullkastið – Tómas Þór um Enska boltann á Símanum