Harvey Elliott kominn (staðfest)

Liverpool gaf það loksins formlega út í morgun að Harvey Elliott sé orðinn leikmaður félagsins. Þetta hefur svosem legið í loftinu í allnokkurn tíma, hann sást meðal áhorfenda í fyrsta æfingaleiknum gegn Tranmere og myndir af honum frá Anfield og Melwood hafa verið að dúkka upp hér og þar. En þetta er semsagt loksins orðið formlegt. Hann kemur frá Fulham og er þar með í hópi ágætra leikmanna sem Liverpool hefur keypt frá liðum sem hafa fallið úr deildinni: Wijnaldum, Robertson, Shaqiri o.fl.

Harvey þessi er um margt áhugaverður leikmaður. Honum er lýst sem framliggjandi miðjumanni og/eða kantmanni, og er yngsti leikmaður sem komið hefur inná í úrvalsdeildarleik, en það gerði hann þann 4. maí í vor þegar Fulham tapaði fyrir Úlfunum, þá var hann 16 ára og 30 daga gamall. Áður hafði hann verið yngsti leikmaður til að koma inná í deildarbikarnum, en hann var aðeins 15 ára og 174 daga gamall þegar það gerðist í september á síðasta ári.

Ekki skemmir fyrir að pilturinn er púlari að upplagi, og var á yngri árum með Twitter notandann @HarveyLFC2003. Svona leit hann út árið 2014:

Hárgreiðsla drengsins hefur verið á milli tannanna á fólki, og einhverjir hafa leyft sér að dæma persónuleika hans fyrirfram út frá þessu man-bun sem hann skartar, en ef eitthvað er að marka Ian Doyle þá er þetta kurteis ungur drengur og því engin ástæða að dæma hann af útlitinu.

Elliott hefur verið nefndur í 23ja manna hópnum sem mætir Napoli kl. 16 í dag, og það verður áhugavert að sjá hvort hann fái fyrstu mínútur sínar í rauðu treyjunni strax í þeim leik, fari svo að hann komi inn á þá verður það í treyju númer 67. Almennt er talið að hann muni spila meira með U18 og U23 liðunum í vetur, en muni þó æfa með aðalliðinu, og aldrei að vita nema piltur fái séns í bikarleikjum. Að minnsta kosti verður áhugavert að fylgjast með framgöngu hans á næstu misserum.

Harvey Elliott: velkominn til Liverpool!

Hvað nær Liverpool mörgum stigum í vetur?

Liðið gegn Napoli í Edinborg