Liverpool 2 – 3 Dortmund

Gangur leiksins

Leikurinn fór fram síðdegis, en þó var hitinn líklega í kringum 35 gráður. Sólin skein þó ekki á leikmenn, en erfiðar aðstæður engu að síður. Enda sást að leikmenn voru farnir að kófsvitna strax á fyrstu mínútum. Til að bæta gráu ofan á svart þá var völlurinn ekki góður, þetta er gervigrasvöllur að upplagi en það var lagt alvöru gras yfir gervigrasið fyrr í vikunni.

Okkar menn byrjuðu á því að sækja fyrstu 2 mínúturnar, en svo komust Dortmund í sókn og skoruðu fyrsta markið á 3. mínútu eftir slappan varnarleik, fyrst og fremst hjá Clyne en Matip hefði sjálfsagt getað gert betur sömuleiðis. Í framhaldinu tóku menn sig saman í andlitinu og gerðu harða hríð að marki Dortmund, þannig að Hitz þurfti að taka á honum stóra sínum. Fljótlega eftir markið átti Milner hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á Matip, en hann átti fínan skalla rétt framhjá. Næsta færi kom þegar okkar menn áttu hratt upphlaup, Ox átti fína fyrirgjöf sem Origi rétt missti af en rataði til Kent á markteigshorninu, en Hitz varði vel. Wilson fékk svo gott færi þegar Milner átti fína sendingu inn fyrir vörnina en aftur gerði Hitz vel þegar hann kom út úr markinu og lokaði snyrtilega. Hann kom þó engum vörnum við á 34. mínútu þegar Fabinho átti góða sendingu inn á teig sem virtist vera eyrnamerkt Kent, en hann lét boltann fara og þá var Wilson á auðum sjó og skoraði laglega í fjærhornið. Vel gert hjá þeim þremur. Kent átti svo hálffæri nokkru síðar en náði ekki almennilega skoti. Síðasta færi hálfleiksins áttu Dortmund menn, en þá komst Götze einn inn fyrir en Mignolet varði vel.

Síðari hálfleikur hófst með nánast nýju Dortmund liði, en á þeim bænum var skipt um 8 leikmenn, án þess að Klopp gerði neinar breytingar. Það kom fljótt í ljós að óþreyttir Dortmund menn höfðu talsvert forskot á okkar menn sem voru búnir að leggja 45 mínútur að baki í steikjandi hitanum, því á fyrstu 13 mínútum síðari hálfleiks skoruðu Dortmund tvö mörk. Fyrra markið var tæpt rangstöðulega séð, og það síðara kom vegna reynsluleysis Larouci (að miklu leyti a.m.k.). Eftir það mark skipti Klopp öllum nema Mignolet inn á, með Trent, Lovren, Virgil og Robbo í vörninni, Hendo, Gini og Adam Lewis á miðjunni, og Woodburn, Brewster og Curtis Jones fremstir. Mögulega var setupið meira í ætt við 4-2-3-1.

Ungu strákarnir sköpuðu svo næsta mark. Adam Lewis átti mjög góða fyrirgjöf sem bæði Jones og Brewster voru nálægt því að komast í, en boltinn féll fyrir Woodburn sem var felldur og víti dæmt. Milner var farinn útaf og Brewster tók því að sér að skora sem hann gerði með stæl, setti boltann snyrtilega í samskeytin.

Liverpool sóttu svo frekar stíft það sem eftir lifði leiksins, og fengu einhver hálffæri, en Dortmund menn voru þéttir fyrir og náðu að leysa úr sóknarþunganum. Reyndar var það svo að þeir áttu líklega hættulegasta færið á síðustu mínútunum, en Mignolet varði afar vel gott skot frá vítapunktinum.

Umræðan

Liðið í fyrri hálfleik lék almennt vel, en átti kannski erfitt að fóta sig á lélegum velli, og sendingarnar voru skrautlegar – reyndar hjá báðum liðum. Undirrituðum fannst Oxlade-Chamberlain vera sýnu ferskastur, en Kent og Wilson sýndu líka fínustu takta. Í síðari hálfleik var Lewis að koma skemmtilega á óvart af miðsvæðinu, og átti fínar sendingar inn á teiginn sem minntu um margt á sendingar frá Andy Robertson.

Það er einna helst að Clyne hafi sýnt af hverju hann er ekki fyrsti kostur í hægri bakvörðinn, bæði með varnarmistökunum í upphafi, og eins var hann ekki að sýna neitt sérstakt fram á við. Þá má líka segja að liðið sé ennþá að leita að bakvörðum til vara fyrir Trent og Robbo, Larouci og Lewis eru alveg kandídatar en ennþá frekar óslípaðir.

Brewster minnti svo enn á sig, og ef hann heldur heilsu og sýnir áfram þetta attitude, þá á hann alveg heima í sóknarlínu liðsins.

Næsti leikur er svo á sunnudaginn á Fenway Park, þar sem liðið mætir Sevilla.

4 Comments

 1. Sendingagetan hjá Lewis kom heldur betur á óvart. Hann gaf Robertson bara ekkert eftir í nákvæmni.

  1
 2. Alls ekki samála um að taka Clyne út sem einhvern sem átti dapran leik og aðalsökudólg í fyrsta markinu. Gomez er alveg steinsofandi í inn kastinu, Matip of lengi að bregðast við, Clyne illa staðsetur. Þetta voru röð misstaka.
  Clyne var ekki versti maðurinn í þessari varnarlínu í gær.

  Ox virkaði sem besti og versti maðurinn í gær. Besti þegar hann tók kraftmikla spretti fram á við og sólaði mann og annan. Versti þegar hann átti tvær skelfilegar sendingar inná eigin vallarhelmingi sem sköpuðu hættu og að stundum var hann að reyna of mikið sjálfur sem stopaði flæðið og endaði með töpuðum blótum. Þetta er æfingar leikur og menn ekki komnir í gang og tel ég að betri útgáfan verður í gangi í vetur.

  Fyrir utan fyrstu 3 mín þá var fyrirhálfleikur nokkuð góður þar sem liðið hafði stjórn á leiknum, hápressan virkaði nokkuð vel og liðið fékk mökkur góð,færi.
  Síðarihálfleikur var einfaldlega lélegur heilt yfir þótt að inn á milli sáust góð tilþrif.

  Markmiðið er samt náð að komast meiðsla lausir úr æfingaleiki og mun Klopp,halda áfram að rótera mjög mikið í þessari USA ferð en svo fara aðal kallarnir að,fa fleiri mín.

  2
 3. Lallana ekki á bekk… Er maðurinn ennþá með fætur?

  2
 4. Sá ekki þennan leik, en það er ekkert slæmt að fá smá skvettu á sig, bara til að vekja upp andann, og láta strákana vita að þó að LFC séu sigurvegarar meistaradeildar, þá geti menn bara ekki snúið sér á hina hliðina. Það nefnilega fylgir því ákveðin áskorun að vera meistarar, og aðal áskorunin er sú, að öll lið vilja vinna okkur, stundum langt umfram getu. Það má vel vera að sumir séu ósammála mér, en ég held að það sé jafnvel erfiðra að mótivera handhafa sigurvegara CL en þeirra sem enduðu sem taparar í úrslitaleik, við þekkjum þetta móment. Á hinn boginn þá erum við með besta lið ever, besta þjálfara ever, hvað og hvar eigum við að klikka? Vonandi ekki á ofmetnaði, held ekki. Séu strákarnir okkar jafn metnaðargjarnir og síðast var vitað, þá vinnum við þessa deild, engin spurning.

  YNWA

  2

Byrjunarliðið gegn Dortmund

Sunnudagsslúðrið & Bale