Byrjunarliðið gegn Tranmere Rovers

Fyrsti æfingaleikur sumarsins 2019

Fyrsti æfingaleikur sumarsins er rétt að fara að hefjast og Evrópumeistararnir að stíga fyrstu skref tímabilsins 2019-2020. Eins og venjulega þá fá margir af yngri leikmönnum og minni spámönnum tækifæri til að láta ljós sitt skína á þessum tíma árs og þess ber glöggt merki á liðsuppstillingunni sem verið var að birta rétt áðan. Öllu liðinu verður skipt út í hálfleik og nýtt inn þannig að allir fá 45 mínútur í dag.

Liðsuppstilling fyrri hálfleiks er eftirfarandi:

Mignolet, Clyne, Phillips, Gomez, Larouci, Milner, Oxlade-Chamberlain, Lallana, Kent, Wilson, Brewster.

Liðið í seinni hálfleik verður svohljóðandi:

Jaros, Hoever, Matip, Johnston, Lewis, Fabinho, Jones, Woodburn, Duncan, Glatzel, Origi.

Simon Mignolet mætti til æfinga fyrst í dag þannig að hann fer beint á milli stanganna á fyrsta degi. Clyne fær leik til að sýna sig í söluglugganum en allar líkur eru á því að hann yfirgefi LFC í sumar og hefur Crystal Palace helst verið orðað við hann eftir að Wan-Bissaka var seldur. Hinn ungi alsírski Yasser Larouci byrjar í vinstri bakverði og verður áhugavert að sjá hvernig hann spjarar sig þar en þeir sem vilja vita meira um piltinn geta lesið stórfína grein Jack Lusby um hann.

Miðjan er stútfull af enskum landsliðsmönnum í nútíð og þátíð en í framlínunni þá spilar besti ungi leikmaður skosku deildarinnar að spreyta sig með Wales-verjanum Harry Wilson og ungstirninu Brewster. Spennandi uppstilling.

Liðið yngist ögn meira í seinni hálfleik en þar verður Vítezslav Jaros í markinu en hann var víst keyptur til okkar fyrir 2 árum og er eingöngu 17 ár að aldri. Jafnaldri hans Ki Jana Hoever spilar í hægri bakverði en hann kom eftirminnilega inn á í leik gegn Wolves í FA Cup í vetur. Hoever varð Evrópumeistari með Hollandi U-17 ára og spilaði þá í þeirri stöðu en hann er jafnfær um að spila hafsent. Adam Lewis þykir ansi efnilegur vinstri bakvörður og fær tækifæri til að sannfæra Klopp um að hann geti verið varamaður fyrir Andy Robertson í vetur og að það þurfi ekki að kaup neinn þar inn.

Woodburn er kominn aftur eftir nokkra misheppnaða lánsdíla og vonandi nær hann sér aftur á strik eftir að hafa ungur fengið sénsa með aðalliðinu. Besti súper-sub í heimi leiðir svo línuna eftir að vera nýbúinn að skrifa undir nýjan samning í gær og með honum eru ungu uppöldu Englendingarnir Bobby Duncan og Paul Glatzel sem röðuðu inn mörkunum með U18 liði LFC í vetur.

Mótherjinn í dag eru góðir grannar okkar í Liverpool-borg en Tranmere Rovers eru þriðja besta lið borgarinnar á eftir LFC og varaliðið LFC. Það hefur ávallt verið góður andi milli liðanna og margir leikmenn sem hafa komið upp úr akademíu okkar en ekki meikað það í rauðu treyjunni hafa farið yfir Mersey-ánna til að spreyta sig hjá Tranmere. Frægt er þegar John Aldridge var spilandi stjóri þeirra og undirritaður var einmitt á vellinum fyrir rúmum tveimur áratugum til að sjá Aldo skipta sjálfum sér inná. Leikurinn er spilaður á heimavelli Tranmere sem heitir Prenton Park en heimamönnum tókst að komast upp um deild í umspilsleik á vordögum.

Byrjunarlið Tranmere Rovers er svona:

 

Leikurinn er sýndur á LFCTV-sjónvarpsstöðinni og vonandi ná sem flestir að horfa á hann hvar sem þeir eru staddir í sínum sumarfríum.

Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

YNWA!

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


4 Comments

 1. Liverpool 3-0 yfir í leikhléi.

  Rhian Brewster byrjar með látum, lagði upp fyrsta markið og skoraði hin tvö!

  4
 2. Auðvitað skorar kóngurinn Divock Origi! Ég hef það á tilfinningunni að hann muni eiga gott næsta tímabil og hann kemur fullur af sjálfstrausti inní mótið. Origi hefur fullt af hæfileikum og hann var á tíma einn sá efnilegasti í heiminum og hann býr ennþá yfir þeim hæfileikum!

  4
 3. Það er aldeilis fjörið! Komnir í 6-0.

  Curtis Jones, Divock Origi og Bobby Duncan búnir að bæta við í seinni hálfleik.

  1

Evrópumeistarinn Divock Origi skrifar undir nýjan samning!

Tranmere Rovers 0-6 Liverpool