Löng leið í byrjunarliðið

Þróun enska boltans og heimsfótboltans almennt virðist loksins vera hafa þau áhrif á enska boltann að efnilegustu leikmenn Englendinga eru farnir að horfa út fyrir landssteinana í leit að tækifærum. Rétt eins og í hinum stóru deildunum sópa stóru liðin upp öllum bestu unglingunum en það er orðið erfiðara að gefa þeim almennileg tækifæri og þannig halda þeim ánægðum. Englendingar hafa alltaf framleitt góða leikmenn en undanfarin ár hafa verið sérstaklega góð og virðist ný kynslóð vera töluvert sterkari og mun fleiri góðir leikmenn að koma upp saman en áður. England hefur unnið heimsmeistaramót í yngri flokkum undanfarin ár en þrátt fyrir það virðist leiðin inn í aðalliðin heimafyrir vera lengri en hún hefur nokkurntíma verið. Það væri fróðlegt að taka saman hversu mikið þessir leikmenn sem hafa verið að vinna HM í yngriflokkum hafa fengið að spila hjá sínum liðum á síðasta tímabili? Ensku liðin eru eins ekkert bara að kaupa enska unglinga heldur að berjast um þá bestu um allan heim í öllum aldursflokkum.

Liverpool eru Evrópumeistarar og voru að klára eitt besta tímabil í sögu félagsins (stigasöfnun). Liðið er klárlega eitt af þeim þremur bestu í heiminum eins og staðan er í dag. Man City er einnig eitt af þessum þremur liðum og þeir voru að enda við 98 stiga tímabil þar sem þeir unnu báða bikarana líka. Þeir töpuðu samtals 14 stigum í deildinni tímabilið á undan. Svigrúmið til að gera mistök hjá þessum liðum er að verða minna og minna sem gerir það nánast ómögulegt að gefa ungum leikmönnum tækifæri. Bæði lið hafa þrátt fyrir það líklega aldrei verið ein vel mönnuð í yngri flokkum og einmitt núna.

Hugmyndafræði beggja liða (o.fl.) er klárlega að hlúa vel að yngri liðunum og annaðhvort fá leikmenn upp í aðalliðið eða selja með töluverðum hagnaði. Hvort sem um er að ræða uppalda leikmenn eða stráka sem komu 13-16 ára í akademíuna og teljast sem uppaldir leikmenn. Eigendur Man City byggðu flottustu akademíu í heimi og Liverpool er jafnframt að fara flytja á nýtt æfingasvæði þar sem öll liðin æfa saman og markmiðið er að stytta leiðina úr yngri liðunum í aðalliðið. Þjálfarar beggja liða eru mjög viljugir til að treysta ungum leikmönnum.

Hvað eru ungir leikmenn að spila mikið hjá Liverpool?

FSG keypti Liverpool árið 2010 á miðju tímabili og áttu fyrir höndum mikið hreingerningarstarf. Liverpool átti þá unga leikmenn eins og Sterling, Suso og Ibe en Sterling kom fyrst við sögu tímabilið 2011/12 undir stjórn Dalglish. Miðum við það tímabil og skoðum hvernig ungum leikmönnum hefur gengið hjá Liverpool þessi átta tímabil með spilaðar mínútur í deildarleik sem mælikvarða.

Hérna er ca. miðað við leikmenn sem eru annaðhvort uppaldir eða komu mjög ungir til Liverpool. Hvað eru margir á þessum lista sem áttu að verða næsta stórstjarna?

Þrír á þessum lista náðu sannarlega í gegn hjá Liverpool og urðu stórstjörnur hjá félaginu og komu beint úr akademíunni. Joe Gomez fór ef ég man rétt bara beint í liðið 18 ára þegar hann kom (það er á mörkunum að telja hann með hérna en látum það slide-a þar sem hann kom svo ungur). Raheem Sterling var alltaf vitað að yrði stórstjarna og eins fúlt og það er að sjá hann hjá Man City núna voru kaupin á honum frábær og hagnaðurinn rosalegur fyrir akademíuleikmann. Trent Alexnder-Arnold var kannski ekki jafn sure thing og Sterling og Gomez en er klárlega búinn að ná þeim í dag.

Ef við teljum framlag þessara þriggja leikmanna með hefur akademían átt einn fulltrúa í byrjunarliðinu í öllum leikjum í sex af þessum átta tímabilum. Gomez var meiddur 2016/17 og Sterling var ekki byrjaður fyrir alvöru 2011/12. Þessi tímabil átti akademían fulltrúa í ca 10% af leikjunum. Gomez og Trent halda uppi heiðri akademíunnar núna sem er gríðarlega jákvætt fyrir Liverpool. Þeir hafa samtals náð að fylla rúmlega eitt stöðugildi undanfarin tvö ár (3420 mínútur) sem vonandi verður nær tveimur stöðugildum næsta vetur. Það er töluvert.

Ef við tökum þessa þrjá út fyrir sviga og sjáum hvað Liverpool hefur verið að gefa hinum ungu og efnilegu leikmönnunum mikin séns birtist kannski dekkri mynd fyrir núverandi unglinga. Maður skilur alveg afhverju góðir 17-20 ára leikmenn horfi frekar til Þýskalands, Hollands, Portúgal o.s.frv. í staðin fyrir að bíða heilan vetur eftir samtals um 200 mínútum hér og þar yfir veturinn.

Þetta eru þeir sem hafa fengið séns í deildarleik hjá Liverpool undanfarin ár. Fyrir utan Trent og Gomez kom enginn við sögu í vetur í neinum leik nema Rafa Camacho í eina mínútu. Hann er einmitt ferskasta dæmið úr herbúðum Liverpool. Hann er 19 ára og kom sem eitt mesta efni Portúgala fyrir tímabilið 2015/16 frá Sporting Lissabon. Hann hefur spilað heila mínútu í deildinni fyrir Liverpool. Hvað væri hann búinn að spila mikið núna hjá Sporting? Frábært mál að fá ágætis pening fyrir hann og vonandi buy-back klásúlu. Hann virkar ekkert ólmur í að koma aftur samt.

Solanke kom frá Chelsea sem besti leikmaður HM U18 og er sá eini sem fékk einhvern vott af séns tímabilin tvö þar á undan. Hann var seldur á mjög góðu verði m.v. leikmann sem hafði ekkert spilað.

Fyrsta tímabil Klopp og jafnframt síðasta tímabil Rodgers sker sig töluvert úr og sýnir stöðugleika liðsins á þessum tíma. Það komu samtals 12 leikmenn úr akademíunni eitthvað við sögu sem er galið hjá Liverpool. Klopp fórnaði auðvitað einhverjum deildarleikjum þennan vetur enda fókusinn á Evrópudeildina og deildarbikarinn sem útskýrir þennan afbrigðilega fjölda mínútna. Jordon Ibe spilaði t.a.m. 1/3 af mótinu og Kevin Stewart var á miðjunni 1/6 af mótinu.

Flanagan, Wisdom og Suso eru þeir einu þar fyrir utan sem hafa eitthvað spilað að ráði á þessum átta tímabilum.

Hver er líklegastur núna?

Með þetta í huga er ljóst að það væri frábært ef 1-2 af þeim rosalega efnivið sem er hjá félaginu núna nái að brjóta sér leið inn í aðalliðið á næstu 3-4 árum. Þetta þurfa ekki allt að vera svona ultra talent eins og Trent, Gomez og Sterling sem fara nánast beint í byrjunarliðið en eins og standardinn er hjá Liverpool í dag þurfa þessir pjakkar líklega að vera a.m.k. meðal þeirra bestu í sínum aldursflokki í heiminum til að ná í gegn beint úr unglingaliðunum.

Ungir leikmenn virðast þurfa dágóðan slatta af heppni með hæfileikunum. Meiðsli lykilmanna, helst hjá nokkrum leikmönnum á sama tíma er oft eini sénsinn fyrir unga leikmenn til að fá tækifæri. Nærtækasta dæmið eru meiðsli Nate Clyne árið 2017. Hann var næstleikjahæsti leikmaður Liverpool 2015/16 á eftir Mignolet sem spilaði alla leikina og tímabilið eftir var Clyne leikjahæsti leikmaður Liverpool. Hann hafði verið fastamaður í Úrvalsdeildinni í 5-6 ár og spilað nánast alla leiki. Hefði Joe Gomez fengið eins mikinn spilatíma ef Clyne væri heill? Hefði Trent Alexander-Arnold yfirhöfuð verið kominn í aðalliðið í dag ef bæði Clyne og Gomez væru heilir heilsu? Það er auðvelt að halda því fram núna að auðvitað væri svona talent orðin fastamaður en staðreyndin er að það er bara töluvert ólíklegt. Okkur leyst ekkert á að fara inn í þarsíðasta tímabil með “ekkert” back-up fyrir Clyne sem var meiddur.

Þetta er nokkurnvegin samkeppnin um hverja stöðu hjá Liverpool í dag. Hópurinn er á allt að því fullkomnum aldri sem þíðir að bestu menn ættu að eiga a.m.k. 2-4 ár inni á hátindi síns ferils og varaskeifurnar eru oftast fengnar innan hópsins. Flestir leikmenn liðsins geta leyst fleiri en eina stöðu sem takmarkar tækifærin ennþá frekar.

Markmenn – Kelleher og Grabara sem og allir hinir bráðefnilegu markmennirnir sem eru hjá Liverpool í dag spila vonandi ekki eina mínútu í deildarleik næstu 5-10 árin. Liverpool hefur ekki verið með betri markmann síðan Ray Clemence var seldur. Næstur á eftir Alisson er fyrrum aðalmarkmaður Liverpool sem sópar upp öllum aukamínútum sem hægt er að gefa markmönnum.

Vinstri bakvörður – Þó að það sé oft gert lítið úr bakgrunni Andy Robertson þá var hann töluvert efni áður en hann fór til Hull og hefur rétt rúmlega staðið undir því hjá Liverpool. Hann var samt búinn að spila rúmlega 200 leiki í Skotlandi og Hull áður en hann kom til Liverpool og taka út mistök og þroskast þar sem er eðlilegri ferill fyrir mann í þessari stöðu en t.d. Gomez og Trent er að gera. Hver sem kæmi inn fyrir Robertson myndi veikja liðið og eins og Moreno fékk að kynnast undanfarin tvö ár er Milner næsta cover fyrir hann. Mögulega Gomez þar á eftir.

Komi nýr maður í stað Moreno og Clyne þarf hann klárlega að geta leyst báðar stöðurnar. Adam Lewis nær aldrei í gegn.

Miðverðir – Tveir af efnilegri leikmönnum félagsins í dag eru núna hollenskir miðverðir. Líklega er ekki langt í að þeir fari framfyrir Fabinho og Wijnaldum í goggunarröðinni og jafnvel Lovren (innan 12-24 mánaða) en þá eru Van Dijk, Gomez og Matip eftir. Líkurnar eru ekki með Hoever og Berg að komast í aðallið Liverpool fyrir tvítugt. Hoever er samt klárlega rosalegt efni.

Það er enginn að koma upp sem setur pressu á miðjumennina eða hægri bakvarðastöðuna. Ekki nema meiðsli opni á tækifæri fyrir Hollendingana þar. Rafa Camacho var líklegasti “arftaki” Alexander-Arnold og sá líklega manna best sjálfur hversu vonlaust verkefni hann átti fyrir höndum.

Sóknartengiliðir – Curtis Jones hefur verið eitt mesta efnið í yngri flokkunum undanfarin ár og gæti alveg ennþá náði i gegn. Hann er bara 18 ára og var að spila með U23 ára síðasta vetur. Hann er samt líklega of seinn því að Liverpool tekur vonandi ekki annað tímabil þar sem Keita, Ox og Lallana eru annaðhvort meiddir eða ekki í takti. Fyrir utan þá eru Wijnaldum, Milner og Shaqiri að berjast um stöðuna.

Vængframherjar – Harry Wilson er 22 ára og hefur ekki ennþá komið við sögu í deildarleik hjá Liverpool, hann á samt 11 landsleiki með Wales. Það er ekkert útilokað ennþá, Harry Kane sem dæmi fór ekki að spila fyrir Tottenham fyrr en hann var 21 árs og persónulega væri ég meira til í uppalinn og hungraðan leikmann með gæði frekar en þennan skugga af Adam Lallana sem hefur verið á mála hjá Liverpool undanfarin ár, en úr þessu er ansi ólíklegt að framtíð Wilson verði á Anfield.

Ojo fékk séns fyrir fjórum árum og virðist ekki hafa tekið neinum alvöru framförum síðan. Ryan Kent er annar góður leikmaður en verður aldrei partur af aðalliðshóp Liverpool.

Ben Woodburn sem á 10 landsleiki fyrir Wales hefur samtals spilað 90 mínútur í deildinni með Liverpool. Hann hefði mögulega átt að fara á meginland Evrópu fyrir 2-3 árum til að fá spilatíma því hann virðist hafa staðnað hjá Liverpool. Hann er bara 19 ára ennþá þannig að það er ekki alveg útséð með hann en leiðin í Liverpool liðið er of löng.

Sóknarmenn – Efnilegasti leikmaður félagsins er klárlega Rhian Brewster sem er líka 19 ára. Hann hefur ekki ennþá komið við sögu í deildarleik en var vissulega meiddur í vetur. Hann var nálægt því að fara til Þýskalands síðasta sumar og er sá eini af þessum unglingum sem maður sér eiga einhvern raunverulegan séns næsta vetur.

Embed from Getty Images

Hann er samt með Firmino á undan sér sem er leikkerfið hjá Liverpool og ef ég skil þetta rétt töluvert ólíkur leikmaður. Salah og Mané eru næstir á eftir honum en þá losnar auðvitað um þeirra stöður sem Brewster getur líka leyst. Divock Origi fer ekki neitt í sumar og byrjar klárlega á undan Brewster í goggunarröðinni.

Brottför Sturridge og sú staðreynd að Liverpool virðist ekki hafa miklar áhyggjur af því að fylla hans skarð er gríðarleg traustsyfirlýsing til Brewster. Þetta er ekki ósvipað því þegar Clyne meiddist og Klopp setti traust sitt á Trent og Gomez. Ef að Brewster borgar eins fyrir sig erum við ekki í neinum vandræðum.

En hvað þá með Bobby Duncan og Paul Glatzel? Leiðin virðist mjög löng fyrir þá þó að hlutirnir séu fljótir að breytast í fótboltanum. Duncan varð 18 ára í þessari viku og hefur ekki einu sinni verið fastamaður í U23 ára liði Liverpool. Fowler og Owen voru báðir að brjóta sér leið inn í aðalliðið á sama aldri sem dæmi. Væri Duncan að gera það annarsstaðar en hjá Liverpool? Hann er a.m.k. orðaður við brottför til Portúgal í sumar og það væri erfitt að gagnrýna hann fyrir að vilja skoða slíkt.

Það er vonlsut að vita hversu góðir þessir strákar eru, ég veit ekki einu sinni hvor er meira efni Duncan eða Glatzel. En það er mjög ólíklegt að þeir séu að fara koma við sögu í aðalliði Liverpool næstu tvö árin. Eins er ólíklegt að þeir komi fullmótaðir inn í liðið. Sterling var ekki með neinar flugeldasýningar fyrstu 18 mánuðina sem hann spilaði með aðalliðinu (17-18 ára) og fékk mínútur til að fóta sig sem Klopp hefur ekki svigrúm til að gefa.

Það er rosalega erfitt fyrir þá sem vinna með þessum ungu strákum að sjá hver þeirra nær í gegn og hver ekki. Einstaka sinnum kemur talent sem sker sig það mikið úr að aðeins er tímaspursmál hvenær springur út en oftar þarf eins ég kom inn á áðan töluverð heppni að fylgja með hæfileikunum. Ef að þjálfararnir eiga erfitt með að spotta þetta er það auðvitað vonlaust fyrir okkur sófaspekingana sem sjáum ekki nærri því alla leiki unglingaliðanna, hvað þá æfingarnar. Það er því ekkert endilega víst að sá leikmaður sem kemur næst úr akademíunni sé einn þeirra sem ég tiltek í þessari færslu.

Að sjá bara fyrir sér einn líklegan leikmann koma upp næstu 12-24 mánuði virkar ekki mikið en ef við sjáum Liverpool stilla um 2-3 leikmönnum úr akademíunni næstu árin er það töluvert í núverandi landslagi í enska boltanum.

Það er líka mjög jákvætt að miklu fleiri af þeim sem ekki ná í gegn hjá Liverpool eru þrátt fyrir það að eiga ágætis feril annarsstaðar og fara frá Liverpool fyrir töluverðan pening. Sterling, Ibe, Solanke, Smith, Grujic, Wilson og Woodburn skiluðu (eða skila) líklega söluhagnaði sem dugar léttilega fyrir framkvæmdum á nýju æfingasvæði Liverpool. Enginn þeirra nema Sterling náðu að spila eitthvað að ráði fyrir Liverpool.

Gomez og Trent byrjuðu ekki að spila fyrir aðalliðið að neinu ráði fyrr en fyrir tveimur árum, ef að við náum að bæta Brewster við næsta vetur eru þetta þrír á þremur árum. Það held ég að sé ansi nærri því módeli sem FSG vill vinna eftir, hvað þá Jurgen Klopp.

12 Comments

 1. Takk Einar, fínn pistill. Vonandi komumst við lengra í bikarkeppnunum í ár. Það gæti gefið einhverjum mikilvægar mínútur.

  4
 2. Sælir félagar

  Takk fyrir þennan pistil Einar og þarna sýnir þú af hverju við sjáum svona fáa uppalda í liðinu. Partur af því er líka auðvitað hvað við erum alltaf að detta snemma út úr bikarkeppnum og svo fáir leikir á undirbúningstímabilinu. Leikir erlendis á undirbúningstímanum eru líka til að gefa stuðningsmönnum í öðrum heimsálfum tækifæri til að sjá stjörnurnar svo það er úr vöndu að ráða heilt yfir. En sjáum til og ég vona að Brewster amk. fari að sjást með liðinu því það er búið að láta svo mikið af honum og Klopp vill greinilega halda honum.

  Það er nú þannig

  YNWA

  2
 3. Liverpool er risaklúbbur, sem segjir að það sé erfiðra fyrir ungu strákana að komast í aðalliðið. Samt eru 2 aðalliðsmenn uppaldir, sem er meira en margur stórklúbburinn getur státað af, og 1-2 að banka á dyrnar. Sá tími er bara liðinn undir lok, að uppaldir myndi þessi stórlið. Hins vegar eru nýjustu kaup LFC á leikmanni Zwolle dæmi um hvar stærri liðin eiga til að líta til á ungum leikmönnum. Heitir hann Van der Gudni Berg(s)

  YNWA

  2
 4. Takk fyrir góða grein! Ég hef trú á því að tveir leikmenn gætu brotið sér leið inn í liðið á tímabilinu, Brewster og Lewis. Hef ekki séð nóg af van den Berg, en ég er spenntur fyrir honum og Hoever. Svo finnst mér Glatzel og Duncan mjög spennandi leikmenn en held að það séu tvö ár hið minnsta í þá, bara vinnandi að þeir hafi þolinmæðina, fari kannski á lán og komi svo tilbúnir eftir 2 – 3 ár. Það er reyndar alltaf rosalega erfitt að spá því hvernig leikmenn þróast á þessum aldri. Sumir standa í stað á meðan aðrir taka þvílík stökk.

  2
 5. Er eitthvað að frétta af Nathaniel Phillips? Hann leit mjög vel út á undirbúningstímabilinu í fyrra.

  1
 6. Hvað er að frétta af Keita ætli þessi meiðsli séu slæm talað um gæti misst af byrjun tímabils byrjar ekki vel hjá honum ef rétt reynist.

  1
 7. Er bara ekkert að frétta af leikmannamálum hjá okkur, það er ekki einu sinni hávært slúður í gangi.
  Klopp og félagar hafa nú verið ansi snemma í þessu seinustu glugg að fá inn menn en núna er bara nánast þögn.

 8. #7 Það er margt í gangi.

  * Bruno Fernandes agent jets in for talks
  * Þekki systir hans Pepe

  2
 9. Hvada steypa er tetta afrikumot , af hverju byrjadi tad ekki fyrr en 20 eda 21 juni en ekki um 10 juni ? Nuna eru ekki einu sinni byrjud 16 lida urslit. Hvenar endar tetta mot ? Sennilega ekki fyrr en i kringum 20 juli. Ef Salah og Mane fara badir i urslitaleik eiga teir sennilega eftir ad fa allavega 3 vikna fri og ta ekki ad koma til æfinga fyrr en eftir fyrsta leik okkar manna i deildinni sem er 9 agust. Veit einhver nkl hvenar tetta blessada mot er buid og hversu langt fri teir munu nkl fa eftir tetta mot.

  Annars er madur ad verda pinu stressadur yfir hvad litid er ad gerast i glugganum hja okkar monnum. Eg bara trui ekki odru en ad okkar menn kaupi allavega 1 ef ekki 2 frabæra leikmenn, tad er bara ekkert i gangi og varla sludur um leikmenn til okkar.

  1
  • Skárra en að missa þá í mánuð í byrjun janúar. Bobby er líka í copa. Skytturnar þrjár verða svo að fá að slaka aðeins á. Missa allir af city bara samt. Bobby klár í Norwich

 10. Ja madur veit ekki hvort Salah og Mane seu klarir i Norwich, fer sennilega eftir hvad teir fara langt i afrikukeppninni, vonandi detta teir ut sem fyrst bara

Sepp van der Berg til Liverpool (Staðfest)

Staðfest leikmannasýsl & annað áhugavert