Breiddin hjá Liverpool og Man City

Öll bestu lið Liverpool á þessari öld hafa átt það sameiginlegt að töluvert hefur vantað upp á breiddina í liðinu. Liverpool hefur farið fjórum sinni í úrslit Meistaradeildarinnar á síðustu 14 árum sem segir okkur að byrjunarliðið var nógu gott til að berjast við þá allra bestu en eins og við sáum í Kiev í fyrra vantar alltaf aðeins upp á breiddina. Titilbaráttu tímabilið 2008/09 innihélt fjórtán innkomur frá David N´Gog sem dæmi og sölu á Robbie Keane í janúar til að vera nú alveg örugglega ekki með of mikla breidd. Tímabilið 2013/14 voru bara hinir og þessir settir í vörnina.

Liverpool er núna komið aftur í baráttuna við þá allra bestu og sýndi í vetur að tapið í Kiev var heilmikill lærdómur. Klopp var þá satt að segja rétt að byrja að smíða núverandi lið. Man City sem náði 100 stigum í deildinni þetta sama tímabil er viðmiðið á Englandi og nokkuð augljóst að þeir voru bæði með besta byrjunarliðið og besta hópinn í heild.

Mig langar aðeins að skoða hversu mikill munur er á hópi Liverpool og Man City núna áður en liðin byrja að versla fyrir næsta tímabil. Þ.e.a.s. skoða hópa liðanna í fyrra. Liðunum stilli ég upp m.v. hvernig líklegt byrjunarlið væri á næsta tímabili en tek auðvitað mið af síðasta tímabili, ekki taka þessu of hátíðlega.

Markmaður

Það er ekki mikið á milli þeirra en landsliðsþjálfari Brasilíu velur vissulega Alisson. Báðir spiluðu 100% mínútna í deild og Meistaradeild þannig að breiddin skipti ekki máli. Eins fengu þeir á sig 22 og 23 mörk í deildinni sem er frábært.

Vinstri bakvörður

Andy Robertson er á einu og hálfu ári búinn að fara frá því að vera gamli bakvörður Hull í almennri fótboltaumræðu í það að vera almennt sagður besti vinstri bakvörðurinn í boltanum. Mendy hjá Man City var líklega á góðri leið með að verða einn af þeim bestu og gæti alveg orðið það ennþá en hann er núna búinn að vera meiddur í tvö ár og á meðan hefur City spilað 3-4 mismunandi leikmönnum í þessari stöðu þar sem hver og einn spilaði 20-35% Öfugt við Liverpool er þessi staða semi veikleiki hjá City. Hvað breiddina varðar þá er James Milner líka betri vinstri bakvörður en það sem City hefur verið að spila þarna í vetur.

Miðverðir

Hér eru bæði lið gríðarlega vel mönnuð. Van Dijk ætti að öllu eðlilegu að vinna Ballon d´Or fyrir sitt framlag í vetur og með honum í vetur spiluðu þrír leikmenn sem hafa allir sýnt að þeir geta spilað á hæsta leveli. Joe Gomez er eitt mesta efni heimsfótboltans í sinni stöðu en þarf að fara ná meiðslalausu tímabili. Van Dijk spilaði t.a.m. 97% leikja Liverpool í vetur sem er grunnurinn að öllu tímabilinu.

Liverpool er vissulega með dýrasta varnarmann í heimi en Man City er með dýrasta hóp miðvarða í heimi. Tímabilið hjá þeim var mjög svipað og okkar. Laporte spilaði 91% leikjanna og er besti varnarmaður liðsins á meðan hinir þrír skiptu mínútunum nokkuð jafnt á milli sín.

Kompany sem hefur verið fyrirliði City undanfarin ár hætti eftir tímabilið, það er ekkert grín að fylla hans skarð innanvallar og líklega ennþá erfiðara utanvallar. Það mun kosta töluverða fjárhæð. Eins er Otamendi orðinn 31 árs og kannski ólíklegt að hann festi sig mikið í sessi sem byrjunarliðsmiðvörður úr þessu?

Liverpool er með betri breidd hérna eins og staðan er núna (áður en City byrjar að versla).

Hægri bakvörður

Það er bara tímaspursmál hvenær Alexander-Arnold tekur sæti Kyle Walker í landsliðinu. Raunar er ekki það langt síðan Clyne var fyrir framan hann í goggunarröðinni. Trent og Walker eru auðvitað báðir frábærir leikmenn en þakið er miklu hærra hjá Trent sem er aðeins 20 ára á meðan hinn 29 ára Walker á er hátindi ferilsins. Þegar Walker var 20-21 árs var hann á láni hjá Sheffield United, QPR og Aston Villa.

Breiddin er hinsvegar miklu sterkari hjá City. Liverpool var í töluverðu basli þegar Trent gat ekki spilað og var t.d. að henda haugryðguðum Clyne í stóran leik í versta hallærinu. Milner tók einnig nokkra ásamt Gomez þegar hann var heill. Gæðamunurinn á Gomez og Trent í þessari stöðu hefur aukist töluvert í vetur. Danilo spilaði bara þessa leiki sem Walker tók ekki hjá City, fínt að eiga gamla hægri bakvörðinn frá Real Madríd til vara.

Varnartengiliðir

Rétt eins og meirihluti þeirra leikmanna sem Jurgen Klopp kaupir fékk Fabinho nokkra mánuði til að aðlagast og læra inn á leikstíl liðsins. Loksins kominn varnartengiliður til Liverpool en ljóst að hann á miklu meira inni enda spilaði hann bara 60% af leikjum liðsins og ekkert alla sem sá varnartengiliður sem endaði tímabilið.

Fernandinho hjá City þurfti hinsvegar ekkert að aðlagast og var rétt eins og undanfarin ár einn besti miðjumaður deildarinnar. Óþolandi góður leikmaður og passlega dirty þannig að hann sleppur alltaf við alvarlegar refsingar. Hann er öfugt við Fabinho í landsliði Brassa í sumar en það er spurning hvað hann endist lengi á þessu leveli? Fernandino er orðinn 34 ára gamall á meðan Fabinho er bara 25 ára. Til að setja þetta í samhengi var Fernandinho 28 ára þegar hann fór til Man City.

Henderson, Wijnaldum, Milner og Keita hafa allir reynslu af því að spila aftast á miðjunni ef að til þess kemur en breiddin í þessari stöðu batnar vissulega rosalega með innkomu Fabinho. City er með Gundogan, Zinchenko og Delph sem ég myndi ekki kalla betri breidd. City reyndi að styrkja þessa stöðu fyrir síðasta tímabil (Jorginho) og því ekki ólíklegt að þeir láti til sín taka aftur í sumar.

Miðjumenn

Jordan Henderson spilaði bara 61% af leikjum Liverpool í deild og Meistaradeild í vetur sem kemur smá á óvart. En eftir Southampton leikinn þar sem Henderson fékk loksins að spila sína bestu stöðu undir stjórn Klopp hefur hann verið einn besti leikmaður liðsins og fyrsta nafn á blað á miðjunni. Vonandi verður hann meira í þessu box-to-box hlutverki næsta vetur með vernd fyrir aftan sig.

Það er erfitt að bera City og Liverpool nákvæmlega saman enda ólíkt upplegg á miðjunnu en ætli David Silva hafi ekki komist næst því að spila á miðri miðjunni hjá City í vetur eins og við erum að stilla þessu upp. Hann er einn besti miðjumaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og var frábær í vetur. Hann spilaði 72% leikja City og sýndi þess ekki merki að hann er orðinn 33 ára.

Kevin De Bruyne er auðvitað tilbúinn sem arftaki fyrir hann og jafnvel ennþá betri leikmaður haldist hann heill. Hjá Liverpool bjóst maður nú við því að Wijnaldum myndi spila minna í vetur en undanfarin ár hann fór auðvitað bara upp um eitt level og spilaði mest allra miðjumanna Liverpool.

Sóknartengiliður

Bernando Silva var einfaldlega besti sóknartengiliður deildarinnar í vetur og að mínu mati besti leikmaður Man City. Hann er sá úr þessu liði sem ég myndi mest vilja fá til Liverpool. Hann er auðvitað miklu meira en bara sóknartengiliður rétt eins og að ekki er hægt að njörva neinn miðjumann þessara liða við eina stöðu.

Ef að Liverpool þróast áfram eins og liðið hefur verið að gera er ekki ólíklegt að 1-2 af þeim sem voru lykilmenn í vetur verði meira á bekknum næsta vetur. Fremsti miðjumaður var helsti veikleiki Liverpool í vetur og ljóst að erfitt var að fylla skarð Oxlade-Chamberlain eins og hann var að spila eftir áramót 2017/18. Naby Keita náði bara að sýna brot af því sem hann getur og takist honum að eigna sér þessa stöðu og spila á svipuðu leveli og hann gerði hjá Leipzig stórbætir það líklega sóknarleik miðsvæðisins. Ox sjálfur gæti einnig komið inn í liðið aftur og fyllt sitt eigið skarð. Wijnaldum er svosem ekkert vonlaus heldur fái hann að spila þessa stöðu. Barcelonamenn geta vottað fyrir það.

Liverpool verður vonandi með sóknartengilið næsta vetur sem er mun nær Bernardo Silva í gæðum sóknarlega.

Miðjan almennt

Ef að Klopp gerir einhverjar breytingar á miðjunni næsta vetur verða þær líklega allar innanhúss. Líklega þurfa allir miðjumenn Liverpool meiri festu og með því skýrara hlutverk. Það er augljóslega rosalega erfitt að vera miðjumaður í Klopp liði, það var vitað áður en hann kom til Liverpool. En vonandi fá miðjumenn liðsins að spila sína bestu stöðu næsta vetur.

Fabinho er okkar langbesti varnartengiliður en spilaði líklega minna aftast á miðjunni en Henderson og Wijnaldum gerðu (samanlagt) síðasta vetur. Henderson fór umsvifalaust í 2013/14 mode þegar hann kom inná gegn Southampton sem box-to-box leikmaður með frelsi til að pressa hátt uppi. Hlutverkið sem maður hélt að væri hannað fyrir hann undir stjórn Klopp. Wijnaldum er fjölhæfur leikmaður en kemur það niður á honum að spila allar þrjár stöðurnar á miðjunni en festa sig aldrei í sessi í neinni þeirra?

Hjá Man City eru þeirra bestu miðjumenn komnir á aldur og Kevin De Bruyne hlítur að vera áhyggjuefni. Bernardo Silva er geggjaður og Foden er eitt mesta efni Englendinga en þeir þurfa líklega að styrkja sig í sumar. Hérna finnst mér ekki mikið vera á milli liðanna.

Vængframherjar

Það er ekki mikið á milli Sterling og Mané þó annar þeirra hafi verið töluvert meira hype-aður heldur en hinn. Mané skoraði fimm mörkum meira í deildinni en Sterling kom að fjórum mörkum meira. Báðir passa fullkomlega inn í leikstíl þjálfaranna. Afhverju Sané er ekki að þróast í að vera einn besti leikmaður í heimi skil ég ekki alveg og óttast að hann gæti sprungið almennilega út á næstu árum (enda bara 23 ára). Hann er a.m.k. ekki ennþá í sömu deild og Salah en gleymum ekki að 23 ára var Salah lánsmaður frá Chelsea að spila á Ítalíu.

Hvað breidd varðar þá held ég að munurinn í þessari stöðu hafi verið stórlega ofmetinn í vetur. Mahrez er rosalega flott nafn á pappír og hann átti vissulegan stóran þátt í gengi City af bekknum eða sem partur af hópnum en sama má segja um Shaqiri. Mahrez skoraði átta mörk og lagði upp átta í deild og Meistaradeild. Shaqiri skoraði 6 mörk og lagði upp þrjú en í miklu færri leikjum.

Bernardo Silva spilaði eitthvað á vængjunum líka en rétt eins og hjá Liverpool voru ekkert mikið fleiri að koma við sögu í þessum stöðum hjá City. Ég myndi ekki skipta á neinum frá Liverpool við vængframherja City enda vængframherjar Liverpool bókstaflega markahæstu menn tímabilsins.

Sóknarmenn

Aguero og Firmino gætu ekki verið mikið ólíkari leikmenn og bæði erfitt og ósanngjarnt að bera þá saman. Aguero er einn besti sóknarmaður úrvalsdeildarinnar (frá upphafi) og hefur náð að breyta leikstíl sínum til að aðlagast Pep Guardiola og þeirri vinnusemi sem hann fer fram á. Hann er að halda einni mestu vonarstjörnu Barsilíumanna á bekknum, leikmanni sem er oft valinn framyfir Firmino í landsliðið. Aguero skoraði mun meira í vetur og lagði jafnframt meira upp en Firmino.

Þrátt fyrir það held ég að fáir Liverpool menn tækju í mál að skipta við City. Bobby er leikkerfið hjá Liverpool. Hann er samhliða því að vera fremsti maður einn besti varnarmaður liðsins og skapar það mikinn tíma og pláss fyrir samherja sína að þeir eru báðir markahæstu menn deildarinnar. Firmino saknaði líklega mest allra Oxlade-Chamberlain í vetur enda var hann jafnan að spila miklu nær Firmino en miðjumenn liðsins gerðu í vetur.

Aguero er rétt eins og Silva, Kompany og Fernandinho kominn norðurfyrir þrítugt og spurning hvort Jesus fari að taka af honum stöðuna? Jesus er aðeins 22 ára og gæti rétt eins og Sané alveg þróast í að verða einn af þeim allra bestu. Vonandi á Liverpool einnig slíkan leikmann í Rhian Brewster.

Eins frábær og Origi var á þessu tímabili þá spilaði hann færri mínútur en Sturridge og megnið af þeim sem kantmaður. Breiddin er klárlega betri á pappír hjá City.

Niðurstaða

Rétt eins og niðurstaðan í deildinni sýndi okkur er ekki mikill munur á þessum hópum og City alls ekkert með miklu betri hóp. Liverpool er ef eitthvað er með mun meira spennandi hóp ef horft er til næstu ára.

Helstu lykilmenn City frá því Guardiola tók við eru komnir á aldur og ekkert grín að fylla þeirra skörð þó City sé vissulega komið ágætlega á veg með það. Hjálpar rosalega við enduruppbyggingu á knattspyrnuliðum að hafa botnlausar hirslur til að fjármagna þetta og komast upp með það að gefa skít í FFP reglur í leiðinni.

Leikmannakaup Man City hafa heldur ekkert verið í líkingu við Klopp og greiningardeild Liverpool undanfarin 2-3 ár og ekkert víst að allt sem þeir geri í sumar gangi 100% upp. City var vissulega komið í svipaða stöðu fyrir 2-3 árum og Liverpool er núna. Þurftu ekki að gera neinar róttækar breytingar nema auka breiddina og hafa gert það vel. Þetta Man City lið sem vann deildina með 98 stigum hefur að mestu leiti verið saman í 3-5 ár á meðan Liverpool liðið hefur verið verið að mótast undanfarin 1-2 ár. Líftími elítu liða er oft í kringum 3-5 ár áður en kemur að endurnýjun.

Nú er bara að vona að Liverpool taki ekki Tottenham á leikmannamarkaðinn í sumar. Ég man ekki eftir Liverpool í betri stöðu til að styrkja hópinn en akkurat núna. Hamra járnið meðan það er heitt takk.

7 Comments

 1. Sæl og blessuð.

  Þessi rann vel niður með morgunkaffinu.

  Það togast á í manni hvort félagið ætlar að töfra fram nýjan Robertson/Salah eða hvort þeir hyggjast sækja leikmann sem er þegar kominn á það stig sem liðið kalla eftir Alison/Virgil. Ég hallast að því síðara og veðja mínum skildingum á að næstan sjáum við, í rauðum æfingagalla með blekpenna í hönd, við hlið skælbrosandi stjórans – Mbappe sjálfan. Já, hendum 200 millum í kvekindið, þær koma fljótt aftur í kassann á þessum biluðum tímum. Við fengjum í staðinn alvöru uppfærslu í hraða og ógn, já rauðan dregil að þreföldum meistaratitli næsta vor.

  7
 2. Sælir félagar

  Takk fyrir þetta Einar Matthías, þú lætur ekki að þér hæða. Ég er í þeirra hópi sem telja að styrkja þurfi liðið verulega ef það á að halda dampi í komandi átökum. Upp á breiddina vantar; í framlínuna, í varnartegilið og “bakkupp” fyrir báða bakverði. Það verður að bæta þarna inn mönnum sem eru amk. nálægt byrjunarliðsmönnum hvað varðar gæði. Ef það er gert (og ef það tekst) þá ætti breiddin að vera orðin viðunanleg.

  Þetta mun kosta peninga – já haug af seðlum en ef það á að sækja titla á öllum vígstöðvum þá er það óhjákvæmilegt. Klopp hefur sjálfur sagt að Liverpool verði að eyða til að ná þeim árangri sem sóst er eftir. Þ. e. í deidinni og í öllum bikarkeppnum ásamt meistaradeild. Svo koma til þeir 4 leikr sem bætast við eftir Evrópumeistaratitilinn. Það sem ég tel upp hér að ofan er lágmark og þá hefi ég líka í huga hvað við höfum innan klúbbsins nú þegar bæði af ungum og eldri leikmönnum.

  Það er nú þannig

  YNWA

  2
 3. Takk fyrir Babú, glæsilegur pistill að venju.

  Miðað við City virðumst við með svaka breidd. Mér fannst það bara alls ekki vera tilfellið á nýliðinni leiktíð. Sannaðist best með byrjunarliðinu gegn Wolves í FA cup. Auðvitað koma Chamberlain og Brewster til baka úr meiðslum en Brewster er óskrifað blað. Lallana og Lovren eru því miður meiðslapésar for life og myndi helst vilja losna við þá á meðan það fæst einhver peningur fyrir þá. Miðjan er eina svæðið þar sem er einhver breidd af viti en samt hefur verið kallað eftir “tíunni”. Finnst samt eins og Uxinn, Shaq, Keita og jafnvel Firmino vera full færir um að valda þeirri stöðu.

  Öll viljum við almennilegan back up fyrir tres locos þarna frammi en efast stórlega um að keyptur verður rándýr varamaður fyrir þá. Nema þá helst Mbappe eða Griezmann verða fáanlegir. Held samt að kaupa mann framm sé ekki efst á blaði hjá Klopp. Origi, Shaq, Wilson og mögulega Brewster eru kannski alveg nóg back up, allavega spenntur fyrir tveimur síðarnefndu í pre season.

  Mikilvægast er að finna back up fyrir Robertson, það verður pottþétt keyptur vinstri bakvörður. Ef Clyne fer þarf hægri bak, ekki hægt að treysta á að Gomez haldist heill. D. Alves er víst laus, hann virðist eldast eins og Milner, semsagt ekki neitt. Svo fer Mignolet, trúi ekki öðru, þarf þá solid markmann fyrir bikarkeppnirnar, ekki eitthvað Manninger grín.

  Ef það fara einhverjir 7-10 leikmenn; Studge, Moreno, Mignolet, Clyne, Lovren, Lallana, mögulega Wilson og fleiri þá fyndist mér ekkert óeðlilegt að næstu vikur verða busy hjá Edwards og co. Óskalistinn eða bjartsýnisverðlaun ársins væru því; Wan Bissaka eða D. Alves, Chilwell, Mbappe, Buffon, De Ligt eða Maguire og Joao Felix eða endurkoma týnda sonarins, Coutinho. Ég meina, ef liðið ætlar að vinna einhverja 8 eða 9 bikara þá þurfum við þessa kalla.

  1
 4. Bruno Fernandes portugalinn er nánast frágengið að mati veðbanka. Áhugaverð kaup ef af verður. Hann er miðjumaður þar sem breiddin er mest. En jafnframt eina staðan á vellinum þar sem hægt er að bæta byrjunarliðið.

  1
 5. Okkur vantar sjáfsagt mann í vörnina fyrir Lövren, og einn sterkann á miðjuna uppá breydd og mann í sóknina sem getur leyst enhvern af þrennunni af þegar þarf, jafnvel gefa þeim samkeppni um stöðuna.

  annars er það eina sem skiptir máli að fá að upplifa svona dag aftur:
  https://www.youtube.com/watch?v=yrG3C-R7D5s

  1

Frábært tímabil – Uppgjör Kop.is 2018/19

Engin stór leikmannakaup í sumar?