Opinn þráður – Hvað er að gerast á markaðnum?

Einu staðfestu fréttirnar af aðalliðshópi Liverpool núna eftir tímabilið eru þær að Sturridge og Moreno eru búnir að kveðja (en ekki ekki tilkynna hvað þeir gera næst). Ef ég man rétt eru þessar fyrstu 2-3 vikur eftir tímabilið jafnan mjög rólegar enda flestir komnir hingað og þangað um heiminn í frí. Stuðningsmenn Liverpool hafa reyndar aldrei þurft að hafa eins litlar áhyggjur af leikmannamarkaðnum og einmitt núna, hvað þá núna þegar það eru tæplega tveir mánuðir eftir af glugganum.

Það er engu að síður töluvert í gangi eins og alltaf, þetta verður líklega stærstu glugginn í sögu knattspyrnunnar og ljóst að helstu andstæðingar Liverpool ætla ekki að sitja auðum höndum.

Chelsea

Hvergi hefur það eins lítil áhrif á ferilsskránna fyrir þjálfara að vera rekinn eins og hjá Chelsea. Þeir þurftu reyndar ekki að reka Sarri, fá m.a.s. borgað fyrir að leyfa honum að fara en það var alveg ljóst að hann yrði ekki áfram hjá þeim eftir þetta tímabil.  Ég hef hlustað á margar útskýringar á þessu og lesið mig töluvert til um það afhverju Sarri er alls ekki nógu góður fyrir Chelsea en hef ekki ennþá heyrt neina sem meikar sens. Það var fengið þennan svona líka rosalega spennandi stjóra frá Napoli fyrir 12 mánuðum og honum ætlað að innleiða tegund af fótbolta sem tekur meira en nokkra mánuði að innleiða. Hann fékk viku með liðið á undirbúningstímabilinu og byrjaði samt bara ágætlega. Chelsea endar sem Evrópudeildarmeistarar, voru fyrir það búnir að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni og töpuðu öðrum bikarnum eftir vító.

Það er við hæfi að þessi vonlausi stjóri taki við Juventus næst, mun stærra félagi en Chelsea. Persónulega er ég mjög feginn að hann fái ekki heilt undirbúningstímabil og nái að innleiða þennan svokallaða Sarri-ball almennilega því ég held að hann viti vel hvað hann syngur.

Frank Lampard virðist vera sá sem tekur við af honum. Hann hefur ekkert afrekað í þjálfun ennþá en þarf ekkert að vera vitlausari ráðning en t.d. Avram Grant eða Roberto Di Matteo, sem báðir náðu fínum árangri með liðið. Lampard þekkir auðvitað mjög vel til hjá þeim og tekur með sér gott starfslið sem þekkir líka mjög vel til hjá Chelsea. Við myndum aldrei afskrifa Steven Gerrard ef hann tæki við Liverpool og líklega hugsa stuðningsmenn Chelsea um þetta á svipuðum nótum.

Mikið djöfull er ég samt feginn að þeir eru að þessu en ekki við. Manchester United gerðu þetta líka að einhverju leiti með Solskjaer. Það er ekkert útilokað að þetta gangi upp og þeir nái að sanna sig sem góðir stjórar en það er ástæða fyrir því að flest elítuliðin fari ekki þessa leið lengur, þ.e. að leita til fyrrum leikmanna. Lampard er engu að síður töluvert efni í þjálfara. Enginn æfði meira en hann sjálfur og hann er auðvitað alinn upp af þjálfara.

Hjálpar ekki Lampard að taka við með Chelsea í félagsskiptabanni og nú þegar búið að selja sinn næst besta leikmann (Kanté er betri en Hazard!)

United

Fyrstu kaup sumarsins hjá þeim benda til að United ætli að breyta innkaupasetefnunni aðeins. Daniel James var hársbreidd frá því að fara til Leeds um áramótin en endar núna hjá Man Utd. Hörkuefni auðvitað og öskufljótur.

Paul Pogba hefur núna tjáð sig um að hann vilji fá aðra áskorun sem rímar ágætlega við áhuga frá Real Madríd og Juventus sem bæði eru greinilega tilbúinn að versla hluti úr dýrustu hillunni.

Umboðsmaður Pogba er auðvitað Mino Raiola þannig að hann er alltaf líklegur til að fara og er núna þegar byrjaður að nota þekktar Raiola aðferðir til að flýta fyrir því ferli. Pogba hefur komið að 60 mörkum (stoðsending eða mark) hjá United og það verður ekkert auðvelt að skipta honum út en mögulega myndi brottför hans ekki veikja United mikið. Solskjaer þarf að byggja upp liðsheild og kannski er það auðveldara verk án Pogba, sérstaklega Pogba sem þegar er farinn að tala um áhuga á nýjum áskorunum.

Hann er 26 ára og vill alveg klárlega vera í Meistaradeildinni næsta vetur. Eins þarf hann að komast í lið þar sem hann fær að vera meira sá Pogba sem spilar með Frakklandi en sá sem hefur spilað með United. Erfitt að sjá hann vilja taka þátt í 2-3 ára uppbyggingarferli hjá United (ég meina 10-20 ára).

Eins verður fróðlegt að sjá hvort De Gea fari eitthvað?

Real Madríd 

Það er eins og Perez hafi fundað með stjórnvöldum á Spáni og í Madríd og fundið nýja gullkistu enn eina ferðina. Real Madríd er byrjað að eyða peningum sem aldrei fyrr og ætla augljóslega að styðja vel við bakið á Zidane. Klárt að honum hefur verið lofað þessu þegar hann tók við aftur.

Edin Hazard er kominn frá Chelsea fyrir €100m og Real er að auki orðað sterklega við Pogba (eða Eriksen). Luka Jovic var keyptur frá Frankfurt, 21 árs sóknarmaður sem sló í gegn í vetur. Militao var keyptur um áramótin frá Porto, gríðarlega líkamlega sterkur og efnilegur varnarmaður. Ferland Mendy, vinstri bakvörður er kominn frá Lyon. Auk þess fá þeir núna Junior og Rodrygo sem eru einhver mestu efni S-Ameríku. Þeir eru nú þegar búnir að eyða um €260m.

Eins verður fróðlegt að sjá hverjir fara frá þeim í staðin. Liðið sem vann Meistaradeildina þrjú ár í röð er komið á endurnýjun eins og þessi gluggi gefur til kynna og eins og ég kom inná í upphitun fyrir úrslitaleikinn í fyrra. Bale, Isco, Benzema og fleiri slíkir gætu alveg haldið annað í sumar.

Man City, Tottenham og Arsenal hafa rétt eins og Liverpool ekki hafið leik að neinu ráði ennþá en þurfa líklega öll að láta eitthvað til sín taka. Inn í þessa upptalningu vantar svo lið eins og Barcelona, PSG og Inter sem eiga öll eftir að eyða miklu í sumar. Já eða Newcastle? Verða þeir næsta Olíufélag?

11 Comments

 1. Þetta er ein af bestu sumargluggum sem maður mann eftir sem Liverpool stuðningsmaður.

  Ástæðan fyrir því er að við erum komnir á það stig að stjörnurnar okkar eru ekki að fara af því að þær eru í einu besta liði í heimi í dag. Það er ekki einu sinni verið að orða þær frá okkur sem er enþá meiri staðfesting, auðvita kemur alltaf eitthvað svona skildu Real að bjóða í Salah og eitthvað svoleiðis en annars bara allt gott að frétta.

  Önnur ástæða er að liðið okkar er drullu gott nú þegar og annað ár með Klopp gefur tilkynna að hann mun bæta þetta lið hvort sem það eru nýjir leikmenn eða ekki.
  Framfarir verða ekki miklar þar sem það er erfitt þegar þú ert alveg hjá toppnum en það eru þessi litlu atriði sem skilja á milli og þar kemur Klopp sterkur inn.

  Þriðja ástæðan er að við erum með nokkra leikmenn sem voru mikið meiddir á síðasta tímabili og spurning um hvort að 1-2 af þeim verða heilir á næsta tímabili sem annað hvort eykur breydd eða jafnvel styrkir liðið.

  Gomez – Allt tal um að við verðum að fá de ligt finnst mér vera bull, já það væri frábært að fá hann en ef menn muna eftir hvernig Gomez spilaði með Dijk áður en hann fótbrotnaði þá held ég að krafan um de light væri ekki svona mikil. Gomez var búinn að vera frábær.

  Ox – Vá hvað það hefði verið frábær að hafa þennan kall heilan á síðasta tímabili. Okkur hefur stundum vantað mann á miðsvæðið til að opna varnir en hann væri týpan í að gera það en hann fer langt á hraða, krafti og áræðni

  Lallana – já ég veit að þetta er umdeild en Lallana í leikformi er virkilega sterkur leikmaður til að hafa í hóp. Hann er duglegur og teknískur leikmaður sem ég held að Klopp elskar. Já hann er alltaf meiddur en gefum honum eitt ár í viðbót og sjáum hversu heill hann er, við töpum ekkert á því.

  Keita – hann var ekki að ná sér á strik lengi vel en þegar hann náði sér á strik þá meiddist kappinn og var það mjög sorglegt. Ég held að ef hann helst heill og kemst á smá run eins og það virtist stefna í áður en hann meiddist þá erum við hérna með heimsklassa leikmann – pínu ósangjart að hafa hann á meiðslalistanum þar sem hann var að mestu heill en set hann með þar sem þegar hinn rétti Keita mætti á svæðið þá meiddist hann strax.

  Mér er eiginlega sama hvað Chelsea, Man utd, Tottenham og Arsenal eru að gera í sumar. Mér finnst við vera orðnir það góðir að við erum bara að fara að berjast við Man City.
  Þetta er auðvita orðin hálfgerður hroki en mér finnst þetta meira vera bullandi trú á Klopp og strákunum og sjá þá bæta sig á hverju ári og sé ég ekki ástæðu fyrir því að þeir ættu að fara að stopa núna.

  YNWA
  We conquered all of europe were never gonna stop 🙂

  14
 2. Er lítið stressaður yfir kaupum eða sölum hjá okkur, en ég væri til í að bæta við eins og 3-4 leikmönnum, svona til þess að fá samkeppni um stöður og breikka hópinn aðeins. Ég vona að við náum langt í FA cup næsta tímabil, langar alltaf í þann titil, þó svo að deildartitilill sé alltaf “the holy grail” hjá okkur flestum. Ég held að Tottenham sé á mun betri stað en celski,utd og arsenal þegar kemur að leikmannamálum, þó svo þeir hafi ekkert keypt síðasta ár (eins furðulega og að hljómar).
  Man city á eflaust eftir að kaupa 2-3 á verðbilinu 50-100 millj punda líka en við þurfum vinstri bakvörð, sóknarmann og kannski varnarmiðjumann, svo er spurning með varamarkmann ef Mignolet fer.
  Við erum samt með meidda leikmenn sem eru að koma tilbaka eins og ný kaup eins og Sigurður nefnir, það á eftir að vera frábært að fá OX,Lallana og Gomez aftur. Ég læt þá félaga Klopp og co um þetta bara og held áfram að njóta þess að vera EVRÓPUMEISTARI 🙂

  8
 3. Mér finnst eins og að við kaupum annaðhvort leikmann frá Ajax eða þá einhvern portúgalskan. Sagnarandinn segir mér það. Sjáum til.

  Ég hef ekki trú á því að Lallana eigi meira í pokahorninu til að gefa Liverpool á efsta leveli, en auðvitað er alltaf í boði að éta sokk með sósu…

  Og svo má Milner aldrei fara frá Anfield. Költhetja og Mr. Professional, glæstur sendiherra í framtíðinni og fyrirmynd allra ungmenna sem vilja berjast og ná toppferli.

  4
 4. Okkur vantar meiri breidd ef við ætlum að berjast um alla titla sem að eru í boði. Við erum með frábært byrjunarlið og það er erfitt að finna menn sem bæta það. Ein af ástæðunum fyrir því að Man City vann þrjá titla er að þeir geta dreyft álaginu vel en við duttum út í round 1 í báðum bikarkeppnunum. Við höfum líka verið frekar heppnir með meiðsli fram á við og við getum sennilega ekki treyst á að þrír fremstu haldast heilir nánast allt seasonið. Shaqiri og Origi komu þó vel út þegar þeir duttu út en maður veit ekki hvort að Origi verður aftur geggjaður á næsta tímabili. Það verður líklega keyptur vinstri bakvörður(backup fyrir Robertson) og varamarkvörður. Ég vona að við tökum líka einn góðan leikmann til að styðja við fremstu tvo og jafnvel heimsklassa miðjumann. Ég er ekki viss hvort að við þurfum de ligt núna en það mætti skoða það ef Lovren fer frá félaginu. En fyrst og fremst að halda öllum lykilmönnum og þá getum við barist um sjö titla á næsta tímabili!

  4
 5. Okkur vantar sókndjarfan miðjumann við vitum ekkert hvernig ox er eftir meiðslin ekki víst að hann verði sami leikmaður. Verðum að fá gæðaleikmann sem getur róterað við fremstu 3 án þess að gæði lækka. Ef við byrjum tímabilið með grein frá echo um að lallana verði eins og nýr leikmaður þá höfum við ekki getað fengið þá leikmenn sem við viljum.

  2
 6. “Það var fengið þennan svona líka rosalega spennandi stjóra…”
  Arg, þetta sker í eyrun pistlahöfundur. Vinsamlegast, eitthvað eins og ” Fenginn var þessi líka…
  er mun betra. Hitt er bara ekki íslenska.
  Afsakið mig…

  15
 7. Takk fyrir þetta Einar. Auðvitað munu stjórnendur Liverpool hnusa eitthvað að nýjum leikmönnum td þessum Targett hjá Southampton. Virðist við fyrstu sýn vera svona meðalgaur en kannski getur hann vaxið og dafnað hjá Klopp, hver veit. Veit ekki hvort fleiri raunhæf skotmörk eru í siktinu. Ef ég ætti að velja myndi ég leggja höfuðáherslu á einn heimsklassamiðjuleikmann og síðan tvo góða með sem gætu verið einn í vörn og einn framar. Álagið verður gríðarlegt næsta vetur og tali ég nú ekki um ef á að berjast raunverulega í öllum keppnum. Síðan bætast við Góðgerðarskjöldur, Supercup og Heimsmeistarakeppni ef ég skil þetta rétt. Það gerir allavega sennilega 4 leiki aukalega. Allt krefst þetta að leikmannahópurinn sé stór og öflugur.

  6
 8. Ég held að sumarið muni aðallega snúast um hverjir af yngri leikmönnunum okkar fái samning eða verði seldir, eins og t.d. Ojo, Wilson og Kent.

  Ég myndi vilja sjá einhvert back-up fyrir Robertson koma inn, ef hann meiðist (plís ekki) erum við í vondum málum.

  1
 9. Ástæðan fyrir því að ég vil helst fá De Light er að hann er betri en þeir miðjumenn sem við höfum að Van Dijk undanskildum.
  Lovren, Gomez og Matip eru mikið frá vegna meiðsla og misgóðir þegar þeir eru heilir.
  De Light myndi vera mikil bæting á þessa þrjá og mynda besta miðvarðapar í heimi líklega.
  Hægt að selja Lovren og Matip og Gomez verið tvö og þrjú.
  Síðan þyrfti að bæta við sóknarmanni og miðjumanni.
  Varðandi varamarkmann að þá fer það eftir því hvort Mignolet verður áfram eða ekki hvort þörf er á varamarkmanni.
  Þarna erum við að tala um 3-4 leikmenn sem er mikil bæting frá því að manni fannst þurfa að skipta um nánast allt liðið eftir leiktíðina eins og áður var.
  Nú er bara verið að finna gæðaleikmenn og engin „panic buy“ lengur.

  3
 10. “Lovren, Gomez og Matip eru mikið frá vegna meiðsla og misgóðir þegar þeir eru heilir”.

  Ég fylgdist með aragrúa af leikjum í vetur og tók varla eftir feilspori hjá neinum af þessum herramönnum þegar þeir fengu tækifærið. Þeir spiluðu allir vel. Tölurnar tala sínu máli. 22 mörk, fæst mörk í deildinni, innihalda ekki miðverði sem eru með léleg gæði.

  Við höfum einn vinnstri bakvörð og svo höfum við í raun miðvörð sem er að dekka hægri bakvarðarstöðuna.

  Ég tel augljósast að fokusinn verði frekar á að fjárfesta í vinnstri bakverði frekar en miðverði.

  5
 11. Við þurfum ekki De Light við höfum Gomez sem er miklu betra leikmaður

  1

Leikjaplanið komið í loftið

Sheyi Ojo lánaður til Glasgow Rangers (Staðfest)