Leið Tottenham til Madrídar

Innskot: Minni á Gullkastið í færslunni hér fyrir neðan fyrir þá sem hafa ekki enn hlustað á það en þar er hitað vel upp fyrir úrslitaleikinn með formanni Tottenham klúbbsins á Íslandi.

 

Við tókum fyrir á sunnudaginn okkar leið í úrslitaleikinn og því liggur beinast við að skoða aðeins hvaða leið andstæðingar okkar í Tottenham fóru til að tryggja sinn farmiða til Madrídar.

Meistaradeildarárangur þeirra í fyrra

Á síðasta tímabili komust Liverpool alla leið í úrslitaleik keppninnar líkt og í ár en árangurinn var aðeins annar hjá Tottenham. Þeir voru í öðrum styrkleikjaflokki fyrir riðlakeppnina en dróust í gríðarlega erfiðan riðil með Real Madrid og Dortmund þar sem APOEL átti að vera fallbyssufóður riðilsins. Tottenham átti þó ekki í erfiðleikum með þennan riðil sem þeir toppuðu enduðu riðilinn taplausir en vonbrigði riðilsins voru Dortmund sem enduðu með aðeins tvö stig og rétt komust inn í Evrópudeildina með betra markahlutfall en APOEL.

Í sextán liða úrslitum dróust Tottenham svo gegn Juventus og þar endaði þeirra vegferð. Eftir gott 2-2 jafntefli í Torino töpuðu þeir heima fyrir og gerði Chiellini grin af þeim eftir leik og sagði að það væri skrifað í sögu Tottenham að klúðra hlutunum þegar mest væri í húfi, vonum að það eigi við um helgina.

Riðlakeppnin

Annað árið í röð dróst Tottenham í einn af erfiðari riðlum keppninnar en þetta skiptið mættu þeir Barcelona, Inter og PSV Eindhoven. Fyrsti leikurinn var úti í Ítalíu á San Siro og vakti aftur upp umtal um umæli Chiellini frá árinu áður en Tottenham var þá með unninn leik í höndunum gegn Inter voru marki yfir eftir að Eriksen kom þeim yfir eftir tæplega klukkutíma leik en á síðustu fimm mínútum leiksins fengu þeir á sig tvö mörk og töpuðu leiknum. Ekki skánuðu hlutirnir þegar Messi kom og átti stórleik á Wembley þegar Barcelona unnu þá sannfærandi 4-2 . Tottenham menn þurftu því nauðsynlega sigur þegar þeir mættu PSV í Hollandi. Þeir lenntu undir eftir rúman hálftíma eftir afleit mistök hjá Alderweireld en komust aftur inn í leikinn og voru 2-1 yfir þegar Hugo Lloris lét reka sig útaf og eftir fygldu tíu skelfilegar mínútur hjá Tottenham þar sem PSV skoraði jöfnunarmark og 1 stig eftir 3 leiki varð að raunveruleika og möguleikar þeirra í Meistaradeildinni dauðir.

Þegar þarna var komið við sögu hofðu flestir afskrifað möguleika Tottenham í Meistaradeildinni og jók það ekki trú manna þegar eftir aðeins tvær mínútur í fyrsta leik í seinni umferðinni, þá heima gegn PSV, skoraði Luuk De Jong en hetja þeirra Tottenham manna, Harry Kane, stóð undir nafni í þessum leik. Hann skoraði tvö mörk, það sienna á 89. mínútu sem skilaði sigrinum eftir að Tottenham hafði legið á hollendingunum án árangur en Tottenham átti 29. skot í leiknum. Fyrsti sigurinn í hús og örlítil von um endurkomu í riðlinum að vakna. Það var einnig áhugavert að Argentínumaðurinn Paulo Gazzaniga var í markinu hjá Tottenham í þessum leik þar sem Lloris var í banni og varð þá þriðji markmaðurinn til að spila fyrir Tottenham í Meistaradeildinni þetta árið í aðeins fjórum leikjum.

Það var þá orðið ljóst að Tottenham þyrfti að sigra Inter á Wembley í fimmtu umferð til að eiga raunhæfa möguleika að komast upp úr riðlinum. Leikurinn var frekar jafn framan af en þegar leið á leikinn fóru Tottenham að taka völdin leiddir áfram af stórkostlegri frammistöðu hjá hinum óreynda miðjumanni Harry Winks en það var ekki fyrr en á 80. mínútu sem þeim tókst að brjóta ísinn þegar Eriksen, sem hafði komið inn sem varamaður tíu mínútum fyrr, lyfti boltanum yfir Handanovic í marki Inter og það þýddi að Tottenham voru að vinna Inter í innbyrgðis viðureignum með fleiri mörk skoruð á útivelli og því það eina sem Tottenham þurfti að gera til að komast áfram var að jafna árangur Inter í lokaumferðinni. En það var enn stór stein í vegi þeirra því andstæðingurinn á lokadeginum var Barcelona!

Hinsvegar var Barcelona þegar komið áfram og nýtti tækifærið og hvíldi leikmenn. Í þeirra liði var enginn Messi eða Suarez, enginn Pique eða Ter Stegen og í byrjunarliðinu var fyrrum ungstyrnið Munir El-Haddadi sem ég verð að viðurkenna að fram að þessum leik hélt ég að hann hefði yfirgefið Barcelona fyrir nokkrum árum. Þetta var þó alls ekki gefins og voru það Barcelona sem komust yfir í leiknum þegar Dembele skoraði eftir sjö mínútna leik en aftur voru það varamenn Tottenham sem björguðu málunum því Lucas Moura jafnaði leikinn á 85. mínútu og endaði leikurinn 1-1 sem voru sömu úrslit og á San Siro og ótrúleg endurkoma Tottenham í riðlakeppninni orðinn að veruleika!

Sextán liða úrslit

Tottenham dróust svo gegn Dortmund í sextán liða úrslitunum, liðinu sem þeir gerðu lítið úr í riðlakeppninni árið áður. Umræðan var þó mikil um Dortmund liðið sem hafði yngt svolítið upp hjá sér og var á flugi í þýsku deildinni þegar dregið var. Bæði lið komu hinsvegar inn í fyrri leikinn í verra formi en þau höfðu verið í þegar drátturinn átti sér stað en enn voru Dortmund taldnir líklegri þó þetta væri líklega eitt jafnasta einvígið í sextán liða úrslitunum fyrir fram. Fyrri leikurinn var á Wembley og var fyrri hálfleikur frekar jafn og voru Dortmund menn jafnvel óheppnir að vera ekki yfir í hléi en eftir að liðinn komu aftur út á völl var allt annað Tottenham lið sem mætti til leiks. Menn voru grimmari, fljótari og beinskeittari og enduðu á að vinna leikinn 3-0 þar sem Jan Vertongen var maður leiksins að spila í vinstri vængbakverði og lét það líta út fyrir að hann hefði aldrei gert annað.

Seinni leikurinn var nánast formsatriði þar sem Harry Kane skoraði eina mark leiksins og fóru Tottenham áfram í átta liða úrslit með 4-0 sigri í heildina.

Átta liða úrslit

Tottenham fékk svo hrikalega erfiðan drátt í átta liða úrslitum þegar þeir dróust á móti Manchester City. Það varð svo ekki auðveldara þegar eftir tíu mínútur í fyrri leik liðanna fengu þeir á sig VAR-víti þegar Danny Rose fékk boltan í höndina innan vítateigs. Sergio Aguero steig á vítapunktinn en Hugo Lloris varði frá honum en Lloris hefur fengið á sig 3 víti á árinu 2019 og varið þau öll! Leikurinn var svo í miklum járnum og klárt mál að bæði lið vildu ekki klúðra neinu og eiga möguleika í seinni leiknum. Það var svo eftir tæpan klukkutíma þegar annnað áfallið skall á þegar Harry Kane meiddist og þurfi að yfirgefa völlinn og hefur enn ekki spila leik síðan það gerðist. Þetta erfiða verk Tottenham manna varð að vinna án hetjunnar.

Sem betur fer fyrir Tottenham eiga þeir þó mann sem virðist tvíeflast þegar Kane er ekki á vellinum og þegar rétt um stundarfjórðungur var eftir steig Son upp og skoraði sigurmark fyrir Tottenham og þeir þá í góðri stöðu fyrir seinni leik liðanna á Ethiad.

Á Ethiad varð ein mesta rugl byrjun á knattspyrnuleik sem ég hef upplifað. Ég sat og reyndi að horfa á leik Liverpool og Porto en á skjá fyrir aftan var verið að sýna þennan leik og augun dróust alltaf að þeim skjá þegar mörkunum fór að rigna inn. Raheem Sterling kom City yfir eftir aðeins fjórar mínútur en svo var Son búinn að skora tvisvar áður en Bernardo Silva jafnaði leikinn á 11. mínútu. Það voru 11. mínútur búnar og staðan var 2-2!

Leikurinn róaðist svo í markaskorun en alls ekki í dramanu. Sterling kom City í 3-2 eftir 21. mínútu og Aguero kom þeim í 4-2 eftir 59. mínútur áður en Fernando Llorente skoraði enn eitt varamannamark Tottenham á tímabilinu. Staðan var því 4-3 þegar loka mínúturnar hófust og Tottenham á leiðinni áfram á markahlutfalli þegar Eriksen átti afleita sendingu tilbaka sem átti viðkomu í Silva áður en boltinn barst á Aguero sem gaf boltan á Sterling sem kláraði þrennuna sína en eftir að VAR leit á atvikið kom í ljós að Aguero var rangstæður þegar boltinn fór í Silva og markið dæmt af City úr leik og Guardiola tók sína bestu Platoon eftirhermu.

Undanúrslit

Í undanúrslitum fengu Tottenham menn sputnik lið Ajax sem hafði þegar slegið út Real og Juventus. Flestir voru því komnir á þá skoðun að Ajax og Barcelona myndu mætast í úrslitaleik keppninnar þegar bæði lið unnu fyrri leikna í undanúrslitum. Ajax vann 1-0 með marki frá Donny Van der Beek. Daginn fyrir seinni leik liðanna varð ljóst að ekkert myndi verða af þeim úrslitaleik vegna frammistöðu okkar manna gegn Barcelona en Ajax ætlaði sér enn í úrslitaleikinn og mættu af krafti í seinni leik liðanna á Johan Cruyff vellinum í Amsterdam og komust snemma í 2-0. Tottenham hefur hinsvegar sýnt það að þeir eru frábærir upp við vegg og í enn eitt skiptið þetta árið snýttu þeir ummælum Chiellini með magnaðri endurkomu nú í boði Lucas Moura sem setti tvö með litlu millibili á 55. og 59. mínútu og kláraði svo einvígið á 96. mínútu og komnir í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn!

Endalausar endurkomur og nýjar hetjur í hvert skipti Lloris, Vertongen, Winks, Moura, Kane, Eriksen, Llorente og Son hver sem er virtist geta komið og breytt leiknum og Tottenham mönnum hlýtur að finnast eins og það sé skrifað í skýinn að þeir vinni titilinn í ár – líkt og okkur fannst í fyrra. Því það er ekki spurt að því hvað gerðist í undanförnum leikjum í úrslitaleikjum þeir eru einsdæmi og geta farið á báða vegu en vonandi mun þessi enda hjá okkur.

 

Ein athugasemd

 1. Menn eru sumir hverjir ekki sáttir við að mæta Tottenham og hefðu viljað Ajax í úrslitum en það má ekki gleyma því að það munaði ótrúlega litlu að við værum að fara í Man City – Liverpool úrslitaleik(City hefði alltaf klárað Ajax) og gætu þá City skemmt fyrir okkur báða bikarana.

  Árangur Tottenham í ár er frábær í meistaradeildinni og ef Liverpool hefðu ekki unnið þennan ótrúlega sigur á Barcelona þá hefði þetta verið skrifað í skýin hjá þeim að þetta væri þeira ár miða við leið þeira í úrslitin.
  Þetta er lið sem hefur sýnt það að þeir geta gefið í þegar á móti blæ og eru með gæða leikmenn í öllum stöðum og heimsklassaþjálfara.

  50-50 leikur sem verður geðveikt að vinna en alveg jafnt sárt að tapa.

  YNWA – Ég trú á liðið okkar en þú?

  6

One Ping

 1. Pingback:

Gullkastið – Lokaleikurinn!

Upphitun: Liverpool vs. Tottenham í Madrid