Barcelona – Mes que un club

Seinni hluti upphitunar fyrir undanúrslitaeinvígið

Fyrri hluta upphitunar fyrir einvígið gegn Barcelona má finna hér

Mes que un club eru einkennisorð Barcelona og þýða meira en bara klúbbur. Sjálfsagt finnst stuðningsmönnum allra liða sitt lið vera meira en bara íþróttalið en hjá Barcelona er sannarlega eitthvað á bak við þetta slagorð.

Rétt fyrir síðustu aldamót flutti Svissneski knattspyrnumaðurinn Hans Max Gamper-Haessig til Barcelona. Hann náði fljótlega tökum á katalónskunni og tók upp nafn sem var meira í ætt við heimamenn, Joan Gamper.

Hann þótti öflugur í boltanum heimafyrir og eftir nokkra mánuði í Barcelona langaði honum að fara aftur að spila. Hann setti því auglýsingu í staðarblaðið þar sem hann óskaði eftir leikmönnum og mánuði seinna var Futbal Club Barcelona stofnað.

Joan Gamper var aðalmaðurinn á bak við félagið en þar sem hann var ennþá aðeins 22 ára vildi hann ekki vera forseti félagsins heldur halda áfram að spila. Hann var þess í stað stjórnarmaður og fyrirliði félagsins fyrstu árin. Fyrrum lið Gamper (FC Zurich og Basel) spiluðu í rauðum og bláum búningum og eru því engin geimvísindi hvaðan hann fékk innblásturinn af búningi félagsins.

Gamper spilaði í fjögur ár en eftir að ferlinum lauk tók hann nokkrum sinnum við embætti forseta félagsins. Hann tók fyrst við árið 1908 þegar félagið var komið í fjárhagsvandræði og sneri rekstrinum við og endurnýjaði liðið sem var komið á aldur. Eins átti hann hvað mestan heiðurinn að fyrsta heimavelli félagsins sem tryggði reksturinn til frambúðar.

Katalónía vs Spánn

Íbúafjöldi Barcelona og nærliggjandi byggða er um ¾ af Katalóníu héraðinu sem allt fram til 15.öld var partur af allt öðru konungsríki en ríkti t.a.m. yfir Madríd. Þetta skýrir að hluta til þann menningarmun sem er á þessum borgum og t.a.m. afhverju þau hafa sitthvort móðurmálið. Árið 1469 sameinuðust þessi konungsríki þegar Isabella I af Castile og Ferdinand II af Aragon giftu sig og sameinuðu þannig konungsríkin í það sem við þekkjum í dag sem Spán.

FC Barcelona skipaði fljótlega mikilvægan sess í huga heimamanna og varð sterkt tákn Katalóníu. Liðið var sigursælt frá upphafi en fyrir marga var það mikilvægara að vera partur af félaginu heldur en endilega hvernig gekk inná vellinum. Það var töluverð spenna í stjórnmálum á Spáni sem og víða annarsstaðar í Evrópu á þessum tíma sem þétti raðirnar á knattspyrnuleikjum. Félagsmenn urðu fljótlega rúmlega 20.000 sem snarlagaði fjárhaginn og gerði félaginu kleyft að byggja nýjan heimavöll og tryggja betur framtíð félagsins. Sama hvað á hefur dunið hafa heimamenn alltaf átt knattspyrnuna og FC Barcelona. Það komu langir kaflar á síðustu öld þar sem félagið var heimamönnum það mikilvægt að maður skilur að slagorðið er Mes que un club.

Öfgar til bæði hægri og vinstri fóru vaxandi á Spáni sem og annarsstaðar. Árið 1923 náði Miguel Primo de Rivera völdum á Spáni með stuðningi konungsins. Hann var undir sterkum áhrifum Mussolini á Ítalíu og á þeirri skoðun að stjórnmálamenn væru helsta plága landsins. Hann afnam stjórnarskránna, setti herlög á Spáni og lét ritskoða allt efni til að stjórna umræðunni í landinu og drap niður allra andspyrnu með valdi. Fasisti.

Rivera var ekki jafn öflugur harðstjóri og kollegi sinn á Ítalíu en undir hans stjórn varð ástandið á Spáni vægast sagt eldfimt og ekki síst einmitt í Katalóníu. Stuðningsmenn Barcelona bauluðu á Spænska þjóðsönginn árið 1925 til að koma á framfæri mótmælum sínum við einræðistilburðum Rivera en fögnuðu God Save The King þjóðsöngi Breta. Rivera svaraði með því að loka vellinum í sex mánuði og knýja Joan Gamper til að segja af sér sem forseti félagsins. Hann hafði þá verið maðurinn á bak við félagið með einum eða öðrum hætti í 26 ár. Endalok Gamper hjá Barcelona urðu honum mikið áfall, hann lenti í fjárhagsvandræðum næstu ár á eftir og svifti sig lífi árið 1930 eftir að hafa glímt við þunglyndi.

Barcelona hélt engu að síður áfram og varð formlega að atvinnumannaliði árið 1926 og var eitt af stofnmeðlimum La Liga árið 1929.

Áhrif Franco

Rivera var við völd á Spáni í sjö ár en missti á endanum tökin þegar hann missti traust hersins og var gert að segja af sér árið 1930. Ein helsta arfleið Rivera var hreyfing sem seinna þróaðist í Falange hreyfinguna, flokkin sem Franco ríkti yfir sem einræðisherra.

Til að reyna friða stríðandi öfl ákvað konungurinn að endurvekja stjórnarskránna árið 1931 og boða til kosninga. Lýðræðissinnaðir sósalistar unnu þær kosningar afgerandi sem varð í raun konungsveldinu einnig að falli og flúði konungsfjölskyldan sama ár. Stjórnmálaástandið lagaðist lítið þrátt fyrir aukið lýðræði og öfgar til bæði hægri og vinstri uxu hratt. Hægri menn unnu stóra sigra í kosningum 1933 en vinstri menn náðu aftur meiri völdum þremur árum seinna.

Þetta er mikil einföldun á sögunni en í kjölfarið á kosningunum 1936 reyndu hægri menn undir forystu herforningjans Franco að steypa stjórn vinstri manna af stóli með stuðningi stjórnvalda í Þýskalandi og á Ítalíu sem bæði voru þarna orðin fasistaríki. Vinstri sinnaðari öfl (t.a.m. kommúnistar) nutu hinsvegar stuðnings Sovétríkjanna, Mexíkó og fleiri ríkja. Borgarastríðið sem braut út í kjölfarið var því í raun meira en bara innanhúsátök á Spáni og áttu þessar fylkingar eftir að berjast á mun fleiri vígstöðvum.

Knattspyrna var sett á ís og gengu fjölmargir leikmenn Barcelona sem og aðrir starfsmenn félagsins til liðs við stríðandi fylkingar til að berjast gegn fasistum. Eitt af fórnarlömbum stríðsins var Josep Sunyol forseti félagsins sem var myrtur þann 6.ágúst 1936. Hann var einn af leiðtogum þeirra fylkinga sem barðist fyrir sjálfstæði og varð píslarvottur í augum stuðningsmanna Barcelona. Morðið á honum er talinn vera ákveðin vendipunktur í sögu Barcelona sem tákni Katalóníu.

Árið 1938 gerði ítalski flugherinn skv. skipunum Franco loftárásir á Barcelona með þeim afleiðingum að 3.000 manns létust. Skrifstofur Barcelona urðu m.a. einhverjum af þeim 44 tonnum af sprengjum sem ringdu yfir borgina að bráð. Fasistar með Franco sem leiðtoga studdir af Hitler og Mussolinu höfðu að lokum betur og gleymdu aldrei þeim héruðum sem börðust gegn þeim í borgarastríðinu. Sérstaklega ekki Katalóníu og Baskahéruðunum þaðan sem mesta andspyrnan við Franco var alla tíð. Franco gekk kannski ekki jafn langt og Hitler gerði en hann vildi engu að síður útrýma öllu sem minnti á menningu þessara héraða. Franco sem Rivera gerði að hershöfðingja er hann var við völd var miklu öflugri leiðtogi en forveri sinn. Hitler sagði eitt sinn að hann myndi heldur láta draga úr sér 3-4 tennur en að þurfa eiga aftur við Franco.

Bann var sett við því að efna til hópfunda, mótmæla eða vera með þesskonar and-félagslega hegðun. Eins var bannað tungumál önnur en Castillian spænsku sem og allt sem minnti á þjóðfána þessara héraða. Félagsliðin máttu ekki einu sinni spila í litum sinna “þjóða” og nöfnum þeirra var breytt til að samræmast spænsku tungumáli. Barcelona var sem dæmi gert að fjarlægja þjóðfána Katalóníu úr merki félagsins og nafni félagsins var breytt úr Futbol Club Barcelona í Club de Fútbol Barcelona. Félagið var eðlilega í sárum eftir átök áranna á undan og félagsmenn aðeins tæplega 3.500 þegar verst lét.

Spánn í heild sinni var raunar í sárum og vildi Franco ekki draga Spán inn í Seinni-heimsstyrjöldina sem hófst nánst um leið og átökum lauk á Spáni. Hitler og Mussolini áttu báðir inni hjá Franco og reyndu mikið að fá þennan skoðanabróður sinn í þeirra bandalag en Franco var lævís og grjótharður í samskiptum við kollega sína og náði á endanum að halda Spáni að mestu fyrir utan átökin í Evrópu og “hlutlausu”.

Barcelona og Athletic Bilbao urðu einskonar landslið sinna héraða og einn besti (og jafnvel eini) vettvangurinn til að láta í ljós pólitískar skoðanir sínar með óbeinum hætti og halda “hópfundina” sem voru annars bannaðir. Þessi lið voru bestu lið deildarinnar eftir að borgarastríðinu lauk þrátt fyrir harðstjórnina í þeirra heimahéruðum.

Þegar leið á valdatíð Franco áttaði hann sig á mikilvægi knattspyrnunnar og varð Real Madríd svo sannarlega hans lið líkt og komið var rækilega inná í upphitun fyrir leik gegn þeim árið 2014.

Augljóst dæmi um þá mótspyrnu sem Barcelona var að eiga við er viðureign Real Madríd og Barcelona í bikarnum árið 1943. Barcelona vann fyrri leikinn sannfærandi 3-0 á Les Corts þáverandi heimavelli sínum en seinni leikurinn varð einhver mesti viðsnúningur í sögunni. Real Madríd kom til baka og vann 11-1. Leikurinn er brennimerktur í sögu Barcelona sem fyrsti leikurinn þar sem Real Madríd var tengt beint við einræðsstjórnina því sagan segir að herlögreglan hafi kíkt inn í klefa Barcelona fyrir leik og hótað leikmönnum. Þetta gerist sama ár og fasistinn Santiago Bernabeu settist í forsetastól Real Madríd. Taka ætti öllum titlum Real Madríd frá 1936 til a.m.k.1978 með mjög miklum fyrirvara. Grunnurinn að því veldi sem Real Madríd hefur verið undanfarna hálfa öld eða svo var lagður á valdatíma Franco.

Stjórnvöld höfðu ekki eins mikil bein afskipti af úrslitum leikja og dæmið frá 1943 segir til um en þó er ljóst að ekki nærri því öll svona atvik hafi verið skrásett eða frásögn þeirra lifað. Real Madríd var upphaflega ekki stjórnað af mönnum sem aðhylltust skoðanir Franco, þeir forsetar félagsins voru látnir hætta eða hreinlega hverfa um og eftir borgarastríðið. Félagið var ekkert þannig séð lið Franco fyrr en eftir að Santiago Bernabeu tók við sem forseti 1943.

Bernabeu var meðlimur í últra hægri samtökum (CEDA) og gekk hann til liðs við hersveitir Franco í borgarastríðinu þar sem hann var gerður að herforingja. Bernabeu fékk hæstu viðurkenningar fyrir sitt framlag á stríðsárunum, m.a. fyrir það þegar hersveit hans tók þátt í árásum á Katalóníu og  deildi með Franco andúð sinni á Katalónum og Böskum. Bernabeu hefur stundum verið líkt við Franco sem stjórnanda hjá Real Madríd. Hann var svipað lengi við völd og með tímanum og aukinni velgengni varð fljótt á allra vitorði að Real Madríd væri lið Francoista sem auðvitað stjórnuðu landinu frá Madríd.

Þegar hagur Spánverja tók að vænkast á árunum eftir heimsstyrjöldina fór Franco að gefa knattspyrnu mun betri gaum. Hann sá tækifærin sem fólust í fótboltanum, sérstaklega með tæknivæðingu í fjölmiðlun og vildi nýta vinsældir íþróttarinnar til að sýna mikilfengleika sinn og koma sínum áróðri á framfæri. Real Madríd með sinn risastóra völl sem Bernabeu lét byggja varð hans lið og mátti reglulega sjá foringja og framármenn í stjórn Franco á vellinum, jafnvel hann sjálfan. Sérstaklega eftir að Real Madríd (með hjálp stjórnvalda) fór að ná árangri utan landssteinanna þar sem þetta sigursæla lið skapaði glæsilega ímynd útávið.

Versta og afdrifaríkasta dæmið um það forskot sem Real Madríd hafði eru kaupin á Alfredo Di Stefano. Hann var bókstaflega valinn bestu leikmaður félagsins á síðustu öld og sá fjórði besti af öllum. Hann var búinn að skrifa undir samning við Barcelona árið 1952 og spila með þeim tvo leiki þegar stjórn Franco fór í málið fyrir Real Madríd.

László Kubala einn besti leikmaður í sögu Barcelona og Di Stéfano saman í Barcelona búningnum

Þetta varð heldur betur afdrifaríkt því með Di Stefano náði Real loksins yfirhöndinni í baráttunni á Spáni. Di Stefano spilaði með Real gegn Barcelona mánuði eftir að hann gekk til liðs við þá og skoraði fjögur mörk. Real vann titilinn tveimur árum eftir að hann kom og Meistarakeppni Evrópuliða var stofnuð árið eftir. Real Madríd vann fyrstu fimm árin.

Stærsta ástæðan fyrir vinsældum Bilbao og Barcelona fyrstu árin eftir að Franco náði völdum var sú að eftir að fótboltinn byrjaði á ný voru þessi félög langbest. Þrátt fyrir allt harðræðið og skorðurnar sem þessum félögum voru settar og jafnel út af þeim. Real Madríd fór í gegnum sitt versta þurrkatímabil í sögunni og vann ekki titilinn í 18 ár eða fyrr en 1953/54. Þá fór líka Franco að sína fótbolta áhuga í fyrsta skipti og nýta sér vinsældir hans til að auka hróður sinn utan landssteinanna.

Franco lést árið 1975 eftir að hafa verið veikur mest allt árið þar á undan. Hann lét Juan Carlos eftir völdin og gerði hann að Spánarkonungi. Stjórnarfar landsins breyttist í kjölfarið á dauða einræðisherrans og innan fárra ára varð Spánn aftur að lýðræðisríki.

Rúmlega mánuði eftir að Franco lést mættust Real Madríd og Barcelona á troðfullum Bernabeu. Gestirnir mættu heldur betur klárir í slaginn og smygluðu m.a. inn 700 fánum sem sýndu greinilega stuðning við Katalóníu og Barcelona inn á völlinn. Til að toppa tilefnið vann Barcelona leikinn 1-2 með sigurmarki á lokamínútu leiksins sem var fagnað fram á nótt á götum Barcelona. Fljótlega á eftir kom fáni Katalóníu aftur í merki félagsins og nafninu aftur breytt í Futbal Club Barcelona. Franco var svo sannarlega dauður. Tími hans var gríðarlega erfiður stuðningsmönnum Barcelona en félagið var alla tíð eitt af þeim stóru á Spáni. Þeir unnu La Liga sem dæmi átta sinnum á valdatíma Franco og byggðu Camp Nou. Knattspyrnusagan hefði engu að síður verið töluvert öðruvísi (og betri) hefði Franco aldrei komist til valda á Spáni.

Þessi yfirferð segir auðvitað bara brotabrot af miklu lengri og flóknari sögu. Franco var engu að síður stór skuggi og þá sérstaklega fyrir lið eins og Athletic Bilbao og Barcelona. Það er því táknrænt að um svipað leiti og Franco var að syngja sitt síðasta keypti Barcelona leikmann sem átti eftir að færa félagið inn í nútímann.

Johan Cruyff

Cryuff var partur af frábæru Ajax og hafði tvisvar verið valin knattspyrnumaður Evrópu áður en hann gekk til liðs við Barcelona árið 1973. Hann varð dýrasti leikmaður í heimi þegar hann var keyptur fyrir £920,000.

Cruyff vissi hvað hann söng og var ekki lengi að vinna heimamenn á sitt band þegar hann tilkynnti Evrópsku pressunni að hann hefði aldrei getað farið til Real Mardríd vegna tengsla þess við Franco. Hann skýrði jafnframt son sinn Jordi eftir katalónskum dýrlingi og varð fljótt dýrlingur sjálfur í huga stuðningsmanna liðsins.

Sá sem fékk Cruyff yfir til Barcelona var fyrrum þjálfari hans hjá Ajax, Hollenska goðsögnin Rinus Michels sem er stundum kallaður faðir Total Football. Michels lagði grunninn að frábæru liði og Ajax með Cruyff í broddi fylkingar vann Hollensku deildina í sex skipti á sjö tímabilum hans með liðinu. Þessum sigrum var fylgt eftir með sigri í Evrópukeppni Meistaraliða þrjú tímabil í röð frá 1971-73. Ajax tapaði nota bene úrslitaleiknum 1969 líka. Það er því smá broslegt að Ajax með sína fjóra Evrópumeistaratitla sé eitthvað hipster lið í keppninni núna en Tottenham ekki! “Form is temporary class is permanent” eins og máltækið segir.

Rinus Michels fór til Barcelona árið 1971 og nýtti hann sér það þegar Cruyff lenti í útistöðum við forráðamenn Ajax til að sannfæra forráðamenn Barcelona um að borga það sem þurfti fyrir hann og fá hann til Spánar. Strax á fyrsta tímabili Cruyff vann liðið titilinn í fyrsta skipti í 14 ár. Real Madríd var m.a. tekið 0-5 á Bernabeu. Það var lítil samkeppni um besta leikmann Evrópu það árið og alveg ljóst hver væri kóngurinn í Barcelona.

Hann spilaði fjögur tímabil með Barcelona án þess að vinna titilinn aftur og hætti mjög óvænt að spila fótbolta 31 árs árið 1978. Hann átti þó eftir að koma aftur seinna.

La Masia og Josep Lluís Núñez

Utan vallar var líklega mikilvægasti maður félagsins fyrsti kjörni forseti þess, Josep Núnez sem tók við völdum árið 1978. Kosningarnar voru í beinu framhaldi af breyttum stjórnmálum á Spáni. Núnez var ekkert að finna upp hjólið þegar hann tók við en hann lagði áherslu á að skapa stöðugleika bæði innan sem utan vallar hjá félaginu. Markmiðið var skýrt, Barcelona skildi verða eitt af þeim stóru í heiminum. Hann var forseti Barcelona í 22 ár og má segja að honum hafi tekist þetta að mestu leiti. Hann lagði sannarlega grunninn að því félagi sem við höfum séð á þessari öld.

Mikilvægasta arfleið Núnez var líklega stofnun La Masia árið 1979. Það var hugsað sem heimavist fyrir unga leikmenn sem komu lengra að. Nafnið á þessari heimavist þróaðist seinna í samnefnara fyrir alla akademíu félagsins.

Núnez var á undan sinni samtíð og ansi naskur á leikmannamarkaðnum en hélt jafnframt mjög þétt utan um veskið. Barcelona í hans tíð keypti leikmenn eins og Maradona, Romario og Ronaldo en neitaði að verða við launakröfum þeirra eftir að þeir höfðu slegið í gegn hjá félaginu og seldu þá tiltölulega snemma. Þessi stefna var umdeild og vann Barcelona deildina aðeins einu sinni fyrstu 13 ár Núnez. Sem dæmi er alveg sama hvað hann fékk fyrir Maradona, hann hefði betur haldið honum.

Tíu árum eftir að Cruyff yfirgaf félagið sem leikmaður var hann fenginn aftur sem þjálfari og aftur kom hann frá Ajax. Hann hafði tekið við þjálfun Ajax árið 1985 og byrjaði að móta ungt lið sem seinna varð uppistaðan í Hollenska landsliðinu. Ajax undir hans stjórn vann Evrópukeppni bikarhafa árið 1987 og félagið hélt áfram að byggja á þeim grunni sem Cruyff lagði og vann á endanum Evrópukeppni Meistaraliða enn á ný árið 1995.

Cryuff fór hinsvegar til Barcelona rétt eins og Michels og var líklega fyrsti stjórinn sem naut fyrir alvöru góðs af La Masia og var 100% rétti maðurinn til að spila þessum leikmönnum inn í liðið.

Hann byggði upp lið skipað blöndu af spænskum og erlendum leikmönnum. Fyrsta alvöru stjarnan sem La Masia gaf af sér var Pep Guardiola og hefur uppeldi hans sem og fyrstu árin undir stjórn Cruyff klárlega mótað þar einn besta stjóra í heimi. Annar partur af þessu liði var Txiki Begiristain sem seinna fékk Guardiola til bæði Barcelona og Man City. Erlendar stjörnur liðsins á þessum tíma voru Ronald Koeman sem skoraði sigurmarkið sem tryggði Barcelona fyrsta titilinn í Evrópukeppni Meistaraliða. Michael Laudrup sem seinna fór til Real Madríd, Romário sem fetaði slóðina fyrir Ronaldo, Rivaldo og Ronaldinho auk Búlgarska snillingsins Hristo Stoichkov.

Þetta lið vann deildina fjögur ár í röð frá 1991 – 1994 og fyrsta titilinn í Evrópukeppni Meistaraliða spilandi frábæran fótbolta oft á tíðum. Samtals vann Cruyff 11 titla og er ennþá sigursælasti þjálfari í sögu Barcelona. Hann er einnig sá sem hefur þjálfað liðið lengst eða átta ár.

Síðustu tvö tímabilin voru ekki jafn góð, félagið vann enga titla og Cruyff sem var alla tíð erfiður karakter lenti í útistöðum við Nunez sem endaði með brottför Cruyff.

Cruyff lagði grunninn að því Barcelona liði sem við þekkjum núna og hafa a.m.k. fjórir af stjórum Barcelona á þessari öld verið leikmenn sem spiluðu undir hans stjórn. (Rijkaard, Ajax – Guardiola, Vilianova, Enrique). Luis Van Gaal er svo eiginlega sá fimmti en hann spilaði með Cruyff hjá Ajax 1971-73 og tók svo við bæði Ajax og Barcelona stuttu á eftir Cruyff. Sá sjötti væri síðan Carles Rexach sem var aðstoðarmaður Cruyff og tók við tímabundið eitt tímabil.

Barcelona hefur frekar lagt áherslu á að finna þjálfara sem aðhyllist þeirra DNA en að spá í hvað hann heitir eða hefur gert áður. Pep Guardiola orðaði þetta vel er hann var stjóri Barcelona “Cruyff built the cathedral, our job is to maintain and renovate it“

Johan Cryuff var mun stærra nafn í Barcelona en Núnez, forseti félagsins og setti brottför hans mikla pressu á breytingar í toppstöðunni. Einn af þeim sem leiddi þá herferð var Joan Laporta sem seinna tók við sjálfur sem forseti félagsins. Núnez sagði af sér árið 2000 samhliða Van Gaal eftir vonbrigðatímabil. Barcelona var í smá lægð um og eftir aldarmótin þegar Valencia skellti sér tímabundið í toppbaráttuna en félagið náði aftur fótfestu eftir að Joan Laporta settist í forsetastólinn og réði Frank Rijkaard sem þjálfara.

Stjóratíð Rijkaard lagði grunninn að þessu stórveldi sem Barcelona hefur verið með ekki ósvipuðum hætti og Cruyff gerði á sínum tíma. Sambland af erlendum stjörnum í bland við einn besta árgang af uppöldum leikmönnum í sögunni.

Aðalstjarnan og langskemmtilegasti leikmaður í heimi á þessum tíma var Ronaldinho, með honum voru Deco, Larsson, Giuly, Eto´o og Marquez. Uppaldir voru hinsvegar Puyol, Iniesta, Xavi, Motta og Valdés. Leo Messi steig einnig sín fyrstu skref. Þetta lið vann deildina loks aftur 2005 og fylgdi því eftir með Meistaradeildartitlinum árið eftir.

Rijkaard skilaði góðum grunni þegar hann hætti árið 2008 en var líklega kominn á endastöð með liðið. Þjálfari B liðsins tók við, Pep Guardiola.

Barcelona í dag

Frá því að Guardiola tók við liðinu hefur Barcelona unnið La Liga í átta skipti af ellefu. Sá síðasti kom í hús núna um helgina og var það fjórði titill Barcelona á fimm árum. Þrátt fyrir það hafa undanfarin ár verið smá vonbrigði þar sem félagið hefur fallið þrisvar í röð úr leik í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Til að bæta gráu ofan á svart hefur Real Madríd unnið þrisvar í röð. Það er einfaldlega lélegt að vinna ekki Meistaradeildina með Leo Messi, Luis Suarez og Neymar á hátindi ferilsins og þeir vita það. Leo Messi sagði eftir síðasta tímabil að þeir myndu vinna Meistaradeildina 2019 og það er okkar manna að drepa þann draum.

Undanfarin ár hafa spænsk lið nánast einokað bæði Evrópukeppni Meistaraliða sem og Evrópudeildina og segir það eitthvað um styrk Barcelona að þeir hafi unnið deildina heimafyrir átta sinnum á þessum tíma. Þetta lið er ennþá klárlega eitt af þeim allra bestu og ættu líka að vera það í ljósi þess ekkert lið greiðir leikmönnum sínum hærri laun. Launakostnaður Barcelona er €100m hærri en hjá Real Madríd. Hlutfall launa af tekjum félagsins á síðasta tímabili skv. Swiss Ramble var 70% sem er gríðarlega hátt hlutfall og var sem dæmi 43% tímabilið 2012/13

Launakostnaður Barcelona á síðasta tímabili var €487m en ekkert af elítuliðunum er að brjóta €400m múrinn. Real er að greiða €395m og inniheldur sú fjárhæð Ronaldo. Manchester United var á síðasta tímabili að greiða mest af ensku liðinum (þriðja mest í Evrópu) eða €337m, City var að greiða €296m. Liverpool er með fjórða mesta launakostnaðinn í Englandi eða €242m sem er rúmlega helmingi minna en Barcelona.

Þannig að ef okkur finnst ósanngjarnt að glíma við City þá er Barcelona ennþá verra og rúmlega það. Ef maður á að vera sanngjarn er City auðvitað ekki nærri því jafn stórt félag og Barcelona og skapar ekki nálægt því jafn miklar tekjur (nema Olíusjóðir Abu Dhabi telji með).

Leo Messi skekkir þessa mynd auðvitað töluvert og Barcelona þurfti sannarlega ekki að borga kaupverð fyrir hann. Kaupverðið á þessu Barcelona liði er í raun talið vera aðeins minna en Liverpool liðinu en þeir hafa líka ekki þurft að selja eins mikið af sínum stjörnum. Þeir hafa jú fjármagnað töluverðan hluta af hópi Liverpool í dag. Hingað til hefur Liverpool byggt upp sitt lið með því að selja sína bestu leikmenn á meðan Barcelona hefur nánast eingöngu þurft að selja Neymar af sínum stjörnum. Þetta gæti breyst á næstu árum enda margir lykilpóstar í liði Barcelona komnir á aldur og ekkert grín að skipta þeim út á meðan Liverpool liðið gæti ekki verið á mikið betri aldri.

Undanfarin áratug hafa þrír lykilleikmenn Liverpool farið til Barcelona. Tveir af þeim stækkuðu bilið sem myndaðist milli liðanna. Liverpool er núna fyrst að fylla hið risastóra skarð sem Javier Mascherano skildi eftir sig árið 2010. Rothöggið kom engu að síður fjórum árum seinna og er Luis Suarez þrátt fyrir alla sína tölfræði hjá Barcelona ennþá einn vanmetnasti leikmaður undanfarinna ára. Það er talað um hann eins og einhvern aukaleikara en síðan hann fór frá Liverpool hefur hann skorað 176 mörk samhliða því að vinna megnið af skítavinnunni fyrir samherja sína. Hann er basicly þeirra Bobby Firmino. Hann er þriðji markahæsti leikmaðurinn í sögu Barcelona með jafn mikið af mörkum og Ungverjinn László Kubala, það er einmitt stytta af þeim kappa fyrir utan Camp Nou.

Hann og Messi hafa náð frábærlega vel saman innanvallar og ekki síður vel utanvallar. Þeir búa hlið við hlið, eiginkonur þeirra eru í viðskiptum saman og krakkarnir fara í sama skóla. Þeir keyra jafnan saman á æfingar.

Stuðningsmenn Liverpool ættu að þekkja það mæta vel að Barcelona er ekkert bara Leo Messi þó hann sé algjör svindlkall. Coutinho sem hefur átt svipað tímabil á Spáni og Keita hefur átt á Englandi minnti einnig heldur betur á sig gegn Man Utd. Sýndi þar takta sem við þekkjum ágætlega og urðu til þess að Barcelona keypti hann fyrir €142m. Liverpool notaði engu að síður peningana sem fengust fyrir hann mun betur en aurana sem komu í kassann fyrir Mascherano og Suarez og styrktu Liverpool liðið miklu meira en Coutinho styrkti Barcelona.

Barcelona liðið er engu að síður í kynslóðaskiptum, Suarez og Messi verða báðir 32 ára á þessu ári og það er ekkert sjálfgefið að fá leikmenn í staðin fyrir þá. Ef eitthvað lið ætti að þekkja það að skipta út stórkostlegum leikmönnum er það reyndar klárlega Barcelona en það er margt sem bendir til þess að einokun spænska boltans í Evrópu sé að ljúka.

La Masia sem er akademía félagsins er heimsfræg og klárlega góður skóli sem býr til leikmenn skv. stefnu félagsins, hún má engu að síður mun sinn fífil fegurri og ljóst að félagið hefur horfið frá því að byggja liðið upp á uppöldum leikmönnum. Það er ekkert lið raunar sem spilar meira dirty á leikmannamarkaðnum en Barcelona.

Puyol, Xavi, Iniesta, Messi, Pedro, Pique, Fabregas, Busquets og Valdes komu allir í gegnum La Masia á tiltölulega skömmum tíma en á þessum áratug hefur enginn í þeirra gæðaflokki skilað sér úr La Masia þú vissulega komi ennþá upp góðir leikmenn sem ná ágætum frama í boltanum. Allir eru þessir leikmenn eru hættir, farnir eða rúmlega þrítugir. Knattspyrna hefur breyst töluvert frá því þessir leikmenn komu úr La Masia, fyrir það fyrsta er meiri samkeppni um þessa ungu stráka. Það gleymist stundum í lofræðunum um La Masia að margir þessara stráka komu ekkert 6 ára til Barcelona og voru uppaldir þar alla tíð. Messi og Iniesta sem dæmi komu 13-14 ára og Puyol var 17 ára þegar þeir byrjuðu í La Masia. Allir stórstjörnur í sínum árgangi.

Annað sem hefur mögulega gert ungum leikmönnum erfiðara hjá Barcelona var sú ákvörðu að leyfa loksins auglýsingar framan á búningi Barcelona og auka þannig tekjur félagsins umtalsvert. Búningur Barcelona hafði fram að því verið of heilagur til að eyðuleggja hann með auglýsingum en fyrsta auglýsingin sem fór framan á búning félagsins var frá Quatar Foundation,  Ekkert moral high ground í boði eftir það og hefur félagið verið siðferðislega gjaldþrota á leikmannamarkaðnum alla tíð síðan. Vonandi er Barcelona á leið í niðurtúr næstu árin, þegar maður kynnir sér sögu félagsins er erfitt að líka jafn illa við Barcelona og Real Madríd en staðan er nú samt þannig í dag.

Spænska deildin hefur verið leikin í 88 tímabil, Barcelona hefur unnið 26 titla og verið í 25 skipti í öðru sæti. Samtals hefur Barcelona verið í einhverju af efstu þremur sætunum í 63 tímabil af 88 í La Liga. Real Madríd hefur verið ennþá oftar eða í 65 tímabil af 88 og þar af hafa þeir 33 unnið titilinn. Það eru 16 ár síðan Barcelona var síðast ekki í einhverju af efstu þremur sætunum.

Þetta segir allt sem þarf í raun um Spænsku deildina og auðvelda áskrift þessara risavelda að Meistaradeildinni. Það hafa raunar bara 9 lið unnið deildina á Spáni í sögunni, þrjú af þeim eiga einn titil hvert og eitt þeirra er með tvo titla

Möguleikar Liverpool

Liverpool hefur mætt flestum af bestu liðum í heimi undanfarin tvö ár og Barcelona er klárlega eitt allra besta liðið í þeim hópi. Jurgen Klopp hefur náð að endurvekja gamla góða máltækið “Fuck you, we´re Liverpool” og á það við sama hvaða leik Liverpool á framundan. Við höfum lengi beðið eftir öðru einvígi gegn Barcelona og tilfinningin er að nú höfum við lið sem stendur þeim algjörlega jafnfætis.

Liverpool á skilið titil á þessu tímabili og við eigum helvítis Meistaradeildina skilið eftir síðasta tímabil. Jurgen Klopp hefur aldrei tapað tveggja leikja einvígi í Evrópu sem stjóri Liverpool og núna er ekki tíminn til að taka upp á því.

Barcelona hefur vissulega aðeins tapað einum leik gegn enskum mótherja af síðustu 15. Gengi þeirra á heimavelli gegn enskum liðum er W21 D11 L2

Þessir tveir tapleikir voru gegn Liverpool. Þriðja tapið bætist við á miðvikudaginn.

Skoðum liðin og þessa viðureign betur á leikdegi.

Þetta fer sannarlega að bresta á.

Einar Matthías

21 Comments

 1. Takk furir brilliant upphitun. Verð á Anfield 7. maí þegar við klárum þetta einvigi og er sannfærður um að við tökum amk einn titil á þessu timabili.

  13
 2. Geggjuð upphitun, takk kærlega!

  Og já, til hamingju kæru Púllarar með Virgil! 🙂

  8
 3. Verðum að vinna þennan bikar. City eru búnir að vinna deildina liggur við. Þetta er enþá í þeirra höndum. Ekkert lið reynir einu sinni að sækja á þá. Þeir hafa ekki droppað stigum síðan í Janúar.
  Því miður er þetta bara svona. Elskum ekkert meira en 2.sætið. Virðumst enda í því sæti hvert einasta skipti sem við erum nálægt því að vinna eitthvað

  3
 4. Þetta er einn af mörgum pislum, sem lætur veisluborðið svigna undan veislupistlum.
  Eitt er alveg klárt, við komum ekki sem einhverjir underdogs á Nou Camp á miðvikudag, þvert á móti, þá held ég að Barcelona óttist okkur meira en við þá, þeir eru ekki vanir að spila við lið eins og okkar lið spilar. Þetta verður samt engin walk in the park leikur, þvert á móti, Barcelona er solid lið með besta knattspyrnumann, segji kannski ekki sögunar, en klárlega einum af þremur í þeim flokki. Þessir þrír hafa allir verið spilandi á þremur mismunandi tímum. En eftitvæntingin er sannanlega byrjuð að hlaðast upp.
  Ég spái dýrmætu markajafntefli, hvernig, kemur í ljós 1. mai.

  YNWA

  2
 5. Alltaf snilld að lesa pistlana þína EM.

  Við erum líka Mes que en club. Ég bjó lengi í Barcelona og fór á Nou Camp en gat einhvern veginn aldrei haldið almennilega með þeim, af því að í mínum huga var bara eitt lið. Okkar lið.

  Ég átti lengi vel erfitt með að segja “við” þegar talað var um Liverpool, en svo fann maður samfélagið hér á kop.is, ástríðuna gagnvart klúbbnum og tryggðina við félagið sama hvað á gengur.

  Liverpool er nefnilega ekki bara fótboltafélag. Liverpool er tryggðarpantur fólks úti um allan heim.

  Það er Bill Shankly, Kenny og margt sem spilar inn í þetta. Stéttabarátta seinni áratuga 20. aldar, þrotleysið, brosið og baráttugleðin… snilldarmörkin öll og dugurinn að ganga upp fjallið.

  Þar er andi LFC. Allt sem líta má upp til. Ef ekki væri svo þá hefði félagið vart verið reist við úr tæknilegu gjaldþroti fyrir rúmum áratug.

  Fótboltamenn úti um allan heim elska Liverpool út af ástríðunni, stuðningsmönnunum og gleðinni sem fylgir því að styðja þetta félag í blíðu og stríðu. Við eigum bestu blönduna af öllum þessum stuðningsmönnum – inni á vellinum. Ekkert annað félag á það.

  Svo fengum við Klopp – þvílíkt gæfuspor. Megi hann leiða þetta lið sem lengst.

  YNWA

  32
  • Takk Sölvi ég fékk bara gæsahúð og varð fullur af stolti við að lesa comment þitt !.

   YNWA.

   1
 6. Geggjaður pistill að vanda, frá ykkur höfðingjar!

  Þessi tvíhöfði verður svakalegur enda tvö af albestu liðum heimsins í dag!

  8
 7. Sælir félagar

  Einar Matthías þú er þyngdart þinnar virði í gulli og gott betur.

  Það er nú þannig

  YNWA

  9
 8. Afsakið þráðrán! Ég átti að vera í flugvél á leið til Póllands þegar leikurinn er en ákvað að í staðinn fyrir að missa af leiknum að fljúga fyrr til annarar borgar og ferðast með lest þvert yfir Pólland til að geta séð leikinn í sjónvarpinu, en spurningin er, getur einhver mælt með góðum stað til að horfa á leikinn í Gdansk?

  5
 9. Þetta er leikur sem ég mun ekki koma til með að sjá í beinni því miður og sennilega sá fyrsti í vetur
  Hvernig get ég séð leikinn seinna um kvöldið ?
  Get ég niðurhalað honum einhversstaðar ?

 10. Sælir félagar, hvar er best að horfa á Liverpool á Akureyri? Endilega látið mig vita kær kveðja

 11. Þakka þér Einar, ég byrjaði að leita á Google, fyrst á spönsku, síðan catalone, í bæði skiptin kom upp mánuður, sem mér fanst ekki passa. En ég reikna með að þíðing þin sé rétt, sem er líklegri en google, þá örvænti ég eigji því once a LFC fan, always a LFC fan. Við erum svo margfallt meira en klúbbur, við erum samnefnari fyrir kærleika í garð mótherja okkar, við erum mes que cu club. Fólk verður nefnilega að átta sig á upprunaninum, sem er vissulega ansi ólíkur. Þá á ég fyrst og fremst við stofnun félagana, sem og, eðli málsins vegna stofnuð á ólíkum grunni, og liðin viðhaldið sínum gildum. Það að útiloka besta lið Evrópu í heil 6 ár er ekkert grín, þetta hefur haft sín áhrif, samt hefur LFC viðhaldið sínum gildum enda er LFC félag, ekki bara eithvert félag, það er OKKAR félag kæru félagar.Vissulega hafa Barcelona gengið í gegn um svarta tíma, einsog kemur fram í pistli Einars, en það er runnið undan pólitískum áhrifum sem var sjálfsagt ekkert grín, en samt var Barcelona stofnað og viðhaldið af félagsmönnum, sem er flott. Eitt sinn hugsaði ég, í LFC áttum við nokkuð marga af bestu leikmönnum í Evrópu, einhvernvegin misstum við þessa stráka, hvert gat mögulega verið vandamálið.
  Í dag held ég að við höfum ekkert vandamál, erum með langtímasamninga við okkar bestu, ekki bara það, heldur eru leikmenn okkar ánægðir með stöðu sinna mála.

  YNWA

  1
 12. Og Ajax strax búið að skora á móti Tottenham, á útivelli.

  Úff hvað þetta er spennandi!

  1
 13. Ég held að Mane klári þetta einvígi, Salah er prins, Van Dijk er guð, Allison er dýrlingur…..en það er eitthvað sem segir mér að Mané reddar þessu. Fáránlega frábær leikmaður.

  1
 14. hef engar áhyggjur af barcelona, þeir eru með svo lélega vörn að hálfa væri meira en nóg.

  skorum nokkur mörk og höldum hreinu, klárum þetta á morgum, þeir verða sofandi vegna þess að þeir
  halda að þetta verði eins og að spila við united.. hehe..

  1

One Ping

 1. Pingback:

Kvennaliðið heimsækir Birmingham

Leikdagur: Barcelona – Liverpool